Gleði prestdæmisins

Dieter F. Uchtdorf forseti

annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu


Dieter F. Uchtdorf
Við skulum dásama og skilja undur og forréttindi prestdæmisins. Sinnum þeim skyldustörfum sem okkur eru falin og elskum þau

Gleði flugsins

Fyrir mörgum árum ákváðu ég og tveir samflugmenn að láta þann æskudraum rætast að gera upp fornflugvél. Við keyptum saman illa útlítandi 1938 mótel af Piper Cub og hófumst handa við að koma henni í upprunalegt ástand. Þetta var kærleiksverkefni. Það hafði sérstaka merkingu fyrir mig, því að sem ungur maður hafði ég lært að fljúga í svipaðri flugvél.

Flugvél þessi kom fyrst fram aðeins 35 árum eftir hið fræga fyrsta flug Wright-bræðranna. Þegar ég hugsa um það, finnst mér ég afar gamall.

Hreyfillinn hafði ekki rafrænan startara þar sem eldsneytisdælan var í stjórnklefanum, og því varð einhver að handsnúa skrúfublaðinu af öllu afli, þar til hreyfillinn fór í gang. Hverri gangsetningu hreyfilsins fylgdi eftirvænting og hetjudáð.

Þegar Piper Cub vélin komst á loft var ljóst að hún var ekki hraðfleyg. Raunin var sú, að þegar mótvindur var sterkur virtist hún ekkert komast áfram. Ég man eftir að hafa flogið yfir hraðbrautirnar í Þýskalandi með son minn þegar hann var táningur og vissulega var það svo, að bílarnir fyrir neðan þutu áreynslulaust fram úr okkur!

En, ó, hve ég unni þessari litlu vél! Í henni var fullkomlega hægt að upplifa undur og fegurð flugsins. Maður gat heyrt, fundið, lyktað, bragðað og séð um hvað flugið snerist. Wright-bræðurnir orðuðu það þannig: „Ekkert jafnast á við það sem flugmaður upplifir meðan hann svífur um á hvítum þöndum vængjum.“1

Aftur á móti gafst mér fyrr á þessu ári kostur á að fljúga háþróaðri F-18 orrustuþotu með hinum heimsfrægu Blue Angels, sem eru fluglistasýningarlið flughers Bandaríkjanna. Það var sem minningarnar hæfu mig til flugs, því nákvæmlega fyrir 50 árum, næstum upp á dag, lauk ég þjálfun minni sem orrustuflugmaður.

Flugreynsla mín af F-18 var auðvitað allt önnur en af Piper Cub vélinni. Í henni upplifði ég betur kraft og fegurð flugsins. Mér fannst ég finna betur fyrir lögmálum loftaflsfræðinnar. En að fljúga með Blue Angels minnti mig líka fljótt á, að það er ungs manns leikur að vera orrustuflugmaður. Ég vitna aftur í Wright-bræðurna: „Menn koma næst því að upplifa fullkominn frið þegar þeir fljúga, ásamt eftirvæntingu þar sem hver taug er þanin til hins ýtrasta.“2 Auk þess kallar flug með Blue Angels á allt annan hátt á að „englar“ verði umhverfis og beri mann uppi.

Ef þið spyrðuð mig að því hvort flugið hefði verið skemmtilegra, væri ég ekki viss hverju svara ætti. Flugið var augljóslega afar frábrugðið að mörgu leyti, svo ekki sé meira sagt. En var þó að öðru leyti afar líkt.

Ég upplifði eftirvæntingu, fegurð og gleði flugsins bæði í Piper Cup og í F-18. Í báðum tilvikum fann ég ákall skáldsins um að „sleppa drungaböndum jarðar og dansa um loftin blá á sælum silfurvængjum.“3

Prestdæmið hið sama allsstaðar

Þið gætuð spurt hvað þetta ólíka flug komi fundinum okkar við eða prestdæminu, sem er okkar forréttindi að hafa, eða prestdæmisþjónustunni sem við allir höfum svo mikla unun af.

Bræður, er ekki satt að persónuleg upplifun okkar af þjónustu í prestdæminu getur verið afar mismunandi? Við getum sagt að sumir okkar fljúgi F-18 þotu og aðrir að fljúgi Piper Cubs. Sumir eruð þið í deildum og stikum þar sem hver staða er skipuð virkum prestdæmishöfum, allt frá aðstoðarmanni leiðtoga háprestaflokks til ritara djáknasveitar. Þið njótið þeirra forréttinda að taka þátt í deildarsamtökum sem eru vel mönnuð.

Aðrir búa á svæðum þessa heims þar sem aðeins eru fáeinir kirkjumeðlimir og prestdæmishafar. Ykkur kann að finnast þið einir og íþyngdir af byrði alls sem gera þarf. Hvað ykkur varðar, getur það krafist mikillar áreynslu að gangsetja hreyfil prestdæmisþjónustunnar. Stundum virðist jafnvel sem greininni eða deildinni ykkar miði alls ekkert áfram.

En hver sem ábyrgð ykkar er eða aðstæður, er okkur ljóst að sérstök gleði fylgir ætíð trúfastri prestdæmisþjónustu.

Ég naut þess alltaf að fljúga, hvort heldur í Piper Cub eða F-18, eða í hvaða vél sem var. Þegar ég var í Piper Cub kvartaði ég ekki yfir hve hægt hún fór; þegar ég var í F-18 kvartaði ég ekki yfir álagi og hreyfingu listflugsins sem miskunnarlaust sýndi mér fram á þann raunveruleika, að aldurinn færist yfir.

Já, það er alltaf einhver ófullkomleiki, hverjar sem aðstæðurnar eru. Já, auðvelt reynist að finna eitthvað til að mögla yfir.

Bræður, við höfum hið heilaga prestdæmi eftir reglu Guðssonarins! Hendur voru lagðar á höfuð okkar og við tókum á móti prestdæmi Guðs. Okkur hefur verið veitt vald og ábyrgð til að starfa í hans nafni sem þjónar hans á jörðu. Hvort heldur í fjölmennri deild eða fámennri grein, þá erum við allir kallaðir til að þjóna, blessa og starfa öllum til góðs og huga að öllu sem okkur er treyst fyrir. Er nokkuð sem veitir meiri gleði en það?

Við skulum þekkja, meta og finna gleði í þjónustu okkar í prestdæminu.

Gleði prestdæmisins

Sú unun sem ég hafði af fluginu hafði áhrif á alla stefnu mína í lífinu. En þótt flugreynsla mín hafi verið bætandi og sælukennd, hefur reynsla mín sem meðlimur þessarar kirkju verið mun djúpstæðari, gleðilegri og mun þýðingarmeiri. Þegar ég hef gleymt mér í kirkjuþjónustu, hef ég fundið mátt og ljúfa miskunn hins almáttugs Guðs.

Sem flugmaður hef ég upplifað loftin blá. Sem meðlimur kirkjunnar hef ég fundið faðmlag himins.

Endrum og eins sakna ég þess að sitja í flugklefanum. En að þjóna með bræðrum mínum og systrum í kirkjunni bætir það auðveldlega upp. Ég myndi ekki vilja skipta á neinu í þessum heimi fyrir ljúfan friðinn og gleðina sem eru ávextir þess að eiga örlítinn þátt í þessum mikla málstað og verki.

Við komum saman sem fjölmennur prestdæmishópur í dag. Það er okkar helga gleði og forréttindi að þjóna Drottni og samferðafólki okkar, að helga þessum göfuga málstað allt það besta innra með okkur, að uppörva aðra og byggja upp ríki Guðs.

Við vitum og skiljum að prestdæmið er eilífur kraftur og eilíft vald Guðs. Við getum auðveldlega farið með þessa skilgreiningu í huga okkar. En skiljum við í raun merkingu þess sem við segjum? Ég endurtek: Prestdæmið er eilífur kraftur og eilíft vald Guðs.

Hugsið ykkur. Guð skapaði himnana og jörðina með prestdæminu og ríkir yfir þeim.

Hann endurleysir og upphefur börn sín með þessum krafti og gerir að veruleika „ódauðleika og eilíft líf mannsins.“4

Prestdæmið er, líkt og spámaðurinn Joseph Smith útskýrði, „sá farvegur sem hinn almáttugi notaði í upphafi sköpunar þessarar jarðar til að opinbera dýrð sína og heldur áfram að nota til að opinbera sig mannana börnum allt fram á þennan tíma og sem hann notar til að gera tilgang sinn kunnan allt til loka tímans.”5

Almáttugur faðir okkar á himnum hefur treyst okkur fyrir valdi prestdæmisins ‒ okkur dauðlegum verum, sem sagðar eru veikar og ófullkomnar. Hann veitir okkur valdið til að starfa í sínu nafni til sáluhjálpar börnum sínum. Með þessu mikla valdi er okkur heimilað að prédika fagnaðarerindið, þjónusta helgiathafnir hjálpræðis, byggja upp ríki Guðs á jörðu og þjóna og blessa fjölskyldur og samferðafólk.

Stendur öllum til boða

Þetta er hið helga prestdæmi sem við höfum.

Prestdæmið, eða einhverja ábyrgð innan þess, er ekki hægt að kaupa eða taka sér. Ekki er hægt að beita krafti prestdæmisins með valdi eða þvingun einhverrar stöðu, ríkidæmis eða áhrifa. Það er andlegur kraftur sem starfar eftir himneskum lögmálum. Hann á upptök sín í hinum mikla himneska föður okkar allra. Krafti þess verður aðeins beitt og stjórnað eftir reglum réttlætisins,6 ekki eftir sjálfsréttlæti.

Kristur er uppspretta alls sanns valds og krafts prestdæmisins á jörðinni.7 Þetta er hans verk, og við njótum þeirra forréttinda að hjálpa. „Og enginn getur aðstoðað við þetta verk, nema hann sé auðmjúkur og fullur elsku, eigi trú, von og kærleika og sé hófsamur í öllu, hverju því sem honum verður treyst fyrir.“8

Við störfum ekki til að hljóta persónulegan ávinning, heldur reynum við að þjóna og lyfta öðrum. Við leiðum ekki með valdi, heldur með „fortölum, ... umburðarlyndi, ... mildi og hógværð og með fölskvalausri ást.“9

Prestdæmi almáttugs Guðs stendur öllum verðugum mönnum til boða, hvar sem þeir eru ‒ hvert sem ætternið er, hversu fábrotnar sem aðstæður þeirra eru, vítt og breitt um allan heim. Það er hægt að fá án peninga eða veraldlegra verðmæta. Ég umorða það sem hinn forni spámaður Jesaja sagði: Allir þeir sem þyrstir eru, geta komið hingað til vatnsins, og ekki er þörf á peningum til að koma og eta!10

Og vegna hinnar eilífu og óræðu friðþægingar frelsara okkar, Jesú Krists, stendur prestdæmi Guð til boða, jafnvel þótt við höfum hrasað eða verið óverðugir áður. Fyrir hið hreinsandi andlega ferli iðrunar, fáum við „[risið] og látið ljós [okkar] skína!“11 Sökum hinnar takmarkalausu elsku og fyrirgefningar frelsara okkar og lausnara, fáum við lokið upp augum okkar, orðið hreinir og verðugir og réttlátir og göfugir synir Guðs ‒ verðugir handhafar hins helgasta prestdæmis almáttugs Guðs.

Undur og forréttindi prestdæmisins

Ég finn til ákveðins dapurleika yfir þeim sem ekki skilja og meta undur og forréttindi prestdæmisins. Þeir eru líkt og farþegar í flugvél sem eyða tímanum í að mögla yfir stærð hnetupokans, meðan þeir svífa um loftin blá, langt ofar skýum ‒ nokkuð sem fornir konungar hefðu gefið allar sínar eigur fyrir að upplifa aðeins í eitt skipti!

Bræður, við njótum þeirrar blessunar að vera auðmjúkir þátttakendur í hinu mikla valdi og krafti prestdæmisins. Við skulum ljúka upp augum okkar til að sjá þetta tækifæri eins og það er í raun og taka á móti því.

Með réttlátri, kærleiksríkri og trúfastri prestdæmisþjónustu fáum við greint sanna merkingu þessarar opinberunar: „Ég mun fara fyrir yður. Ég mun verða yður til hægri handar og til þeirrar vinstri, og andi minn mun vera í hjörtum yðar og englar mínir umhverfis yður, yður til stuðnings.“12

Við skulum dásama og skilja undur og forréttindi prestdæmisins. Við skulum axla og elska ábyrgðina sem okkur hefur verið falin ‒ ábyrgðina á heimilum okkar og í kirkjueiningum okkar, hversu stórar eða smáar sem þær eru. Við skulum stöðugt vaxa í réttlæti, trúfesti og prestdæmisþjónustu. Við skulum finna gleði í því að þjóna í prestdæminu!

Það gerum við best með því að tileinka okkur reglur þekkingar, hlýðni og trúar.

Það merkir í fyrsta lagi, að við verðum að þekkja og tileinka okkur kenningu prestdæmisins í hinu opinberaða orði Guðs. Mikilvægt er að skilja sáttmálana og boðorðin sem virkni prestdæmisins byggist á.13

Við skulum í öðru lagi vera skynsamir og hagnýta okkur stöðugt og einlæglega þessa þekkingaröflun. Þegar við hlítum lögmálum Guðs, ögum huga okkar og líkama, og vinnum verk okkar að hætti réttlætisins, sem spámennirnir hafa kennt, munum við finna gleði í prestdæmisþjónustu.

Og eflum loks trú okkar á Drottin Jesú Krist. Tökum á okkur nafn hans og einsetjum okkur dag hvern að vera alltaf á vegi lærisveinsins. Látum starf okkar fullkomna trú okkar.14 Með því að vera lærisveinar, getum við fullkomnast skref fyrir skref, með því að þjóna fjölskyldu okkar, samferðafólki og Guði.

Þegar við þjónum í prestdæminu af öllu hjarta, huga, mætti og styrk, er okkur heitið háleitri þekkingu, friði og andlegum gjöfum. Þegar við heiðrum hið heilaga prestdæmi, mun Guð heiðra okkur, og við munum „standa saklausir frammi fyrir [honum] á efsta degi.“15

Ég bið þess að við megum ætíð hafa augu til að sjá og hjarta til að skynja undur og gleði prestdæmis okkar almáttuga Guðs, í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1. Wilbur Wright, í James Tobin, To Conquer the Air: The Wright Brothers and the Great Race for Flight (2003), 238.

 2.  

  2. Wright brothers, í Tobin, To Conquer the Air, 397.

 3.  

  3. John Gillespie Magee yngri, „High Flight,“ í Diane Ravitch, ritst. af The American Reader: Words That Moved a Nation (1990), 486.

 4.  

  4.  HDP Móse 1:39.

 5.  

  5.  Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 107.

 6.  

  6. Sjá Kenning og sáttmálar 121:36.

 7.  

  7. Sjá Hebr 5:4–10; Kenning og sáttmálar 107:3.

 8.  

  8.  Kenning og sáttmálar 12:8.

 9.  

  9.  Kenning og sáttmálar 121:41.

 10.  

  10. Sjá Jes 55:1.

 11.  

  11.  Kenning og sáttmálar 115:5.

 12.  

  12.  Kenning og sáttmálar 84:88.

 13.  

  13. Sjá Kenning og sáttmálar 84:33–44; 121:34–46.

 14.  

  14. Sjá Jakbr 2:22.

 15.  

  15.  Kenning og sáttmálar 4:2.