Hvar er tjaldið?

Henry B. Eyring forseti

fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu


Henry B. Eyring
Tjaldið, sem virðist koma í veg fyrir guðlega hjálp, hylur ekki Guð; endrum og eins hylur það okkur. Guð fer aldrei í felur, en stundum gerum við það.

Í Liberty-fangelsinu hrópaði spámaðurinn Joseph Smith í mikilli angist: „Ó Guð, hvar ert þú? Og hvar er tjaldið, sem hylur skýli þitt?1 Á angistarstundum finnst okkur mörgum að Guð sé víðs fjarri. Tjaldið, sem virðist koma í veg fyrir guðlega hjálp, hylur ekki Guð; endrum og eins hylur það okkur. Guð fer aldrei í felur, en stundum gerum við það, hyljum okkur tilfinningatjaldi, sem dregur okkur fjær Guði og við það virðist hann fjarlægur og óaðgengilegur. Okkar eigin þrá, fremur en tilfinningin „verði þinn vilji,“2 býr til tilfinningatjald á milli okkar og Guðs. Guði er ekki ómögulegt að sjá okkur eða tala til okkar, en við gætum verið ófús að hlusta eða beygja okkur undir hans vilja og tíma.

Það mun draga úr þessari aðskilnaðartilfinningu frá Guði, ef við verðum barnslegri frammi fyrir honum. Það er ekki auðvelt í heimi þar sem skoðanir annarra geta haft svo mikil áhrif á ásetning okkar. En það gerir okkur kleift að þekkja sannleikann: Guð er okkur nálægur og veit af okkur og hylur sig aldrei frá trúföstum börnum sínum.

Þriggja ára gömul barnadóttir mín er dæmi um sakleysið og auðmýktina sem tengja okkur við Guð. Hún fór með fjölskyldu sinni á opið hús í Brigham City musterinu í Utah. Í einu herbergi hins fallega musteris, leit hún í kringum sig og spurði: „Mamma, hvar er Jesús?“ Móðir hennar útskýrði að hún gæti ekki séð Jesú í musterinu, heldur fundið áhrif hans í hjarta sínu. Eliza ígrundað vandlega svar móður sinnar og virtist síðan sátt við það. „Jesús hefur farið til að hjálpa einhverjum,“ ályktaði hún.

Ekkert tjald kom í veg fyrir skilning Elizu eða sýn hennar á raunveruleikann. Guð er henni nálægur og hún skynjar það. Hún vissi að musterið var hús Drottins, en skildi líka að hinn upprisni og dýrðlegi Jesús Kristur hefur líkama og getur aðeins verið á einum stað í einu.3 Ef hann væri ekki í húsi sínu, skildi hún að hann hlyti að vera á öðrum stað. Af því sem hún vissi um frelsarann, var henni ljóst að hann væri einhversstaðar að láta gott af sér leiða fyrir börn föður síns. Greinilegt var að hún vonaðist eftir að sjá Jesú, ekki til að verða vitni að kraftaverki um tilveru hans, heldur vegna þessa að hún elskaði hann.

Andinn fékk veitt hennar barnshuga og hjarta þá huggun sem við öll þörfnumst og óskum. Jesús Kristur lifir, þekkir okkur, vakir yfir okkur og lætur sér annt um okkur. Á stundum sársauka, einmanaleika eða ráðleysis þurfum við ekki að sjá Jesú Krist til að vita að hann þekkir aðstæður okkar og að hlutverk hans er að blessa.

Af eigin reynslu veit ég að við getum upplifað hið sama og Eliza, löngu eftir æskuár okkar. Á fyrstu árum starfsferils míns lagði ég hart að mér til að tryggja fastráðningu í prófessorstöðu við Standford háskólann. Ég taldi mig hafa skapað mér og fjölskyldu minni gott líf. Við bjuggum nærri foreldrum eiginkonu minnar, í afar þægilegu umhverfi. Ég hafði náð góðum árangri á mælikvarða heimsins. En kirkjan gaf mér kost á að fara frá Kaliforníu til Ricks framhaldsskólans í Rexburg, Idaho. Ævilangt prófessorstarf mitt hefði getað verið tjald sem aðskildi mig frá kærleiksríkum föður, sem vissi betur en ég hvað í framtíð minni gæti falist. En ég naut þeirrar blessunar að vita, að öll sú velgengni sem ég hafði notið fram til þessa í starfi og fjölskyldulífi, var gjöf frá Guði. Og, líkt og barn, kraup ég í bæn til að spyrja hvað mér bæri að gera. Ég heyrði hljóða rödd í huga mínum sem sagði: „Þetta er þinn skóli.“ Það var ekkert tjald sem aðskildi mig frá Guði. Í trú og auðmýkt beygði ég mig undir vilja hans og skynjaði nálægð hans og umhyggju.

Árin mín í Ricks skólanum, þar sem ég reyndi að þekkja og gera vilja Guðs, var ekkert tjald sem huldi mig eða kom í veg fyrir að Guð ætti virkan þátt í lífi mínu. Þegar ég leitaðist við að vinna verk hans, fann ég nálægð hans og fullvissu um að hann þekkti viðfangsefni mín og léti sé afar annt um hamingju mína. En líkt og gerðist í Stanford, þá gerðu veraldleg tilboð vart við sig. Eitt var aðlaðandi starfstilboð, sem ég hlaut um svipað leyti og ég lauk fimmta ári mínu sem forseti Ricks framhaldsskólans. Ég hugleiddi það og baðst fyrir og ræddi það jafnvel við Æðsta forsætisráðið. Þeir svöruðu af ljúfleika og örlitlum húmor, en vissulega ekki með neinni leiðsögn. Spencer W. Kimball forseti hlustaði á mig lýsa tilboðinu sem ég hafði hlotið frá stóru fyrirtæki og sagði: „Já, Hall, þetta virðist dásamlegt tækifæri! Og ef við þörfnumst þín einhvern tíma, þá vitum við hvar þig er að finna.“ Þeir hefðu vitað hvar mig var að finna, en þrá mín eftir starfsframa hefði getað orðið að tjaldi sem gerði mér erfitt að finna Guð og enn erfiðara að hlusta á þjóna hans og fylgja boði hans.

Eiginkona mín, sem skynjaði þetta, fékk sterklega á tilfinninguna að við ættum ekki að fara frá Ricks skólanum. Ég sagði: „Það dugar mér.“ En hún krafðist af skynsemi að ég leitaði opinberunar fyrir mig. Og því baðst ég fyrir að nýju. Í þetta sinn hlaut ég leiðsögn með rödd sem hljómaði í huga mínum og sagði: „Ég læt þig vera við Ricks skólann örlítið lengur.“ Eigin framagirni hefði getað varnað mér sýn á raunveruleikann og gert mér erfitt fyrir að hljóta opinberun.

Þrjátíu dögum eftir að ég hafði verið blessaður með innblásinni ákvörðun um að hafna starfstilboðinu og dvelja áfram í Ricks skólanum, brast Teron uppistöðulónið þar rétt hjá. Guð vissi að lónið myndi bresta og að hundruð manns myndi þarfnast hjálpar. Hann knúði mig til að leita ráða og fá leyfi hans til að dvelja í Ricks skólanum. Hann þekkti allar ástæður þess að þjónusta mín gæti orðið dýrmæt í skólanum og í Rexburg. Ég var því þar og leitaði oft til himnesks föður í bæn, til að komast að því hvað hann vildi að ég gerði fyrir þá sem sátu uppi með skemmdar og eyðilagðar eignir. Ég vann klukkustundum saman með öðrum við að hreinsa forarsvað og vatn frá húsum. Þrá mín eftir að þekkja og gera vilja hans veitti mér sálarþroskandi tækifæri.

Þetta atvik skírskotar til annars sem getur komið í veg fyrir að við fáum þekkt vilja Guðs eða skynjað elsku hans til okkar: Við getum ekki krafist eigin tímasetningar þegar Drottinn hefur aðra. Ég taldi mig hafa varið nægum tíma í þjónustu minni í Rexburg og vildi hraða mér áfram. Stundum greinum við ekki vilja hans varðandi okkur, þegar við einblínum á eigin tímasetningu.

Í Liberty fangelsinu bað spámaðurinn Joseph Drottin um að refsa þeim sem ofsóttu meðlimi kirkjunnar í Missouri. Hann bað um skjót og örugg málagjöld. En Drottinn svaraði að „innan fárra ára,“4 myndi hann veita þessum óvinum kirkjunnar ráðningu. Í versum 24 og 25 í kafla 121 í Kenningu og sáttmálum, segir hann:

„Sjá, augu mín sjá og þekkja öll verk þeirra, og ég geymi þeim öllum bráðan dóm á sínum tíma‒

Því að tími er útnefndur hverjum manni, samkvæmt því hver verk hans verða.“5

Við fjarlægjum tjaldið þegar við skynjum og biðjum: „Verði þinn vilji“ og „á þínum tíma.“ Hans tímasetning ætti að vera nægileg fyrir okkur, þar sem við vitum að hann vill okkur allt hið besta.

Einni af tengdadætrum mínum fannst í mörg ár að Guð hefði hulið sig tjaldhjúpi. Hún var ung þriggja barna móðir sem þráði fleiri börn. Eftir að hafa misst fóstur tvisvar urðu bænir hennar stöðugt angistarfyllri. Eftir því sem árin liðu hneigðist hún til reiði. Þegar yngsta barnið fór í skólann, fannst henni tómleiki heimilisins minna sig óþægilega á móðurhlutverkið ‒ og það gerði líka óráðgerð og jafnvel óæskileg þungun kunningjakonu hennar. Hún upplifði sig jafn skuldbundna og fúsa og María var, sem sagði: „Ég er ambátt Drottins.“6 En þótt þessi orð hennar hafi komið frá hjartanu, fékk hún ekker svar heyrt.

Eiginmaður hennar bauð henni með sér í viðskiptaferð til Kaliforníu, í von um að lyfta anda hennar. Á meðan hann sótti fundi, gekk hún eftir fallegri, mannlausri strönd. Hún bað upphátt af djúpri hjartans þrá. Hún bað nú ekki um annað barn, heldur guðlega handleiðslu. „Faðir minn á himnum,“ ákallaði hún, „ég mun helga þér allan minn tíma, segðu mér hvernig mér ber að gera það.“ Hún sagðist fús til að fara með fjölskylduna hvert sem af henni yrði krafist. Efir bænina fylltist hún óvæntri friðartilfinningu. Það veitti huga hennar ekki algjöra fullvissu, en í fyrsta sinn í áraraðir sefaðist hún í hjarta.

Bænin svifti frá tjaldinu og lauk upp gáttum himins. Innan tveggja vikna komst hún að því að hún væri barnshafandi. Nýja barnið var aðeins eins árs gamalt þegar syni mínum og tengdadóttur barst trúboðsköllun. Þar sem hún hafði lofað að gera hvaðeina og fara hvert sem er, bægði hún óttanum frá sér og fór með börnin yfir hafið. Á trúboðsakrinum fæddi hún annað barn ‒ á tilfærsludegi trúboðsins.

Að beygja sig algjörlega undir vilja himinsins, líkt og þessi unga móðir gerði, er nauðsynlegt til að fjarlægja tjaldið sem við stundum setjum yfir höfuð okkar. En það tryggir ekki að bænheyrsla hljótist þegar í stað.

Abraham virðist hafa verið rétt innstilltur í hjarta löngu áður en Sara átti Ísak og áður en þau náðu til fyrirheitna landsins. Annan tilgang himins þurfti fyrst að uppfylla. Sá tilgangur fólst ekki aðeins í því að styrkja trú Abrahams og Söru, heldur líka í því að kenna þeim eilífan sannleika, sem þau miðluðu öðrum á hinum langa og torsótta vegi til landsins sem þeim var fyrirbúið. Tímasetning Drottins virðist oft fjarlæg; stundum nær hún yfir heilan mannsaldur. En henni er ætíð ætlað að verða til blessunar. Biðtíminn þarf ekki vera dapur og einmanalegur eða fullur óþreyju.

Þótt tímasetning Drottins sé ekki alltaf okkar, getum við verið viss um að hann heldur loforð sín. Ég ber öllum þeim sem finnst erfitt að ná til hans vitni um að sá dagur mun upp renna, er við fáum öll séð hann, augliti til auglitis. Rétt eins og ekkert fær nú komið í veg fyrir að hann fái séð okkur, mun ekkert koma í veg fyrir að við fáum séð hann. Við munum öll standa frammi fyrir honum í eigin persónu. Líkt og með barnadóttur mína, viljum við sjá Jesú Krist, en okkar sérstöku endurfundir við hann, við dómgrindurnar, verða ánægjulegri ef við gerum fyrst það sem þarf til að þekkja hann, líkt og hann þekkir okkur. Þegar við þjónum honum, verðum við líkari og nánari honum, þegar sá dagur nálgast er ekkert fær hulið sýn okkar.

Við getum stöðugt færst nær Guði. „Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims,“7 sagði frelsarinn. Og síðan segir hann okkur hvernig:

„Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig,

nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.

Þá munu þeir réttlátu segja: Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka?

Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig?

Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín?

Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“8

Þegar við gerum það sem Drottinn óskar að við gerum fyrir börn föðurins, tilreiknar hann það sem góðvild við sig, og við finnum okkur nálægari honum, er við skynjum kærleika hans og viðurkenningu. Með tímanum verðum við lík honum og lítum til dómsdagsins með tilhlökkun.

Tjaldið sem virðist aðskilja okkur frá Guði getur verið ótti við manninn, fremur en sú þrá að þjóna öðrum. Frelsarinn hefur þann eina ásetning að hjálpa fólki. Mörg okkar, líkt og á við um mig, hafa fundið til ótta yfir að tala við einhvern sem við höfum misboðið eða hefur sært okkur. En samt hef ég síendurtekið séð Drottin mýkja hjörtun, og líka mitt eigið. Ég hvet ykkur því, þrátt fyrir ótta ykkar, til að fara fyrir Drottin til einhvers og sýna kærleika og fyrirgefningu. Ég heiti ykkur því, að ef þið gerið það, munuð þið finna elsku frelsarans til þess einstaklings, og elsku hans til ykkar, og hún mun ekki virðast fjarlæg. Slík áskorun kann að tengjast fjölskyldunni, samfélaginu eða ná til annarrar þjóðar.

En séuð þið í erindum Drottins til að blessa aðra, mun hann sjá það og umbuna ykkur. Ef þið gerið það oft og lengi, munuð þið finna innri eðlislæga breytingu, fyrir tilverknað friðþægingar Jesú Krists. Þið munuð ekki aðeins finna ykkur nánari honum, heldur líka að þið líkist honum stöðugt meira. Og þegar þið svo sjáið hann, líkt og við munum öll gera, verður það líkt og hjá Moróní, er hann sagði: „Og nú segi ég við yður öll, lifið heil. Ég geng brátt til hvíldar í paradís Guðs, uns andi minn og líkami sameinast á ný og ég svíf um loftið í sigurgleði til móts við yður frammi fyrir hinum ljúfu dómgrindum hins mikla Jehóva, hins eilífa dómara bæði lifenda og dauðra. Amen.”9

Ég ber ykkur vitni um, að ef við þjónum í trú, auðmýkt og þrá eftir að gera vilja Guðs, munu dómgrindur hins mikla Jehóva verða okkur ánægjuefni. Við munum sjá kærleiksríkan föður okkar og son hans, líkt og þeir sjá okkur nú ‒ greinilega og í fullkominni elsku. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.