Velkomin á ráðstefnu

Thomas S. Monson forseti


Thomas S. Monson
Við skulum hlusta áhugasöm á þann boðskap sem fluttur er, ... svo við getum fundið anda Drottins og hlotið þá þekkingu sem hann vill að við fáum.

Svo langt sem ég fæ séð eru öll sæti fullsetin ‒ nema fáein þarna aftast. Þar má gera betur. Þau eru laus fyrir þá sem gætu verið síðbúnir, vegna umferðarinnar, og þyrftu sæti þegar þau koma.

Þetta er frábær dagur ‒ ráðstefnudagur. Við höfum hlustað á fallegan kór syngja stórkostlega tónlist. Í hvert sinn er ég hlusta á kórinn eða heyri í orgelinu eða píanóinu, verður mér hugsað til móður minnar, sem sagði: „Ég ann öllu sem þér hefur verið gefið, öllum gráðunum sem þú hefur hlotið og öllu starfinu sem þú hefur áorkað. Mér finnst aðeins leitt að þú hafir ekki haldið þig við píanóið.“ Þakka þér fyrir, móðir góð. Ég vildi að ég hefði gert það.

Hve gott það er, bræður og systur, að bjóða ykkur velkomin á þessa 182. hálfsársráðstefnu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Þrjú ný musteri hafa verið vígð og eitt musteri endurvígt frá því við hittumst síðast fyrir sex mánuðum. Það voru forréttindi mín í maí að vígja hið fallega Kansas City musteri í Missouri og taka þátt í menningarviðburði tengdum þeirri athöfn. Ég mun fjalla nánar um hátíðarhöldin í ræðu minni í fyrramálið.

Í júní vígði Dieter F. Uchtdorf forseti Manaus musterið í Brasilíu, sem lengi hefur verið beðið eftir, og snemma í september endurvígði Henry B. Eyring forseti hið nýuppgerða musteri í Buenos Aires, Argentínu, musteri sem ég fékk að vígja fyrir nærri 27 árum síðan. Boyd K. Packer forseti vígði fyrir tveimur vikum síðan hið fallega Brigham City musteri í heimabæ sínum, þar sem hann fæddist og ólst upp.

Eins og ég hef áður sagt, er engin bygging kirkjunnar eins mikilvæg og musterið og við gleðjumst nú yfir að hafa 139 virk musteri út um allan heim og þar að auki 27 önnur sem tilkynnt hafa verið eða eru á byggingarstigi. Við erum þakklát fyrir þessar helgu byggingar og blessanirnar sem þær færa okkur.

Nú á þessum morgni er mér gleðiefni að tilkynna tvö ný musteri til viðbótar sem byggð verða á komandi mánuðum á eftirtöldum stöðum: Tucson í Arisóna og Arequipa í Perú. Nánari upplýsingar varðandi þessi musteri verða veittar síðar þegar nauðsynleg leyfi og samþykktir hafa fengist.

Bræður og systur, ég sný mér nú að öðru málefni ‒ trúboðsþjónustu.

Í nokkurn tíma hefur Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin leyft piltum frá ákveðnum löndum að þjóna frá 18 ára aldri, séu þeir verðugir, hæfir, hafi lokið skólaskyldu og látið í ljós einlæga þrá eftir að þjóna. Þessi regla hefur verið bundin við ákveðin lönd og hefur veitt þúsundum pilta tækifæri til að þjóna í trúboði með sóma og einnig uppfyllt kröfur um herskyldu og menntunarmöguleika.

Reynsla okkar með þessa 18 ára trúboða hefur verið jákvæð. Trúboðsforsetar þeirra tjá okkur að þeir séu hlýðnir, trúfastir, þroskaðir og þjónusta þeirra sé engu síðri en þeirra trúboða sem eldri eru og þjóna í sama trúboði. Trúfesta þeirra, hlýðni og þroski hafa orðið til þess að við þráum að allir piltar, sama frá hvaða landi þeir koma, fái sama tækifæri til að þjóna fyrr í trúboði.

Ég tilkynni því með ánægju að frá og með deginum í dag, gefst öllum piltum sem lokið hafa skólaskyldu, burtséð frá því hvar þeir búa, tækifæri til að bjóða sig fram til trúboðsþjónustu frá og með 18 ára aldri, í stað 19 ára. Ég er ekki að segja að allir piltar munu — eða ættu – að þjóna á þessum unga aldri. Frekar er ég að greina frá því, byggt á aðstæðum einstaklinga sem og ákvörðun prestdæmisleiðtoga, að þetta val er nú fyrir hendi.

Er við höfum íhugað í bænarhug frá hvaða aldri piltar geti hafið trúboðsþjónustu sína, þá höfum við einnig íhugað frá hvaða aldri ungar konur geti þjónað. Í dag er það mér einnig ánægja að tilkynna að hæfar, verðugar ungar konur, sem þrá að þjóna, megi hefja trúboðsþjónustu frá 19 ára aldri í stað 21 árs.

Við ítrekum að trúboðsstarfið er ábyrgð prestdæmisins — og við hvetjum alla pilta sem eru verðugir og hafa líkamlega og vitsmunalega getu, til að bregðast við kallinu til að þjóna. Margar ungar konur þjóna einnig í trúboði, en á þeim hvílir ekki samskonar skylda og á piltunum. Við fullvissum hinar ungu systur í kirkjunni hins vegar um, að framlag þeirra til trúboðsþjónustu er dýrmætt og við fögnum þjónustu þeirra.

Enn þurfum við á fleiri eldri hjónum að halda. Þegar aðstæður ykkar leyfa, þegar þið eruð að komast á eftirlaun, og heilsa ykkar leyfir, þá hvet ég ykkur til að bjóða ykkur fram til þjónustu í fastatrúboði. Bæði eiginmaðurinn og eiginkonan munu njóta mikillar gleði saman er þau þjóna börnum föður okkar.

Og nú, bræður mínir og systur, skulum við hlusta áhugasöm á þann boðskap sem settur verður fram fyrir okkur næstu tvo daga, svo við getum fundið anda Drottins og hlotið þá þekkingu sem hann vill að við fáum. Ég bið þess að svo megi verða, í nafni Jesú Krists, amen.