Fyrsta og æðsta boðorðið

Öldungur Jeffrey R. Holland

í Tólfpostulasveitinni


Jeffrey R. Holland
Við þurfum að helga Drottni líf okkar sem lærisveinar, til að sýna honum elsku okkar.

Næstum engum hópi í sögunni hef ég meiri samúð með en postulunum ellefu sem eftir stóðu eftir dauða, upprisu og uppstigningu frelsara heimsins. Stundum held ég að við gleymum því hve óreyndir þeir enn voru í þeirri stöðu og hve algjörlega háðir Jesú þeir höfðu verið. Við þá sagði hann: „Ég hef verið með yður allan þennan tíma, og [þið þekkið] mig ekki ...?“1

En auðvitað fannst þeim hann ekki hafa verið með þeim næstum nógu lengi. Þrjú ár eru ekki langur tími til að kalla fullskipaða Tólfpostulasveit meðal fámennra nýrra trúskiptinga og hreinsa þá af villu eldri tíma, kenna þeim undur fagnaðarerindis Jesú Krists og loks að fela þeim að halda verkinu áfram allt til lífláts þeirra sjálfra. Nokkuð yfirþyrmandi verkefni fyrir hóp nýlega vígðra öldunga.

Einkum var þeim erfitt að vera skildir einir eftir. Jesús hafði endurtekið reynt að segja þeim að hann yrði ekki alltaf með þeim í eigin persónu, en þeir annaðhvort fengu ekki skilið eða vildu ekki skilja þá óttalegu hugsun. Markús ritaði:

„Hann [kenndi] lærisveinum sínum. Hann sagði þeim: Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur, og þeir munu lífláta hann, en þá er hann hefur líflátinn verið, mun hann upp rísa eftir þrjá daga.

En þeir skildu ekki það sem hann sagði og þorðu ekki að spyrja hann.“2

En eftir svo stuttan tíma til að læra, og jafnvel enn styttri tíma til undirbúnings, gerðist hið óhugsanlega og varð að veruleika. Drottinn þeirra og meistari, ráðgjafi þeirra og leiðtogi, var krossfestur. Jarðnesk þjónusta hans hafði tekið enda og hin fámenna kirkja sem hann hafði stofnað, er átti erfitt uppdráttar, virtist dæmd til háðungar og útrýmingar. Postularnir sáu hann í upprisnu ástandi, en það jók aðeins á ráðleysi þeirra. Vissulega hafa þeir hugleitt: „Hvað ber okkur nú að gera’“ Þeir sneru sér til Péturs, reyndasta postulans, eftir svari.

Ég gef mér nú það bessaleyfi að fara frjálslega með túlkun ritningarinnar á þessum samskiptum þeirra. Pétur hefur í raun sagt við samverkamenn sína: „Bræður, þessi þrjú ár hafa verið dásamleg. Enginn okkar hefði getað ímyndað sér fyrir nokkrum mánuðum kraftaverkin og guðleikann sem við höfum upplifað. Við höfum talað við sjálfan son Guðs og beðist fyrir og starfað með honum. Við höfum gengið og grátið með honum og að kvöldi hinna hræðilegu endaloka grét enginn jafn beisklega og ég gerði. En það er yfirstaðið. Hann hefur lokið verki sínu og hann hefur risið úr gröfinni. Hann hefur komið til leiðar hjálpræði sínu og okkar. Og þið spyrjið: ‚Hvað ber okkur nú að gera?‘ Ég get aðeins sagt ykkur að fagna og snúa til fyrra lífs. Ég hef hugsað mér að ‚[fara] að fiska.‘“ Og að minnsta kosti sex af þeim tíu sem eftir voru af postulunum samþykktu og sögðu: „Við förum líka með þér.“ Jóhannes, sem var einn af þeim, ritaði: „Þeir fóru og stigu í bátinn.“3

En því miður var fátt um fiskinn. Eftir fyrstu nóttina á vatninu, höfðu þeir ekkert veitt ‒ ekki einn fisk. Við fyrstu dagsskímu reru þeir vonsviknir í átt að landi og þar sáu þeir mann í fjarlægð hrópa til þeirra: „Drengir, hafið þér nokkurn fisk?“ Þungbúnir muldruðu postularnir, sem að nýju voru fiskimenn, það sem enginn fiskimaður vill segja: „Við höfum ekkert fengið,“ og til að strá salti í sárið voru þeir kallaðir „drengir.“4

Hinn ókunnugi kallaði til þeirra: „Kastið netinu hægra megin við bátinn, og þér munuð verða varir.“5 ‒ Og við þessi einföldu orð tóku þeir að bera kennsl á hann. Aðeins þremur árum áður höfðu þessir sömu menn verið við veiðar einmitt á þessu vatni. Þegar það gerðist, höfðu þeir líka, að sögn ritningarinnar: „Stritað [alla nóttina] og ekkert fengið.“6 En galíleiskur samborgari þeirra hafði kallað til þeirra frá ströndinni og sagt þeim að kasta netinu og þeir fengu „mikinn fjölda fiska,“7 svo mikinn að net þeirra rofnuðu og fiskurinn fyllti bátinn svo við lá að hann sykki.

Nú hafði það gerst að nýju. „Drengir“ þessir, eins og réttnefni þeirra var, köstuðu ákafir út netinu og „gátu ... ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn.“8 Jóhannes sagði hið augljósa: „Þetta er Drottinn.“9 Og hinn óviðráðanlegi Pétur stökk yfir borðstokkinn.

Eftir fagnaðarfundi með hinum upprisna Jesú, átti Pétur samskipti við frelsarann sem ég álít hafa skipt sköpum hvað varðar þjónustu almennt í postuladómi og vissulega persónulega fyrir Pétur, og fékk þennan mikla mann og klett til að inna af hendi stórbrotna þjónustu og leiða starfið. Jesús horfði á illa farinn bátinn, trosnuð netin og hrúguna af 153 gljáandi fiskum og sagði við reyndasta postula sinn: „Pétur, ... elskar þú mig meira en [allt þetta]?“ Pétur svaraði: „Já, Drottinn, þú veist, að ég elska þig.“10

Frelsarinn horfði áfram í augu lærisveins síns og endurtók: „[Pétur], elskar þú mig?“ Án efa nokkuð ráðvilltur vegna endurtekinnar spurningar, svaraði þessi mikli fiskimaður aftur: „Já, Drottinn, þú veist, að ég elska þig.“11

Enn svarar frelsarinn stuttlega og spyr í þriðja sinn: Þegar hér var komið hefur Pétri vissulega verið farið að líða óþægilega. Kannski blundaði minningin enn í hjarta hans um það, þegar hann var þrisvar spurður fáeinum dögum áður og hann hafði svarað af álíka staðfestu ‒ en brást síðan. Kannski hefur hann velt því fyrir sér hvort hann hafi misskilið spurningu meistarans. Kannski hefur hann jafnvel reynt að hlusta á hjarta sitt til að fá svarið staðfest, sem hann hafði gefið í flýti, jafnvel ósjálfrátt. Hverjar sem tilfinningar Péturs voru, svaraði hann í þriðja sinn: „Drottinn, ... þú veist, að ég elska þig.“12

Og þá svaraði Jesús (og enn gef ég mér bessaleyfi til að fara frjálslega með) kannski eitthvað líkt þessu: „Pétur, af hverju ertu þá hér? Af hverju ertu á sömu ströndinni, við sömu netin, að ræða hið sama og áður? Var ekki augljóst þá og er það ekki svo nú, að ef ég vildi fiska, gæti ég aflað þeirra sjálfur? Það sem ég þarf, Pétur, eru lærisveinar ‒ og þá þarf ég varanlega. Ég þarf einhvern til að næra sauði mína og bjarga lömbum mínum. Ég þarf einhvern til að predika fagnaðarerindi mitt og verja trúna. Ég þarf einhvern sem elskar mig, elskar mig sannlega og elskar það sem faðir okkar á himnum hefur kallað mig til að gera. Hvorki er boðskapur okkar skamvinnur, né verkið hverfult. Það er hvorki ógæfusamt, né vonlítið, og því er ekki ætlað að falla í gleymsku tímans. Þetta er verk hins almáttuga og því er ætlað að breyta heiminum. Ég bið þig því, Pétur, í annað sinn og væntanlega hið síðasta, að yfirgefa allt þetta, til að kenna og vitna, vinna og þjóna af trúmennsku, allt fram til þess dags að þeir munu gera við þig einmitt það sem þeir gerðu við mig.“

Hann hefði síðan getað snúið sér að öllum postulum sínum og sagt: „Voruð þið jafn fífldjarfir og farísearnir og fræðimennirnir voru? Og Heródes og Pílatus voru? Gerðuð þið ráð fyrir, líkt og þeir, að hægt væri að deyða verkið einfaldlega með því að deyða mig? Gerðuð þið ráð fyrir, líkt og þeir, að krossinn og naglarnir og gröfin gætu bundið enda á það allt og að allir gætu tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið? Drengir, hefur líf mitt og kærleikur ekki náð að snerta hjörtu ykkur dýpra en það?“

Kæru bræður og systur, ég veit ekki fyrir víst hvað við upplifum á dómsdegi, en ég verð afar undrandi ef Guð spyr okkur ekki á einhverjum tímapunkti spurningarinnar sem hann lagði fyrir Pétur: „Elskaðir þú mig?“ Ég held að hann vilji fá að vita hvort við, í okkar jarðneska, afar ófullnægjandi og stundum barnalega skilningi, hefðum að einhverju leyti skilið boðorð eitt, fyrsta og æðsta boðorð allra ‒ „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, og af öllum styrk og öllum huga þínum.“13 Og ef við fáum á slíkri stundu stunið upp: „Já, Drottinn, þú veist, að ég elska þig,“ þá kann hann að minna okkur á að æðsta einkenni kærleikans er ætíð hollusta.

„Ef þér elskið mig munuð þér halda boðorð mín,“14 sagði Jesús. Við eigum því náunga sem þarf að blessa, börn sem þarf að vernda, fátæka sem þarf að uppörva og sannleika sem þarf að verja. Við þurfum að leiðrétta hið ranga, miðla sannleika og gera gott. Við þurfum, í stuttu máli, að helga Drottni líf okkar sem lærisveinar, til að sýna honum elsku okkar. Við getum ekki látið staðar numið og ekki snúið til baka. Eftir kynni okkar af hinum lifandi syni hins lifandi Guðs, verður ekkert aftur eins og það áður var. Krossfesting, friðþæging og upprisa Jesú Krists marka upphafið að kristilegu lífi, ekki lok þess. Það var þessi sannleikur, þessi raunveruleiki, sem knúði þessa fáu Galileumenn og fiskimenn sem aftur voru postular, til að yfirgefa net sín í annað sinn og móta sögu heimsins, sem við nú lifum í, „án nokkurs samkomuhúss eða sverðs.“15

Af öllu hjarta og allri sálu ber ég öllum sem á mig hlýða vitni um að þessir postulegu lyklar hafa verið endurreistir á jörðu og þá er að finna í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Við þá sem enn hafa ekki gengið til liðs við okkur og þennan mikla og síðasta málstað Krists, segjum við: „Gerið það nú.“ Við þá sem eitt sinn voru með okkur, en hafa dregið sig í hlé og kjósa að velja fáeina menningarlega forrétti af hlaðborði upprisunnar, án þess að bragða á öllu hinu, vil ég segja: „Ég óttast að nætur ykkar séu oft langar og netin tóm.“ Ykkur er boðið að koma aftur, vera sönn, elska Guð og ljá hönd. Svo ég uppfylli skyldu mína algjörlega, þá á það boð líka við um alla heimkomna trúboða og öldunga, sem staðið hafa í skírnarfonti og sagt með uppréttum armi: „Með umboði frá Jesú Kristi.“16 Því umboði var ætlað að breyta hinum trúaða varanlega, en því var líka ætlað að breyta ykkur varanlega. Við æskufólk kirkjunnar, sem býr sig undir trúboð, musteri og hjónaband, segjum við: „Elskið Guð og verið hrein af blóði og synd þessarar kynslóðar. Ykkar bíður gríðarmikið verk, sem Thomas S. Monson forseti undirstrikaði með dásamlegri tilkynningu í gærmorgun. Faðir ykkar á himnum væntir hollustu og elsku ykkar á öllum stigum lífsins.“

Við alla sem til mín heyra, vil ég segja, að rödd Krists hljómar í gegnum tímanna rás og spyr sérhvert okkar meðan tími er enn inni: „Elskar þú mig?“ Fyrir hönd okkar allra, svara ég af heilindum sálar minnar: „Já, Drottinn, við elskum þig.“ Og eftir að hafa „[lagt] hönd á plóginn,“17 munum við aldrei líta til baka, allt til loka verksins, og sönn elska til Guðs og náunga okkar mun ríkja í heimi hér. Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1.  Jóh 14:9.

 2.  

  2.  Mark 9:31–32.

 3.  

  3.  Jóh 21:3.

 4.  

  4. Sjá Jóh 21:5.

 5.  

  5.  Jóh 21:6.

 6.  

  6.  Lúk 5:5.

 7.  

  7.  Lúk 5:6.

 8.  

  8.  Jóh 21:6.

 9.  

  9.  Jóh 21:7.

 10.  

  10.  Jóh 21:15.

 11.  

  11.  Jóh 21:16.

 12.  

  12.  Jóh 21:17.

 13.  

  13.  Lúk 10:27; sjá einnig Matt 22:37–38.

 14.  

  14.  Jóh 14:15.

 15.  

  15. Frederic W. Farrar, The Life of Christ (1994), 656; sjá kafla 62, til frekari upplýsinga um þessa nýlega stofnuðu kirkju.

 16.  

  16.  Kenning og sáttmálar 20:73.

 17.  

  17.  Lúk 9:62.