2010–2019
Öruggur grundvöllur
Apríl 2013


Öruggur grundvöllur

Við skulum taka boði frelsarans um að koma til hans. Við skulum byggja líf okkar á traustum og öruggum grunni.

Þann 17. október 1989 var ég á heimleið úr vinnunni og nálgaðist umferðarljós á gatnamótum Marketstrætis og Bealestrætis í San Francisco, Kaliforníu. Þá fann ég bílinn hristast og hugsaði með mér: „Það hlýtur að vera sprungið.“ Bíllinn hélt áfram að hristast, ég tók eftir strætisvagni nálægt mér og hugsaði: „Strætisvagninn hlýtur að hafa keyrt á mig!“ Þá hristist bíllinn meira og meira og ég hugsaði: „Það hlýtur að vera sprungið á öllum dekkjum!“ En það var hvorki sprungið dekk né strætisvagn ‒ heldur öflugur jarðskjálfti! Ég stoppaði á rauðu ljósi og sá að ójöfnur í malbikinu, líkt og sjávaröldur, liðuðust niður Marketstræti. Framundan var há skrifstofubygging sem vaggaði fram og aftur og múrsteinar tóku að losna úr eldri byggingu mér til vinstri handar, er jörðin hélt áfram að hristast.

Loma Prieta jarðskjálfinn reið yfir San Francisco flóann kl. 17:04 þennan dag og um 12.000 manns urðu heimilislausir.

Jarðskjálftinn olli miklum skemmdum á San Francisco svæðinu, sérstaklega á ótraustum jarðveginum í San Francisco og Oakland. Marina svæðið í San Francisco hafði verið „byggt á uppfyllingu úr sandi, mold, grjótmulningi … og öðru efni sem innihélt mikið magn af jarðvatni. Sumt uppfyllingarefnið var grjótmulningur sem sturtað hafði verið í San Francisco flóann eftir jarðskjálftann 1906.“1

Blokkaríbúðir voru reistar á uppfyllingunni um 1915. Í jarðskjálftanum 1989 breyttist óþjöppuð og vatnsmettuð moldin, sandurinn og mulningurinn í vatnskennt efni sem olli hruni þessarar bygginga. Byggingarnar voru ekki byggðar á öruggum grunni.

Loma Prieta jarðskjálftinn hafði áhrif á marga, þar á meðal mig. Atburðir þessa dags staðfestu í huga mínum og hjarta, að til þess að geta staðist vel óveður, jarðskjálfta og átök lífsins, þá verðum við að byggja á öruggum grunni .

Nefítaspámaðurinn Helaman ræddi á mjög skýran hátt um mikilvægi þess að við byggjum líf okkar á öruggum grundvelli, jafnvel grundvelli Jesú Krists: „Og nú synir mínir. Munið og hafið hugfast, að það er á bjargi lausnara okkar, sem er Kristur, sonur Guðs, sem þið verðið að byggja undirstöðu ykkar. Að þegar djöfullinn sendir sína voldugu storma, já, spjót sín í hvirfilvindinum, já, þegar allt hans hagl og voldugur stormur bylur á ykkur, mun það ekkert vald hafa til að draga ykkur niður í djúp vansældar og óendanlegs volæðis, vegna þess að það bjarg, sem þið byggið á, er öruggur grundvöllur, og ef menn byggja á þeim grundvelli, geta þeir ekki fallið“ (Helaman 5:12).

Mikilli athygli er beint að hönnun, verkfræðivinnu og notkun byggingarefna við byggingu nútíma mustera. Mjög ítarleg könnun er gerð á jarðvegi og undirstöðu á þeim stöðum þar sem bygging musteris er fyrirhuguð. Vandleg könnun er einnig gerð á vindi, úrkomu og veðurfarsbreytingum á svæðinu, þannig að fullgert musterið geti ekki aðeins staðið af sér storma og þekkt veðurfar á svæðinu, heldur er musterið einnig hannað og staðsett þannig, að það geti staðið af sér óvænta jarðskjálfta, fellibylji, flóð og aðrar náttúruhamfarir sem orðið gætu. Í mörgum musterum eru stólpar úr steinsteypu eða stáli reknir djúpt niður í jörðina sem ankeri fyrir musterisgrunninn.

Ástríkur og góðviljaður himneskur faðir okkar og sonur hans hafa, rétt eins og hönnuðir og byggingarfræðingar okkar tíma, gert áætlun, verkfæri og önnur hjálpartæki fyrir okkur að nota, svo við getum byggt og mótað líf okkar á sem öruggastan og traustastan hátt. Áætlunin er sáluhjálparáætlunin, hin mikla sæluáætlun. Áætlunin veitir okkur skýra mynd og skilning á upphafinu, endalokunum og þeim nauðsynlegu skrefum, þar á meðal helgiathöfnum, sem nauðsynleg eru fyrir sérthvert barn föðurins, svo að það geti snúið aftur í návist hans og lifað með honum að eilífu.

Trú, iðrun, skírn, gjöf heilags anda og að standast allt til enda, eru hluti af „teikningum“ lífsins. Þær hjálpa til við mótun hverrar byggingareiningar, sem verða munu ankerisfestar við friðþægingu Krists í lífi okkar. Þær forma og móta stoðirnar í lífi manneskjunnar. Bænir, ritningarnám, meðtaka sakramentis og nauðsynlegra helgiathafna prestdæmisins, verða þær sérstöku “starfslýsingar” sem hjálpa okkur að sameina og binda saman hina ýmsu þætti í uppbyggingu lífsins, rétt eins og hverri áætlun um byggingu musteris fylgja „starfslýsingar“ sem veita nákvæmar leiðbeiningar um hvernig móta eigi og sameina nauðsynlega þætti.

Jafnvægi er nauðsynlegt þegar þessum starfslýsingum er fylgt. Sem dæmi þarf nákvæmlega rétt magn af sandi, steinum, sementi og vatni í steinsteypu til að ná hámarks styrkleika. Rangt magn eða skortur á einhverru þessara hráefna myndi veikja steypuna og hún gæti ekki uppfyllt sitt mikilvæga hlutverk.

Við eigum á sama hátt á hættu að veikja andlegan styrk okkar, ef við hugum ekki að viðeigandi jafnvægi í lífi okkar, daglegum einkabænum, lestri á ritningunum, auknum andlegum styrk með meðtöku sakramentisins og tíðri þátttöku í helgiathöfnum prestdæmisins, líkt og helgiathöfnum musterisins.

Í bréfi til Efesusmanna sagði Páll eftirfarandi varðandi þörfina á jafnvægi og samþættri þróun persónuleika og sálar: „Í honum er öll byggingin samantengd og vex svo, að hún verður heilagt musteri í Drottni“ (Efe 2:21).

Bænin er ein af einföldustu og mikilvægustu byggingareiningum trúar okkar og persónuleika. Í bæn getum við tjáð Guði þakklæti okkar, ást og trúfestu. Í bæn getum við lotið vilja hans og á móti hlotið styrk til að laga líf okkar að kennslu hans. Bænin er leiðin sem við getum fylgt til að leita áhrifa hans í lífi okkar, jafnvel opinberunar.

Alma kenndi: „Ráðgastu við Drottin um allt, sem þú tekur þér fyrir hendur, og hann mun leiðbeina þér til góðs. Já, þegar þú leggst til hvílu að kvöldi, hvílstu þá í Drottni, svo að hann megi vaka yfir þér, meðan þú sefur. Og þegar þú ríst á fætur að morgni, lát þá hjarta þitt vera fullt af þakklæti til Guðs. Og ef þú gjörir svo, mun þér lyft upp á efsta degi“ (Alma 37:37).

Það ætti að vera hverju okkar eins mikilvægt og eðlislægt að deila hugsunum okkar, tilfinningum og þrám með Guði í einlægri og hjartnæmri bæn, eins og að anda og nærast.

Trú okkar og persónuleiki mun einnig eflast er við lesum í ritningunum daglega. Rétt eins og við þörfnumst matar til að næra líkama okkar, þarfnast andar okkar og sálir næringar og styrks með því að endurnærast af orðum Krists eins og þau eru rituð af spámönnunum. Nefí kenndi: „[Endurnærist] af orðum Krists. Því að sjá. Orð Krists munu segja yður að fullu, hvað yður ber að gjöra“ (2 Ne 32:3).

Þó að lestur í ritningunum sé af hinu góða, þá er lesturinn einn og sér ekki nægilegur til að fanga fulla kennslu frelsarans, vídd hennar og dýpt. Með því að leita, íhuga og tileinka sér orð Krists, eins og þau eru kennd í ritningunum, munum við hljóta visku og þekkingu sem er ofar okkar dauðlega skilningi. Það mun auka staðfestu okkar og veita okkur andlegan styrk til að gera okkar besta, hverjar sem aðstæðurnar eru.

Eitt mikilvægasta skrefið til að styrkja líf okkar og standa staðföst á grundvelli frelsarans, er að meðtaka verðug sakramentið í hverri viku. Helgiathöfn sakramentisins veitir sérhverjum meðlimi kirkjunnar tækifæri til að íhuga líf sitt, hugleiða gjörðir sínar eða það sem látið var ógert, og iðrast þarf, og síðan meðtaka brauð og vatn sem heilög tákn í minningu líkama og blóðs Jesú Krists, sem vitni um friðþægingu hans. Ef við gerum þetta af einlægni og í auðmýkt endurnýjum við eilífa sáttmála, erum hreinsuð og helguð og hljótum loforðið um, að við munum hafa anda hans ætíð með okkur. Andinn virkar sem nokkurs konar steinlím, öruggur hlekkur, sem ekki einungis helgar, heldur minnir okkur stöðugt á alla hluti og vitnar aftur og aftur um Jesú Krist. Persónuleg tengsl okkar við bjargið okkar, já, Jesú Krist, styrkist er við meðtökum sakramentið verðug.

Í þjónusta sinni kenndi frelsarinn af kærleika og á skýran hátt kenningar, reglur og nauðsynlegar aðgerðir, sem myndu varðveita líf okkar og styrkja persónuleika okkar. Í lok fjallræðunnar sagði hann:

„Hver sá, sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni,

Nú skall á steypiregn og vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. En það féll eigi, því að það var á bjargi byggt.

En hver, sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi.

Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll, og fall þess var mikið.“ (3 Ne 14:24–27; sjá einnig Matt 7:24–27).

Bræður og systur, ekkert okkar myndi meðvitað byggja heimili sitt, vinnustað eða heilög tilbeiðsluhús á sandi, eða án viðeigandi áætlana og efnis. Við skulum taka boði frelsarans um að koma til hans. Við skulum byggja líf okkar á traustum og öruggum grunni.

Ég vitna auðmjúklega, að með því að tengja líf okkar við Jesú Krist og friðþægingu hans og með því að fylgja vandlega áætlunum hans er varða hamingju okkar, þar með talið daglegar bænir, daglegt ritningarnám og að meðtaka sakramentið vikulega, þá munum við hljóta styrk og upplifa raunverulegan og persónulegan vöxt og viðvarandi trúskipti. Við munum verða betur undir það búin að takast á við storma og hamfarir lífsins á árangursríkan hátt. Við munum njóta þeirra gleði og hamingju sem lofuð eru. Og við munum njóta þess öryggis að líf okkar sé byggt á öruggum grundvelli ‒ grundvelli sem aldrei mun falla. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá „1989 Loma Prieta Earthquake,“ wikipedia.org/wiki/1989_Loma_Prieta_earthquake.