Sleppa aðallóðsun
Apríl 2013 | Ná öldunni

Ná öldunni

Apríl 2013 Aðalráðstefna

Ég þakka Guði og syni hans, Jesú Kristi, fyrir endurreisnina og máttinn til að knýja fram stórkostlega öldu sannleika og réttlætis um heim allan.

Kæru bræður og systur, ég tek undir með Thomas S. Monson forseta og fleirum, og lofa þá sem hafa brugðist við kalli spámanns um fleiri verðuga trúboða. Nú liðast um heim allan fordæmislaus hrifningaralda fyrir trúboðsstarfi. Frá sögulegri tilkynningu Monsons forsesta í október síðastliðnum, hafa þúsundir öldunga og systra verið kölluð, og mörg eru þegar að vinna að undirbúningi.1 Nú fáum við spurningar líkt og: „Hvað eigum við að gera við alla þessa trúboða?“ Svarið er einfalt. Þeir gera það sem trúboðar hafa ávallt gert. Þeir boða fagnaðarerindið! Þeir munu blessa börn almáttugs Guðs!

Fleiri af ykkur, ungu mönnum og konum, munu ná þessari öldu, er þið kappkostið að vera verðug trúboðsköllunar. Þið sjáið þetta sem öldu sannleika og réttlætis. Þið sjáið tækifæri ykkar liggja í því að vera efst á öldunni.

Þið, æskufólkið, takist á við ykkar nýja námsefni og kennið hvert öðru kenningar Jesú Krists. Nú er ykkar tími til að búa ykkur undir að fræða aðra um góðvild Guðs.

Ungu menn og konur, menntun ykkar er afar mikilvæg ‒ fyrir okkur, ykkur og Guð. Sé það mögulegt, þá hvetjum við ykkur til að sækja um nám í menntastofnun, áður en þið farið í trúboð ykkar, ef þið óskið að fara í framhaldsskóla eða háskóla eftir trúboð ykkar, Margar æðri menntastofnanir veita væntanlegum trúboðum 18 til 30 mánaða frest á námi. Það gerir ykkur, öldungunum og systrunum, kleift að þjóna án þess að hafa áhyggjur af hver áframhaldandi menntun ykkar verður. Við erum afar þakklátir þeim leiðtogum og menntastofnunum sem gera slíkt mögulegt!

Þið, foreldrar, kennarar og aðrir, náið öldunni með því að búa okkar upprennandi kynslóð undir verðuga trúboðsþjónustu. Á meðan getur fyrirmyndar líferni ykkar vakið áhuga vina og nágranna. Verið undur það búin að svara þeim sem sem spyrja um ástæður þess að þið hagið lífi ykkar þannig. Verið undir það búin að gefa ástæður fyrir þeirri von og gleði sem þau sjá í ykkur.2 Þegar slíkar spurningar vakna, gætuð þið svarað með því að segja: „Spyrjum trúboðana að þessu! Þeir geta hjálpað okkur! Og ef þið viljið, get ég verið með ykkur við kennslu og svör trúboðanna.“

Þið, foreldrar, náið öldunni með því að hjálpa til við andlegan, líkamlegan og fjármálalegan undirbúning verðandi trúboða okkar. Að setja smápeninga í bauk, ætti að vera þáttur í slíkum undirbúningi. Þið, eldri hjón, ákveðið daginn sem þið getið farið í trúboð. Við verðum innilega þakklátir fyrir þjónustu ykkar. Fram að því gætu hugsanlega einhver ykkar sent peninga til trúboðsins, með því að gefa í Almennan trúboðssjóð, eins og Monson forseti hefur lagt til nú í morgun.3

Aukinn fjöldi valinna manna og kærra félaga þeirra, nær öldunni er þeir eru kallaðir í forsæti trúboðstöðva kirkjunnar. Í þeirri þjónustu munu þeir móta örlög borinna og óborinna kynslóða. Trúboðsforsetar bera lykilábyrgð á velferð, öryggi og velgengni trúboða sinna. Eftir að hafa ráðfært sig við stikuforseta og umdæmisforseta á trúboðssvæði sínu, felur hver trúboðsforseti trúboðum að þjóna í ákveðnum stikum, deildum og greinum.

Stikuforsetar og biskupar ná öldunni með því að verja stöðugt auknum tíma í viðtöl við væntanlega trúboða. Þessir prestdæmisleiðtogar bera lykilábyrgð á trúboðsstarfi í einingum sínum og hvetja meðlimi til þátttöku.

Bræður og systur í hverju deildarráði eru að ná öldunni. Í því ráði er deildartrúboðsleiðtogi.4 Ég beini máli mínu sérstaklega til ykkar, deildartrúboðsleiðtoganna. Þið hafið verið kallaðir af biskupi ykkar til að leiða trúboðsstarfið í deildinni. Og sumir hafið þið náð slíkum árangri, að aðstoðarmaður hefur verið kallaður ykkur til hjálpar. Ásamt öðrum í deildarráði tilgreinið þið líttvirka meðlimi, fjölskyldur sem að hluta eru kirkjuþegnar, og áhugasamt fólk. Þið eigið fund reglubundið með fastatrúboðum deildarinnar. Þið leiðbeinið og hjálpið trúboðunum. Hjálpið þeim vinsamlegast að fylla skipulagsbækur sínar af þýðingarmiklum kennslutækifærum. Það er ykkar ábyrgð. Hlutverk ykkar er sannlega þýðingarmikið, svo að verkið verði árangursríkt. Ef þið náið öldunni í trú og af áhuga, munu aðrir gera það líka. Þið, sem deildartrúboðsleiðtogar, eruð tengiliðir milli meðlima og trúboða í því helga verki, að bjarga börnum Guðs.5

Leitandi vinir okkar og nágrannar, sem ekki eru okkar trúar, geta líka náð öldunni. Við hvetjum þá til að halda öllu góðu og sönnu í lífi sínu. Og við bjóðum þeim meira, einkum þann dýrðlega sannleika, að fyrir eilífa áætlun Guðs geta fjölskyldur verið saman að eilífu.6

Þessi alda sannleika og réttlætis, er dásamleg! Hún er ekki gerð af manna höndum! Hún er frá Drottni, sem sagði: „Ég mun hraða verki mínu þegar að því kemur.“7 Þessa guðlegu öldu má rekja til guðlegrar tilkynningar, sem gefin var fyrir 193 árum. Hún samanstendur af aðeins átta orðum: „Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð á hann!“8 Almáttugur Guð gaf þessa tilkynningu, og kynnti hinn unga Joseph Smith fyrir Drottni, Jesú Kristi. Þessi átta orð voru innleiðing hins endurreista fagnaðarerindis hans. Hvers vegna? Vegna þess að okkar lifandi Guð er kærleiksríkur Guð! Hann vill að börn sín þekki sig og Jesú Krist, sem hann sendi!9 Og hann vill að börn sín hljóti ódauðleika og eilíft líf!10

Í þessum dýrðlega tilgangi kenna trúboðar okkar um endurreisnina. Þeir vita að Drottinn stofnaði kirkju sína fyrir 2000 árum. Eftir krossfestinguna og dauða postulanna, gerðu menn breytingar á kirkjunni og kenningu hennar. Síðan, eftir aldalangt andlegt myrkur, og líkt og fyrri spámenn höfðu sagt fyrir um,11 endurreistu himneskur faðir og Jesús Kristur kirkjuna, kenningu hennar og prestdæmisvaldið. Sökum þessarar endurreisnar eru þekking og nauðsynlegar helgiathafnir sáluhjálpar og upphafningar enn á ný tiltækar öllum mönnum.12 Sú upphafning mun að lokum gera okkur öllum kleift að dvelja ævarandi með fjölskyldu okkar í návist Guðs og Jesú Krists!

Ég get ekki rætt um endurreisnina í hlutlausum tón. Þessi staðreynd sögunnar er algjörlega töfrandi! Hún er ótrúleg! Hún er hrífandi! Hve dásamlegt það er, að sendiboðar komu frá himni til að glæða þetta verk valdi og mætti.

Okkar eilífi faðir og Jesús Kristur birtust spámanninum Joseph Smith ótal sinnum.13 Fleiri himneskir sendiboðar komu undir þeirra stjórn, hver í sínum sérstaka tilgangi. Dæmi:

  • Engillinn Moróní opinberaði Mormónsbók.14

  • Jóhannes skírari endurreisti Aronsprestdæmið.15

  • Pétur, Jakob og Jóhannes endurreistu Melkísedeksprestdæmið.16

  • Móse afhenti lykla til samansöfnunar Ísraels.17

  • Elías afhenti lykla þekkingar varðandi Abraham.18

  • Elía endurreisti lykla innsiglunarvaldsins.19

Auk þess jók endurreisnin við þá þekkingu sem hinir heilögu höfðu til forna. Drottinn veitti nýja ritningarbók. Við Biblíuna bætti hann Mormónsbók: Annað vitni um Jesú Krist. Hún er heimild um spádóma og þjónustu hins upprisna Drottins við fólk í Ameríku til forna. Hún útskýrir hina miklu sæluáætlun Guðs20 ‒ sáluhjálparáætlunina.21 Mormónabók er í algjöru samræmi við Biblíuna. Báðar þessar helgu heimildir staðfesta sannleika fagnaðarerindis Jesú Krists og mikilvægi friðþægingar hans.22

Endurreisnin uppfyllir marga spádóma Biblíunnar. Jesaja spáði til að mynda því, að hús Drottins yrði endurreist á fjallstoppi.23 Brottför frumbyggja mormóna til fjallanna í Vestur-Ameríku er gefandi saga um fórn og trú. Jesaja sagði líka fyrir um, að Guð myndi gera margt „undursamlega og undarlega.“24 Það er nú að uppfyllast með hinu helga verki okkar vaxandi fjölda trúboða.

Kenningar Gamla testamentisins um tíundina hafa verið endurreistar.25 Af því leiðir að fleiri tíundargreiðendur njóta blessunar vegna hlýðni sinnar. Tilvísanir í Melkísedek eru úrskýrðar í ritningarversum um endurreisnina.26 Spádómar um að stafur Jósefs (Mormónsbók) og stafur Júda (Biblían) yrðu sem einn stafur í hendi Guðs, hafa nú uppfyllst.27

Endurreisnin útskýrir líka ritningarvers í Nýja testamentinu. Tilvísun þess í skírn fyrir hina dánu er nú betur skilin.28 Helgiathafnir fyrir látin ættmenni okkar eru nú framkvæmdar af staðgenglum í 141 musteri víða um heim! Engin önnur leið færir þeim áum okkar sáluhjálp, sem dóu án þekkingar á fagnaðarerindinu!29 Sýn Jóhannesar um „annan engil fljúga um háhvolf himins. [Sem] hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa,“ sagði fyrir um hlutverk engilsins Morónís og Mormónsbókar.30

Mormónsbók er þungamiðja endurreisnarinnar. Hún var skrifuð, varðveitt og henni dreift undir handleiðslu Drottins. Hún var þýdd „með gjöf og krafti Guðs.“31 Ritið Kenning og sáttmálar geymir fleiri opinberanir sem gefnar voru spámanninum Joseph Smith. Með honum höfum við hlotið fleiri ritningarsíður en með nokkrum öðrum spámanni. Á stund sem hlýtur að hafa verið angurvær, sagði hann við hina heilögu í Nauvoo í Illinois: „Ég hef aldrei sagst vera fullkominn, en enga villu er að finna í opinberununum sem ég hef kennt.“32

Saman bjóða meðlimir og trúboðar öllum að læra um Guð, Jesú Krist og fagnaðarerindi hans. Sérhver leitandi einstaklingur ætti að leita einlæglega og biðja heitt um fullvissu fyrir því að þessir hlutir séu sannir. Sannleikurinn mun staðfestur með krafti heilags anda.33

Ég þakka Guði og syni hans, Jesú Kristi, fyrir endurreisnina og máttinn til að knýja fram stórkostlega öldu sannleika og réttlætis um heim allan. Megum við ná þessari öldu og uppfylla boðorð Drottins um að færa fagnaðarerindið „sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð,“34 Ég bið þess í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir