2010–2019
Látið ekki haggast!
Apríl 2013


Látið ekki haggast!

Verið óhagganlegar. Verið staðfastar. „Standið með sannleika og réttlæti.“ Verið vitni. Verið heiminum fordæmi. Standið á heilögum stöðum.

Í kvöld stend ég á heilögum stað í þessum ræðustól, í návist spámanna, sjáenda og opinberara, og kjörinna dætra Guðs. Þetta er stórkostlegur tími til að vera á jörðunni og vera ung kona. Þið eruð kjörnar dætur okkar himneska föður. Ég vona að þið skiljið hverjar þið eruð og hve elskaðar þið eruð af himneskum föður. Hann elskar hverja ykkar og það geri ég líka.

Á skrifborðinu í skrifstofunni minni er bronsstytta af ungri konu sem ber nafnið Kristina. Upprunalega höggmyndin af Kristinu í fullri líkamsstærð stendur við hafnargarð í Kaupmannahöfn, Danmörku, og þar horfir hún yfir hafið í átt til Síonar. Sú ákvörðun Kristinar að ganga í kirkjuna og yfirgefa heimkynni sín var ekki auðveld, og þið getið séð að sterkir mótvindar blésu gegn henni. Hún stendur óhagganleg, tekst á við afar erfiðar aðstæður og veit að hún er að gera hið rétta. Afkomendur hennar komu höggmyndinni fyrir á hafnargarðinum, til minningar um Kristinu, því að ákvörðun hennar þann dag hafði eilífar afleiðingar fyrir kynslóðir.

Mér finnst þessi höggmynd af Kristinu vera táknræn fyrir okkur allar. Þið eruð, líkt og Kristina, að byrja að takast á við margar mikilvægar ákvarðanir og daglega valkosti, sumt erfitt, sem mun ekki aðeins móta framtíð ykkar, heldur hafa áhrif á örlög kynslóða. Þið takist líka á við sterkan mótvind, andstreymi, þrýsting jafnaldra og spillt siðferði. En samt standið þið óhagganlegar og lifið eftir fagnaðarerindinu, þrátt fyrir geysandi storma samfélagsins. Þið eruð, líkt og Kristina, leiddar af heilögum anda. Þið eruð að taka réttar ákvarðanir. Þið eruð hollar og þið eruð göfugar.

Ég veit ekki um neina mikilvægari leiðsögn frá kærleiksríkum himneskum föður en þá viðvörun til okkar allra, að „[standa] ... á heilögum stöðum og [haggast] ekki.“1 Hann er að segja: Verið óhagganlegar. Verið staðfastar.2 „Standið með sannleika og réttlæti.“3 Verið vitni.4 Verið heiminum fordæmi. Standið á heilögum stöðum. Boðskapur minn til hverrar ykkar er einfaldur: Látið ekki haggast.

Í fyrsta lagi: Haggist ekki í því að velja hið rétta. Á þessum síðari dögum eru engar ákvarðanir smávægilegar. Það sem þið gerið einmitt nú skiptir afar miklum sköpum. Sjálfræði, eða hæfileikinn til að velja, er ein stærsta gjöf Guðs til barna sinna. Það er hluti af sæluáætluninni, sem við völdum og vörðum í fortilveru okkar. Hagið lífi ykkar þannig að þið fáið heyrt heilagan anda, og hann mun hjálpa ykkur að taka réttar ákvarðanir. Hann mun „segja yður að fullu, hvað yður ber að gjöra.“5

Fyrir nokkrum vikum fór ég í gamla unglingaskólann minn í fyrsta sinn í mörg ár. Ég sótti stikuráðstefnu sem haldin var í samkomusal skólans. Þegar ég gekk um gangana, tóku minningarnar að steyma í hugann. Ég mundi nákvæmlega hvernig mér leið þegar ég sótti skólann sem ung stúlka ‒ kvíðin, óörugg með sjálfa mig, feimin og þráði svo innilega að falla í hópinn. Ég gekk inn í samkomusalinn. Og aftur streymdu minningarnar í hugann. Ég þekkti hvern krók og kima salarins. Aðeins eitt hafði breyst ‒ ég sjálf.

Þennan dag gafst mér færi á að standa á sviðinu, líkt og ég hafði oft gert á skólaárunum sem nemendafulltrúi. Ég sá jafnvel sum fyrrverandi bekkjasystkin meðal áheyrenda ‒ suma sem ég hafði farið á stefnumót með! En í stað þess að stjórna samkomu, naut ég nú þeirra forréttinda ‒ þarna í samkomusal skólans ‒ að „standa sem vitni“6 og bera vitni um frelsara okkar, Jesú Krist.

Ungu konur, gætið þess að samband ykkar við aðra sé þess eðlis, að þið þurfið ekki að fyrirverða ykkur að 40 árum liðnum. Enginn þrýstingur jafnaldra, engin viðurkenning, engar vinsældir eru þess virði að miðla málum yfir. Áhrif ykkar á ungu mennina munu hjálpa þeim að verða verðugir þess að hafa kraft prestdæmisins, gera musterissáttmála og þjóna í trúboði. Og hver veit! Einn þeirra gæti gengið að ykkur í skólasalnum að 40 árum liðnum og þakkað ykkur fyrir að hafa hjálpað sér að verða verðugur þess að sinna þeirri prestdæmisábyrgð að þjóna í trúboði af heiðarleika. Og hver veit! Þið gætuð jafnvel fengið bréf frá einni eiginkonu þessara ungu manna, þar sem ykkur er þakkað fyrir áhrifin sem þið á námsárum ykkar höfðuð á eiginmann hennar og framtíðarfjölskyldu hans. Val ykkar skiptir máli. Það sem þið veljið nú hefur ekki aðeins áhrif á ykkur, heldur líka aðra. Það hefur eilíft gildi. Látið ekki haggast!

Í öðru lagi: Verið óbifanlegar í þeirri þrá ykkar og staðfestu að vera dyggðugar og kynferðislega hreinar. Varðveitið dyggðina. Persónulegur hreinleiki veitir ykkur mesta kraftinn. Þegar þið komuð til jarðarinnar var ykkur gefin hin dýrmæta gjöf, líkami. Líkami ykkar er verkfæri hugans og guðleg gjöf til að iðka sjálfræði ykkar. Satan hefur verið neitað um þessa gjöf og beinir nú nær öllum árásum sínum að líkama ykkar. Hann vill að þið lítilsvirðið, misnotið og misþyrmið líkama ykkar. Ósómi, klám, ósiðsemi, húðflúr og líkamsgötun, lyfjamisnotkun og hvers kyns ánetjun, er allt viðleitni til að reyna að yfirtaka þessa dýrmætu gjöf ‒ líkama ykkar ‒ og gera ykkur erfitt að iðka sjálfræði ykkar. Páll spurði: „Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í yður?”7

Líkami ykkar er musteri. Hvers vegna? Sökum þess að hann getur ekki aðeins verið eilífum anda ykkar bústaður, heldur líka þeim eilífu öndum annarra, sem koma til jarðarinnar og tilheyra ykkar eilífu fjölskyldu. Öldungur Dallin H. Oaks kenndi: „ Krafturinn til að skapa dauðlegt líf er upphafinn kraftur.“8 Hlutverk ykkar er upphafið hlutverk.Guð hefur sýnt ykkur heilagt traust! Þið eruð að búa ykkur undir að verða formæður komandi kynslóða. Haldið ykkur hreinum og verðugum og gætið þess sem „er kærast og dýrmætast alls“ ‒ hreinleika ykkar og dyggð.9 Leiðsögn himnesks föður til ykkar persónulega, sem kjörinna dætra hans, er að þið „[gangið] á vegi dyggðarinnar frammi fyrir [honum].“10

Dyggðin er hinn gullni lykill að musterinu. Í þriðja lagi: Látið ekki haggast í því að vera verðugar þess að gera og halda helga sáttmála. Sáttmálinn sem þið gerið við skírnina mun beina ykkur á veg dyggðar og hamingju, er þið endurnýið hann vikulega með því að meðtaka sakramentið. Þegar þið haldið skírnarsáttmála ykkar, skerið þið ykkur úr, klæðið ykkur öðruvísi og breytið öðruvísi en heimurinn. Þegar þið haldið þann sáttmála gerið þið heilögum anda kleift að leiða ykkur . Standið á heilögum stöðum og haldið ykkur fjarri umhverfi, tónlist, miðlum eða félagsskap, sem gæti valdið því að þið glötuðuð samfélagi heilags anda.11 Og þegar þið haldið sáttmála ykkar, verðið þið verðugar og undir það búnar að fara í heilagt musteri Drottins.

Í fjórða lagi: Látið ekki haggast í játningu ykkar á friðþægingu frelsarans. Friðþægingin er fyrir ykkur og mig. Hún er virkjandi og endurleysandi kraftur. Finnist ykkur þið ekki verðugar þess að standa á heilögum stöðum, skuluð þið ekki bera þá byrði deginum lengur. Okkur verður öllum á mistök í þessu lífi. Verið vissar um að frelsarinn elskar ykkur svo heitt, að hann gerði ykkur mögulegt að breytast og iðrast, ef ykkur verða á mistök. Satan vill ekki að þið trúið því að þið getið breyst.12 Hann reynir að telja ykkur trú um að allt sé glatað. Það er lygi. Þið getið komið til baka. Þið getið iðrast. Þið getið verið hreinar og heilagar, vegna hinnar óendanlegu friðþægingar frelsarans.

Leyfið mér nú að ljúka með einni stórbrotnustu ástarsögu sem sögð hefur verið. Þið gætuð spurt: „Hvernig tengist ástarsaga því að standa á heilögum stöðum?“ Hún hefur allt með það að gera, að standa á heilögum stöðum. Þetta er saga um unga konu að nafni Rebekka.13

Saga þessi segir frá því er Abraham bauð þjóni sínum að finna verðuga unga konu sem gæti orðið eiginkona Ísaks. Hún þurfti að vera hæf til að gera hjónabandssáttmála ‒ dyggðug, hrein og verðug. Hann sendi því þjón sinn í langa og háskalega ferð til staðar að nafni Haran. Ástæða þess að hann varð að fara þangað er ljós ‒ heilagir menn þurfa heilagar konur til að vera sér við hlið. Þegar þjónninn nálgaðist borgina Nahor, áði hann við brunn til að brynna úlföldum sínum og bað þess að hann yrði leiddur til réttrar konu, og að hann bæri kennsl á hana er hún byðist til þess að sækja honum og tíu úlföldum hans vatn. Ég hef setið á úlfalda og svo mikið veit ég ‒ að úlfaldar drekka heil ósköp af vatni!

Í 1. Mósebók lesum við að Rebekka hafi ekki aðeins farið að brunninum til að sækja vatnið, heldur hafi hún „flýtt sér“14 að vinna verk sitt.Þjónninn setti þá armbönd og skartgripi á Rebekku og spurði hvort rúm væri fyrir hann á heimili föður hennar. Ég er viss um að skartið hafði sitt að segja! Ritningin segir: „Stúlkan skundaði heim og sagði í húsi móður sinnar frá því, sem við hafði borið.“15 Rebekka hlýtur að hafa verið fótfrá!

Þjónninn sagði fjölskyldu Rebekku frá tilgangi sinnar löngu ferðar og Rebekka samþykkti að verða eiginkona Ísaks. Þjónninn hugðist fara daginn eftir með Rebekku, en fjölskylda hennar sárbað hana að dvelja hjá þeim hið minnsta í tíu daga. Þau spurðu Rebekku hvað hún vildi gera og svar hennar var einfaldlega: „Ég vil fara.“16 Er þetta svar í samhljóm við svör þúsunda sem hafa fúslega sagt „ég vil fara, ég vil fara,“17 eftir að spámaður okkar, Thomas S. Monson forseti, tilkynnti að ungir menn og konur ættu nú kost á að þjóna í trúboði á yngri aldri?

Hvert er svo siðgæði og lok þessarar ástarsögu. Rebekka var undirbúin og verðug þess að gera og halda helgan sáttmála og að verða sáttmálseiginkona Ísaks. Hún þurfti ekki að bíða og undirbúa sig sjálfa. Áður en hún fór úr foreldrahúsum var henni veitt blessun og mér finnast blessunarorðin áhrifamikil, því henni var heitið að hún yrði móðir „þúsundir þúsunda.“18 En besti hluti þessarar ástarsögu er þegar Rebekka og Ísak litu fyrst hvort annað augum. Þannig er það ekki orðað í Biblíunni, en ég held að það hafi verið ást við fyrstu sýn! Því að „dyggð elskar dyggð [og] ljós laðast að ljósi.“19 Þegar Ísak kom út til að taka á móti lestinni, sté Rebekka „jafnskjótt niður af úlfaldanum.20 Og svo segir: „Og hann elskaði hana.“21 Það er hér sem ég andvarpa!

Kristinu og Rebekku var ekki auðvelt að standa á heilögum stöðum. Að láta ekki haggast var ekki auðvelt. Mótvindurinn var sterkur, brunnvatnið þung byrði og vissulega var erfitt að fara frá sínum kunnugu heimahögum og fyrra líferni. En þær völdu hið rétta. Þær voru leiddar af heilögum anda. Þær voru dyggðugar og bjuggu sig undir að gera og halda helga sáttmála. Frelsarinn var af ætt Rebekku. Vissi hún þá að svo myndi verða? Nei! Skiptir val ykkar nú máli? Já!

Ungu konur, kynslóðir reiða sig á ákvarðanir ykkar, hreinleika ykkar og verðugt líferni. Látið ekki haggast. Ykkar bíða stórkostleg örlög. Þetta er ykkar tími! Ég trúi því að ein dyggðug stúlka, leidd af andanum, geti breytt heiminum!

Ég ber vitni um að frelsarinn lifir! Hann mun verða með ykkur. Hann mun greiða ykkur veg. Og á erfiðum stundum, munu „englar [verða] umhverfis yður, yður til stuðnings.“22 Í nafni Jesú Krists, amen.