2010–2019
„Ég trúi“
Apríl 2013


„Ég trúi“

Gangist einlæglega við spurningum ykkar og efasemdum, en styrkið fyrst trúarglæður ykkar varanlega, því allt er þeim mögulegt sem trúir.

Eitt sinn kom Jesús að hópi sem þráttaði ákaflega við lærisveina hans. Þegar frelsarinn spurði um ástæður deilnanna, sté faðir sjúks barns fram og sagðist hafa beðið lærisveina Jesú um blessun fyrir son sinn, en þeir gátu ekki orðið við þeirri beiðni. Drengurinn gnísti enn tönnum, froðufelldi og byltist um á jörðinni frammi fyrir þeim, og faðirinn beindi máli sínu til Jesú og sagði algjörlega úrræðalaus, örvæntingarfullri röddu:

„Ef þú getur nokkuð,“ sagði hann, „þá sjá aumur á okkur og hjálpa okkur.

Jesús svaraði: „Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir.

Jafnskjótt hrópaði faðir sveinsins: Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“1

Trú þessa manns var að hans eigin sögn takmörkuð í upphafi. En þrá hans var djúp og sterk vegna einkabarns síns. Okkur er sagt að það sé góð byrjun. „Jafnvel þótt ekki sé nema löngun til að trúa,” segir Alma, „látið þá undan þessari löngun, þar til þið trúið nægilega.“2 Þessi faðir tilgreinir þá trú sem hann hefur og sárbiður frelsara heimsins, sem sinn síðasta vonarneista: „En ef þú getur nokkuð, þá sjá aumur á okkur og hjálpa okkur.3 Ég fæ vart lesið þessi orð án þess að vökna um augu. Fleirtöluorðið okkur er augljóslega notað hér af ásettu ráði. Maðurinn er í raun að segja: „Öll fjölskylda mín sárbiður. Baráttan er viðvarandi og við erum örmagna. Sonur okkar dettur í eldinn. Hann fellur í vatnið. Hann er stöðugt í hættu og við erum stöðugt hrædd. Við vitum ekki hvert annað við getum leitað. Getur þú hjálpað okkur? Við verðum þakklát fyrir hvað sem er ‒ ófullnægjandi blessun, örlítinn vonarneista, hvaðeina sem léttir örlítið þá byrði sem móðir þessa drengs ber hvern dag.“

„En ef þú getur nokkuð,” sagði þessi faðir og á móti segir meistarinn: „Ef þúgetur!4

„Jafnskjótt,“ segir ritningin ‒ ekki með hiki efa eða tortryggni, heldur „jafnskjótt“ ‒ hrópar þessi faðir af sársauka foreldris: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“ Jesús bregst við vaknandi en takmarkaðri trú hans og læknar drenginn, reisir hann bókstaflega upp frá dauðum, líkt og Markús lýsir því.5

Með þessa ljúfu frásögn ritningarinnar í huga, ætla ég að beina máli mínu til æskufólks kirkjunnar ‒ þeirra sem ungir eru að árum eða hafa ekki lengi verið í kirkjunni eða trúað. Á einn eða annan hátt ætti það að geta átt við okkur öll.

Fyrst sjáum við í þessari frásögn, að faðir þessi undirstrikar fyrst styrkleika sinn og aðeins að því loknu vanmátt sinn, er hann stendur frammi fyrir trúaráskoruninni. Yfirlýsing hans er ákveðin og hiklaus: „Ég trúi.“ Ég segi við alla þá sem þrá aukna trú, horfið til þessa manns! Á tíma ótta eða efasemda eða erfiðleika, skuluð þið reiða ykkur á þá trú sem þið þegar búið yfir, jafnvel þótt hún sé takmörkuð. Í þroskaferlinu, sem við upplifum í þessu lífi, munum við öll reyna andlegt jafngildi hörmunga þessa drengs eða örvæntingar þessa föður. Þegar slíkar stundir koma og erfiðleikar verða, og lausnir virðast ekki í sjónmáli, haldið þá fast í það sem þið þegar vitið og verið sterk allt þar til meiri þekking berst ykkur. Það var einmitt við þetta tækifæri, þetta sérstaka kraftaverk, að Jesús sagði: „Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, getið þér sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig. Ekkert verður yður um megn.“6 Stærð trúar ykkar eða umfang þekkingar ykkar er ekki það sem skiptir máli ‒ heldur ráðvendnin sem þið sýnið gagnvart þeirri trú sem þið þegar hafið og sannleikanum sem þið þegar þekkið.

Annað atriðið er afbrigði af því fyrsta. Þegar erfiðleikar verða og spurningar vakna, einblínið þá ekki á „vantrú“ ykkar og það sem ykkur skortir trúarlega. Það er líkt og að reyna að fylla kalkún í gegnum gogginn! Ég tek þó skýrt fram um þetta: Ég bið ykkur ekki að gera ykkur upp þá trú sem þið ekki eigið. Ég bið ykkur að vera holl þeirri trú sem þið þegar eigið. Stundum hegðum við okkur líkt og einlæg yfirlýsing um efasemdir sýni meira siðferðisþrek en einlæg yfirlýsing um trú. Þannig er það ekki! Við skulum því öll hafa í huga skýran boðskap þessarar frásagnar í ritningunum: Verið eins einlæg í efasemdum ykkar og þið þurfið, í lífinu eru ótal efasemdir sem tengjast einu eða öðru. En ef þið og fjölskylda ykkar þurfið lækningu, látið þá ekki þær efasemdir koma í veg fyrir að trúin vinni sitt kraftaverk.

Ennfremur er trú ykkar meiri en þið haldið, vegna „hinnar miklu sönnunar,“7 líkt og staðhæft er í Mormónsbók. „Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá,“ sagði Jesús,8 og ávöxturinn af því að lifa eftir fagnaðarerindinu er greinilega sýnilegur í lífi Síðari daga heilagra allsstaðar. Ég segi við ykkur nú, líkt og Pétur og Jóhannes sögðu við faríseana: „Vér getum ekki annað en talað það, sem vér höfum séð og heyrt,“ og það sem við höfum séð og heyrt er að „ótvírætt tákn er orðið“ af völdum milljóna meðlima þessarar kirkju. Við getum ekki neitað því.9

Bræður og systur, þetta er guðlegt verk í framkvæmd, með ótal og óyggjandi staðfestingum og blessunum. Missið því ekki svefn þótt endrum og eins komi upp mál sem þarf að meta, skilja og leysa. Þau eru hér og verða hér áfram. Það sem við vitum í þessari kirkju er mikilvægara öllu sem við ekki vitum, og minnumst þess að í þessari jarðnesku veröld þurfa allir að ganga í trú.

Verið því ljúf gagnvart mannlegum breyskleika ‒ ykkar eigin og þeirra sem þið þjónið með í kirkju sem leidd er með sjálfboðastarfi dauðlegra karla og kvenna. Allt frá upphafi tímans hefur Guð aðeins unnið með ófullkomnu fólk, að frátöldum sínum fullkomna eingetna syni. Það hlýtur að vera ömurlega ergjandi fyrir hann, en hann tekst á við það. Það ættum við líka að gera. Og þegar þið sjáið ófullkomleika, hafið þá í huga að sú takmörkun tengist ekki guðleika þessa verks. Líkt og einn hæfileikaríkur rithöfundur sagði: Þegar hinni óendanlegu fyllingu er úthellt, er það ekki sök olíunnar að eitthvað skortir, því takmarkað ílát fær henni ekki haldið.10 Þessi takmörkuðu ílát erum við, verum því þolinmóð og fyrirgefum fúslega.

Síðasta atriðið: Þegar efi og erfiðleikar koma, óttist þá ekki að biðja um hjálp. Ef við þráum af jafnmikilli auðmýkt og einlægni og þessi faðir, getum við hlotið hana. Ritningarnar segja slíka einlæga þrá stafa af „sönnum ásetningi,“ og „af hjartans einlægni og án þess að hræsna fyrir Guði eða hafa blekkingar í frammi.“11 Og sé slíkt fyrir hendi, vitna ég að Guð mun ætíð senda hjálp beggja vegna hulunnar til að styrkja trú okkar.

Ég sagðist beina máli mínu til æskufólksins. Ég geri það enn. Fjórtán ára drengur sagði nýverið örlítið hikandi við mig: „Bróðir Holland, ég get enn ekki sagt að ég viti að kirkjan sé sönn, en ég trúi því.“ Ég þrýsti þessum dreng svo fast að mér að hann fékk vart andað. Ég sagði honum af öllum sálarstyrk að trú væri dýrmætt hugtak, og jafnvel enn dýrmætari breytni, og að hann þyrfti aldrei að biðja afsökunar á því að „trúa aðeins.“ Ég sagði að Kristur sjálfur hefði sagt: „Óttast ekki, trú þú aðeins,“12 sem eru orð sem knúðu hinn unga Gordon B. Hinckley til að fara á trúboðsakurinn.13 Ég sagði þessum dreng að trú væri ætíð fyrsta skefið að sannfæringu og að hin endanlega skilgreining á sameignilegri trú okkar eigi sér ætíð rætur í orðunum: „Vér trúum.“14 Ég tjáði honum hve afar stoltur ég væri af honum fyrir einlægnina í orðum hans.

Þar sem ég bý yfir 60 ára meiri reynslu frá því að ég var nýtrúaður 14 ára drengur, lýsi ég yfir nokkru því sem ég nú veit. Ég veit að Guð er öllum stundum og á allan hátt og í öllum kringumstæðum, kærleiksríkur og fyrirgefandi faðir okkar á himnum. Ég veit að Jesús var hans eina fullkomna barn, hvers líf var fúslega gefið bæði af föðurnum og syninum, til frelsunar okkar allra, sem ekki eru fullkomin. Ég veit að hann reis upp frá þeim dauða til að lifa að nýju, og vegna þess munum við líka lifa. Ég veit að Joseph Smith, sem viðurkenndi ófullkomleika sinn,15 var engu að síður útvalið verkfæri í höndum Guðs, til að endurreisa hið ævarandi fagnaðarerindi á jörðu. Ég veit líka að með því ‒ einkum með þýðingu Mormónsbókar ‒ hefur hann kennt mér meira um kærleika Guðs, guðleika Krists og kraft prestdæmisins, en nokkur annar spámaður, sem ég hef lesið um, hlýtt á eða þekkt í minni ævilöngu þekkingarleit. Ég veit að Thomas S. Monson forseti, sem af hollustu og glaðværð þokast í átt að 50 ára vígsluafmæli sínu sem postuli, er nú réttmætur arftaki þessa spámannlega möttuls. Þann möttul höfum við séð hvíla á honum á þessari ráðstefnu. Ég veit að þeir 14 menn aðrir, sem þið styðjið sem spámenn, sjáendur og opinberara, styðja hann með hönd, hjarta og lyklum síns eigin postuladóms.

Þessu lýsi ég yfir með þeirri sannfæringu sem Pétur nefndi hið „áreiðanlegra ... spámannlega orð.“16 Það sem eitt sinn var mér örlítið trúarsáðkorn, hefur vaxið og orðið að lífsins tré, þannig að ef trú ykkar reynist ófullnægjandi nú eða á öðrum tíma, býð ég ykkur að treysta á mína. Ég veit að þetta verk er sjálfur sannleikur Guðs og ég veit að það verður okkur aðeins til háska, ef við leyfum efasemdum eða djöflum að leiða okkur af þeim sannleiksvegi. Vonum áfram. Höldum áfram. Gangist einlæglega við spurningum ykkar og efasemdum, en styrkið fyrst trúarglæður ykkar varanlega, því allt er þeim mögulegt sem trúir. Í nafni Jesú Krists, amen.