2010–2019
Það er kraftaverk
Apríl 2013


Það er kraftaverk

Ef þið eruð ekki fastatrúboðar með trúboðsmerki í barmi ykkar, þá er núna tíminn til að rita slíkt merki á hjarta ykkar ‒ ritað eins og Páll sagði, „ekki með bleki, heldur með anda lifanda Guðs.“

Jarðneskt líf Jesú Krists var þrungið kraftaverkum: Meyfæðing, ný stjarna, englar birtast fjárhirðum, blindir fá sýn, lamaðir ganga, englar í Getsemane og við gröfina, og mesta kraftaverkið af þeim öllum — dýrðleg upprisa hans.

Getið þið ímyndað ykkur postulana ellefu á fjallinu nærri Galilíu, þegar hinn upprisni Drottinn kom til þeirra og sagði: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda.“1 „Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni.“2

„Öllum þjóðum“? „Öllum heiminum“? „Hverri skepnu“? Var það mögulegt? Enda þótt Jesús hafi fullvissað þá, hljóta þeir að hafa velt því fyrir sér hvort kraftaverk mundu fylgja þeim við útbreiðslu fagnaðarerindisins.3

Trú yfirvann efa, og Pétur hóf upp rödd sína, og sagði:

„Allir þér Jerúsalemsbúar. … Ljáið eyru orðum mínum. …

Jesús frá Nasaret, … [hvern þér] létuð negla … á kross og tókuð af lífi. …

Þennan Jesús reisti Guð upp, og erum vér allir vottar þess.“4

Andanum var óneitanlega ríkulega úthellt þann dag og 3.000 sálir voru skírðar. Eins og Jesús lofaði fylgdu tákn og kraftaverk þeim sem trúðu.

Þegar Kirkja Jesú Krists var endurreist á jörðu fyrir 183 árum, endurómuðu orð Drottins til hins litla hóps lærisveina hans, orðin sem hann hafði talað fyrr á öldum: „Og aðvörunarraust mun berast öllum lýðnum.“5 „Því sannlega verður hljómurinn að berast … til alls heimsins og til ystu marka jarðarinnar.“6

„Öllum mönnum“? „Öllum heiminum“? „Til ystu marka jarðarinnar“? Var það mögulegt?

Frelsarinn fullvissaði sína Síðari daga heilögu,7 en gátu þeir með nokkrum hætti séð fyrir víðfeðmi og örlög þessa dásamlega verks? Þeir hljóta að hafa velt fyrir sér hvort kraftaverk mundu fylgja þeim er þeir breiddu út fagnaðarerindið.

Og aftur yfirvann trúin efann, og þúsundir voru skírðar. Öldungur Wilford Woodruff, sem prédikaði fagnaðarerindið á Englandi, fann heilt samfélag sem beið komu hans. Andi Drottins kom yfir þá og hann skírði 45 prédikara og nokkur hundruð meðlima í fyrsta mánuðinum á Benbow býlinu.8

Okkar tími er ekkert frábrugðinn. Þegar öldungur David A. Bednar og ég vorum trúboðar fyrir um það bil 40 árum (og ég get fullvissað ykkur um að við erum ekki elstir heimkominna trúboða sem sitja í rauðu stólunum), voru um 16.000 trúboðar. Eins og Thomas S. Monson forseti sagði frá í gær, þá höfum við nú 65.000 — fleiri en nokkru sinni áður. Þá voru 562 stikur. Í dag eru þær rúmlega 3.000. Á þeim tíma voru deildir okkar og stikur í 59 löndum. Í dag höfum við skipulagða söfnuði meðal 189 þjóða af 224 þjóðum og sjálfsstjórnarsvæðum heimsins. Við erum fá að fjölda til, rétt eins og Nefí sagði fyrir um.9 En samtímis því erum við sjónarvottar að því að spádómsorð Daníels rætast, að „steinn losnaði … án þess að nokkur mannshönd kæmi við hann … [og tekur] yfir alla jörðina.“10

Okkar tími er framúrskarandi tími kraftaverka. Fyrir sex mánuðum, þegar Monson forseti tilkynnti breytingu aldursmarka pilta og stúlkna sem þrá að þjóna í trúboði, varð óneitanlega úthelling andans, Trú yfirvann efa, og piltar og stúlkur sóttu fram. Á föstudegi, að lokinni ráðstefnu, var mér falið að mæla með köllun trúboða við Æðsta forsætisráðið. Það vakti undrun mína að sjá umsókn 18 ára manna og 19 ára kvenna sem höfðu þegar gert sínar ráðstafanir, farið til lækna sinna, átt viðtöl við biskupa sína og stikuforseta, og lagt fram trúboðsumsóknir sínar - allt á aðeins fimm dögum. Þúsundir hafa síðan bætst í hópinn. Það er kraftaverk.

Við erum þakklát fyrir styrkjandi trú systra okkar, vaxandi fjölda trúboða frá löndum út um heim allan, og aukinn fjölda trúboðshjóna sem reiðubúin eru til að þjóna. Fimmtíu og átta nýjar trúboðsstöðvar hafa verið tilkynntar, og troðfullur trúboðsskólinn í Provo hefur á undraverðan hátt eignast nýjan félaga í Mexico City.

Thomas S. Monson forseti hefur sagt: „Við tökum mjög alvarlega fyrirmæli frelsarans: ‚Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda.‘ “11 „Þessi … málstaður … mun halda áfram að eflast og umbreyta og blessa líf fólks. … Ekkert afl hér í heimi fær stöðvað verk Guðs.“12

Við verðum vitni að kraftaverkum Drottins þegar fagnaðarerindi hans breiðist út um heiminn.

Bræður og systur, svo sannarlega sem Drottinn hefur blásið fleiri trúboðum í brjóst að þjóna, hefur hann einnig vakið huga og opnað hjörtu fleira góðs og heiðarlegs fólks til að taka á móti trúboðunum. Þið þekkið það nú þegar, eða munuð kynnast því. Þau eru í fjölskyldu ykkar og búa í nágrenni ykkar. Þau mæta ykkur á götu úti, sitja hjá ykkur í skólanum og tengjast ykkur á netinu. Þið eruð einnig mikilvægur hluti af þessu yfirstandandi kraftaverki.

Ef þið eruð ekki fastatrúboðar með trúboðsmerki í barmi, þá er núna tíminn til að rita slíkt merki á hjarta ykkar - rita, eins og Páll sagði, „ekki með bleki, heldur með anda lifanda Guðs.“13 Og þið heimkomnu trúboðar, finnið gamla trúboðsmerkið ykkar. Ekki ganga með það, en setjið það þar sem þið sjáið það. Drottinn þarfnast ykkar nú sem aldrei fyrr, til að vera verkfæri í höndum hans. Við höfum öll eitthvað fram að færa í þessu kraftaverki.

Allir réttlátir meðlimir kirkjunnar hafa hugsað um hvernig miðla megi fagnaðarerindinu. Sumir miðla fagnaðarerindinu eðlilega, og við getum lært heilmikið af þeim.14 Sumir berjast við að finna út hvernig gera má betur og vonast eftir að þessi sektarkennd sem við stundum finnum fái útrás annars staðar.

Þrá okkar eftir að deila fagnaðarerindinu kemur okkur öllum niður á knén, og á að gera það, því við þörfnumst hjálpar Drottins.

Monson forseti hefur beðið okkur að biðjast fyrir út af „þeim svæðum þar sem áhrif okkar eru takmörkuð og þar sem okkur leyfist ekki að deila fagnaðarerindinu frjálslega.“15 Þegar við einlæglega og í sameiningu leggjum bón okkar fyrir föður okkar á himni, mun Drottinn halda áfram að opna mikilvægar dyr fyrir okkur.

Við biðjumst einnig fyrir vegna okkar eigin tækifæra til að deila fagnaðarerindinu. Pétur postuli sagði: „Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er.“16

Með þeim glundroða17 og hávaða18 sem er í heiminum í dag, er ekki að undra þótt sífellt færra fólk sæki tilbeiðslustaði sína. Þótt margir þrái að komast nær Guði og skilja betur tilgang lífsins, er spurningum þeirra enn ósvarað. Margir leita sannleikans í hjarta sínu, en eins og spámaðurinn Amos sagði, „þeir reika frá einu … til annars [leitandi að orði Drottins.] En þeir [munu] ekki finna það.“19 Þið getið svarað spurningum þeirra. Í samræðum ykkar í dagsins önn getið þið aukið trú þeirra á Krist.20

Frelsarinn sagði: „Haldið því ljósi yðar á loft, til að það lýsi heiminum. Ég er ljósið, sem þér skuluð halda á loft.“21

Ég lofa ykkur því, að þegar þið biðjist fyrir til að vita við hverja þið eigið að tala, munu nöfn og andlit koma upp í huga ykkar. Gefa ykkur orð í munn einmitt á þeirri stundu sem þið þarfnast þeirra.22 Þér munu gefast tækifæri. Trú mun yfirstíga efa og Drottinn mun blessa ykkur einmitt með ykkar eigin kraftaverkum.

Frelsarinn kenndi okkur hvernig deila á fagnaðarerindinu. Mér líkar vel sagan af Andrési, sem spurði: „[Meistari,] hvar dvelst þú?“23 Jesús hefði getað nefnt staðinn þar sem hann bjó. Þess í stað sagði hann við Andrés: „Komið og sjáið.“24 Mér finnst frelsarinn hafa verið að segja: „Komið og sjáið, ekki bara hvar ég bý, heldur hvernig ég lifi. Komið og sjáið hver ég er. Komið og finnið andann.“ Við vitum ekki allt um þann dag, en við vitum að þegar Andrés hitti bróður sinn Símon, sagði hann: „Við höfum fundið Messías!“25

Þeim sem sýna áhuga á samtali við okkur getum við, að fordæmi frelsarans, boðið að „koma og sjá.“ Sumir munu þyggja boð okkar, aðrir ekki. Öll þekkjum við einhvern sem hefur verið boðið nokkrum sinnum áður en hann þekktist boðið, að „koma og sjá.“ Minnumst einnig þeirra sem einu sinni voru með okkur, en við sjáum nú sjaldan, bjóðum þeim að koma til baka og sjá enn og aftur.

Við virðum val hverrar persónu og tímasetningu. Drottinn sagði: „Lát sérhvern mann velja fyrir sig sjálfan.“26 Áhugaleysi persónunnar þarf ekki að veikja vináttubönd okkar og kærleika. Hvort sem boði ykkar er tekið eða ekki, þegar þið bjóðið öðrum að „koma og sjá,“ munuð þið finna viðurkenningu Drottins, og með þeirri viðurkenningu aukna trú til að deila sannfæringu ykkar enn og aftur.

Fyrir þá sem nota Alnetið og snjallsíma, eru nýjar leiðir til að bjóða öðrum að „koma og sjá.“ Miðlum trú okkar á netinu og gerum það að æ meiri þætti í okkar daglega lífi. LDS.org, Mormon.org, Facebook, Twitter — allt veitir þetta tækifæri.

Til að deila fagnaðarerindinu með öðrum stofnuðu ungir meðlimir nokkrar bloggsíður.27 Þeir sem gengu í kirkjuna hófu nám sitt á netinu, á eftir fylgdu umræður með trúboðunum. Þessi reynsla gaf einnig unglingunum aukið sjálfstraust til að tala persónulega um fagnaðarerindið. Einn þeirra sagði: „Þetta er ekki trúboðsstarf. Þetta er trúboðsskemmtun.“28

Við erum öll saman í þessu. Með trúsystkinum okkar í deildinni og trúboðunum skipuleggjum við, biðjumst fyrir og hjálpum hvert öðru. Hafið vinsamlegast fastatrúboðana í huga ykkar og bænum. Treystið þeim fyrir fjölskyldu ykkar og vinum. Drottinn treystir þeim og hefur kallað þá til að kenna og blessa þá sem leita hans.

Paulo Kretly, forseti Maputo trúboðsins í Mósambík sagði frá þessari reynslu: „Það er mjög algengt í Mósambík [að] pör búi saman [án þess að hafa gifst, vegna þess að] afrískar hefðir krefjast hárra upphæða í heimanmund, heimanmund sem fæst paranna hafa efni á að reiða af hendi.“29

Meðlimir og trúboðar hugleiddu þetta og báðuðst fyrir um hvernig hjálpa mætti.

Svarið við bænum þeirra var, að þeir ættu að leggja áherslu á skírlífislögmálið og mikilvægi hjónabands og eilífra fjölskyldna. Og samtímis því að hjálpa pörunum að iðrast og giftast löglega, myndu þeir kenna um hamingjuna sem einungis fæst með því að fylgja Jesú Kristi.

Þetta er mynd af hjónum frá sitt hvorri borginni í Mósambík. Þau voru gift á föstudegi og skírð með eldri börnum sínum á laugardegi.30 Vinum og fjölskyldu var boðið að „koma og sjá,“ og hundruð „komu og sáu.“

Að lokinni skírninni, sagði önnur systirin: „Við þurftum að velja á milli þess að fylgja hefðum feðra okkar eða fylgja Jesú Kristi. Við völdum að fylgja Kristi.“31

Má vera að þið búið ekki í Mósambík, en á ykkar eigin hátt, í ykkar eigin menningu, getið þið deilt hinu endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists.

Biðjið til himnesks föður ykkar. Þetta er hans heilaga verk. Hann mun leiða ykkur til þess sem gera þarf. Hann mun opna dyr, fjarlægja hindranir úr vegi og hjálpa ykkur að sigrast á þeim. Drottinn lýsti yfir: „Aðvörunarraust mun berast öllum lýðnum af munni lærisveina minna, … og enginn fær stöðvað þá.“32

Ég vitna um að „rödd Drottins nær … til endimarka jarðar, svo að allir fái heyrt, sem heyra vilja.“33 Það er kraftaverk. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Matt 28:19.

  2. Mark 16:15.

  3. Sjá Matt 28:20;  Mark 16:17–18.

  4. Post 2:14, 22–23, 32.

  5. Kenning og sáttmálar 1:4.

  6. Kenning og sáttmálar 58:64.

  7. Sjá Kenning og sáttmálar 1:5.

  8. Sjá Teachings of Presidents of the Church: Wilford Woodruff (2004), 89–92.

  9. Sjá 1 Ne 14:12.

  10. Dan 2:34–35.

  11. Thomas S. Monson, „Welcome to Conference,” Ensign eða Líahóna, maí 2009, 5.

  12. Thomas S. Monson, „As We Gather Once Again,” Ensign eða Líahóna, maí 2012, 4.

  13. 2 Kor 3:3.

  14. Sjá Clayton M. Christensen, The Power of Everyday Missionaries: The What and How of Sharing the Gospel (2013).

  15. Thomas S. Monson, „Welcome to Conference,” Ensign eða Líahóna, maí 2009, 6.

  16. 1 Pét 3:15.

  17. Þeir sjá löngu viðurkenndan sannleik endurskilgreindan eða honum hafnað: sjá Kenning og sáttmálar 1:16; sjá einnig Kenning og sáttmálar 132:8.

  18. Sjá Kenning og sáttmálar 45:26; 88:91.

  19. Amos 8:12.

  20. Spámaðurinn Joseph Smith sagði: „Eiga Presbyterar einhverja trú? Já. Eiga Babtistar, Meþódistar, o.frv., einhverja trú? Já. … Við ættum að safna saman öllum góðum og sönnum reglum í heiminum og varðveita þær“ (History of the Church, 5:517). „Við ætlumst ekki til þess að fólk varpi frá sér einhverju góðu sem það á, við bjóðum því aðeins að koma og taka á móti meiru. Hvað ef allur heimurinn tæki á móti þessu fagnaðarerindi? Fólk skildi þá hvert annað og Guð myndi úthella blessunum sínum yfir fólkið, sem er innsta þrá sálar minnar“ (Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith [2007], 153). Gordon B. Hinckley forseti sagði: „Ég segi, að við kunnum að meta þann sannleika sem er í öllum kirkjum og hið góða sem þær gjöra. Það sem við segjum við fólkið, er í rauninni þetta: Þið takið með ykkur allt hið góða sem þið hafið, og látum okkur svo sjá hvort við getum bætt einhverju þar við. Þannig er andi þessa verks. Það er kjarninn í trúboðsþjónustu okkar” („Excerpts from Recent Addresses of President Gordon B. Hinckley,” Ensign, ág. 1998, 72; „Words of the Living Prophet,” Líahóna, apr. 1999, 19). „Við verðum að vera vingjarnlegt fólk. Við verðum að sjá hið góða í öllu fólki. Við vöðum ekki um og níðum niður aðrar kirkjur. Við prédikum og kennum með jákvæðum og uppbyggilegum hætti. Við segjum við fólk annarrar trúar: Þið takið með ykkur allt hið góða sem þið hafið, og látum okkur svo sjá hvort við getum bætt einhverju þar við. Það er í reyndinni kjarninn í okkar miklu trúboðsáætlun og hún ber ávöxt“ („Messages of Inspiration from President Hinckley,” Church News, 7. nóv. 1998, 2; sjá ldschurchnews.com).

  21. 3 Ne 18:24.

  22. Sjá Kenning og sáttmálar 84:85; 100:6.

  23. Jóh 1:38.

  24. Jóh 1:39.

  25. Jóh 1:41.

  26. Kenning og sáttmálar 37:4.

  27. Sjá til að mynda youngandmormon.com.

  28. Samtal í síma við Jackson Haight 22. mars 2013.

  29. Persónulegt netbréf frá Paulo V. Kretly forseta, 6. mars 2013.

  30. Myndir úr eigu Paulo V. Kretly forseta. Fyrri hópurinn var frá Maputo; þau giftust 30. nóvember 2012, og voru skírð 1. desember, 2012. Seinni hópurinn var frá Beira; þau giftust 1. mars, 2013, og voru skírð 2. mars, 2013.

  31. Persónulegt netbréf frá Paulo V. Kretly forseta, 6. mars 2013.

  32. Kenning og sáttmálar 1:4–5.

  33. Kenning og sáttmálar 1:11.