Sleppa aðallóðsun
Apríl 2013 | Persónulegur friður: Umbun réttlætis

Persónulegur friður: Umbun réttlætis

Apríl 2013 Aðalráðstefna

Vegna friðþægingar og náðar frelsarans mun réttlátt líferni verðlaunað með eigin hugarró, þrátt fyrir erfiðleika lífsins,

Nýlegir atburðir hafa valdið því að mér hefur verið tíðhugsað til kenningarinnar um frið og þá sérstaklega til þess hlutverks Jesú Krists að hjálpa hverju og einu okkar að hljóta eigin hugarró.

Tveir atburðir sem gerðust á síðustu mánuðum hafa snert mig djúpt. Í fyrsta lagi flutti ég ræðu við jarðarför Emilie Parker, hjartfólginnar sex ára stúlku sem lést í hörmulegri skotárás í Newtown, Connecticut, ásamt 25 öðrum, þar á meðal 19 ungum börnum. Ég syrgði með fjölskyldu hennar og mér varð ljóst að margir höfðu verið sviptir hugarró. Ég fann styrk og trú hjá foreldrum hennar, Robert og Alissu Parker.

Í öðru lagi hitti ég þúsundir trúfastra kirkjuþegna í borginni Abidjan á Fílabeinsströndinni.1 Þetta frönskumælandi land í Vestur-Afríku hefur mátt þola mikið fjárhagslegt böl, valdarán hersins og tvær borgarastyrjöldir, sem lokið var árið 2011. Samt fann ég sérstaka hugarró í návist þeirra.

Atburðir verða oft til þess að ræna okkur þessari hugarró og auka á öryggisleysi okkar.

Hver getur gleymt hinum illviljuðu árásum þann 11. september árið 2001, á hinum ýmsu stöðum innan Bandaríkjanna. Slíkir atburðir minna okkur á hve snögglega er hægt að svipta mann friði og öryggi.

Elsti sonur okkar og kona hans, sem áttu von á sínu fyrsta barni, bjuggu þremur götum frá Tvíburaturnunum í New York borg, þegar fyrsta flugvélin lenti á norður turninum. Þau fóru upp á þak blokkarinnar og fylltust hryllingi, er þau urðu vitni að því sem þau töldu vera hræðilegt slys. Þá sáu þau hvar önnur vél skall á suður turninn. Þau gerðu sér samstundis grein fyrir því að þetta var ekkert slys og voru sannfærð um að neðri hluti Manhattan væri undir árás. Þegar suður turninn hrundi varð blokkin þeirra umlukt rykskýi sem rigndi yfir neðri hluta Manhattan

Ráðvillt yfir því sem þau höfðu orðið vitni að, og áhyggjufull yfir frekari árásum, komu þau sér á öruggara svæði og því næst til stikubyggingar kirkjunnar á Manhattan, sem er á Lincoln Center. Þegar þau komu þangað fundu þau tugi annarra kirkjuþegna úr neðri hluta Manhattan sem höfðu tekið sömu ákvörðun um að safnast saman í stikubyggingunni. Þau hringdu til að láta okkur vita hvar þau væru. Mér létti við að vita að þau væru örugg, en varð ekki hissa á því hvar þau væru. Nútíma opinberanir segja okkur að stikur Síonar séu vörn og „athvarf fyrir storminum og hinni heilögu reiði, þegar henni verður skilyrðislaust úthellt yfir gjörvalla jörðina.“2

Þau gátu ekki snúið aftur í íbúð sína í rúma viku og voru niðurbrotin vegna þess mikla mannfalls sem varð, en þau urðu ekki fyrir neinu varanlegu tjóni.

Er ég hugleiði þessa atburði hefur kenningarlegur munur á friði á jörðu og persónulegri hugarró greypst í huga mér.3

Við fæðingu frelsarans sungu herskarar himna Guði lof og kunngjörðu: „Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum.“4

Hins vegar hefur verið bent á þá átakanlegu staðreynd, að á því mikilvæga tímabili sem fylgdi í kjölfar fæðingar sonar Guðs, þá bauð Heródes konungur að öll ungbörn í Betlehem yrðu tekin af lífi.5

Valfrelsi er mikilvægt í sæluáætluninni. Það býður upp á þann kærleika, þá fórn, persónulegan vöxt og reynslu sem nauðsynleg er í eilífri framþróun okkar. Þetta valfrelsi, eða illt val annarra, getur einnig leitt til sárssauka og þjáningar sem við upplifum í jarðvist okkar, jafnvel þegar við skiljum ekki hvers vegna það gerist. Stríðið á himnum var háð vegna siðferðilegs valfrelsis okkar, sem er ómissandi fyrir skilning okkar á þjónustu frelsarans hér á jörðu.

Eins og kemur fram í 10. kapítula Matteusar, leiðbeindi freslarinn hinum tólf og viðurkenndi að ætlunarverk hans myndi ekki ná fram alheimsfriði í þessu jarðlífi. Postulunum var sagt að skilja frið eftir á þeim verðugu heimilum sem þeir heimsæktu, en voru varaðir við því að þeir yrðu sem „sauði[r] meðal úlfa.“ „og… hataðir af öllum mönnum vegna nafns hans: En sá sem stöðugur stendur allt til enda, hann mun hólpinn verða.“6 Mikilvæg yfirlýsing kemur svo fram í versi 34: „Ætlið ekki að ég sé kominn til að flytja frið á jörð.“7 Það er greinilegt að ekki ríkti alheimsfriður þegar Kristur þjónaði á jörðu, og það gerir það ekki enn í dag.

Í formála Drottins að Kenningu og sáttmálum eru nokkrar mjög mikilvægar kenningar settar fram. Með tilliti til þeirra sem iðrast ekki, mun andi hans (andi Krists), sem gefinn er öllum sem í heiminn koma,8 „ ekki endalaust takast á við manninn.“9 Einnig „friður verður burt tekinn af jörðu.“10 Spámenn hafa lýst því yfir að friðurinn hafi sannarlega verið tekinn frá jörðunni.11 Lúsifer hefur ekki enn verið bundinn og beitir valdi sínu á þessu yfirráðarsvæði.12

Himnesk þrá góðra manna hefur alltaf verið og mun alltaf verða friður á jörðu. Við megum aldrei gefast upp á því að ná þessu markmiði. Hinsvegar kenndi Joseph F. Smith: „Sá andi friðar og kærleika getur aldrei komið í heiminn…fyrr en mannkyn meðtekur sannleika Guðs og boðskap…og viðurkennir guðlegan kraft hans og vald.“13

Við vonum og biðjum einlæglega fyrir friði á jörðu, en það er sem einstaklingar og fjölskyldur sem við náum þeim friði, sem okkur er lofað fyrir réttlæti okkar. Sá friður er gjöf ætlunarverks og fórnardauða frelsarans og okkur er heitið þeirri gjöf.

Þessi kenning kemur greinilega fram í Kenningu og sáttmálum: „En lærið að sá, sem vinnur réttlætisverk, hlýtur sín laun, já, frið í þessum heimi og eilíft líf í komanda heimi.“14

John Taylor forseti sagði okkur að friður væri ekki einungis eftirsóknarverður heldur „gjöf Guðs.“ 15

Þessi friður sem ég tala um er ekki einungis tímabundin hugarró. Hann er ævarandi og djúp hamingja og andleg ánægja.16

Heber J. Grant forseti lýsti friði frelsarans á þennan hátt: „Friður hans mun létta þjáningar okkar, græða brostin hjörtu okkar, afmá hatur okkar, vekja í brjóstum okkur þann kærleika til náungans sem fylla mun hjörtu okkar ró og hamingju.17 Á fundi mínum með foreldrum Emilie Parker, sá ég frið frelsarans létta sársauka þeirra og hjálpa til við að græða brostin hjörtu þeirra. Það er athyglisvert að strax eftir skotárásina tjáði bróðir Parker fyrirgefningu sína í garð árásarmannsins. Grant forseti sagði: Friður frelsarans megnar að „afmá hatur okkar.“ Það er Drottins að dæma.

Hinir heilögu á Fílabeinsströndinni fundu frið á tímum borgarastyrjarinnar í heimalandi sínu, er þeir einbeittu sér að því að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists, með sérstakri áherslu á ættfræði og musterisverk fyrir forfeður sína.18

Við þráum öll frið. Friður er ekki einungis öryggi eða fjarvera stríðs, ofbeldis, átaka eða ósættis. Friður fæst með því að vita að frelsarinn veit hver við erum, veit að við höfum trú á hann, elskum hann og höldum boðorð hans, jafnvel þegar átakamestu áskoranir og sorgir lífsins herja á okkur. Svar Drottins til spámannsins Josephs Smith í Liberty fangelsinu veitir hjartanu huggun:

„Sonur minn, friður sé með sál þinni. Mótlæti þitt og þrengingar munu aðeins vara örskamma stund;

Og ef þú stenst það vel, þá mun Guð upphefja þig í upphæðum.”19

Munið: „Guð er ekki Guð truflunarinnar, heldur [höfundur]friðarins“20 Fyrir þá sem hafna Guði, er enginn friður. Við tókum öll þátt í ráðinu á himnum sem veitti okkur siðferðsilegt valfrelsi, vitandi að verða myndi jarðneskur sársauki og jafnvel ólýsanlegur harmur vegna misbeitingar þessa valfrelsis. Við skildum að þetta gæti gert okkur reið, ráðvillt, varnarlaus og berskjölduð. Við vissum einnig að friðþæging frelsarans myndi sigrast á og vega upp á móti öllu óréttlæti mannlífsins og færa okkur frið. Öldungur Marion D. Hanks var með innrammaða setningu eftir Ugo Betti á veggnum hjá sér: „Að trúa á Guð er að vita að allar reglurnar verði réttlátar og eitthvað undursamlegt og óvænt muni gerast.“21

Hvar er frið að finna? Margir leita friðar á veraldlegan máta, sem aldrei hefur og aldrei mun takast. Friður finnst ekki með því að öðlast mikinn auð, vald eða frama.22 Friður finnst ekki með því að leita eftir þægindum, skemmtun eða afþreyingu. Ekkert af þessu mun skapa varanlega hamingju eða frið, jafnvel þótt gnægð sé af því.

Ástkær sálmur Emmu Lou Thayne spyr viðeigandi spurningar: „Hvar finn ég sannan frið? Hvar finn ég huggun, er hvergi lækningu að fá?“23 Svarið er frelsarinn, sem er uppspretta og höfundur friðar. Hann er „Friðarhöfðinginn.“24

Hvernig höldum við okkur nærri frelsaranum? Djúpstæð dæmi um það réttlæti sem verðlaunað er með viðvarandi friði, er að vera auðmjúkur frammi fyrir Guði, að biðja ávallt, iðrast syndanna, stíga niður í skírnarvatnið með sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda, og með því að verða sannir lærisveinar Jesú Krists.25 Eftir að Benjamín konungur hafði flutt áhrifamikla ræðu sína varðandi friðþægingarfórn Krists, þá hafði fjöldinn fallið til jarðar. „,[Þá] kom andi Drottins yfir þá, og þeir fylltust fögnuði yfir að hafa fengið fyrirgefningu synda sinna og frið við samvisku sína vegna mikillar trúar sinnar á Jesú Krist.“26 Iðrun og réttlátt líferni gefa möguleika á góðri samvisku, sem er nauðsynleg fyrir gleði.27 Þegar um stórt brot er að ræða, er játning nauðsynleg til að veita frið.28 Kannski er ekkert sem jafnast á við þann frið sem fæst þegar syndug sál léttir á byrði sinni við Drottin og heimtir blessanir friðþægingarinnar. Annar vinsæll sálmur úr kirkjunni orðar það þannig, „Til hans ég mína byrði ber og burtu held með söng.“29

Hjarta mitt fagnar þegar ég geri mér grein fyrir því að á okkar dögum hafa tugþúsundir ungra manna og kvenna, ásamt eldri trúboðum, tekið á móti þeirri köllun að vera sendiboðar Drottins vors og frelsara Jesú Krists Þau flytja heiminum endurreistan friðarboðskap, til einnar manneskju eða einnar fjölskyldu í einu ‒ réttlætisverk sem færir börnum himnesks föður frið.

Kirkjan er skjól þar sem fylgjendur Krists geta öðlast frið. Sumt unga fólkið í heiminum segist vera andlegt en ekki trúað. Fyrsta skrefið er að upplifa andlegar tilfinningar. Hinsvegar er það innan kirkjunnar sem við finnum stuðning vina, fáum kennslu og næringu af hinu góða orði Guðs. Enn mikilvægara er, að það er prestdæmisvaldið innan kirkjunnar sem sér okkur fyrir helgiathöfnum og sáttmálum sem binda fjölskyldur saman og gera okkur öll hæf til að snúa aftur til Guðs föðurins og Jesú Krists í himneska ríkinu. Þessar helgiathafnir færa okkur hugarró vegna þess að þær eru sáttmálar við Drottin.

Það er í musterunum sem margar af þessum helgiathöfnum eru framkvæmdar og þar veitist okkur einnig friðsælt skjól frá heiminum. Þeir sem heimsækja musterislóðirnar eða taka þátt í opnum húsum musteranna finna einnig þennan frið. Einn atburður mér ofarlega í huga er opið hús og vígsla Fiji musterisins. Það höfðu verið stjórnmálaleg umbrot sem ollu því að uppreisnarmenn höfðu kveikt í og farið ránshendi um Suva. Þeir höfðu tekið yfir þinghúsið og héldu þar fulltrúum löggjafarþingsins í gíslingu. Herlög giltu í landinu. Herinn í Fiji gaf kirkjunni takmarkað leyfi til að safna fólki saman við opið hús og leyfi fyrir mjög litlum hópi fólks við vígsluna. Boðið til kirkjuþegnanna sjálfra var dregið til baka af umhyggju fyrir öryggi þeirra. Þetta var eina musterisvígslan, frá tímum Nauvoo musterisins, sem hefur verið framkvæmd við mjög örðugar aðstæður.

Ein af þeim sem var boðið í opna húsið var yndisleg Hindúakona af indverskum uppruna, þingmaður sem hafði verið í gíslingu, en var sleppt vegna þess að hún var kona.

Í himneska herberginu, fjarri óróa heimsins, grét hún þegar hún tjáði þá sterku friðartilfinningu sem gagntók hana. Hún fann huggandi áhrif heilags anda, er hann bar henni vitni um heilagt eðli musterisins.

Frelsarinn er hin sanna uppspretta friðar. Réttlátt líferni mun verðlaunað með persónulegri hugarró, þrátt fyrir erfiðleika lífsins, vegna friðþægingar og náðar frelsarans. Í nánu umhverfi herbergisins, á páskahátíð Gyðinga, lofaði frelsarinn postulum sínum því að þeir yrðu blessaðir og að „huggarinn, andinn heilagi“ yrði með þeim, og sagði síðan þessi mikilvægu orð: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður, ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur.“30 Síðan sagði hann rétt fyrir fyrirbænina: „Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“31

Eliza R. Snow lýsti þessu hugtaki á fallegan hátt:

Lofið Guð, hjörtum lyftið hátt;

Lofgjörð sú aldrei þagna má.

Gegn ógnum kallar Kristur þrátt,

„Í mér finnið þið frið.“32

Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir

  Heimildir

  1. Tvær ráðstefnur voru haldnar í Abidjan á sunnudeginum 10. Febrúar 2013; 9,693 manns voru viðstaddir — af þeim voru 619 ekki þegnar kirkjunnar. Heildarfjöldi kirkjuþegna á Fílabeinsströndinni eru um 19.000 manns.

  2. Kenning og sáttmálar 115:6.

  3. Orðið friður á sér ólíkar merkingar. Í forngrísku vísar það til stöðvunar, rofs eða fjarveru fjandskapar á milli keppinauta. Í hebresku hefur orðið innihaldsríkari merkingu og er stundum einungis notað sem kveðja. Friður er einnig „ástand sem maðurinn einungis öðlast eftir að skilmálum og skilyrðum Guðs hefur verið hlítt“ (Howard W. Hunter, í Conference Report, okt. 1966, 14–17).

  4. Lúk 2:14; skáletrað hér.

  5. Sjá Matt 2:16; sjá einnig Ross Douthat, „The Loss of the Innocents,“ New York Times, 19. des. 2012, 12.

  6. Matt 10:16, 22.

  7. Matt 10:34.

  8. Sjá Kenning og sáttmálar 84:46.

  9. Kenning og sáttmálar 1:33.

  10. Kenning og sáttmálar 1:35.

  11. Woodruff forseti lýsti þessu yfir árið 1894 og aftur árið 1896. Sjá The Discourses of Wilford Woodruff, ritst. af G. Homer Durham (1946), 251–52; sjá einnig Marion G. Romney, í Conference Report, apríl 1967, 79–82.

  12. Sjá Joseph Fielding Smith, The Predicted Judgments, Brigham Young University Speeches of the Year (21. mars 1967), 5–6. Hinsvegar, eins og öldungur Neal A. Maxwell tók fram, „getum við öðlast hugarró, jafnvel þó að friðurinn hafi verið tekinn af jörðu…[og], allt væri í upplausn‘“ (Behold, the Enemy Is Combined,“ Ensign, maí 1993, 79).

  13. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph F. Smith (1998), 400.

  14. Kenning og sáttmálar 59:23.

  15. Teachings of Presidents of the Church: John Taylor (2001), 151.

  16. Frá tímum Grikkja til forna, fram á okkar dag, hafa þessi orð ‒ hamingja og ánægja – verið greind, krufin og glímt við, ekki einungis til að greina merkingu þeirra heldur einnig fyrir þá leiðsögn sem þau veita í lífi okkar. Sjá David Malouf, The Happy Life: The Search for Contentment in the Modern World (2011). Sjá einnig gagnrýni um bók Hr. Malouf í, R. Jay Magill Jr., “How to Live Well,” Wall Street Journal, jan. 26–27, 2013, C6.

  17. Teachings of Presidents of the Church: Heber J. Grant (2002), 226.

  18. „Þrjár af fimm stikum Fílabeinsstrandarinnar eru á meðal þeirra 25 hæstu í kirkjunni hvað snertir hlutfall fullorðinna, sem [leggja inn] fjölskyldunöfn fyrir musterisathafnir,“ og Cocody stikan á Fílabeinsströndinni er hæst (C. Terry Warner and Susan Warner, „Apostle Visits Ivory Coast, Is ‚Impressed with Exceptional Spirit,’” Church News, 3. mars 2013, 4, 14). Í kjölfar borgarastyrjaldar, og hafandi það í huga að næsta musteri er í 12 klst fjarlægð með almenningsvagni í Accra, þá er Ghana frábært dæmi um trú, og þetta hefur leitt til friðar einstaklinga og fjölskyldna.

  19. Kenning og sáttmálar 121:7–8. Harold B. Lee kenndi: „Við verðum að vera hreinsuð; við verðum að vera reynd til þess að sanna styrk þann og kraft sem innra með okkur er“ (Kenningar forseta kirkjunnar: Harold B. Lee [2000], 208).

  20. 1 Kor 14:33.

  21. Í Marion D. Hanks, „A Loving, Communicating God,” Ensign, nóv. 1992, 63.

  22. Sjá Jeffrey R. Holland, For Times of Trouble (2012), 79. Öldungur Jeffrey R. Holland kennir: „Sönn fátækt getur eyðilagt anda mannsins meira en nokkurt annað ástand, fyrir utan syndina sjálfa.“ En réttlát notkun peninga getur aukið frið.

  23. „Where Can I Turn for Peace?“ Hymns, nr. 129.

  24. Jes 9:6.

  25. John Greenleaf Whittier setti það fram á einfaldan máta: „Gefðu því gaum hvernig þú lifir. Hagaðu þér ekki þannig á daginn, að friðurinn yfirgefi þig að kvöldi.“(“Conduct [frá Mahabharata],” í Ambleside Online Poems of John Greenleaf Whittier [1802], 484).

  26. Mósía 4:3; skáletrað hér; sjá einnig Marion G. Romney, í Conference Report, apríl 1967, 79–82.

  27. Samviskan er siðferðislegur áttaviti sem beinir okkur í átt að friði. Það eru að minnsta kosti tvær uppsprettur sem hafa áhrif á hana: Ljós Krists, hinn dýrðlegi fæðingarréttur frá okkar himneska föður (sjá Kenning og sáttmálar 88:6–13; 93:2), og gjöf heilags anda (sjá Kenning og sáttmálar 39:6).

  28. „Krafa er gerð um tvíþætta fyrirgefningu til að hinn syndugi hljóti frið — frá réttum valdhöfum kirkju Drottins og frá Drottni sjálfum. [Sjá Mósía 26:29.]” (Teachings of Presidents of the Church: Spencer W. Kimball [2006], 41).

  29. „Hve blíð eru boðorð Guðs,“ Sálmar, nr. 18.

  30. Jóh 14:26–27.

  31. Jóh 16:33.

  32. „Though Deepening Trials,” Hymns, nr. 122.