2010–2019
Hjónaband: Fylgist með og lærið
Apríl 2013


Hjónaband: Fylgist með og lærið

Loforð Drottins ná til allra þeirra sem fylgja því lífsmynstri sem hamingjusöm og helg sambönd hjónabandsins byggja á.

Kvöld eitt fyrir nokkrum árum vorum við konan mín í matarboði heima hjá syni okkar, konu hans og fjölskyldu. Þetta var dæmigerð kvöldstund hjá fjölskyldu með lítil börn. Það voru mikil læti og jafnvel enn meira gaman. Stuttu eftir kvöldmatinn sátum við Anna, fjögurra ára barnabarnið mitt, við borðið. Þegar hún gerði sér grein fyrir því að hún hafði óskipta athygli mína, stóð hún upp á bekknum og horfði stíft á mig. Þegar hún var viss um að ég væri að horfa á hana, skipaði hún mér, í alvarlegum tón, að „fylgjast með og læra“ Því næst dansaði hún og söng fyrir mig lag.

Leiðbeiningar Önnu um að „fylgjast með og læra“ voru viska af munni barns. Við getum lært svo mikið af því að fylgjast með og hugleiða síðan hvað við höfum séð og upplifað. Í þeim anda langar mig að deila með ykkur nokkrum lífsreglum sem ég hef orðið vitni að, með því að fylgjast með og læra af dásamlegum, trúföstum hjónaböndum. Á þeim lífsreglum byggjast sterk, ánægjuleg hjónabönd, sem samræmast himneskum reglum. Ég býð ykkur að fylgjast með og læra með mér.

Í fyrsta lagi hef ég séð að í hamingjusömustu hjónaböndunum líta báðir makarnir á samband sitt sem ómetanlega perlu, óendanlega dýrmætan fjársjóð. Bæði yfirgefa þau feður sína og mæður og taka höndum saman við að byggja upp hjónaband sem mun þrífast um eilífð. Þau skilja að þau ganga veg sem hefur verið guðlega vígður. Þau vita að ekkert annað samband getur fært þeim eins mikla gleði, leitt til jafn mikils góðs, eða stuðlað að jafn mikilli persónulegri fágun. Fylgist með og lærið: Bestu makarnir líta á hjónaband sitt sem ómetanlegt.

Næsta, trú. Farsæl hjónabönd eru byggð á grunni trúar á Drottin Jesú Krist og hlýðni við kenningar hans.1 Ég hef orðið vitni að því að þau hjón, sem hafa gert hjónabönd sín ómetanleg, fylgja trúarmynstri: Þau mæta á sakramentissamkomur og aðra fundi í hverri viku, halda fjölskyldukvöld, biðja og læra ritningarnar einslega og saman, og borga heiðarlega tíund. Sameiginlegt markmið þeirra er að vera hlýðin og góð. Þau líta ekki á boðorðin sem hlaðborð sem þau geta valið af það girnilegasta.

Trú er grunnurinn að öllum þeim dyggðum sem styrkja hjónabandið. Að styrkja hjónabandið styrkir trúna. Trú vex er við höldum boðorðin og það sama gildir um einingu og gleði innan hjónabandsins. Því er grunnurinn að því að byggja upp sterk eilíf hjónabönd sá, að fylgja boðorðunum. Fylgist með og lærið: Trú á Drottin Jesús Krist er grunnurinn að hamingjusömu, eilífu hjónabandi.

Í þriðja lagi, iðrun. Mér hefur lærst að hamingjusöm hjónabönd treysta á gjöf iðrunarinnar. Hún er nauðsynlegur þáttur í hverju góðu hjónabandi. Hjón sem sinna reglulegri, heiðarlegri sjálfskoðun og eru snögg að stíga nauðsynleg skref iðrunar og framfara, upplifa græðandi kraft í hjónabandi sínu. Iðrun stuðlar að samhljómi og friði.

Auðmýkt er kjarni iðrunar. Auðmýkt er ósérhlífin en ekki eigingjörn. Hún krefst þess ekki að ná sínu fram eða talar með yfirgangi. Í stað þess svarar auðmýktin mjúklega2 og hlustar af skilningi, ekki hefnd. Auðmýkt viðurkennir að enginn getur breytt öðrum, en með trú, vinnu og aðstoð frá Guði, getum við fundið gjörbreytingu í hjörtum okkar sjálfra.3 Að upplifa gjörbreytingu í hjarta okkar leiðir til mildi í garð annarra, þá sérstaklega maka okkar.4 Auðmýkt þýðir að bæði eiginmaður og eiginkona leitast eftir að blessa, aðstoða og lyfta hvort öðru, og setja maka sinn í fyrsta sæti við hverja ákvarðanatöku. Fylgist með og lærið: Iðrun og auðmýkt byggja upp hamingjusöm hjónabönd.

Í fjórða lagi, virðing. Ég hef tekið eftir því, að í yndislegum, hamingjuríkum hjónaböndum koma hjónin fram við hvort annað sem jafningja. Hvar og hvenær sem eiginmaðurinn sýnir yfirgang gagnvart konu sinni eða kemur fram við hana sem annars flokks félaga í hjónabandinu, þá er það ekki í samræmi við guðleg lögmál, og í þess stað ætti að koma rétt lögmál og rétt hegðunarmynstur.

Eiginmenn og eiginkonur í góðum hjónaböndum taka sameiginlegar ákvarðanir, þar sem bæði eru fullgildir þátttakendur og með jafnan rétt til tjáningar og atkvæðis.5 Þau beina athygli sinni fyrst og fremst að heimilinu og að því að hjálpa hvort öðru sem jafningjar.6 Hjónaband þeirra byggist á samvinnu, ekki samningaviðræðum. Kvöldmatartími þeirra og fjölskyldutíminn sem á eftir fylgir verður miðpunktur dagsins og sá tími sem þau leggja sig mest fram við. Þau slökkva á rafmagnstækjunum og fórna persónulegum skemmtunum til þess að aðstoða hvort annað við heimilisstörfin. Þau lesa með börnum sínum á hverju kvöldi, sé það mögulegt, og taka bæði þátt í því að koma þeim yngstu í rúmið. Þau ganga saman til hvílu. Eins og skyldur þeirra og aðstæður leyfa, vinna eiginmaður og eiginkona saman að mikilvægustu verkunum — þeim sem unnin eru innan heimilisins.

Þar sem finna má virðingu, má einnig finna gagnsæi, sem er lykilatriði í hamingjusömu hjónabandi. Í hjónaböndum sem byggjast á gagnhvæmri virðingu og gagnsæi eru engin leyndarmál um málefni sem skipta máli. Eiginmenn og eiginkonur taka allar fjárhagslegar ákvarðanir saman og bæði hafa aðgang að öllum upplýsingum.

Hollusta er tegund virðingar. Spámenn kenna að farsæl hjón sýni hvort öðru „algera tryggð“.7 Notkun þeirra á samskiptamiðlum er á allan máta verðug. Þau leyfa sér ekki nein leyndarmál á netinu. Þau deila aðgangsorðum sínum inn á samskiptamiðlana fúslega með hvort öðru. Þau skoða ekki persónulegar upplýsingar um aðra á netinu, á neinn þann máta sem gæti brugðist heilögu trausti maka þeirra. Þau gera aldrei né segja neitt sem gæti talist ósæmilegt, hvorki á netinu né í raun. Fylgist með og lærið: Í stórkostlegu hjónabandi ríkir alger virðing, gagnsæi og tryggð.

Fimmta: Ást Hamingjusömustu hjónaböndin sem ég hef séð, geisla frá sér hlýðni við eitt af gleðilegasta boðorðinu — að við eigum að „búa saman í kærleika.“8 Drottinn bauð eiginmönnum: „Þú skalt elska eiginkonu þína af öllu hjarta þínu og vera bundinn henni og engu öðru.“9 Handbók kirkjunnar kennir: „Orðin að halda sér að þýða að vera algerlega hollur og trúr einhverjum. Gift hjón halda sér að Guði og engu öðru, með því að þjóna og elska hvort annað og með því að halda sáttmálana, í algerri tryggð við hvort annað og við Guð.“ Bæði eiginmaður og eiginkona „skilja við einhleypa lífið og setja á stofn hjónaband sem verður æðsta forgangsatriði [þeirra]. …Þau leyfa engri annarri manneskju eða hagsmunum að vera æðra … því að halda þá sáttmála sem þau hafa gert við Guð og hvort annað.“10 Fylgist með og lærið: Farsæl hjón elska hvort annað af algerri hollustu.

Þau hjónabönd eru til, þar sem hamingjan er ekki eins mikil og óskað væri. Eins eru þeir sem aldrei hafa gifst, þeir sem eru fráskildir, einstæðir foreldrar, eða þeir sem eru ekki í aðstöðu til að giftast af einni eða annarri ástæðu. Þessar aðstæður geta verið fullar af áskorunum og sorg, en þær þurfa ekki að vera til eilífðar. Megi himinninn blessa ríkulega þau ykkar sem eruð í slíkum aðstæðum, en haldið samt áfram “með glöðu geði [að] gjöra allt, sem í [ykkar] valdi stendur,“11 og þraukið áfram. Leitið eftir því besta til sköpunar hjónabands, þar með talið að vinna að því að búa ykkur undir að verða verðugur maki. Haldið boðorðin og treystið Drottni og hans fullkomna kærleika til ykkar. Sá dagur mun koma, að öll þau loforð sem hafa verið gefin varðandi hjónabönd, verða ykkar.12

Eitt af ljúfustu ritningarversum í Mormónsbók segir einfaldlega: „Og það kvæntist og giftist og var blessað í samræmi við hin mörgu fyrirheit, sem Drottinn hafði gefið því.“13 Loforð Drottins ná til allra þeirra sem fylgja því lífsmynstri sem stuðlar að hamingjusömu og helgu sambandi hjóna. Slíkar blessanir koma sem gleðilegar og fyrirsjánanlegar afleiðingar þess að lifa trúfastlega eftir fagnaðarerindi Jesú Krists.

Ég er þakklátur fyrir mína yndislegu konu, Kathy, sem er ástin í lífi mínu.

Hjónaband er gjöf frá Guði til okkar; gæði þess hjónabands er gjöf okkar til hans. Ég gef vitnisburð um þá stórkostlegu áætlun ástríks himnesks föður, sem veitir okkur tækifæri til eilífs, undursamlegs hjónabands. Í nafni Jesú Krists, amen.