Sleppa aðallóðsun
Apríl 2013 | Standa sterkir á heilögum stöðum

Standa sterkir á heilögum stöðum

Apríl 2013 Aðalráðstefna

Þegar við erum hlýðnir og staðfastir kenningu Guðs, stöndum við á heilögum stöðum, því kenning hans er heilög og óbreytanleg.

Bræður, mér er heiður af því að vera meðal handhafa hins konunglega prestdæmis Guðs. Við lifum á efstu dögum, á „örðugum tíðum.“1 Við, sem handhafar prestdæmisins, berum þá ábyrgð að standa sterkir, með skjöld trúar gegn eldörvum óvinarins. Við erum fyrirmynd heimsins, verjendur þeirra óafsalanlegu réttinda og frelsis sem Guð hefur veitt okkur. Við erum verjendur heimila og fjölskyldu okkar.

Þegar ég var níunda bekk grunnskóla, var ég eitt sinn á leið heim eftir fyrsta utanbæjarleikinn með hornaboltaliðinu. Faðir minn tók eftir að ég hafði, í langri rútuferð okkar heim, orðið vitni að orðbragði og hegðun sem ekki samræmdist stöðlum fagnaðarerindisins. Þar sem hann var lærður listamaður settist hann niður og teiknaði mynd af riddara ‒ bardagamanni, sem varið gæti kastala og konungsríki.

Þegar hann teiknaði og las í ritningunum, lærði ég hvernig vera á trúfastur prestdæmisleiðtogi ‒ að verja og vernda ríki Guðs. Orð Páls postula voru mitt leiðarljós:

„Takið því alvæpni Guðs, til þess að þér getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli, þegar þér hafið sigrað allt.

Standið því gyrtir sannleika um lendar yðar og klæddir brynju réttlætisins

og skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins.

Takið umfram allt skjöld trúarinnar, sem þér getið slökkt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda.

Takið við hjálmi hjálpræðisins og sverði andans, sem er Guðs orð.“2

Bræður, ef við erum trúfastir í prestdæminu, hljótum við þetta alvæpni sem gjöf frá Guði. Við þörfnumst þessa alvæpnis!

Ungu menn, feður ykkar og afar þurftu aldrei að glíma við þær freistingar sem þið glímið stöðugt við. Þið lifið á efstu dögum. Ef faðir ykkar hefði viljað koma sér í vandræði, hefði hann þurft að leita þeirra. En svo er ekki lengur! Nú finna freistingarnar ykkur! Festið það í huga ykkar! Satan þráir að eignast ykkur, og „syndin [liggur] við dyrnar.“3 Hvernig sjáið þið við brögðum hans? Þið íklæðist alvæpni Guðs.

Ég ætla að segja ykkur frá annarri lífsreynslu minni:

Í janúar 1982 talaði ég á hátíðarsamkomu á háskólasvæði BYU í Provo, Utah. Ég bað nemendur að ímynda sér að kirkjan væri öðru megin við ræðustólinn og heimurinn aðeins í eins metra fjarlægð hinu megin. Þetta átti að tákna „hið afar stutta bil á milli staðla heimsins og staðla kirkjunnar, þegar ég var í framhaldsskóla. Ég stóð síðan frammi fyrir nemendunum 30 árum síðar, gerði sömu bendingar með höndunum, og útskýrði: „Heimurinn hefur færst og breikkað bilið heilmikið. [Hann er ekki lengur í sjónmáli;] hann er horfinn og hefur farið út úr þessari [byggingu og umhverfis jörðina]. ... Það sem við og börn og barnabörn okkar þurfa að hafa í huga, er að kirkjan verður áfram föst á sínum stað, [hún er enn hér á sama stað] en heimurinn mun halda áfram að fjarlægjast ‒ bilið er stöðugt að breikka. ... Gætið þess vegna vel að ykkur. Ef þið miðið breytni ykkar og staðla kirkjunnar við stöðu og stefnu heimsins, munuð þið komast að því að þið eruð ekki þar sem þið ættuð að vera.“4

Á þeim tíma hefði ég ekki getað ímyndað mér hve langt og hratt heimurinn ætti eftir að fara frá Guði; ómögulegt að skilja það, því við höfum kenningar hans, reglur og boðorð. En staðlar Krists og kirkju hans hafa ekki færst úr stað. Líkt og hann sagði: „Sannleikurinn varir alltaf og að eilífu.“5 Þegar við skiljum og meðtökum þetta, verðum við undir það búin að takast á við félagslegan þrýsting, háðung og jafnvel mismunun frá heiminum og sumum þeim sem kalla sig vini.

Flest þekkjum við einhverja sem segðu: „Ef þú vilt vera vinur minn, þarftu að samþykkja lífsgildi mín.“ Sannur vinur biður okkur ekki að velja á milli fagnaðarerindisins og vináttu hans. Ég vitna í orð Páls: „Snú þér burt frá slíkum!“6 Sannur vinur hvetur okkur til að vera á hinum þrönga og krappa vegi.

Þegar við höldum okkur á vegi fagnaðarerindisins, boðorða þess, helgiathafna og sáttmála, njótum við verndar og búum okkur undir að vinna verk Guðs í þessum heimi. Þegar við hlítum Vísdómsorðinu, verndum við sjálfræði okkar gegn ánetjun efna, líkt og áfengis, lyfja og tóbaks. Þegar við greiðum tíund okkar, lesum ritningarnar, meðtökum skírn og staðfestingu, erum verðug stöðugs samfélags heilags anda, meðtökum verðug sakramentið, lifum eftir skírlífislögmálinu, búum okkur undir að meðtaka Melkísedeksprestdæmið og gera helga sáttmála í musterinu, erum við undir það búin að þjóna.

Í musterinu erum við undir það búin, og lofum, að lifa eftir helgunarlögmálinu. Hæfir ungir menn byrja á því að lifa eftir þessu lögmáli með því að sækjast eftir trúboðsköllun ‒ að gefa tíund af fyrstu árum lífs síns í fullri þjónustu við Drottin. Sú fórn eflir þá í því að sækja fram til æðsta sáttmála lífsins ‒ sem fyrir marga verður að giftast og innsiglast í musterinu og stofna eilífa fjölskyldu.

Þegar við sækjum fram á hinum krappa og þrönga vegi, byggjum við upp vaxandi andlegan styrk ‒ styrk til að nota sjálfræðið til að stjórna okkur sjálfum. Sá vöxtur eflist, bæði varðandi unga menn og konur, við að læra kenninguna og miðla vitnisburði sínum gegnum hið nýja netnámsefni, Kom,Fylgið mér.

Notið að auki sjálfræði ykkar til persónulegs þroska. Þegar þið uppgötvið gjafir ykkar og hæfileika, hafið þá í huga að foreldrar og kennarar geta aðstoðað ykkur, en þið verðið að láta andann leiða ykkur. Veljið og stjórnið ykkur sjálf. Látið andann örva ykkur. Skipuleggið líf ykkar, þar á meðal menntun eða starfsþjálfun. Kannið hvar áhugi og hæfileikar liggja. Vinnið og verðið sjálfbjarga. Setjið ykkur markmið, sigrist á mistökum, aflið ykkur reynslu og ljúkið því sem hafið var.

Gætið þess, ásamt öllu þessu, að vera virkir í fjölskyldulífi, sveit ykkar og starfi Ungmennasamtakanna. Njótið heilbrigðrar skemmtunar saman. Í þessu öllu munuð þið virða og meta andlegar gjafir hvers annars og eilíft eðli sona og dætra Guðs.

Hafið framar öllu trú á frelsarann! Óttist eigi! Þegar við lifum af kostgæfni eftir fagnaðarerindinu, verðum við sterk í Drottni. Með styrk hans megnum við að hafna and-kristi, sem segir: „Etið, drekkið og verið kát,“ því Guð „mun réttlæta, þótt menn syndgi lítils háttar. ... Það kemur ekki að nokkurri sök, ... því að á morgun deyjum vér.“7 Með styrk Drottins fáum við staðið gegn hverri heimspeki eða játningu sem afneitar frelsaranum og stríðir gegn hinni miklu og eilífu sæluáætlun fyrir öll börn Guðs.

Okkur er ekki heimilt að semja um skilyrði þeirrar eilífu áætlunar. Munið eftir Nehemía, sem var boðið að reisa múr til að verja Jesúsalem. Sumir vildu fá hann niður og til að slaka á kröfum sínum, en Nehemía hafnaði því. Hann var ekki tillitslaus gagnvart öðrum, hann útskýrði einfaldlega: „Ég hefi mikið starf með höndum og get því eigi komið ofan eftir. Hví ætti verkið að bíða...?“8

Stundum verðum við fyrir háðung og þurfum að vera „fastheldnir“ á staðla Guðs og vinna verk hans. Ég ber vitni um að við þurfum ekki að óttast, ef við erum grundvölluð á kenningu hans. Við kunnum að upplifa misskilning, gagnrýni og jafnvel falskar ásakanir, en við erum aldrei einir. Frelsari okkar var „fyrirlitinn og menn [forðuðust] hann.“9 Okkar heilögu forréttindi eru að standa með honum!

Kaldhæðnislegt er að stundum þurfum við að forðast og jafnvel flýja heiminn til að vera sterk. Frelsarinn sagði: „Vík burtu, Satan.“10 Jósef í Egyptalandi flýði og hljóp út frá freistingum eiginkonu Pótífars,11 og Lehí yfirgaf Jerúsalem og fór með fjölskyldu sína út í óbyggðirnar.12

Ég fullvissa ykkur um að allir spámenn fyrri tíma voru staðfastir:

Nefí framkvæmdi hið undursamlega verk Drottins, þrátt fyrir árásir Satans og ofsóknir Lamans og Lemúels, bræðra hans.13

Abinadí vitnaði um Krist frammi fyrir tortryggni, háðung og vísum dauða.14

Hinir 2.000 ungu stríðsmenn vörðu fjölskyldur sínar gegn þeim sem fyrirlitu gildi fagnaðarerindisins.15

Moróní hóf á loft frelsistáknið, til að verja fjölskyldur þjóðar sinnar og trúfrelsið.16

Samúel stóð á múrnum og spáði fyrir um komu Krists, jafnvel þótt steinum og örvum rigndi yfir hann.17

Spámaðurinn Joseph Smith endurreisti fagnaðarerindi frelsarans og innsiglaði vitnisburð sinn með eigin blóði.18

Og brautryðjendur mormóna voru staðfastir í gríðarlegu mótlæti og erfiðleikum, og fylgdu spámanni sínum í hinum mikla leiðangri og landnámi vestursins.

Þessir miklu þjónar og heilögu Guðs megnuðu að vera staðfastir, því þeir stóðu með frelsaranum. Íhugið hvernig frelsarinn var staðfastur:

Jesús sinnti trúfastur erindagjörðum föður síns, sem ungur drengur, og kenndi fræðimönnunum fagnaðarerindið í musterinu.19 Í þjónustutíð sinni vann hann verk prestdæmisins ‒ kenndi, læknaði, þjónaði og blessaði aðra. Þegar það átti við, stóð hann ákveðinn gegn hinu illa, og hreinsaði jafnvel musterið.20 Hann var ætíð sannleikans megin ‒ bæði í orði og tignarlegri þögn. Þegar æðstu prestarnir ásökuðu hann frammi fyrir Kaífasi, neitaði Jesús af fyrirhyggju og hugrekki að bregðast við ósannsögli og hélt ró sinni.21

Í Getsemanegarðinum, hörfaði frelsari okkar og lausnari ekki undan því að bergja hinn beiska bikar friðþægingarinnar.22 Og á krossinum þjáðist hann aftur og laut vilja föður síns, þar til hann að lokum gat sagt: „Það er fullkomnað.“23 Hann stóðst allt til enda. Viðbrögð himnesks föður við fullkominni hlýðni og staðfestu frelsarans voru: „Sjá minn elskaða son, sem ég hef velþóknun á. Í honum hef ég gjört nafn mitt dýrðlegt.“24

Kæru prestdæmisbræður, ungir sem aldnir, gerum nafn Guðs dýrðlegt með því að standa staðfastir með frelsara okkar, Jesú Kristi. Ég ber mitt sérstaka vitni um að hann lifir og að við erum „kallaðir heilagri köllun,“25 til að taka þátt í verki hans. „Standið þess vegna á heilögum stöðum og haggist ekki.“26 Við stöndum á heilögum stöðum með því að vera hlýðnir og staðfastir kenningu Guðs, því kenning hans er heilög og mun ekki breytast í félagslegum og pólitískum vindum okkar tíma. Ég lýsi yfir með Páli postula: „Vakið, standið stöðugir í trúnni, verið karlmannlegir og styrkir.“27 Þetta er innileg bæn mín í ykkar þágu, í hinu heilaga nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir