Gleðin við að endurleysa hina dánu

Öldungur Richard G. Scott

í Tólfpostulasveitinni


Richard G. Scott
„Hann mun gróðursetja í hjörtum barnanna fyrirheit þau, sem feðrunum voru gefin, og hjörtu barnanna munu snúast til feðra sinna.“

Drottinn opinberaði með spámanninum Joseph Smith hina göfugu kenningu varðandi helgiathafnir prestdæmisins fyrir dána. Það ljós kviknaði á þeim tíma þegar kristnar kirkjur kenndu að dauðinn markaði örlög sálarinnar óafturkallanlega og til eilífðar. Þær kenndu að hinir skírðu hlytu að launum eilífa gleði en allra annarra biði eilíf kvöl, án vonar um endurlausn.

Sú opinberun Drottins, að með réttu prestdæmisvaldi sé hægt að framkvæma staðgengilsskírn fyrir hina dánu staðfestir réttmæti yfirlýsingar hans: „ Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda.“1 Staðgengilsskírn getur náðarsamlega lagt til þessa nauðsynlegu helgiathöfn fyrir alla verðuga látna, sem ekki tóku á móti henni í jarðlífinu.

Sú dýrðlega kenning er annar vitnisburður um yfirgripsmikið eðli friðþægingar Jesú Krists. Hann gerði sáluhjálp aðgengilega fyrir sérhverja iðrandi sál. Friðþæging hans sigraði dauðann, og hann leyfir hinum verðugu látnu að meðtaka allar helgiathafnir sáluhjálpar með staðgengli.

Í bréfi rituðu fyrir meira en 150 árum sagði Joseph Smith: „Hinir heilögu njóta þeirra forréttinda að vera skírðir … fyrir ættmenni sín sem dánir eru … sem hafa í andanum meðtekið fagnaðarerindið fyrir tilstilli … þeirra sem falið hefur verið að boða þeim það.“2 Síðar sagði hann líka: „Þeir heilögu sem vanrækja [þetta] varðandi látna ættmenn sína, stofna eigin sáluhjálp í hættu.“3

Spámaðurinn Elía fól Joseph Smith lykla staðgengilsverksins í Kirtland musterinu4 til að uppfylla það loforð Drottins, að „hann [muni] gróðursetja í hjörtum mannanna barna fyrirheitin, sem feðrunum voru gefin, og hjörtu barnanna munu snúa til feðra sinna.“5

Með áframhaldandi opinberun til Josephs Smith og spámanna á eftir honum, hefur musterisverk verið gert mögulegt og skilningur hlotist á því og ættfræðistarfinu sem er því til stuðnings. Allir spámenn eftir Joseph Smith hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að framkvæma helgiathafnir fyrir okkur sjálf og látna ættingja.

Musteris- og ættfræðistarfið er sama verkið, en tvíþætt. Þetta er samtengt, líkt og helgiathafnir skírnar og gjafar heilags anda tengjast. Það kann að vera erfitt fyrir suma meðlimi að vinna bæði verkin heilsunnar vegna eða vegna fjarlægðar frá musteri.

Howard W. Hunter forseti kenndi:

„Við verðum að framkvæma prestdæmisverk musterishelgiathafna, sem eru nauðsynleg fyrir okkar eigin upphafningu; síðan verðum við að vinna nauðsynleg verk fyrir þá sem ekki höfðu tækifæri til að taka á móti fagnaðarerindinu í jarðlífinu. Verkið fyrir aðra er framkvæmt í tveimur skrefum: Í fyrsta lagi með ættfræðirannsókn til að finna forfeður okkar: og í öðru lagi með framkvæmd musterishelgiathafna til að veita þeim sömu tækifæri og bjóðast hinum lifandi.

Engu að síður eru margir meðlimir kirkjunnar sem aðeins hafa takmarkaðan aðgang að musterunum. Þeir gera það sem þeir geta. Þeir sinna ættfræðirannsókninni og fá svo aðra til að vinna musterisverkið fyrir sig. Á hinn bóginn eru aðrir sem taka þátt í musterisverkinu, en láta hjá líða að vinna ættfræðirannsóknina fyrir sína eigin ættingja. Þótt þeir framkvæmi guðlega þjónustu til aðstoðar öðrum, glata þeir blessun með því að leita ekki að látnum ættingjum sínum eins og síðari daga spámenn hafa guðlega boðið. …

Ég hef komist að því að þeir, sem vinna að ættfræðirannsóknum og framkvæma síðan musterishelgiathafnir fyrir þá sem þeir hafa nafngreint, munu finna enn meiri gleði þegar þeir meðtaka báða þætti blessunarinnar.“6

Faðirinn á himnum vill að við hljótum hina tvíþættu blessun þessa lífsnauðsynlega staðgengilsverks. Hann hefur fengið aðra til að sýna okkur hvernig það er hægt. Það er okkar, mín og þín, að sækja þessar blessanir.

Hvert verk sem þið vinnið í musterinu er tímabært, en að meðtaka helgiathafnir sem staðgengill fyrir einn af okkar eigin áum gerir tímann í musterinu enn helgari og enn stærri blessanir munu hlotnast. Æðsta forsætisráðið hefur lýst yfir: „Forgangsskylda okkar er að leita að og bera kennsl á okkar eigin ættfeður og mæður.“7

Viljið þið unga fólkið finna örugga leið til að útiloka áhrif andstæðingsins í lífi ykkar? Sökkvið ykkur niður í leit að forfeðrum ykkar, búið nöfnin undir helgar staðgengilshelgiathafnir, fáanlegar í musterinu, og farið síðan í musterið til að vera staðgenglar fyrir þá, er þeir meðtaka helgiathafnir skírnar og gjafar heilags anda. Þegar þið verðið eldri getið þið líka átt þátt í því að þeir taki einnig á móti hinum helgiathöfnununum. Ég fæ ekki séð meiri vernd gegn áhrifum andstæðingsins í lífi ykkar.

Í Rostov-na-Donu trúboðinu í Rússlandi var unga fólkinu boðið að hvert þeirra skráði 2.000 nöfn og sæi síðan um að í það minnsta eitt nafn úr þeirra eigin fjölskyldu yrði undir musterishelgiathafnir búið. Þeim sem náðu þessu markmiði var boðið að fara í langa ferð í hið nýja Kíev musteri í Úkraínu. Einn piltur sagði frá reynslu sinni: „Ég eyddi heilmiklum tíma í tölvuleiki. Þegar ég hóf skráninguna gafst enginn tími fyrir tölvuleikina. Í fyrstu hugsaði ég: ‚Ó, nei! Hvernig getur þetta átt sér stað?’ Þegar þessu verkefni lauk, missti ég jafnvel áhuga á tölvuleikjunum. … Ættfræðiverk er nokkuð sem við getum gert hér á jörðu, og það varðveitist á himnum.“

Margir trúfastir heilagir hafa unnið að rannsókn á ætt sinni og nýta sér eiginleika FamilySearch forritsins til varðveislu nafna fyrir helgiathafnir eigin ættmenna, svo þeir geti þjónað sem staðgenglar. Tilgangurinn með því að geyma nöfnin er að einstaklingum gefist nægur tími til að framkvæma helgiathafnir fyrir forfeður sína og aðra sem þeim tengist. Nú eru 12 milljón nöfn, fyrir milljónir tilheyrandi helgiathafna, geymdar þar. Mörg nafnanna hafa beðið svo árum skiptir. Áar sem hafa fundist eru vafalaust áhugasamir og spenntir þegar nöfn þeirra eru til reiðu fyrir helgiathafnir. En þeir eru ef til vill ekki eins ánægðir þegar biðin eftir helgiathöfnunum lengist stöðugt.

Við hvetjum þau ykkar sem eruð með mikinn fjölda nafna í biðstöðu að deila þeim þannig að fjarskyldari ættingjar eða fólk í deild ykkar eða stiku geti hjálpað ykkur að ljúka verkinu. Þið getið gert þetta með því að dreifa musterisspjöldum til deildar eða stikumeðlima sem fúsir eru til hjálpar; eins getið þið notað FamilySearch tölvuforritið til að koma nöfnunum beint til musterisins. Þessi seinni kostur er nokkuð sem Cindy Blevins frá Casper, Wyoming, hefur gert árum saman.

Systir Blevins var skírð á unglingsaldri og hefur verið eini meðlimur fjölskyldu sinnar sem gengið hefur í kirkjuna. Hún hefur unnið gríðarlega mikið ættfræðistarf. En það eru miklu fleiri nöfn en hún og nánustu ættingjar geta lokið við. Þar af leiðandi, hefur systir Blevins sent nöfnin til musterisins, sem, að hennar sögn, er oft lokið við innan fárra vikna, venjulega í einu eða tveimur musterum í nágrenni heimilis hennar. Hún segir að sér finnist gott að hugsa til þess að nágrannar í hennar eigin deild og stiku kunni að vera meðal þeirra sem ljúka verkinu fyrir áa hennar. Hún er þeim þakklát fyrir að gera það.

Mín ástkæra eiginkona, Jeanene, hafði unun af ættfræðirannsóknum. Þegar börn okkar voru ung samdi hún um barnagæslutíma við vini sína, svo að hún gæti nokkrar klukkustundir á nokkurra vikna fresti nýtt til rannsókna á ættliðum okkar. Eftir að yngsta barnið okkar fór að heiman, skráði hún í dagbók sína: „Ég var rétt í þessu að taka ákvörðun og mig langar til að hrópa hana upp yfir alla. Gamla svefnherbergið hans Mike er núna ættfræðivinnustofan mín. Það er vel tækjum búið til að skipuleggja heimildirnar. Líf mitt mun nú snúast um lífsnauðsynlegar ættarrannsóknir og nöfn til musterisins. Ég er afar spennt yfir að hefjast handa.”8

Í annarri dagbókarfærslu er þetta að finna: „Kraftaverkið … fyrir mig gerðist í ættfræðistofu Mel Olsen sem gaf mér útprentun með öllum þekktum áum mínum, sem finnast í uppfærðum Ancestral File tölvuskjölum sem send hafa verið til ættfræðifélagsins. Nöfnin koma mestmegnis úr skrám fjögurra ættliðaprógramms sem kirkjan kom af stað fyrir mörgum árum. Mér hafði óað það mikla verk framundan, að safna saman öllum skýrslum um ættfeður mína frá fjölskyldusamtökum og koma þeim í tölvuna fyrir fyrstu tölvuvæddu dreifinguna í Ancestral File. Og þarna var þetta allt, fallegt, skipulagt og laserprentað og lá á borðinu fyrir framan mig. Þetta var svo spennandi og yfirþyrmandi, að ég sat þarna eins og lömuð og fór að skæla, því ég var svo hamingjusöm. … Fyrir hvern þann sem af þrautsegju og nákvæmni hefur unnið við rannsóknir í þrjátíu ár, er tölvuvæðing allra þessara skráa sannarlega spennandi. Og þegar ég hugsa um hundruð þúsunda manna sem eru nú eða munu brátt tölvusetja háa stafla af manntalsskýrslum og einkarannsökuðu efni, … verð ég svo spennt. Þetta er sannlega verk Drottins og hann stjórnar því.“9

Ég hef bragðað nægilega á ávöxtum þessa upplyftandi verks til að vita að lyklarnir sem Elía endurreisti til Josephs Smith heimila að hjörtu okkar bindist og hvert okkar um sig tengist áum sínum, sem bíða eftir hjálp okkar. Með störfum okkar í helgum musterum hér á jörðu, og því valdsumboði sem frelsarinn veitti, meðtaka áar okkar frelsandi helgiathafnir sem gera þeim kleift að njóta eilífrar hamingju.

Áður fyrr hafa einstaklingar, reknir áfram af djúpri sannfæringu um helgi verksins, tekist hugrakkir á við þá áskorun sem líkja mætti við að uppskera alein allt kornið sem ræktað er í Nebraska fylki. Nú eru margar öflugar uppskeruvélar að verki. Saman getum við og munum ná að vinna allt þetta mikla verk.

Ég ber því vitni, að andi Elía snertir nú hjörtu margra barna föðurins um allan heim, og veldur því að verkið fyrir hina dánu er nú unnið með áður óþekktum hraða.

En hvað með ykkur? Hafið þð beðist fyrir varðandi ykkar eigið verk fyrir forfeður ykkar? Leggið til hliðar þá hluti í lífi ykkar sem í raun skipta ekki höfuðmáli. Ákveðið að gera dálítið sem mun hafa eilífar afleiðingar. Ef til vill hefur ykkur fundist þið eiga að leita að forfeðrum, en að þið séuð engir ættfræðingar. Sjáið þið nú að það þurfið þið ekki lengur að vera. Allt byrjar þetta af kærleik og einlægri þrá eftir að hjálpa þeim sem eru handan hulunnar og hjálparvana. Lítið í kringum ykkur. Einhver á ykkar svæði getur hjálpað ykkur að ná árangri.

Þetta er andlegt verk, risastórt átak og samvinna beggja vegna hulunnar, og hjálpin veitt í báðar áttir. Hvar sem þið eruð stödd í heiminum getið þið með bæn, trú, einbeitni, kostgæfni, og nokkurri fórn, lagt fram ríkulegan skerf til verksins. Byrjið núna. Ég heiti ykkur því að Drottinn mun hjálpa ykkur að finna leiðina. Og ykkur mun líða dásamlega. Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1.  Jóh 3:5.

 2.  

  2.  History of the Church , 4:231.

 3.  

  3.  Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 468.

 4.  

  4. Sjá Kenningar og sáttmálar 110:13–16 .

 5.  

  5.  Kenning og sáttmálar 2:2; skáletrað hér.

 6.  

  6. Howard W. Hunter, „A Temple-Motivated People,” Liahona, maí 1995, 5–6; Ensign, feb. 1995, 4–5.

 7.  

  7. Bréf Æðsta forsætisráðsins, 29. febr. 2012, skáletrað hér.

 8.  

  8. Jeanene Watkins Scott, persónuleg dagbók, apríl 1988.

 9.  

  9. Jeanene Watkins Scott, persónuleg dagbók, 23. sept. 1989.