Musterisstaðlar

Öldungur Scott D. Whiting

af hinum Sjötíu


Scott D. Whiting
Hinir háleitu staðlar sem þessi kirkja setur gagnvart byggingu mustera eru dæmigerðir og jafnvel tákn um hvernig við ættum að lifa lífi okkar.

Nýlega var ég að skoða Brigham City musterið í Utah og var þá minntur á atvik sem varð þegar ég þjónaði sem samræmingaraðili fyrir opið hús, endurvígsluna og menningarviðburð hins sögufræga Laie Hawaii musteris.

Nokkrum mánuðum áður en hinni miklu endurnýjunarvinnu lauk var mér boðið að skoða musterið með yfirmanni Musterisdeildarinnar, öldungi William R. Walker og félögum hans úr þeirri deild. Það að auki var nokkrum aðilum frá aðalverktakanum boðið að vera með. Tilgangur skoðunarinnar, að hluta til, var að skoða framvindu og gæði vinnunnar. Á þessum tíma var um 85 prósent af verkefninu lokið.

Ég horfði og hlustaði á öldung Walker og félaga hans, er við fórum um musterið, skoðuðum verkið og ræddum við aðalverktakann. Ég tók eftir einum manni sem af og til strauk veggina með hönd sinni er við fórum úr einu herbergi yfir í annað. Þegar hann hafði gert þetta, nuddaði hann nokkrum sínum fingrum sínum saman, fór síðan til aðalverktakans og sagði: „Ég finn fyrir grófkornum. Grófkorn eru ekki musterisstaðall. Þið þurfið að pússa og fægja þennan vegg.“ Verktakinn skrifaði samviskusamlega hjá sér hverja athugasemd.

Er við komum að svæði í musterinu sem fá augu ættu eftir að sjá, stöðvaði þessi sami maður okkur og beindi athygli okkar að fallegum steindum glugga sem nýlega hafði verið settur í. Glugginn var um 60 sm breiður og 180 sm hár og í honum var fíngert steint mynstur. Hann benti á tvo 5 sm litla, litaða glerferninga sem voru hluti af einfalda mynstrinu og sagði: „Þessi ferningur er skakkur.“ Ég horfði á ferninginn og mér fannst hann vera réttur. Eftir nánari athugun með mælingartæki kom ég hins vegar auga á galla og að þessi litli ferningur var með 3ja mm skekkju. Verktakanum var sagt að skipta þyrfti um þennan glugga þar sem hann uppfyllti ekki staðla musterisins.

Ég játa að ég varð undrandi yfir að skipta þyrfti um allan gluggann vegna svo lítils og nánast ósýnilegs galla. Vissulega var mjög ólíklegt að einhver myndi nokkurn tíma vita eða taka eftir þessum glugga þar sem hann var staðsettur á fáförnum stað í musterinu.

Þegar ég ók heim úr musterinu þennan dag, íhugaði ég það sem ég hafði lært af þessu ‒ eða fremur það sem ég taldi mig hafa lært. Það var ekki fyrr en nokkrum vikum síðar, þegar mér var boðið að skoða fullgert musterið, að skilningur minn á upplifun fyrri skoðunarferðar varð ljósari.

Þegar ég gekk inn í fullgert Laie Hawaii musterið varð ég yfir mig hrifinn af fegurð og gæði verksins . Þið getið skilið eftirvæntingu mína er ég nálgaðist „grófkorna“ veggina og „gallaða“ gluggann. Hafði verktakinn pússað og fægt veggina? Hafði í raun verið skipt um gluggann? Þegar ég nálgaðist grófkorna veggina varð ég undrandi að sjá að fallegt veggfóður var á öllum veggjunum. Fyrsta hugsun mín var: „Það er svona sem verktakinn tókst á við grófkornin — hann huldi þau.“ En nei, ég komst að því að það hafði alltaf verið ætlunin að setja veggfóður á þessa veggi. Ég hugleiddi hvers vegna lítil og nánast ósýnileg grófkorn höfðu skipt máli ef veggfóður átti að hylja veggina. Síðan nálgaðist ég ákafur svæðið þar sem gallaði glugginn var og varð undrandi yfir að sjá fallega pottaplöntu, sem náði alveg upp í loft og var staðsett beint fyrir framan gluggann. Aftur hugsaði ég: „Það er svona sem verktakinn tókst á við litlu skökku ferningana — hann huldi þá.“ Þegar ég kom nær, sveigði ég laufblöðum plöntunnar til hliðar og brosti er ég sá að búið var að skipta út glugganum. Litli ferningurinn sem áður var skakkur var nú beinn og rétt staðsettur í mynstrinu. Ég komst að því að það hafði alltaf verið ætlun innanhússarkitektsins að hafa plöntu fyrir framan þennan glugga.

Af hverju þurfti að leggja aukavinnu í að laga örlítil grófkorn og smá ósamræmi, jafnvel skipta út sumu, þegar fá mannleg augu eða hendur hefðu nokkurn tíma vitað af því? Hvers vegna þurfti verktakinn að hafa svona háa staðla?

Ég fann svar mitt, er ég yfirgaf musterið djúpt hugsi, þegar ég leit upp á endurgerða ytri veggina og sá þessi orð: „Helgað Drottni, hús Drottins.“

Musteri þessarar kirkju eru nákvæmlega það sem þau eru sögð vera. Þessar helgu byggingar eru byggðar fyrir okkur og innan veggja þeirra eru helgar og frelsandi helgiathafnir framkvæmdar. En enginn vafi ætti að leika á því hvers hús þetta í raun er. Við sýnum Drottni Jesú Kristi ekki bara kærleika okkar og virðingu þegar við krefjumst framkvæmdastaðla af nákvæmni, alveg niður í smáatriði, heldur sýnum við einnig öðrum að við heiðrum og tilbiðjum hann, hvers hús þetta er.

Drottinn sagði í opinberun sem spámanninum Joseph Smith veittist um að byggja musteri í Nauvoo:

„Komið með allt gull yðar og silfur og dýrmæta steina og með alla forngripi yðar, og með alla þá, sem þekkingu hafa á forngripum, … og hafi með … [hin dýrmætu tré] jarðar–

… og reisa nafni mínu hús, fyrir hinn æðsta að velja í.“1

Þetta er sá háttur sem Salómon konungur í Gamla testamentinu hafði á þegar hann byggði Drottni musteri og notaði einungs besta hráefni og handverk.2 Í dag höldum við þessum hætti, af viðeigandi hófsemi, er við byggjum musteri í kirkjunni.

Ég lærði að Drottinn veit hversu mikið við leggjum okkur fram og hvort við höfum gert okkar allra besta, þrátt fyrir að augu og hendur dauðlegra manna muni kannski aldrei sjá eða finna misfelluna. Það sama á við um okkar eigin persónulegu viðleitni við að lifa verðug blessana musterisins. Drottinn hefur ráðlagt:

„Og reisi fólk mér hús í nafni Drottins og láti ekkert óhreint inn í það koma, svo að það vanhelgist ekki, skal dýrð mín hvíla á því–

Já, og návist mín mun vera þar, því að ég mun koma inn í það, og allir hjartahreinir, sem inn í það koma, skulu sjá Guð.

En verði það vanhelgað mun ég ekki inn í það koma og dýrð mín mun ekki vera þar, því að ég kem ekki inn í vanheilög musteri.“3

Þegar við tökum eftir þáttum í okkar eigin lífi, sem ekki eru í samræmi við kenningar Drottins, þegar viðleitni okkar er minni en okkar besta, þá ættum við, líkt og verktakinn, með hraða að leiðrétta allt sem er úr lagi, því við vitum að við getum ekki hulið syndir okkar fyrir Drottni. Við þurfum að muna að „þegar við reynum að hylja syndir okkar … Þá draga himnarnir sig í hlé. [og] andi Drottins tregar.“4

Ég hef einnig lært að hinir háleitu staðlar sem þessi kirkja setur gagnvart byggingu mustera eru dæmigerðir og jafnvel tákn um hvernig við ættum að lifa lífi okkar. Við getum hagnýtt okkur, sérhvert okkar, kennslu Páls postula sem hann veitti kirkjunni til forna þegar hann sagði:

„Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í yður?

Ef nokkur eyðir musteri Guðs, mun Guð eyða honum, því musteri Guðs er heilagt og þér eruð það musteri.“5

Sérhvert okkar er búið til úr fínasta hráefni og við erum kraftaverk himnesks handverks. Þegar við hins vegar komumst á ábyrgðaraldur og stígum á vígvöll synda og freistinga, þá getur okkar eigið musteri þurft á endurnýjun og lagfæringu að halda. Ef til vill eru veggir innra með okkur orðnir grófir og þarfnast fínpússningar eða gluggar sálar okkar sem skipta þarf um, svo við getum staðið á helgum stöðum. Sem betur fer þurfum við ekki að vera fullkomin til þess að ná musterisstöðlunum, þótt við reynum að vera það, heldur þurfum við halda boðorðin og reyna okkar besta til að lifa sem lærisveinar Jesú Krists. Það er bæn mín að við megum öll kappkosta að lifa verðug blessana musterisins með því að gera okkar besta, gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru og fjarlægja galla og ófullkomleika, svo að andi Guðs megi ætíð dvelja í okkur. Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1.  Kenning og sáttmálar 124:26–27.

 2.  

  2. Sjá 1 Kon 6–7.

 3.  

  3.  Kenning og sáttmálar 97:15–17.

 4.  

  4.  Kenning og sáttmálar 121:37.

 5.  

  5.  1 Kor 3:16–17; sjá einnig vers 19 .