Hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?

Öldungur Robert C. Gay

af hinum Sjötíu


Robert C. Gay
Okkur ber að láta af syndum okkar, stórum sem smáum, í skiptum fyrir laun föðurins, hið eilífa líf.

Frelsarinn spurði lærisveina sína eitt sinn að þessu: „Hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?“1

Þetta er spurning sem faðir minn bauð mér að ígrunda vandlega fyrir mörgum árum. Þegar ég óx úr grasi fólu foreldrar mínir mér að vinna húsverk og greiddu mér eyðslufé fyrir það. Oft notaði ég þá peninga, sem voru ríflega 50 sent á viku, til að fara í bíó. Á þeim tíma kostaði bíómiðinn 25 sent fyrir 11 ára börn. Eftir stóðu 25 sent sem ég notaði til að kaupa mér sælgætisstangir sem kostuðu 5 sent stykkið. Bíó með fimm sælgætisstangir! Lífið varð ekki betra en það.

Allt var gott þar til ég varð 12 ára. Ég stóð í röð eitt síðdegi og þá varð mér ljóst að miðinn fyrir 12 ára kostaði 35 sent og það þýddi tveimur sælgætisstöngum minna. Ég rökræddi við sjálfan mig, ekki alveg reiðubúinn að færa þessa fórn: „Þú lítur alveg eins út og í síðustu viku.“ Ég leit síðan upp og bað um 25 senta miða. Afgreiðslukonunni grunaði ekkert og ég keypti mér fimm sælgætisstangir, eins og áður, í stað þriggja.

Ég þaut síðar heim, hreykinn af þessu afreki mínu, til að segja pabba hve sniðugur ég hafði verið. Hann hlustaði þögull er ég greindi honum frá öllu nákvæmlega. Þegar ég lauk mér af, leit hann einfaldlega á mig og sagði: „Sonur, myndir þú selja sál þína fyrir 5 sent?“ Orð hans nístu mitt 12 ára hjarta. Ég lærði lexíu sem ég gleymi aldrei.

Árum síðar spurði ég lítt virkan Melkísedeksprestdæmishafa þessarar sömu spurningar. Hann var dásamlegur maður sem elskaði fjölskyldu sína. Hann hafði þó ekki farið í kirkju árum saman. Hann átti hæfileikaríkan son sem lék í atvinnumannaliði sem þjálfaði og lék á sunnudögum. Liðið hafði margsinnis unnið mikilvægar meistarakeppnir. Er við áttum fund saman, minnti ég hann fyrst á, að sem prestdæmishafi ætti hann það loforð, ef hann efldi eið og sáttmála prestdæmisins, að hljóta „allt, sem faðir [okkar] á.“2 Ég spurði hann síðan: „Er meistaratitill meira virði en allt það sem faðirinn á?“ Hann sagði ljúflega: „Ég skil hvað þú átt við“ og einsetti sér síðan að ræða við biskup sinn.

Á okkar tíma er svo auðvelt að hrífast með í því sem heimsins er ‒ þrátt fyrir góðan ásetning. Heimurinn kýr okkur til að „horfa yfir markið.“3 Einhver spurði mig nýverið: „Skiptir einn sopi nokkru máli?“ Sjáið þið að þetta er spurning frá óvininum? Kain spurði: „Hver er Drottinn að ég ætti að þekkja hann?“4 og síðan glataði hann sál sinni. Sjálfsréttlæting smárra synda veitir Satan sigur. Fyrir mjólkurflösku,5 ranglega stafsett nafn,6 baunarétt,7 hafa menn fyrirgert frumburðarrétti og arfleifð.

Er við íhugum 5 senta peninginn eða meistaratitilinn sem skiptimynt í lífi okkar, getum við annaðhvort réttlætt breytni okkar, líkt og Kain gerði, eða beygt okkur undir vilja Guðs. Spurningin sem bíður okkar snýst ekki um hvort við séum að gera eitthvað sem þarf að leiðrétta, því erum við alltaf að gera. Spurningin snýst fremur um hvort við munum „hörfa undan“ eða „svara“ því kalli sálar okkar að gera vilja föðurins?8

Drottinn hefur unun af réttlæti okkar, en býður okkur að halda áfram að iðrast og vera undirgefin. Í Biblíunni lesum við um auðugan og grandvaran ungan mann, sem kraup frammi fyrir frelsaranum og spurði hvað hann þyrfti að gera til að hljóta eilíft líf. Hann hvarf hryggur á braut þegar frelsarinn sagði: „Eins er þér vant. … sel allt, sem þú átt.“9

En minnumst þess að annar auðugur, en veraldlegur maður, konungur Lamanítanna, faðir Lamonís, spurði líka þessarar sömu spurningar um eilíft líf, með þessum orðum: „Hvað á ég að gjöra til að geta fæðst af Guði og fengið þennan illa anda upprættan úr brjósti mér og tekið á móti anda hans[?] ... Ég vil láta ríki mitt af hendi til þess að hljóta þessa miklu gleði.“10

Munið þið eftir svarinu sem Drottinn gaf konunginum með þjóni sínum, Aroni? „Ef þú vilt iðrast allra synda þinna, lúta Guði og ákalla nafn hans í trú og trúa því, að þér muni gefast, þá mun rætast sú von, sem þú þráir.“11

Þegar konungurinn heyrði þessi orð um fórnarkröfuna, auðmýkti hann sig, féll á grúfu og bað: „Ó Guð, … ég mun láta af öllum syndum mínum til að þekkja þig.“12

Þetta er sú fórn sem frelsarinn krefst af okkur: Okkur ber að láta af syndum okkar, stórum sem smáum, í skiptum fyrir laun föðurins, hið eilífa líf. Okkur ber að láta af sjálfsréttlætingu, afsökunum, röksemdum, andsvörum, frestun, falsi, drambi, gagnrýnum hugsunum og hætta að fara okkar eigin leiðir. Okkur ber að skilja okkur frá öllu veraldlegu og tileinka okkur ímynd Guðs svo sjáist á ásýnd okkar.13

Bræður og systur, munið að krafa þessi snýst um meira en aðeins að gera ekki það sem slæmt er. Óvinurinn er ötull og því verðum við líka að starfa, en „sitja ekki [hugsunarlaus og sljó].“14 Að tileinka sér ásýnd Guðs er að þjóna hvert öðru. Það eru bæði til hegðunarsyndir og vanrækslusyndir, og okkur ber að rísa ofar hvoru tveggja.

Þegar ég þjónaði sem trúboðsforseti í Afríku, lærði ég sígildan og mikilvægan sannleika. Ég var á leið á samkomu er ég sá ungan dreng einan á vegkantinum og gráta sárt. Rödd hið innra sagði: „Stansaðu og hjálpaðu drengnum.“ Um leið og ég heyrði röddina reyndi ég eitt andartak að réttlæta mig: „Ég get ekki stoppað. Ég verð of seinn. Ég er í forsæti og get ekki komið of seint inn.“

Þegar ég kom að samkomuhúsinu, heyrði ég sömu röddina aftur: „Farðu og hjálpaðu drengnum.“ Ég rétti kirkjumeðlimi að nafni Afasi bíllyklana og bað hann að koma með drenginn til mín. Um 20 mínútum síðar fann ég að klappað var á öxl mér. Drengurinn ungi var fyrir utan.

Hann var um 10 ára gamall. Við komumst að því að faðir hans væri látinn og móðir hans í fangelsi. Drengurinn bjó í fátækrahverfi í Accara, hjá umsjónamanni sem sá honum fyrir mat og svefnstað. Hann þurfti að selja þurrkaðan fisk á götunni til að vinna fyrir því. En eftir söluna þennan dag, hafði hann farið í vasann og fundið að gat var komið á hann. Hann hafði týnt öllum peningunum. Afasi og mér varð þegar í stað ljóst, að ef hann skilaði ekki peningunum, yrði hann sagður lygari, líklega laminn og honum loks varpað út á götu. Það var á þessari neyðarstundu sem ég sá hann fyrst. Við hughreystum hann, bættum honum missinn og fórum með hann heim til umsjónarmannsins.

Þegar ég kom heim um kvöldið, skildi ég tvíþættan sannleika. Í fyrsta lagi vissi ég betur en nokkru sinni áður að Guð gætir að sérhverju okkar og mun aldrei yfirgefa okkur; og í öðru lagi, að við verðum ávallt að hlusta á rödd andans hið innra og bregðast síðan við „þegar í stað,“15 hvert sem ferðinni er heitið og þrátt fyrir ótta og óþægindi.

Dag einn spurðu lærisveinarnir frelsarann að því hver væri mestur í himnaríki. Þeim var boðið að vera trúaðir, auðmjúkir og undirgefnir sem lítil börn. Hann sagði síðan: „Mannssonurinn er kominn að frelsa hið týnda.“16 Með þessum fáu orðum, skilgreindi hann hlutverk okkar. Við eigum að fara og bjarga ‒ hinum týnda, hinum minnsta og sísta. Það nægir ekki að forðast syndina; við verðum að „þola kross hans“17 og „starfa af kappi,“18 við að hjálpa öðrum til trúar. Af samúð og kærleika tökum við á móti hinum týnda,19 sefum hinn munaðarlausa og svörum ákalli þeirra sem í myrkri og örvæntingu eru,20 og ákalli nauðstaddrar fjölskyldu. „Satan þarf ekki láta menn verða eins og Kain eða Júdas... ,“ sagði öldugur Neal A. Maxwell. „Hann þarf aðeins að láta hæfa menn ... líta á sig sem forframaða og óvirka.“21

Að lokinni stikuráðstefnu nýlega kom unglingspiltur til mín og spurði: „Elskar Guð mig?“ Megi líf okkar og þjónusta ávallt sýna að Guð yfirgefur engan.

Til að svara spurningunni: „Hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?“ Satan vill að við seljum líf okkar fyrir sælgætisstangir og meistaratitla þessa heims. Frelsarinn býður okkur, án endurgjalds, að láta af syndum okkar og taka á okkur ásýnd hans og gefa þeim sem við náum til rúm í hjarta okkar. Í staðinn hljótum við allt sem Guðs er, sem okkur er sagt að sé dýrmætara en allir samanlagðir fjársjóðir þessarar jarðar.22 Getið þið ímyndað ykkur það?

Á nýlegri ferð um Nígaragva tók ég eftir veggplatta á fábrotnu heimili fjölskyldu sem við heimsóttum. Á honum stóð: „Vitnisburður minn er mín dýrmætasta eign.“ Og það er hann mér líka. Vitnisburður minn er fjársjóður sálar minnar og af einlægni hjartans ber ég ykkur vitni um að kirkja þessi er hin sanna kirkja Guðs, að frelsarinn er höfuð hennar og stýrir henni með útvöldum spámanni sínum. Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1.  Matt 16:26.

 2.  

  2.  Kenning og sáttmálar 84:38.

 3.  

  3.  Jakob 4:14.

 4.  

  4.  HDP Móse 5:16.

 5.  

  5. Mjólkurflaska og innihaldið (rjómi) varð ásökunarefni á milli eiginkonu Thomas B. Marsh og frú Harris, sem hafði tekið að sér að skilja mjólkina og búa til ost. Þegar frú Harris kvartaði yfir að frú Marsh hefði ekki látið rjómann fylgja mjólkinni og haldið honum fyrir sig olli það deilum á milli kvennanna. Thomas Marsh fór með ágreiningsefnið til biskupsins, sem dæmdi frú Harris í hag. Málið fór frá biskupi til háráðsins og til Æðsta forsætisráðsins, og í hverju tilviki var dæmt frú Marsh í óhag. Þetta varð til að mynda gjá á milli Thomas Marsh og bræðranna. Nokkru eftir það vitnaði Marsh frammi fyrir dómara í Missouri að mormónar væru fjandsamlegir Missourifylki. (Sjá George A. Smith, „Discourse,” Deseret News, 16. apríl 1856, 44.)

 6.  

  6. Þegar spámaðurinn Joseph Smith sendi Simonds Ryder köllun um trúboðsþjónustu, sá Ryder að nafnið hans hafði verið ranglega stafsett „Rider“ í hinni prentuðu opinberun. Hann móðgaðist og leiddi það til fráhvarfs hans og loks til þess að hann var með í því að tjarga og fiðra spámanninn. Ryder vissi ekki að Joseph Smith var vanur að lesa opinberanir fyrir ritara sinn og átti því engan þátt í stafsetningarvillunni. (Sjá Milton V. Backman yngri, The Heavens Resound: Saga Síðari daga heilagra í Ohio, 1830–1838 [1983], 93–94; Donald Q. Cannon and Lyndon W. Cook, ritst. af Far West Record: Fundargerðir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, 1830–1844 [1983], 286.)

 7.  

  7. Í 1. Mósebók 25 er frásögn um Esaú, er hann skipti við Jakob á frumburðarrétti sínum og „brauði og baunarétti“ (vers 34).

 8.  

  8. Sjá Kenning og sáttmálar 19:18–19.

 9.  

  9. Sjá Mark 10:21–22.

 10.  

  10.  Alma 22:15.

 11.  

  11.  Alma 22:16.

 12.  

  12.  Alma 22:18.

 13.  

  13. Sjá Alma 5:14–19.

 14.  

  14.  Alma 60:7.

 15.  

  15.  Mark 1:18.

 16.  

  16.  Matt 18:11.

 17.  

  17.  Jakob 1:8.

 18.  

  18.  Kenning og sáttmálar 58:27.

 19.  

  19. Sjá Lúk 15:11–32.

 20.  

  20. Sjá Joseph Smith–Saga 1:15–16.

 21.  

  21. Neal A. Maxwell, Deposition of a Disciple (1976), 88.

 22.  

  22. Sjá Kenning og sáttmálar 19:38.