Sleppa aðallóðsun
Apríl 2013 | Fernskonar nafnbætur

Fernskonar nafnbætur

Apríl 2013 Aðalráðstefna

Mig langar til að benda á fernskonar nafnbætur … sem geta hjálpað okkur að skilja einstaklingsbundið hlutverk okkar í eilífri áætlun Guðs, og möguleika okkar sem prestdæmishafa.

Kæru bræður mínir og ástkæru vinir, hjarta mitt er þrungið þakklæti og gleði yfir að vera hér með ykkur. Ég hrósa ykkur, feðrum og öfum, sem komið hafið með syni ykkar og syni barna ykkar. Ég fagna ykkur piltar, sem hafið valið að vera hér í dag. Þetta er staðurinn fyrir ykkur. Ég vona að þið finnið bræðralagið sem sameinar okkur, og ég bið þess að ykkur finnist þið eiga heima hér á meðal bræðra ykkar, og þið finnið stuðning og vináttu.

Við karlmennirnir finnum okkur stundum ýmiss konar nafnbætur. Margir höfum við fjölmargar, og hver þeirra segir eitthvað um persónueinkenni okkar. Til dæmis lýsa sumar nafnbætur hlutverki okkar í fjölskyldunni, svo sem sonur, bróðir, eiginmaður, og faðir. Aðrar nafnbætur lýsa viðfangsefnum okkar í heiminum, svo sem doktor, hermaður, eða iðnaðarmaður. Og sumar lýsa stöðu okkar innan kirkjunnar.

Í dag langar mig að benda á fernskonar nafnbætur sem ég trúi að tilheyri öllum prestdæmishöfum í heiminum - nafnbætur sem geta hjálpað okkur að skilja einstaklingsbundið hlutverk okkar í eilífri áætlun Guðs og möguleika okkar sem prestdæmishafa í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Sonur himnesks föður

Ein sú nafnbót sem skilgreinir okkur með mjög afgerandi hætti er sonur himnesks föður. Hvað svo sem við erum að gera eða gerum í lífinu, megum við aldrei gleyma að við erum bókstaflega andabörn Guðs. Við vorum börn hans áður en við komum í þennan heim, og við munum verða börn hans til eilífðar. Sá grundvallarsannleikur breytir sjálfsvitund okkar og viðhorfi til bræðra okkar og systra, og lífsins yfirleitt.

Því miður stendur enginn okkar fyllilega undir öllu því sem þessi nafnbót felur í sér, því „allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“1

Það getur stundum dregið úr okkur kjark að vita hvað felst í því að vera sonur Guðs án þess að standa undir því. Andstæðingnum líkar vel að hagnýta sér slíkar tilfinningar. Satan vill frekar að þið skilgreinið ykkur sjálfa út frá syndum ykkar, en guðlegum möguleikum. Bræður, ljáið honum ekki eyra.

Við höfum öll séð ungbarn læra að ganga. Það tekur stutt skref og reikar í spori. Það dettur. Finnum við að slíkum tilraunum? Auðvitað ekki. Hvaða faðir mundi refsa ungbarni fyrir að hrasa? Við hvetjum, klöppum lof í lófa, og við hrósum, vegna þess að með hverju litlu skrefi, tekur barnið að líkjast meira foreldrum sínum.

Nú er það svo, bræður, að samanborið við fullkomnun Guðs, erum við jarðneskir varla meira en vandræðaleg, hrasandi smábörn. En okkar kærleiksríki himneski faðir vill að við verðum líkari honum og, kæru bræður, það ætti líka að vera eilífðarmarkmið okkar. Guð skilur að við komumst ekki þangað í einu vetfangi heldur með því að taka eitt skref í einu.

Ég trúi ekki á Guð sem mundi setja reglur og boðorð, aðeins til að bíða eftir því að okkur mistakist svo hann geti refsað okkur. Ég trúi á himneskan föður sem er elskuríkur og umhyggjusamur og sem gleðst yfir tilraunum okkar til að standa upprétt og ganga í fang honum. Jafnvel þegar við hrösum, hvetur hann okkur til að láta ekki hugfallast — gefast aldrei upp eða flýja af okkar afmarkaða hólmi í þjónustunni – heldur sækja í okkur veðrið, efla trú okkar, og halda áfram að reyna.

Faðir okkar á himnum kennir börnum sínum og sendir iðulega ósýnilega himneska hjálp til þeirra sem þrá að fylgja frelsaranum.

Lærisveinn Jesú Krists

Og það leiðir okkur að næstu nafnbótinni sem við allir berum: Allir sem af einlægni reyna að fylgja Kristi eru kallaðir lærisveinar hans. Þótt okkur sé ljóst að enginn okkar er fullkominn, notum við ekki þá staðreynd sem afsökun til að lækka kröfurnar til okkar sjálfra, lækka staðalinn, fresta degi iðrunar, eða láta undir höfuð leggjast að þroskast í fullkomnari og fágaðri fylgjendur meistara okkar.

Verum þess minnug, að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er reist, ekki fyrir karla eða konur, sem eru fullkomin eða verða ekki fyrir áhrifum dauðlegra freistinga, heldur er hún reist fyrir fólk sem er nákvæmlega eins og þið og ég. Og hún er reist á bjargi frelsara okkar, Drottins Jesú Krists,2 en með friðþægingu hans getum við hreinsast og orðið „samþegnar … og heimamenn Guðs.“3

Án friðþægingar Jesú Krists væri lífið í öngstræti án vonar eða framtíðar. Með friðþægingunni er lífið göfgandi, innblásin ferð vaxtar og þroska, sem leiðir til eilífs lífs í návist föður okkar.

En þótt friðþægingunni sé ætlað að hjálpa okkur öllum að verða líkari Kristi, er ekki meiningin sú að við verðum öll eins. Stundum ruglum við saman mismun á persónuleika og synd. Okkur hættir jafnvel til að halda, að af því að einhver er ólíkur okkur, hljóti það að þýða að viðkomandi sé ekki Guði að skapi. Slíkur þankagangur fær suma til að trúa að kirkjan vilji steypa alla í sama mót — að hver um sig eigi að líta út, finna til, hugsa, og hegða sér alveg eins og allir hinir. Þetta fengi ekki staðist snilligáfu Guðs, sem skapaði sérhvern mann frábrugðinn bróður sínum, hvern son frábrugðinn sínum föður. Jafnvel eineggja tvíburar eru ekki eins hvað persónuleika varðar og andleg einkenni.

Þetta stangast einnig á við ætlan og tilgang Kirkju Jesú Krists, sem viðurkennir og verndar siðrænt sjálfræði - með öllum víðtækum afleiðingum þess — til handa hverju og einu barni Guðs. Sem lærisveinar Jesú Krists sameinumst við í vitnisburði okkar um endurreist fagnaðarerindið og þá skuldbindingu að halda boðorð Guðs. En fjölbreytileiki okkar kemur fram í menningarlegu, félagslegu og pólitísku vali okkar.

Kirkjan blómstrar þegar við nýtum okkur þessa fjölbreytni og hvetjum hvert annað til að þroska og nota hæfileika okkar til að lyfta og styrkja meðlærisveina okkar.

Bræður, lærisveinshlutverkið er ævilöng ferð í að fylgja frelsaranum. Á leið okkar, sem líkja mætti við ferð frá Betlehem til Golgata, bjóðast okkur mörg tækifæri til að gefast upp. Stundum mun svo virðast sem leið okkar geri meiri kröfur til okkar en við hefðum óskað okkur. En sem menn prestdæmisins verðum við að hafa hugrekki til að fylgja lausnara okkar, jafnvel þegar kross okkar virðist of þungur að bera.

Í hverju skrefi sem við stígum er við fylgjum syni Guðs, kunnum við að vera minnt á að við erum enn ekki fullkomin. En verum samt staðfastir og stöðugir lærisveinar. Gefumst ekki upp. Höldum sáttmála okkar. Missum aldrei sjónar á málsvara okkar og lausnara, þegar við göngum til hans, eitt ófullkomið skref í einu.

Læknir sálna

Bræður, ef við sannlega fylgjum Drottni Jesú Kristi, verðum við að taka á okkur þriðju nafnbótina: Læknir sálna. Við sem vígðir höfum verið til prestdæmis Guðs erum kallaðir til að ástunda „læknislistina.“4

Verk okkar snýst um að byggja upp, lagfæra, styrkja, upplyfta, og gera hið brotna heilt. Verkefni okkar er að fylgja fordæmi frelsarans og teygja okkur til þeirra sem þjást. Við „syrgjum með syrgjendum og huggum þá sem huggunar þarfnast.“5 Við búum um sár þeirra sem um sárt eiga að binda. Við „[styðjum] þá óstyrku, [lyftum] máttvana örmum og [styrkjum] veikbyggð kné.“6

Sem heimiliskennarar erum við læknar. Sem prestdæmisleiðtogar erum við læknar. Sem feður, synir, bræður, og eiginmenn, ættum við að vera einbeittir og staðfastir læknar. Við berum í annarri hendi ílát með helgaðri olíu til blessunar hinum sjúku, í hinni berum við brauðhleif til að næra hina hungruðu: og í hjarta okkar berum við friðarboðskap Guðs, „sem læknar hrjáða sál.“7

Þetta er fyrsta og fremsta ábyrgð okkar sem prestdæmishafa — og það á bæði við um Aronsprestdæmishafa og Melkísedeksprestdæmishafa. Endurreist fagnaðarerindi Jesú Krists blessar líf, ekki bara þegar við trúum því — heldur miklu fremur þegar við lifum eftir því. Hlýðnin við reglur fagnaðarerindisins lyftir einstaklingum og styrkir fjölskyldur. Það eru forréttindi okkar og ábyrgð að láta ekki nægja orðin tóm, heldur einnig að vinna verkið.

Frelsarinn vann kraftaverkin. Hann er hinn mikli læknir. Hann er fyrirmynd okkar, ljós okkar, jafnvel á hinum myrkustu stundum, og hann sýnir okkur réttu leiðina.

Fylgjum honum. Rísum í hlutverki okkar og gerumst læknar með því að þjóna Guði og meðbræðrum okkar.

Erfingi eilífs lífs

Fjórða nafnbótin sem við allir berum minnir okkur á þá fyrstu á listanum okkar. Sem synir okkar himneska föður, erum við erfingjar að öllu sem hann á.

„Sjálfur andinn vitnar með vorum anda, að vér erum Guðs börn.

En ef vér erum börn, þá erum vér líka erfingjar, og það erfingjar Guðs, en samarfar Krists, því að vér líðum með honum, til þess að vér einnig verðum vegsamlegir með honum.“8

Hugið að þessu, ástkæru bræður mínir. Við erum samarfar Krists!

Er þá nokkurt vit í því að margir okkar eyði svo miklu af dýrmætum tíma sínum, hugsunum, efnum og orku í eftirsókn eftir virðingu eða veraldlegum auðæfum, eða í að skemmta sér í nýjustu og svölustu rafeindatækjunum?

Drottinn hefur gefið okkur hið guðlega loforð, að „hver sá, sem af staðfestu hlýtur þessi tvö prestdæmi, … og eflir köllun sína, … [mun] taka á móti mér, segir Drottinn – Og sá sem tekur á móti mér, tekur á móti föður mínum – … Fyrir því mun allt sem faðir minn á, verða honum gefið.“9

Mér er ofviða að gera mér grein fyrir öllu því sem í þessu loforði felst. En ég veit þó að það er stórfenglegt, það er guðlegt, það er eilíft, og það er virði alls erfiðis í þessu lífi.

Hvernig getum við þá, með þessa vitneskju, leitt það hjá okkur að þjóna Drottni og meðbræðrum okkar fúsir og glaðir, og gangast við ábyrgð okkar í prestdæmi Guðs?

Þetta er hið göfugasta starf sem reyna mun á okkur í öllum skilningi og á alla okkar hæfileika. Þráum við að sjá himnana opnast og verða vitni að því er heilagur andi vísar okkur veginn? Tökum þá upp sigð okkar og leggjum okkur fram við þetta mikla verk ‒ þennan málstað sem er langtum stærri en við sjálfir!

Að þjóna Guði og meðbræðrum okkar verður okkur áskorun og mun breyta okkur yfir í eitthvað meira en við nokkru sinni töldum mögulegt.

Ef til vill kunnið þið að halda að ykkar sé ekki þörf, að litið sé framhjá ykkur eða enginn áhugi sé fyrir ykkur, að þið séuð ekkert.

Það hryggir mig einlæglega ef einhver prestdæmishafi hefur þá tilfinningu. Örugglega er hvorki horft framhjá ykkur né skortir áhuga hjá himneskum föður ykkar. Hann elskar ykkur. Og ég segi ykkur af fyllsta öryggi, að það er þörf fyrir ykkur í kirkjunni.

Eða vitið þið ekki að „Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur heimsku, til að gjöra hinum vitru kinnroða, og Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur veikleika til að gjöra hinu volduga kinnroða?“10

Má vera að við séum veikir. Má vera að við séum ekki vitrir eða voldugir. En þegar Guð vinnur með okkur, fær enginn, já, ekkert, staðist gegn okkur.11

Þess vegna er þörf fyrir ykkur. Þið hafið ykkar eigið sérstaka framlag til málanna að leggja, og Guð getur eflt það framlag á máttugan hátt. Hæfileiki ykkar til að leggja af mörkum er ekki háður köllun ykkar í kirkjunni. Tækifæri ykkar til þjónustu eiga sér engin takmörk. Ef þið bíðið á hliðarlínunni, hvet ég ykkur til að koma ykkur inn í leikinn.

Bíðið ekki eftir tiltekinni köllun áður en þið takið fullan þátt í uppbyggingu Guðs ríkis. Sem prestdæmishafar hafið þið nú þegar verið kallaðir til verksins. Nemið orð Guðs daglega, biðjið til himnesks föður á hverjum degi, tileinkið ykkur reglur hins endurreista fagnaðarerindis, færið Guði þakkir og biðjið um leiðsögn hans. Lifið síðan það sem þið lærið, fyrst í fjölskyldu ykkar en einnig í öllum aðstæðum lífsins.

Í hinni miklu hljómkviðu konsertmeistarans, hafið þið ykkar sérstaka hlutverki að gegna — ykkar eigin nótur að syngja. Bregðist það að þið leikið ykkar hlutverk, mun hljómkviðan samt örugglega halda áfram. En ef þið rísið upp og takið þátt í kórnum og leyfið krafti Guðs að vinna í gegnum ykkur, munuð þið sjá „flóðgáttum himins“ upp lokið, og hann mun „úthella … yfirgnæfanlegri blessun.“12 Rísið upp til fullrar þátttöku sem synir Guðs, og þið getið orðið kraftur til góðs í fjölskyldu ykkar, á heimili ykkar, í samfélagi ykkar, meðal þjóðar ykkar, já í heiminum öllum.

Og þegar þið í þessu ferli „týni[ð] lífi [ykkar]“ í þjónustu við aðra,13 munuð þið vaxa og þroskast þar til þið náið „vaxtartakmarki Krists fyllingar.“14 Þá munuð þið undir það búnir að erfa, með Kristi, allt það sem faðirinn á.

Þið eruð mikilvægir í augum Guðs.

Kæru bræður mínir, þið eruð mikilvægir. Þið eruð elskaðir. Það er þörf fyrir ykkur. Þetta verk er rétt. Prestdæmið sem þið hafið þau forréttindi að bera er sannarlega frá Guði.

Ég bið þess, að þegar þið ígrundið hinar mörgu nafnbætur verðugs prestdæmishafa, munuð þið finna guðlegan meðbyr, sem lyftir ykkur ævinlega upp, í átt að hinni miklu arfleifð sem himneskur faðir hefur búið ykkur. Ég færi ykkur þessa blessun og vitnisburð minn í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir