Eldraun trúar yðar

Öldungur Neil L. Andersen

í Tólfpostulasveitinni


Neil L. Andersen
Líkt og brennheitur eldurinn breytir járni í stál, svo mun andleg umbreyting eiga sér stað og andlegur styrkur okkar vaxa, þegar við höldumst trúföst í eldraunum trúar okkar,

Fyrir tíu árum þegar við Kathy eiginkona mín og ég bjuggum í Sao Paulo, Brasilíu, var David Marriott forseti Sao Paulo musterisins í Brasilíu. Hann og eiginkona hans, Neill, og synir þeirra, Will, Wesley, og Trace, bjuggu nærri okkur. Þau höfðu yfirgefið heimili sitt, vinnustað sinn, og stóra fjölskyldu til að bregðast við kalli spámannsins um að þjóna í trúboði.

Marriott forseti hringdi í mig eitt kvöldið. Hin dýrmæta og réttláta 21 árs gamla dóttir þeirra, Georgía, þá nemandi á lokastigi í fiðluleik í Indiana háskólanum, hafði orðið fyrir vörubíl þegar hún var á heimleið á reiðhjóli sínu eftir kirkjusamkomu. Í fyrstu var talið að Georgíu heilsaðist vel. Nokkrum klukkustundum síðar hrakaði henni óvænt.

Fjölskylda og vinir hófu að fasta og biðja um kraftaverk fyrir Georgíu. Móðir hennar flaug um nóttina frá Brasilíu. Þegar hún kom til Indiana daginn eftir mættu henni þar eldri börn hennar, sem í táraflóði sögðust hafa verið hjá Georgíu þegar hún lést.

Ég fylgdist með Marriott fjölskyldunni á þessum reynslutíma og mánuðina og árin þar á eftir. Þau grétu, þau báðust fyrir, þau töluðu um Georgíu, sársauki þeirra og hryggð voru mikil, en ekki féll skuggi á trú þeirra. Á ráðstefnunni í morgun heyrðum við um álíka trú hjá dásamlegum fjölskyldum Bowens og Wilbergers.1

Gjöf trúar er ómetanleg andleg gjöf. „Það er hið eilífa líf,“ sagði Jesús í bæn sinni, „að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“2

Trú okkar beinist að Guði föðurnum og syni hans, Jesú Kristi, sem er frelsari okkar og lausnari. Hún styrkist vegna vitneskju okkar um að fylling fagnaðarerindisins hefur verið endurreist á jörðu; að Mormónsbók er orð Guðs; og að spámenn og postular hafa í dag lykla prestdæmisins. Við metum trú okkar mikils, vinnum að því að styrkja hana, biðjum um aukna trú, og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að vernda og verja trú okkar.

Pétur postuli nefndi nokkuð sem hann kallaði „eldraunina.”3 Hann hafði upplifað hana. Minnist orða Jesú:

„Símon, … Satan krafðist yðar að sælda yður eins og hveiti.

En ég hef beðið fyrir þér, að trú þín þrjóti ekki.“4

Síðar hvatti Pétur aðra: „Látið yður eigi undra,“ sagði hann, „eldraunina, sem yfir yður er komin yður til reynslu, eins og yður hendi eitthvað kynlegt.“5

Þessum erfiðu raunum er ætlað að gera okkur sterkari, en þær geta einnig mögulega minnkað eða jafnvel eyðilagt traust okkar á syni Guðs og veikt þá einbeittu ákvörðun okkar að halda loforðin sem við höfum gefið honum. Oft eru þessir erfiðleikar í dulargerfi, þannig að erfitt er að þekkja þá. Þeir eiga rætur sínar að rekja til veikleika okkar, varnarleysis, viðkvæmni, eða þess sem skiptir okkur mestu máli. Raunveruleg en þó viðráðanleg prófraun fyrir einn getur verið öðrum erfið raun.

Hvernig getum við verið „staðföst og óhagganleg“6 í eldraun trúar? Við sökkvum okkur niður í það sem varð til að byggja upp kjarna trúar okkar – við iðkum trú á Krist, biðjumst fyrir, ígrundum ritningarnar, við iðrumst, höldum boðorðin, og þjónum öðrum.

En stígum aldrei skref frá kirkjunni frammi fyrir eldraun trúar — hvað sem við gerum, ! Að fjarlægjast ríki Guðs mitt í eldraun trúar er líkt og að yfirgefa öruggt skjól mitt í fellibyl.

Páll postuli sagði: „Þess vegna eruð þér ekki framar gestir og útlendingar, heldur eruð þér samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs.“7 Það er innan friðhelgi kirkjunnar, sem við verndum trú okkar. Á samkomum með öðrum sem trúa, biðjumst við fyrir og fáum svör við bænum okkar, tilbiðjum í gegnum tónlistina, deilum vitnisburði okkar um frelsarann, þjónum hvert öðru, og finnum anda Drottins. Við meðtökum sakramentið, tökum á móti blessunum prestdæmisins, og förum í musterið. Drottinn hefur sagt: „Í helgiathöfnum … opinberast … kraftur guðleikans.“8 Höldum okkur innan skjóls og öryggis hjá heimamönnum Guðs þegar við stöndum frammi fyrir prófraun trúar. Það er alltaf rúm fyrir okkur hér. Engir erfiðleikar eru svo miklir að við getum ekki yfirstigið þá saman.9

Thomas S. Monson forseti sagði: „Siðferðisvitund samfélagsins hefur ... breyst hröðum skrefum. Hegðun sem áður taldist óviðeigandi og ósiðleg … telja stöðugt fleiri [vera] ásættanlega.“10

Það eru margir einhleypir í kirkjunni vel fram eftir fullorðinsaldri. Þótt þeim finnist líf sitt frábrugðið því sem þeir væntu, halda þeir skírlífislögmálið.11 Þannig getur reynt á trú þeirra. Ég læt í ljós djúpa virðingu fyrir og aðdáun á þessum lærisveinum Krists.

„Guð hefur boðið að hinn helgi sköpunarkraftur skuli aðeins notaður milli karls og konu í löglega vígðu hjónabandi.“12 Í Nýja testamentinu hækkaði frelsarinn siðferðisstaðalinn fyrir fylgjendur sína þegar hann lýsti yfir: „Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“13 Hann kenndi okkur að dæma ekki aðra, en hann var óhræddur við að tala skýrt út: „Far þú,“ sagði hann, „syndga ekki framar.“ 14

Fjölskylda okkar á vinkonu. Líkega þekkið þið einhvern sem líkist henni, eða þið kunnið að líkjast henni. Alltaf trúföst, þjónar af göfugmennsku í kirkjunni, nýtur aðdáunar í starfi, dýrkuð af fjölskyldu sinni, en þótt hún hafi vonast eftir hjónabandi og börnum, er hún einhleyp. „Ég tók þá ákvörðun,“ segir hún, „að leggja … traust mitt á Jesú Krist.“ Að fara oft í musterið hjálpar mér að horfa frekar á eilífðina. Það minnir mig á að ég er aldrei ein. Ég trúi … að engri … blessun verði haldið eftir … ef ég … verð trúföst sáttmálum mínum, þar á meðal skírlífislögmálinu.“15

Annar vinur þjónaði frábærlega í trúboði, og á eftir fylgdi strangt skólanám. Hann vonaðist eftir að eignast fjölskyldu. Eldraun trúar hans: Tilfinningar samkynhneigðar. Hann skrifaði mér nýlega: „Mér er lofað í patríarkablessun minni að ég muni einhvern tíma eignast mína eigin fjölskyldu. Hvort sem það verður í þessu lífi eða því næsta, veit ég ekki. En ég vil ekki gera eitthvað sem stefnir í voða blessunum sem Guð hefur lofað, bæði mér og afkomendum mínum. ... Að lifa eftir [skírlífislögmálinu] er áskorun, en komum við ekki til jarðar til að takast á við áskoranir og til að sýna Guði ást okkar og virðingu með því að halda boðorð hans? Ég er blessaður með góðri heilsu, fagnaðarerindinu, elskuríkri fjölskyldu, og trúföstum vinum. Ég er þakklátur fyrir mínar mörgu blessanir.”16

Heimurinn mótmælir og segir, hvernig getið þið farið fram á svona mikið? Drottinn svarar:

„Mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir, og yðar vegir ekki mínir vegir. …

Heldur svo miklu sem himinninn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum.“ 17

Þessir tveir lærisveinar Krists og tugir þúsunda þeim líkir hafa fundið loforð Drottins: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“18

Hér er önnur raun. Það hafa alltaf verið fáeinir sem vilja niðurlægja kirkjuna og eyðileggja trúna. Í dag nota þeir Alnetið.

Sumar af upplýsingunum um kirkjuna, hversu sannfærandi sem þær virka, eru einfaldlega ekki sannar. Á árinu 1985, minnist ég starfsfélaga sem gekk inn í skrifstofu mína í Flórída. Hann var með grein úr tímaritinu Time sem bar yfirskriftina „Uppruni mormónisma dreginn í efa.“ Þar var greint frá nýlega uppgötvuðu bréfi, sem talið var ritað af Martin Harris, sem var í andstöðu við frásögn Josephs Smith af fundi taflnanna sem Mormónsbók var rituð á.19

Félagi minn spurði hvort þessar nýju upplýsingar mundu eyðileggja Mormónakirkjuna. Í greininni var vitnað í mann sem sagðist vera að yfirgefa kirkjuna vegna þessa skjals. Síðar, segja heimildir, yfirgáfu fleiri kirkjuna.20 Ég er viss um að þetta reyndi á trú þeirra.

Nokkrum mánuðum síðar, uppgötvuðu sérfræðingar [og falsarinn játaði] að bréfið væri að öllu leyti falsað. Ég minnist þess að hafa virkilega vonað að þeir sem yfirgáfu kirkjuna vegna þessara blekkinga myndu rata til baka.

Fáeinir efast í trú sinni þegar þeir finna áratugagamla yfirlýsingu kirkjuleiðtoga sem virðist ekki samræmast kenningum okkar. Mikilvæg regla er í gildi varðandi kenningu kirkjunnar. Kenningin er kennd af öllum 15 meðlimum Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar. Hún er ekki falin í óljósri málsgrein í einni ræðu. Sannar reglur eru kenndar oft og af mörgum. Það er ekki erfitt að finna kenningu okkar.

Leiðtogar kirkjunnar eru heiðarlegir en samt ófullkomnir menn. Minnist orða Morónís: „Dæmið mig ekki vegna ófullkomleika míns, ekki heldur föður minn … Færið heldur Guði þakkir fyrir að sýna yður ófullkomleika vorn, svo að þér getið lært og orðið vitrari en við vorum.“21

Joseph Smith sagði: „Ég sagði aldrei að ég væri fullkominn – en það er engin villa í opinberununum.“22 Kraftaverk handar Guðs í sögu og örlögum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu verður aðeins skilið í gegnum sjóngler andlegrar fyrirspurnar. Ezra Taft Benson forseti sagði: „Hver [persóna] mun að lokum komast upp að vegg trúarinnar, og … verður þar að taka afstöðu.“23 Verið ekki hissa þegar það gerist fyrir ykkur!

Samkvæmt skilgreiningunni eru erfiðleikar erfiðir. Það kann að vera angist, óvissa, svefnlausar nætur, og koddar vættir tárum. En erfiðleikar okkar þurfa ekki að vera andlega banvænir. Þeir þurfa ekki að taka okkur frá sáttmálum okkar eða frá heimamönnum trúarinnar.

„Munið ..., að það er á bjargi lausnara okkar, sem er Kristur, sonur Guðs, sem þið verðið að byggja undirstöðu ykkar. Að þegar djöfullinn sendir sína voldugu storma, já, spjót sín í hvirfilvindinum, já, þegar allt hans hagl og voldugur stormur bylur á ykkur, mun það ekkert vald hafa til að draga ykkur niður í djúp vansældar og óendanlegs volæðis, vegna þess að það bjarg, sem þið byggið á, er öruggur grundvöllur, og ef menn byggja á þeim grundvelli, geta þeir ekki fallið.“24

Líkt og brennheitur eldurinn breytir járni í stál, svo mun andleg umbreyting eiga sér stað og andlegur styrkur okkar vaxa, þegar við höldumst trúföst í eldraunum trúar okkar, .

Öldungur D. Todd Christofferson útskýrði hvað hann hefði lært af persónulegum erfiðleikum: „Þótt ég hafi þjáðst þá, er ég núna eftir á þakklátur fyrir að ekki var nein skyndilausn á vandamáli mínu. Sú staðreynd, að ég neyddist til að snúa mér næstum daglega í mörg ár til Guðs eftir hjálp, kenndi mér sannlega hvernig á að biðja og hljóta bænasvör og kenndi mér á hagnýtan hátt að trúa á Guð. Ég kynntist frelsara mínum og himneskum föður mínum með þeim hætti og í þeim mæli sem varla hefði getað gerst öðruvísi, eða hefði tekið mig mun lengri tíma að öðrum kosti. … Ég lærði að treysta Drottni af öllu hjarta. Ég lærði að ræða við hann dag eftir dag.”25

Pétur lýsti þessari reynslu sem „langtum dýrmætari en … gull.“26 Moróní bætti við að vitnisburður kæmi eftir að „reynt hefur á trú yðar.“27

Við upphaf ræðu minnar talaði ég um Marriott fjölskylduna. Í síðustu viku hittum við Kathy þau við gröf Georgíu. Tíu ár eru liðin. Fjölskyldan og vinir töluðu um kærleikann og minningarnar sem þau eiga um Georgíu. Þar voru hvítar helíum blöðrur til að minnast lífs hennar. Móðir Georgíu táraðist þegar hún talaði ljúflega um aukna trú og skilning sem hún hefði hlotið, og faðir Georgíu sagði mér frá hinum lofaða „vitnisburði“ sem hann hefði öðlast.

Trúnni fylgir eldraun trúar, og færir aukna trú. Huggunarrík fullvissa frá Drottni til spámannsins Joseph Smith er nákvæmlega sú sama og hann veitir okkur þegar reynir á trú okkar: „Hald … stefnu þinni … Óttast ekki … því að Guð verður með þér alltaf og að eilífu.“28 Um þetta ber ég minn helga vitnisburð í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1. Sjá Shayne M. Bowen, „Because I Live, Ye Shall Live Also,” og Ann M. Dibb, „Ég veit það. Ég lifi samkvæmt því. Ég elska það.” á aðalráðstefnu á laugardagsmorgni, okt. 2012.

 2.  

  2.  Jóh 17:3.

 3.  

  3.  1 Pét 1:7.

 4.  

  4.  Lúk 22:31–32.

 5.  

  5.  1 Pét 4:12; skáletrað hér.

 6.  

  6.  Alma 1:25.

 7.  

  7.  Ef 2:19.

 8.  

  8.  Kenning og sáttmálar 84:20.

 9.  

  9. Sjá Mósía 18:8–10.

 10.  

  10. Thomas S. Monson, „Stand in Holy Places,” Liahonaog Ensign, nóv. 2011, 82.

 11.  

  11. Sjá Ezra Taft Benson, „The Law of Chastity,” New Era, jan. 1988, 4–7; „The Law of Chastity” í Brigham Young University 1987–88 Speeches (1988), 1–5, speeches.byu.edu; sjá einnig Grunnreglur fagnaðarerindisins (2009), 224–32.

 12.  

  12. „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,” Liahonaog Ensign, nóv. 2010, 129.

 13.  

  13.  Matt 5:28.

 14.  

  14.  Jóh 8:11.

 15.  

  15. Einkabréf 2012.

 16.  

  16. Einkabréf 2012.

 17.  

  17.  Jes 55:8–9.

 18.  

  18.  Jóh 14:27.

 19.  

  19. Sjá Richard N. Ostling, „Challenging Mormonism’s Roots,” Time, 20. maí 1985, 44.

 20.  

  20. Sjá Gordon B. Hinckley, „Lord, Increase Our Faith,” Ensign, nóv. 1987, 52.

 21.  

  21.  Moró 9:31.

 22.  

  22.  Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 522.

 23.  

  23. Ezra Taft Benson, „The Book of Mormon Is the Word of God,” Tambuli, maí 1988, 6; Ensign, maí 1975, 65.

 24.  

  24.  Helaman 5:12.

 25.  

  25. D. Todd Christofferson, „Give Us This Day Our Daily Bread,” (Fræðsludeild kirkjunnar, kvöldvaka, 9. jan., 2011), lds.org/broadcasts.

 26.  

  26.  1 Pét 1:7; sjá einnig 1 Pét 4:13.

 27.  

  27.  Eter 12:6.

 28.  

  28.  Kenning og sáttmálar 122:9; George Q. Cannon forseti sagði: „Hversu alvarlegir sem erfiðleikarnir eru, hversu djúp sem þjáningin er, hve mikil sem ógæfan er, mun (Guð) aldrei yfirgefa okkur. Það hefur hann aldrei gert og mun aldrei gera. Hann getur ekki gert það. Það samræmist ekki persónuleika hans. Hann er óbreytanleg vera; hinn sami í gær, hinn sami í dag, og hann mun verða hinn sami um eilífar ókomnar aldir. Þann Guð höfum við fundið. Við höfum hlotið vináttu hans, með því að hlýða fagnaðarerindi hans; og hann mun standa með okkur. Við kunnum að fara í gegnum glóandi eldsofninn; við kunnum að fara um hin djúpu vötn; en við munum hvorki eyðast né sökkva í djúpið. Við munum koma út úr öllum þessum prófraunum og erfiðleikum betri og hreinni þeirra vegna, ef við einungis treystum Guði okkar og höldum boðorð hans“ (“Freedom of the Saints,” Brian H. Stuy, tók saman, Collected Discourses, flutt af Wilford Woodruff forseta, tveimur ráðgjöfum hans, postulunum tólf og fleirum, 5  bindi. [1987–92], 2:185); sjá einnig Jeffrey R. Holland, „Come unto Me,” Ensign, apríl 1998, 16–23.