Sleppa aðallóðsun
Apríl 2013 | Hvað til heimilisfriðar heyrir

Hvað til heimilisfriðar heyrir

Apríl 2013 Aðalráðstefna

Ein sú mesta blessun sem við getum boðið heiminum er kraftur kristilegs heimilis, þar sem fagnaðarerindið er kennt, sáttmálar haldnir, og kærleikurinn ríkir.

Margradda kór þess heims sem við lifum í segir okkur að við eigum að lifa lífi okkar með ógnarhraða. Það er sífellt meira að gera og fleira að afreka. Samt blundar innra með okkur öllum þörf fyrir að eiga athvarf þar sem friður og hugarró ríkir, stað þar sem við getum stillt okkur af, náð áttum og safnað kröftum fyrir átökin framundan.

Tilvalinn staður fyrir þann frið er innan veggja okkar eigin heimilis, þar sem við höfum gert allt sem við getum til að einbeita okkur að Drottni Jesú Kristi.

Á sumum heimilum er faðir sem er verðugur prestdæmishafi, ásamt trúfastri og tryggri móður, er saman leiða börn sín í réttlæti. Mörg heimili eru öðruvísi samansett. Hverjar svo sem aðstæður ykkar eru, getið þið gert Drottin Jesú Krist að þungamiðju í lífi ykkar og heimili, því hann er hin sanna uppspretta friðar í þessu lífi.

Fullvissið ykkur um að allar ákvarðanir ykkar, hvort sem þær eru stundlegar eða andlegar, byggist á því sem frelsarinn vill að þið gerið. Þegar hann er þungamiðja heimilisins, ríkir þar kyrrð og friðsæld. Heimilið fyllist þá anda rósemi og fullvissu, sem allir er þar dvelja skynja jafnt.

Að fylgja þessari ráðgjöf hvílir ekki eingöngu á foreldrunum, þótt þeirra sé að leiða. Börn geta borið þá ábyrgð að bæta kristlega eiginleika á heimilinu. Mikilvægt er að foreldrar geri börnunum grein fyrir því hvernig gerðir þeirra hafa áhrif á hvern einstakan sem á heimilinu dvelur. Börn sem læra að bera ábyrgð á gjörðum sínum, hvort sem þær eru réttmætar eða ekki, vaxa upp sem trúverðugir þegnar Guðs ríkis.

Ég er viss um að þið þekkið þær grundvallarreglur sem beina heimili ykkar að frelsaranum. Spámannleg ráðgjöf um að flytja einkabænir og fjölskyldubænir, læra daglega ein og með fjölskyldunni í ritningunum, og hafa vikuleg fjölskyldukvöld, eru nauðsynlegar burðarstoðir kristilegs heimilis. Án þessarar reglubundnu iðju verður erfitt að finna hinn þráða og bráðnauðsynlega frið og athvarf frá umheiminum.

Verið hlýðin þeim spámannlegu kenningum sem Kristur vill að þið fylgið. Stefnið ekki framtíðarhamingju ykkar í voða með því að stytta ykkur leið fram hjá traustum reglum fagnaðarerindisins. Hafið í huga: Hið smáa leiðir til hins stærra. Yfirsjónir eða vanræksla sem virðist smávægileg getur leitt til meiriháttar vandamála. Og það sem meira er um vert, einfaldar, viðvarandi, góðar venjur leiða til blessunarríks lífs.

Þið börnin í Barnafélaginu, þið piltar og stúlkur í ungmennastarfinu, og þið traustu trúboðar sem þjónið, nú gerið þið margt á árangursríkari hátt en mér var unnt er ég var á ykkar aldri. Í fortilverunni reyndust þið hugdjörf, hlýðin og hrein. Þar unnuð þið hörðum höndum að því að þroska eiginleika og hæfni sem búa myndi ykkur undir að takast á við hið dauðlega líf með hugrekki, sæmd, heiðri og árangri.

Fyrir ekki svo löngu komuð þið inn í hið dauðlega líf með alla þessa stórfenglegu eiginleika og óendanlegu möguleika. Samt er ykkur raunveruleg hætta búin í umhverfi ykkar. Ykkar miklu möguleikar og hæfni geta takmarkast eða eyðilagst, ef þið látið undan djöfullegri spillingunni umhverfis ykkar. Á hinn bóginn stenst Satan engan veginn frelsaranum snúning. Örlög Satans eru þegar ráðin. Hann veit að hann hefur tapað, en hann vill taka eins marga og hann getur með sér. Hann mun reyna að rústa góðvild ykkar og getu með því að nýta sér veikleika ykkar. Haldið ykkur Drottins megin, og þið munuð vinna hverja orrustu.

Þið lifið í heimi þar sem tæknin þróast með undraverðum hraða. Það er erfitt fyrir marga af minni kynslóð að fylgjast með möguleikunum. Þessi þróun getur verið blessun eða hindrun, eftir því hvernig þessari tækni er beitt, . Tækniaðferðir, rétt skildar og notaðar í réttlátum tilgangi, þurfa ekki að vera ógnun heldur fremur andlegum samskiptum til framdráttar.

Mörg erum við til að mynda með eigin rafeindatæki sem komast fyrir í vasa okkar. Við skiljum þau sjaldan við okkur; við leitum til þeirra mörgum sinnum á dag. Til allrar óhamingju geta þessi tæki verið uppspretta óþverra og tímasóunar. En, notuð með aga, getur þessi tækni verið verkfæri til verndar frá hinu versta í samfélaginu.

Hver hefði getað ímyndað sér fyrir örfáum árum að heildarútgáfa helgiritanna og árgangar aðalráðstefnuræðanna myndu rúmast í vasa fólks? Bara það að hafa þær í vasanum verndar okkur ekki, en nám í þeim, ígrundun, og hlustun á þær á kyrrlátum stundum dag hvern, mun efla samskipti með andanum.

Verið vitur þegar þið takið tæknina í þjónustu ykkar. Auðkennið mikilvægar ritningargreinar í tækinu ykkar og skoðið þær oft. Ef þið unga fólkið mynduð skoða ritningarvers eins oft og þið sendið textaskilaboð, mynduð þið leggja hundruð ritningarversa á minnið. Þau vers myndu verða öflug uppspretta innblásturs og leiðbeiningar frá heilögum anda þegar á bjátar.

Að gera allt sem við getum til að bjóða ljúfum áhrifum heilags anda inn í líf okkar er afgerandi þáttur í að helga heimili okkar frelsaranum. Að hlýða þeim ábendingum styrkir okkur enn meira.

Þið munuð öðlast enn meiri frið þegar þið af hlýðni tengið starf ykkar þjónustu í þágu þeirra sem umhverfis ykkur eru. Fjöldi einstaklinga sem telja sig hafa fremur takmarkaða hæfileika, nota þó í auðmýkt og af örlæti þá hæfileika til að blessa líf þeirra sem þeir umgangast. Eigingirni er rót mikillar illsku. Mótefnið við þeirri illsku má finna í fordæmi frelsarans. Hann sýnir hvernig beina á lífi sínu út á við í óeigingjarnri þjónustu við aðra.

Ég hef lært sannleika sem hefur verið endurtekinn svo oft í lífi mínu að fyrir mér er hann algjört lögmál. Hann skilgreinir hvernig hlýðni og þjónusta tengjast krafti Guðs. Þegar við hlýðum boðorðum Drottins og þjónum börnum hans á óeigingjarnan hátt, birtist náttúrleg afleiðing þess sem kraftur frá Guði ‒ kraftur til að áorka meiru en við sjálf fáum áorkað. Innsæi okkar, hæfileikar okkar, geta okkar, allt eykst það vegna þess að við hljótum styrk og kraft frá Drottni. Kraftur hans er grundvallarþáttur í stofnun heimilis þar sem friður ríkir.

Þegar þið byggið heimili ykkar á frelsaranum, mun það eðlilega verða skjól, ekki aðeins fyrir ykkar eigin fjölskyldu, heldur einnig fyrir vini sem búa við erfiðari aðstæður. Þeir munu laðast að þeirri friðsæld sem þeir finna þar. Bjóðið slíka vini velkomna á heimili ykkar. Þeir munu blómstra í slíku kristilegu umhverfi. Gerist vinir vina barna ykkar. Verið þeim verðug fyrirmynd.

Ein sú mesta blessun sem við getum boðið heiminum er kraftur kristilegs heimilis, þar sem fagnaðarerindið er kennt, sáttmálar haldnir, og kærleikurinn ríkir.

Að aflokinni trúboðsferð fyrir mörgum árum, sagði kona mín, Jeanene, frá öldungi sem hún hafði hitt. Jeanene hafði spurt hann um fjölskyldu hans. Hún varð undrandi þegar hann svaraði að hann ætti enga fjölskyldu. Hann útskýrði það nánar, að við fæðingu hefði móðir hans afhent hann stjórnvöldunum til uppeldis. Á bernskárunum fór hann frá einu fósturheimili til annars. Sem unglingur hlaut hann þá blessun að kynnast fagnaðarerindinu. Kærleiksrík deildarfjölskylda hafði hjálpað honum að fá tækifæri til að þjóna í trúboði.

Síðar spurði Jeanene eiginkonu trúboðsforsetans um þennan góða öldung. Hún fékk að vita að nokkrum mánuðum fyrr hafði þessi öldungur dvalið á trúboðsheimilinu í nokkra daga vegna veikinda. Á þeim tíma tók hann þátt í fjölskyldukvöldi með þeim. Áður en hann fór aftur út á trúboðsakurinn, spurði hann trúboðsforsetann hvort hann mætti eyða tveimur eða þremur dögum við lok trúboðs síns á trúboðsheimilinu. Hann vildi kynnast því hvernig kristileg fjölskylda virkar. Hann vildi geta mótað sína fjölskyldu eftir þeirra.

Gerið allt sem þið getið til að eiga slíkt heimili. Teygið ykkur til þeirra sem búa við erfiðar aðstæður. Verið sannir vinir. Slík viðvarandi vinátta er eins og malbikið sem fyllir holurnar á vegi lífsins og gerir ferðina hnökralausari og ánægjulegri. Hún á ekki að vera aðferð til persónulegs ábata heldur mikils metinn fjársjóður sem útdeilt er. Bjóðið velkomna á heimili ykkar aðra sem þarfnast þess að styrkjast af slíkri reynslu.

Ég hef að lokum fram að færa nokkrar hugmyndir fyrir þá sem elska fjölskyldumeðlim sem ekki er að velja rétt. Það getur reynt á þolinmæði okkar og þrautseygju. Við þurfum að treysta á Drottin og tímasetningu hans svo að jákvætt svar fáist við bænum okkar og björgunaraðgerðum. Við gerum allt sem við getum til að þjóna, til að blessa, og auðmjúklega viðurkenna vilja Guðs í öllu. Við iðkum trú og minnumst þess, að sumt er best geymt í höndum Drottins. Hann býður okkur að létta af okkur byrðum okkar við fótskör hans. Með trú megum við vita að sá villuráfandi er ekki einn og yfirgefinn, heldur í umsjá kærleiksríks frelsara.

Komum auga á hið góða í fari annarra, ekki vansæmd þeirra. Stundum þarfnast vansæmdin réttra aðgerða til að hreinsast, en byggið alltaf á dyggðum hans eða hennar.

Þegar ykkur finnst aðeins vera örmjór þráður vonar, er þar ekki bara þráður, heldur öflugur hlekkur samtengingar, líkt og björgunarbelti sem styrkir og lyftir. Hann mun veita huggun svo að þið getið hafnað óttanum. Keppist við að lifa verðugu lífi og leggið traust ykkar á Drottin.

Við þurfum heldur ekki að hafa áhyggjur af því að geta ekki gert samtímis alla þá hluti sem Drottinn hefur ráðlagt okkur að gera. Hann talaði einnig um stað og stund fyrir alla hluti. Sem svar við einlægum bænum okkar um leiðsögn, mun hann benda okkur á hver skulu vera áhersluatriðin í lífi okkar á hverju lífsskeiði. Við getum lært og vaxið, og gerst líkari honum með einu skrefi af öðru.

Ég ber því vitni um að hlýðni, tryggilega grunduð á fagnaðarerindi Jesú Krists, veitir okkur bestu trygginguna fyrir friði og skjóli á heimilum okkar. Enn verða miklar áskoranir og hugarangur, en jafnvel mitt í þrengingum munum við njóta innri friðar og djúprar hamingju. Ég ber vitni um að friðþæging Jesú Krists er uppspretta þessa ríkulega friðar, í nafni Jesú Krists, amen.