Sleppa aðallóðsun
Apríl 2013 | Fallegir morgnar

Fallegir morgnar

Apríl 2013 Aðalráðstefna

Við þurfum ekki að óttast framtíðina, eða glata von okkar og gleði, því Guð er með okkur.

Fimmtudagskvöld eitt í Jerúsalem komu Jesús og lærisveinar hans saman í loftsal einum til að njóta páskahátíðar. Þeir sem með honum voru vissu ekki að þessi máltíð yrði dag einn nefnd síðasta kvöldmáltíðin. Þeir hefðu grátið hefðu þeir vitað það og hvaða þýðingu það hafði.

Meistari þeirra skildi hins vegar fullkomlega að eldraun Getsemane og Golgata myndi brátt hefjast. Myrkvustu stundir í sögu heimsins voru á næsta leiti, en þrátt fyrir það sagði Jesús við þá: „Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn“ (Jóh 16:33).

Við lifum á tíma umróts og óvissu, tíma sem Drottinn sagði við Enok að einkenndist af „dögum ranglætis og refsinga“ (HDP Móse 7:60). Vera má að þrengingar og erfiðir tímar séu framundan, en samt höfum við tilefni til að vera vonglöð. Við lifum á síðasta ráðstöfunartíma, þegar Guð hefur endurreist kirkju sína og ríki á jörðu, sem undirbúning að endurkomu sonar hans.

Boyd K. Packer forseti talaði um barnabörn sín og þann vaxandi erfiða heim sem þau byggju í. Hann sagði: „Þau munu sjá margt gerast á lífstíð sinni. Sumt af því krefst hugrekkis og sterkrar trúar. En ef þau biðja um hjálp og leiðsögn, munu þau öðlast kraft til að sigrast á mótlæti.“

Síðar bætti hann við: „Siðferðisgildin, sem siðmenningin sjálf hlýtur að reiða sig á, skrúfast niður á við með sívaxandi hraða. Þrátt fyrir það óttast ég ekki framtíðina“ („Do Not Fear,” Ensign eða Líahóna, maí 2004, 77, 78).

Bræður og systur, við þurfum ekki að óttast framtíðina, eða glata von okkar og gleði, því Guð er með okkur. Meðal þess fyrsta sem Jesús ráðlagði sínum nýju lærisveinum í Galíleu var tveggja orða hvatningin: „Óttast…ekki“ (Lúk 5:10). Hann endurtók þessa ráðgjöf mörgum sinnum í þjónustutíð sinni. Til hinna heilögu á okkar tímum hefur frelsarinn sagt: „Verið þess vegna vonglaðir og óttist ei, því að ég, Drottinn, er með yður og mun standa með yður“ (K&S 68:6).

Drottinn mun standa með kirkju sinni og fólki og veita þeim öruggi þar til hann kemur á ný. Friður mun ríkja í Síon og stikum hennar, því hann hefur sagt „að samansöfnunin á landi Síonar og í stikum hennar megi verða vörn og athvarf fyrir storminum og hinni heilögu reiði, þegar henni verður skilyrðislaust úthellt yfir gjörvalla jörðina“ (K&S 115:6).

Kirkjan stendur sem varnargarður öryggis fyrir meðlimi sína. Enda þótt aðstæður í heiminum geti orðið mjög erfiðar á köflum, þá munu trúfastir Síðari daga heilagir finna griðastað í stikum Síonar. Drottinn hefur sagt að steinninn sem losnaði úr fjallinu, án þess að nokkur mannshönd kæmi við hann, myndi áfram velta þar til hann tæki yfir alla jörðina (sjá Dan 2:31–45; K&S 65:2). Enginn mannleg hönd fær stöðvað hann, því Guð er höfundur þessa verks og Jesús Kristur er aðal hyrningarsteinninn.

Nefí sá í sýn að á síðustu dögum myndi máttur Guðslambsins koma yfir hina heilögu „og yfir sáttmálsþjóð Drottins“ og þeir yrðu „vopnaðir réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð“ (1 Ne 14:14).

Við öll og fjölskyldur okkar getum notað kraft Guðs okkur til varnar, ef við aðeins erum trúföst Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og látum andann leiðbeina okkur. Vera má að áskoranir komi og við skiljum kannski ekki allt sem gerist hjá okkur eða umhverfis okkur. En ef við auðmjúk og hljóðlát treystum Drottni, mun hann veita okkur leiðsögn og styrk í hverri áskorun þessa lífs. Við munum blessuð með auknum innri friði, þegar við þráum það eitt að þóknast honum.

Á fyrri tíma endurreisnarinnar tókust meðlimir kirkjunnar á við átakanlegar áskornir. Brigham Young forseti sagði um þann tíma: „Þegar ég var umkringdur múg, með ógnir dauða og tortímingar á allar hliðar, fæ ég ekki betur séð en ég hafi verið alveg jafn sæll og liðið jafn vel og mér líður nú. Útlitið gat verið óljóst og mjög svart, en ég hef aldrei upplifað neitt í fagnaðarerindinu án vitneskjunnar um að niðurstaðan yrði til heilla fyrir málstað sannleikans“ (Teachings of Presidents of the Church: Brigham Young [1997], 357).

Páll, trúboðsfélagi minn, var sá sem ætíð geislaði af gleði. Hann veiktist af mænusiggi þegar hann var nýorðinn faðir. Hann hélt áfram að þjóna öðrum með gleði og gáska, þrátt fyrir mótlætið sem á eftir fylgdi. Eitt sinn kom hann inn á skrifstofuna mína í sínum fyrsta hjólastól og sagði: „Í vélknúnum hjólastól hefst lífið fyrst!“ Ég mun aldrei gleyma því þegar hann í hjólastól sínum hélt ólympíueldinum hátt á lofti, nokkrum árum áður en hann lést, og mörg hundruð manns hylltu hann. Trú Páls, eins og þessi eilífi eldur, dofnaði aldrei í stormum lífsins.

Þegar ég var nemandi í Brigham Young háskólanum bjó ég í húsi með nokkrum öðrum ungum mönnum . Herbergisfélagi minn, Bruce, var bjartsýnasta manneskja sem ég hef kynnst. Við heyrðum hann aldrei segja neikvætt orð um neinn eða nokkrar aðstæður, og ógjörningur var annað en að uppörvast í nærveru hans. Glaðlyndi hans stafaði af varanlegu trausti á frelsaranum og fagnaðarerindinu.

Einn kaldan vetrardag gekk annar vinur minn, Tom, yfir háskólalóðina. Klukkan var aðeins sjö að morgni, háskólalóðin dimm og enginn á ferli. Það var mikil snjókoma og vindurinn blés kröftuglega. „Ömurlegt veður,“ hugsaði Tom með sér. Hann hélt áfram en utan úr myrkrinu og snjónum heyrði hann einhvern syngja.

Auðvitað var það hinn óendanlega bjartsýni vinur okkar, Bruce, sem kom gangandi í snjónum. Hann rétti hendur upp til himins og söng lag úr Broadway-söngleiknum Oklahoma: „Mildi og blessaði morgunn! Ég man ekki fallegri dag! Innst inni öruggur finn ég, allt gengur mér nú í hag“ (Richard Rodgers and Oscar Hammerstein II, „Oh, What a Beautiful Morning” [1943]).

Með árunum hefur þessi bjarta rödd í dimmum storminum orðið mér að tákni um það sem trú og von snúast um. Jafnvel í myrkum heimi getum við Síðari daga heilagir sungið með gleði, vitandi að kraftur himins er í kirkju Guðs og fólki hans. Við getum fagnað í vitneskjunni um að fallegur morgunn bíði okkar ‒ dagrenning þúsund ára ríkisins, þegar sonur Guðs mun rísa í austri og ríkja aftur á jörðu.

Ég hugsa líka um tvo aðra fallega morgna í sögu heimsins. Ungur maður að nafni Joseph Smith hélt út í trjálund á vormorgni einn fallegan og bjartan dag í Palmyra, New York, árið 1820 og kraup í bæn. Svarið við þeirri bæn, koma föðurins og sonarins, var upphafið að ráðstöfun í fyllingu tímans og endurreisn Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu á jörðu.

Enn annar fallegur morgun rann upp fyrir nærri 2000 árum, rétt fyrir utan gömlu og víggirtu borgina, Jerúsalem. Það er enginn vafi á því að sólin hafi skinið sérstaklega skært þennan páskadagsmorgun. Lítill hópur kvenna hafði farið að gröfinni í garðinum, í von um að smyrja lík síns krossfesta Drottins. Tveir englar tóku á móti þeim og sögðu: „Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra? Hann er ekki hér, hann er upp risinn“ (Lúk 24:5–6).

Ég ber vitni um sigur Jesú Krists yfir synd og dauða. Ég ber vitni um miskunnaráætlun okkar himneska föður og eilífan kærleik hans. Ég bið þess að við megum líta til himins í trú, er við rísum úr rekkju á hverjum morgni, og segja: „Mildi og blessaði morgun.“ Í nafni Jesú Krists, amen.

Right