2010–2019
Hlýðni færir blessanir
Apríl 2013


Hlýðni færir blessanir

Þekking á sannleikanum og svörin við mikilvægustu spurningum okkar, berast okkur þegar við erum hlýðin boðorðum Guðs.

Mínir kæru bræður og systur, hve þakklátur ég er að vera meðal ykkar í dag. Ég bið um trú ykkar og bænir er ég nýt þeirra forréttinda að tala til ykkar.

Um aldir hafa karlar og konur leitað þekkingar og skilnings á þessari dauðlegu tilveru og hlutverki og tilgangi þeirra í henni, sem og að vegi friðar og hamingju. Við tökumst öll á við slíka leit.

Þessi þekking og skilningur stendur öllu mannkyni til boða. Slíka þekkingu er að finna í sannleika sem er eilífur. Í fyrsta kafla Kenningar og sáttmála, versi 39, lesum við: „Því að sjá og tak eftir. Drottinn er Guð og andinn ber vitni og sá vitnisburður er sannur og sannleikurinn varir alltaf og að eilífu.“

Skáldið ritaði:

Þó heimurinn farist og hvað sem að ber,

sjá, þá hindrar ei sannleikann eyðingar her.

Hann vinnur hið tvísýna tafl.1

Sumir gætu spurt: „Hvar er slíkan sannleika að finna og hvernig þekkjum við hann?“ Í opinberun sem gefin var spámanninum Joseph Smith í Kirtland, Ohio, í maí 1833, lýstir Drottinn yfir:

„Sannleikurinn er þekking á hlutum eins og þeir eru, eins og þeir voru og eins og þeir munu verða‒ …

Andi sannleikans er frá Guði. …

Og enginn maður tekur á móti fyllingu, nema hann haldi boðorð hans.

„Sá, sem heldur boðorð [Guðs], tekur á móti sannleika og ljósi, þar til hann er dýrðlegur gjörður í sannleika og veit alla hluti.“2

Hve dýrðlegt loforð! „Sá, sem heldur boðorð [Guðs], tekur á móti sannleika og ljósi, þar til hann er dýrðlegur gjörður í sannleika og veit alla hluti.“

Það er engin þörf fyrir okkur, á þessum upplýsta tíma, þar sem fylling fagnaðarerindisins hefur verið endurreist, að sigla ókunnan sjó eða fara ókortlagðan slóða í leit okkar að sannleikanum. Kærleiksríkur himneskur faðir hefur markað okkur veg og séð okkur fyrir óbrigðulli leiðsögn ‒ já, hlýðni. Þekking á sannleikanum og svörin við mikilvægustu spurningum okkar, berast okkur þegar við erum hlýðin boðorðum Guðs.

Okkur lærist hlýðni í gegnum lífið. Þeir sem ábyrgð bera á velferð okkar setja okkur reglur, allt frá ungaaldri, til að tryggja öryggi okkar. Lífið yrði okkur öllum einfaldara, ef við lifðum algjörlega eftir slíkum reglum. Mörg lærum við þó með því að lifa eftir þeirri visku að vera hlýðin.

Á hverju sumri í uppvexti mínum, frá júlí til september, dvaldi fjölskylda mín í bjálkakofa sem við áttum í Vivian Park í Provo gilinu í Utah.

Einn af mínum bestu vinum, á þessu áhyggulausa tíma í gilinu, var Danny Larsen, en fjölskylda hans átti líka kofa í Vivian Park. Á hverjum degi þvældumst við um þessa stráka-paradís, veiddum í ám og lækjum, söfnuðum steinum og öðrum gersemum, gengum, klifruðum og nutum einfaldlega allra stunda dagsins.

Morgun einn ákváðum við Danny að hafa varðeld um kvöldið með öllum vinum okkar í gilinu. Við þurftum bara að ríma svæði á nærliggjandi túni, þar sem við gátum öll komið saman. Júní grasið, sem þakti túnið, var orðið þurrt og þyrnótt, og gat því ekki þjónað tilgangi okkar. Við hófum að reita hátt grasið og hugðumst ríma stórt hringlaga svæði. Við toguðum og rykktum af öllum kröftum, en okkur tókst aðeins að reita handfylli af þrjóskufullu illgresinu. Okkur varð ljóst að verkefnið tæki allan daginn og orka okkar og áhugi minnkuðu óðum.

Þá spratt upp í minn átta ára huga nokkuð sem mér fannst fullkomin hugmynd. Ég sagði við Danny: „Við þurfum bara að bera elda að illgresinu. Við brennum bara illgresið og myndum þannig hring!“ Hann samþykkti strax og ég hljóp að kofanum okkar til að ná í eldspýtur.

Ef einhverju ykkar skildi detta í huga að við á hinum ljúfa átta ára aldri hefðum leyfi til að nota eldspýtur, þá tek ég skýrt fram að bæði mér og Danny hafði verið bannað að nota þær án leiðsagnar fullorðinna. Báðir höfðum við endurtekið verið varaðir við eldhættunni. Ég vissi samt hvar foreldrar mínir geymdu eldspýturnar og ég þurfti að rýma túnið. Án nokkurra bakþanka hljóp ég inn í kofann, tók nokkrar eldspýtur og gætti þess vandlega að enginn væri í sjónmáli. Ég faldi þær fljótt í einum vasa minna.

Ég hljóp aftur til Danny, spenntur yfir að hafa lausnina við vanda okkar í vasanum. Ég minnist þess að hafa hugsað að eldurinn myndi bara brenna það svæði sem við þurftum á að halda og síðan deyja út á einhvern undraverðan máta.

Ég renndi eldspýtu eftir steini og bar eld að skrælnuðu júní grasinu. Eldurinn rauk upp, líkt og bensíni hefði verið úðað á grasið. Í fyrstu vorum við gagnteknir er við horfðum á illgresið brenna upp, en brátt varð okkur ljóst að eldurinn slokknaði ekki af sjálfum sér. Það rann á okkur óðagot þegar okkur varð ljóst að við gátum ekkert gert til að stöðva eldinn. Ógnvekjandi logarnir tóku að brenna grasið upp fjallshlíðina og að furutrjánum sem voru í hættu, og allt sem á vegi eldsins varð.

Loks var ekkert til ráða en að hlaupa eftir hjálp. Brátt voru allir tiltækir karlar og konur í Vivian Park hlaupandi fram og til baka með blauta strigapoka, lemjandi í logana til að reyna að kæfa þá. Að nokkrum klukkustundum liðnum náðist að slökkva í síðustu glæðunum. Aldagömlum furutrjánum var bjargað, sem og húsunum sem logarnir hefðu að endingu náð að brenna.

Danny og ég lærðum nokkrar erfiðar en mikilvægar lexíur þennan dag ‒ og ekki hvað síst mikilvægi þess að hlýða.

Það eru lögmál og reglur til verndar líkamlegu öryggi okkar. Drottinn hefur á líkan hátt séð okkur fyrir leiðarvísum og boðorðum til að tryggja andlegt öryggi okkar, svo við getum farið klakklaust um þessa oft svo viðsjárverðu dauðlegu tilveru og loks snúið að nýju til okkar himneska föður.

Fyrir mörgum öldum sagði Samúel af ákveðni við kynslóð sem var föst í hefðum dýrafórna: „Nei, hlýðni er betri en fórn, gaumgæfni betri en feiti hrútanna.“3

Í þessari ráðstöfun hefur Drottinn opinberað spámanninum Joseph Smith, að hann „krefst hjartans og viljugs huga, og þeir viljugu og auðsveipu skulu neyta gæða Síonarlands á þessum síðustu dögum.“4

Allir spámenn, fornir sem nútíma, hafa vitað og vita að hlýðni er nauðsynleg til sáluhjálpar. Nefí sagði: „Ég mun fara og gjöra það, sem Drottinn hefur boðið.“5 Þótt aðrir hafi brugðist í trú sinni og hlýðni, þá lét Nefí aldrei bregðast að gera það sem Drottinn bauð honum að gera. Ómældar kynslóðir hafa verið blessaðar af því.

Hjartnæm frásögn um hlýðni er um Abraham og Ísak. Hve sársaukafullt og erfitt það hefur verið fyrir Abraham, er hann hlýddi boði Guðs, að fara með ástkæran son sinn, Ísak, inn í land Móría til að færa hann sem brennifórn. Getum við ímyndað okkur þunga hjartans byrði Abrahams, á leið hans til hins tilnefnda staðar? Vissulega hefur angistin beygt líkama hans og þjáð huga hans, er hann batt Ísak, lagði hann á altarið og tók upp hnífinn til að deyða hann. Í óhagganlegri trú og algjöru trausti á Drottin, fór hann að boði Drottins. Hve dásamleg og kærkomin var þessi yfirlýsing sem síðan kom: „Legg þú ekki hönd á sveininn og gjör þú honum ekkert, því að nú veit ég, að þú óttast Guð, þar sem þú synjaðir mér ekki um einkason þinn.“6

Abraham hafði verið reyndur og prófaður og Drottinn veitti honum þetta dýrðlega loforð fyrir trúfesti hans og hlýðni: „Af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta, vegna þess að þú hlýddir minni röddu.“7

Þótt ekki sé látið reyna á hlýðni okkar á slíkan dramatískan og harmþrungin hátt, er þess líka krafist af okkur að við hlýðum.

Joseph F. Smith forseti sagði í október 1873: „Hlýðni er æðsta lögmál himins.“8

Gordon B. Hinckley forseti sagði: „Hamingja Síðari daga heilagra, friður Síðari daga heilagra, framfarir Síðari daga heilagra, velsæld Síðari daga heilagra og eilíf sáluhjálp og upphafning þessa fólks, felst í því að hlíta leiðsögn ... Guðs.“9

Hlýðni er aðalsmerki spámanna; hún hefur fært þeim styrk og þekkingu um aldir. Okkur er nauðsynlegt að vita, að við eigum líka rétt á þessari uppsprettu styrks og þekkingar. Hún stendur okkur öllum til boða í dag, er við hlítum boðorðum Guðs.

Í áranna rás hef ég kynnst ótal einstaklingum sem hafa verið sérlega trúfastir og hlýðnir. Ég hef notið blessana og innblásturs af þeirra hendi. Ég ætla að miðla ykkur frásögn um tvo slíka einstaklinga.

Walter Krause var staðfastur meðlimur kirkjunnar, sem ásamt fjölskyldu sinni bjó í landi sem varð þekkt sem Austur-Þýskaland eftir Síðari heimsstyrjöldina. Þrátt fyrir áþjánina sem hann þoldi vegna skorts á frelsi á þessu heimssvæði á þeim tíma, var bróðir Krause maður sem elskaði Drottin og þjónaði honum. Hann framfylgdi samviskulega og af trúmennsku öllum þeim verkefnum sem honum voru úthlutuð.

Hinn maðurinn hét Johann Denndorfer, innfæddur Ungverji, sem lærði um kirkjuna í Þýskalandi og var skírður þar árið 1911, 17 ára gamall. Ekki löngu síðar sneri hann til Ungverjalands. Eftir Síðari heimsstyrjöldina upplifði hann sig nánast sem fanga í heimalandi sínu, í borginni Debrecen. Íbúar Ungverjalands höfðu líka verið sviptir frelsinu.

Bróðir Walter Krause, sem ekki þekkti bróður Denndorfer, fékk það verkefni að vera heimiliskennari hans og vitja hans reglubundið. Bróðir Krause hringdi í félaga sinn í heimiliskennslunni og sagði við hann: „Okkur hefur verið úthlutað því verkefni að heimsækja bróður Johann Denndorfer. Getur þú komið með mér þessa viku til að vitja hans og færa honum boðskap fagnaðarerindisins?“ Og síðan bætti hann við: „Bróðir Denndorfer býr í Ungverjalandi.“

Undrandi spurði félagi hans: „Hvenær förum við?“

„Á morgun,“ var svarið frá bróður Krause.

„Hvenær komum við heim aftur?“ spurði félagi hans.

Bróðir Krause svaraði: „Eftir um viku ‒ ef við komumst til baka.“

En hvað sem öllu líður, þá lögðu þeir af stað til að vitja bróður Denndorfer, ferðuðust með lest og rútu, frá norðausturhluta Þýskaland til Debrecen, Ungverjalandi ‒ talsvert ferðalag. Bróðir Denndorfer hafði ekki fengið heimiliskennslu síðan fyrir stríð. Þegar hann því sá þessa þjóna Drottins, varð hann yfir sig þakklátur fyrir komu þeirra. Í fyrstu neitaði hann að taka í hönd þeirra. Hann fór fyrst inni í herbergið sitt og tók þar fram úr litlum skáp öskju sem í var tíundin hans, sem hann hafði safnað saman í mörg. Hann færði heimiliskennurum sínum tíundina og sagði: „Nú er ég gildur frammi fyrir Drottni. finnst mér ég verðugur þessa að taka í hönd þjóna Drottins!“ Bróðir Krause sagði mér síðar, að hann hefði orðið afar snortinn af því að sjá að þessi trúfasti bróðir, sem árum saman hefði ekki haft samband við kirkjuna, hefði af hlýðni og samviskusemi lagt tíu prósent af litlum tekjum sínum til hliðar til að greiða tíundina sína. Þetta hafði hann gert án þess að vita hvenær eða hvort hann gæti í raun afhent hana.

Bróðir Walter Krause lést fyrir níu árum, 94 ára að aldri. Hann þjónaði af trúmennsku og hlýðni alla sína ævi og veitti mér innblástur og öllum þeim sem þekktu hann. Þegar honum var boðið að taka að sér verkefni, véfengdi hann aldrei, möglaði aldrei og gerði sér aldrei upp afsakanir.

Bræður og systur, hlýðni er hin mikla prófraun lífsins. „Með þessu munum við reyna þá,“ sagði Drottinn, „og sjá hvort þeir gjöra allt, sem Drottinn Guð þeirra býður þeim.“10

Frelsarinn sagði: „Því að allir þeir sem æskja blessunar af minni hendi skulu halda það lögmál, sem sú blessun er bundin, ásamt skilyrðum þess, eins og ákveðið var áður en heimurinn var grundvallaður.“11

Frelsari okkar er besta fordæmið um hlýðni: Um hann sagði Páll:

„Og þótt hann sonur væri, lærði hann hlýðni af því, sem hann leið.

Þegar hann var orðinn fullkominn, gjörðist hann öllum þeim, er honum hlýða, höfundur eilífs hjálpræðis.“12

Frelsarinn sýndi hina sönnu elsku Guðs með því að lifa fullkomnu lífi, með því að heiðra hið helga hlutverk sitt. Aldrei var hann drambsamur. Aldrei varð hann uppblásinn af stolti. Aldrei var hann ótrúr. Alltaf var hann auðmjúkur. Alltaf var hann einlægur. Alltaf var hann hlýðinn.

Þótt hans hefði verið freistað af meistara blekkinganna, já, djöflinum sjálfum, þótt hann hefði verið líkamlega örmagna eftir 40 sólahringa föstu, og afar hungraður, og djöfullinn hafi lagt fyrir Jesú afar freistandi og lokkandi tilboð, setti hann okkur guðlegt fordæmi um hlýðni, með því að neita að víkja frá því sem hann vissi að var rétt.13

Þegar hann tókst á við þjáningarnar í Getsemane, og þoldi slíkan sársauka að „sveiti hans varð eins og blóðdropar, er féllu á jörðina,“14 sýndi hann fordæmi hins hlýðna sonar með því að segja: „Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér! En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“15

Líkt og frelsarinn bauð postulum sínum til forna, þá býður hann okkur: „Fylg þú mér.“16 Erum við fús að hlýða?

Þekkingin sem við leitum, svörin sem við þráum og styrkurinn sem við sækjumst eftir, til að takast á við áskoranir hins flókna og síbreytilega heims, geta orðið okkar, ef við lifum fúslega eftir boðorðum Drottins. Ég vitna enn í orð Drottins: „Sá, sem heldur boðorð [Guðs], tekur á móti sannleika og ljósi, þar til hann er dýrðlegur gjörður í sannleika og veit alla hluti.“17

Ég bið þess auðmjúklega að við verðum blessuð með þeim ríkulegu launum sem hinir hlýðnu eiga loforð um. Í nafni Jesú Krists, Drottins okkar og frelsara, amen.