Friðþægingin

Boyd K. Packer forseti

forseti Tólfpostulasveitarinnar.


Boyd K. Packer
Hvert sem meðlimir okkar og trúboðar kunna að fara, er boðskapur okkar um trú og von í frelsaranum Jesú Kristi.

Boðskapur minn er einkum ætlaður þeim á meðal okkar sem þjást, eru sligaðir af sektarkennd, veikleika og mistökum, sorg og örvæntingu.

Það var á árinu 1971 að mér var falin stikuráðstefna á Vestur-Samóaeyjum, þar á meðal að skipuleggja nýja stiku á Upolu eyju. Eftir viðtöl leigðum við litla flugvél til Savaii eyju til að halda stikuráðstefnu þar. Flugvélin lenti á grasi grónum bala á Faala og átti að koma næsta kvöld til að flytja okkur aftur til Upolu eyjar.

Daginn sem við áttum að fara frá Savaii var rigning. Vitandi það að flugvélin gat ekki lent á blautum vellinum, ókum við til vesturenda eyjunnar, þar sem var einhvers konar flugbraut á mjóu kóralrifi. Við biðum til myrkurs, en engin kom flugvélin. Að lokum heyrðum við í sendistöð að stormur væri skollinn á, og vélin gæti ekki hafið sig til flugs. Við svöruðum til baka að við kæmum með báti. Einhver átti að taka á móti okkur í Mulifanua.

Þegar við sigldum úr höfninni á Savaii, spurði skipstjórinn á 12 metra löngum bátnum trúboðsforsetann hvort hann væri með vasaljós. Sem betur fer var hann með það og afhenti skipstjóranum það. Við fórum 21 km leið yfir til Upolu eyjar í mjög miklum sjógangi. Engum okkar var ljóst að gríðarlegur hitabeltisstormur hafði skollið á eyjunni, og við stefndum beint inn í hann.

Við komumst í höfnina í Mulifanua Þar var renna sem við þurftum að fara um meðram rifinu. Ljós á hæðinni ofan við ströndina og annað lægra ljós mörkuðu þessa þröngu siglingarleið. Þegar báti var siglt þannig að ljósin tvö væru hvort upp af öðru, yrði báturinn í réttri stefnu til að komast heill framhjá hættulegum klettunum sinn hvoru megin við leiðina.

En þetta kvöld var aðeins eitt ljós. Tveir öldungar voru í fjörunni að bíða eftir okkur, en ferðin tók miklu lengri tíma en venjulega. Eftir að hafa beðið klukkustundum saman eftir að sjá til báts okkar, þreyttust öldungarnir og sofnuðu, vanræktu að kveikja seinna ljósið, það neðra. Afleiðingin varð sú, að leiðin milli skerjanna var ekki ljós.

Skipstjórinn stýrði bátnum eftir bestu getu í átt að eina efra ljósinu á ströndinni á meðan einn úr áhöfninni hélt á lánaða vasaljósinu við stefni bátsins til að reyna að sjá klettana framundan. Við gátum heyrt öldurnar brotna á rifinu. Þegar við vorum nógu nærri til að sjá þær með vasaljósinu, kallaði skipstjórinn í ofboði að bakka skyldi og síðan var reynt á ný að finna rennuna.

Eftir ítrekaðar tilraunir vissi hann að ómögulegt var að finna leiðina. Allt sem við gátum gert var að reyna að ná höfninni í Apia í 64 km fjarlægð. Við vorum hjálparvana gegn ofboðslegum krafti höfuðskepnanna. Ég hef aldrei kynnst öðru eins myrkri.

Okkur miðaði ekkert áfram fyrsta klukkutímann, þótt vélin erfiðaði af öllum krafti. Báturinn barðist upp fjallháa ölduna og stöðvaðist svo örmagna á hátindinum og stóðu þá skrúfurnar upp úr sjónum. Titringurinn frá skrúfunum virtist ætla að hrista bátinn í sundur áður en hann rann niður hina hlið öldunnar.

Við lágum endilangir á segldúknum yfir lestinni, héldum okkur með höndum öðru megin og kræktum með tánum undir brúnina hinum megin til þess að okkur skolaði ekki fyrir borð. Bróðir Mark Littleford missti tökin og kastaðist utan í lágan járniklæddan borðstokkinn. Hann skarst á höfði, en borðstokkurinn kom í veg fyrir að hann skolaðist burt.

Að lokum mjökuðumst við áfram, og rétt fyrir dagmál komumst við loks í höfn í Apia. Bátar voru bundnir saman til öryggis. Þeir voru hver utan á öðrum við hafnarbakkann. Við klöngruðumst yfir þá og reyndum að ónáða sem minnst þá sem sváfu um borð. Við komumst til Pesega, þurrkuðum föt okkar, og héldum til Vailuutai til að skipuleggja nýju stikuna.

Ég veit ekki hverjir höfðu beðið eftir okkur við ströndina í Mulifanua. Ég neitaði að láta segja mér það. En rétt er, að án þessa lægra ljóss hefðum við allir getað farist.

Í sálmabók okkar er mjög gamall og sjaldan sunginn sálmur sem hefur mjög sérstaka merkingu fyrir mig.

Miskunnsemda blikið bjarta,
berst frá vita Guðs til mín
oss hann gefur leiðarljósið,
ljósið sem á ströndu skín.
Sendu ljósin loga björtu,
láttu vitann skína’ um sæ,
leystu alla lífs úr háska,
lýstu mér uns höfn ég næ.
Syndanóttin svört er komin,
svarrar brimið þungt og mótt,
augu skima þreytt og þjökuð,
þrá að nema ljósið rótt.
Vertu bróðir, ljós er logar,
lýstu hverjum þeim er flýr
syndanótt og sjóa þunga,
sæll til hafnar aftur snýr.1

Ég tala í dag til þeirra sem kunna að vera týndir og leita að þessu lægra ljósi til að vísa þeim leið til baka.

Frá upphafi var skilningur á því að í jarðlífinu tækist okkur ekki að vera fullkomin. Það var ekki við því búist að við myndum lifa án þess að brjóta eitt eða annað lögmál.

„Hinn náttúrlegi maður er óvinur Guðs og hefur verið það frá falli Adams og mun verða það alltaf og að eilífu, nema hann láti undan umtölum hins heilaga anda, losi sig úr viðjum hins náttúrlega manns og verði heilagur fyrir friðþægingu Krists, sjálfs Drottins.“2

Af Hinni dýrmætu perlu verður okkur ljóst, að „ekkert óhreint fær dvalið [í ríki Guðs],“3 og því var leið fundin fyrir alla sem syndga til að iðrast og gerast verðugir návistar föður okkar á himnun á ný.

Meðalgangari, endurlausnari var valinn, einn sem myndi lifa lífi sínu fullkomlega, enga synd drýgja, og færði „sjálfan sig fram sem fórn fyrir syndina til að uppfylla tilgang lögmálsins fyrir alla þá, sem hafa sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda. Og uppfylling lögmálsins kemur engum öðrum að gagni.“4

Í Alma lærum við um mikilvægi friðþægingarinnar: „Nauðsynlegt er, að friðþæging verði gjörð, … annars hlýtur allt mannkyn óhjákvæmilega að farast.“5

Ef við höfum engin mistök gert, þörfnumst við ekki friðþægingarinnar. Ef við höfum gert mistök, og öll höfum við gert þau, hvort sem þau eru minni háttar eða alvarleg, þá er gríðarlega mikilvægt að vita hvernig þurrka má þau út svo að við séum ekki lengur í myrkri.

„[Jesús Kristur] er ljós og líf heimsins.“6 Þegar við beinum sjónum okkar að kenningum hans, verður okkur leiðbeint í höfn andlegs öryggis.

Í þriðja trúaratriðinu segir: „Vér trúum, að fyrir friðþægingu Krists geti allir menn orðið hólpnir með hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindisins.“7

Joseph F. Smith forseti kenndi: „Menn megna ekki að fyrirgefa eigin syndir; þeir megna ekki að hreinsa sig sjálfa af afleiðingum eigin synda. Menn geta látið af synd og viðhaft rétta breytni upp frá því, og [að því marki sem] sú breytni þeirra er Drottni þóknanleg, geta þeir [orðið] verðugir þess að koma til greina. En hver bætir skaðann af því ranga sem þeir hafa gert sjálfum sér og öðrum, því sem þeim virðist ómögulegt að bæta sjálfir? Syndir hinna iðrandi verða hreinsaðar með friðþægingu Jesú Krists; þótt klæði þeirra séu rauð sem skarlat, munu þau verða hvít sem ull [sjá Jes 1:18]. Þetta er loforð ykkur gefið.”8

Við vitum ekki nákvæmlega hvernig Drottinn kom friðþægingunni í framkvæmd. En við vitum að grimmileg pynding krossfestingarinnar var aðeins hluti af hinni hræðilegu þjáningu sem hófst í Getsemane garðinum — þeim helga þjáningarstað – og henni lauk á Golgata.

Lúkas skráði:

„Og hann vék frá þeim svo sem steinsnar, féll á kné, baðst fyrir og sagði:

Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér! En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.

Þá birtist honum engill af himni, sem styrkti hann.

Og hann komst í dauðans angist og baðst enn ákafar fyrir, en sveiti hans varð eins og blóðdropar, er féllu á jörðina.“9

Eftir því sem ég kemst næst, er aðeins ein frásögn með eigin orðum frelsarans sem lýsa því sem hann gekk í gegnum í Getsemane garðinum. Opinberunin segir:

„Því að sjá, ég, Guð, hef þolað þetta fyrir alla, svo að þeir þurfi ekki að þjást, ef þeir iðrast–

En iðrist þeir ekki, verða þeir að þjást, alveg eins og ég–

Þjáningu, sem varð þess valdandi, að ég, sjálfur Guð, æðstur allra, skalf af sársauka og blóð draup úr hverri svitaholu.“10

Er á líf okkar líður, kunnum við að fara á staði sem við hefðum aldrei átt að fara á og gera það sem við hefðum átt að láta ógert. Ef við villjum hverfa frá synd, munum við dag nokkurn geta fundið þann frið sem finnst með því að fylgja leið fullkominnar iðrunar.

Alveg sama hver afbrot okkar hafa verið, hversu mikið sem gjörðir okkar kunna að hafa meitt aðra, getur sú sekt öll verið þurrkuð út. Mér finnst ef til vill fegursta greinin í ritningunum vera sú, þegar Drottinn segir: „Þeim sem hefur iðrast synda sinna er fyrirgefið, og ég, Drottinn, minnist þeirra ekki lengur.“11

Þetta er tilgangur fagnaðarerindis Jesú Krists og friðþægingarinnar: Að taka hverjum sem kemur, hverjum sem vill taka þátt, og láta þá ganga í gegnum reynslu svo að við lok lífs þeirra, geti þeir farið í gegnum huluna, hafandi iðrast synda sinna og verið leystir frá þeim fyrir blóð Krists.12

Þetta er það sem Síðari daga heilagir gera út um allan heim. Það er ljósið sem við bjóðum þeim sem í myrkri eru og hafa villst af leið. Hvert sem meðlimir okkar og trúboðar kunna að fara, er boðskapur okkar um trú og von í frelsaranum Jesú Kristi.

Joseph Fielding Smith forseti orti texta sálmsins: „Virðist ferðin löng?“ Hann var mér kær vinur. Textinn hefur að geyma hvatningu og loforð til þeirra sem leitast við að fylgja kenningum frelsarans:

Virðist ferðin löng?
leiðin erfið og brött?
Eru þyrnar á vorum vegi,
Eru sárir steinar undir iljum.
er vér reynum að rísa
í hæðir háar, í hita dags?
Er hjartað dofið, hugurinn dapur,
og sálin innra ofurþreytt,
er vér undan byrðunum fáum ei vikið?
Virðist fargið mjög þungt,
sem þurfum að lyfta?
Er enginn sem byrðina léttir?
Verum hugdjörf í hjarta
er hefst vor ferð;
Einn er sá sem á oss kallar.
Upp því lítum ofurglöð,
og í hönd hans tökum.
Hann leiðir oss í hæðir nýjar‒
heilagt land og hreint,
þar sem allur vandi hverfur,
og líf vort frá syndum hann leysir,
þar sem engin tár falla,
né sorg í sinni finnst.
Tökum í hönd hans – og göngum inn.13

Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1. „Miskunnsemda blikið bjarta,“ Sálmar, nr. 120.

 2.  

  2.  Mósía 3:19.

 3.  

  3.  HDP Móse 6:57.

 4.  

  4.  2 Ne 2:7.

 5.  

  5.  Alma 34:9.

 6.  

  6.  Mósía 16:9.

 7.  

  7.  Trúaratriðin 1:3.

 8.  

  8.  Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph F. Smith (1998), 99–100.

 9.  

  9.  Lúk 22:41–44.

 10.  

  10.  Kenning og sáttmálar 19:16–18.

 11.  

  11.  Kenning og sáttmálar 58:42.

 12.  

  12. Sjá Op 1:5.

 13.  

  13. „Does the Journey Seem Long?” Hymns, nr. 127.