Sleppa aðallóðsun
Apríl 2013 | Faðirinn og sonurinn

Faðirinn og sonurinn

Apríl 2013 Aðalráðstefna

Réttur skilningur á föðurnum og syninum er kjarni og frelsunarmáttur fagnaðarerindis Jesú Krists.

Kæru bræður og systur, ég er þakklátur fyrir að tala til ykkar í dag á þessari innblásnu aðalráðstefnu!

Áður en ég fjalla um mál, sem fyrir mér er mjög heilagt, vil ég viðurkenna með þakklæti trúfesti svo margra kristinna manna í gegnum aldirnar, þar á meðal forfeðra minna, sem voru franskir mótmælendur og írskir kaþólikkar. Vegna trúar sinnar á Guð og tilbeiðslu fórnuðu margir þeirra stöðu sinni, eigum og jafnvel lífi, við að verja Guð sinn og trú sína.1

Sem Síðari daga heilagir og kristið fólk eigum við líka sterka og djúpa trú á Guð hinn eilífa föður og á son hans Jesú Krist. Trúrækni verður ævarandi heilagt og persónulegt mál milli okkar og skapara okkar.

Leit okkar að eilífu lífi er ekkert annað en sú leit, að skilja hver Guð er og að komast aftur til að lifa hjá honum. Frelsarinn bað til föður síns: „Það er hið eilífa líf, að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir.“2

Jafnvel í ljósi þessarar yfirlýsingar frá frelsaranum sjálfum er hið ríkjandi álit á eðli Guðs föðurins og sonarins í gegnum aldirnar og meðal margra manna greinilega ekki í samræmi við kenningar hinna heilögu ritninga.

Við lýsum því virðingarfyllst yfir, að réttur skilningur á föðurnum og syninum sé kjarni og frelsunarmáttur fagnaðarerindis Jesú Krists.3

Mikilvægi þessarar helstu grundvallarreglu fagnaðarerindis Jesú Krists er staðfest í Fyrstu sýn spámannsins Josephs Smith árið 1820. Spámaðurinn ritaði: „[Ég sá] tvær verur, svo bjartar og dýrðlegar, að ekki verður með orðum lýst, og stóðu þær fyrir ofan mig í loftinu. Önnur þeirra ávarpaði mig, nefndi mig með nafni og sagði, um leið og hún benti á hina: Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!4

Þessi upplifun drengsins Josephs, sem og margar aðrar sýnir og opinberanir sem fylgdu í kjölfarið, opinbera að Guð er í raun til; að faðirinn og sonurinn, Jesús Kristur, eru tvær aðskildar og aðgreindar verur; að maðurinn er skapaður í líkingu Guðs; að okkar himneski faðir er bókstaflega faðir Jesú Krists; að Guð heldur áfram að opinbera sig manninum; að Guð er ætíð nærri og hefur áhuga á okkur og hann svarar bænum okkar.

Þótt aðrar svipaðar sýnir af föðurnum og syninum í heilögum ritningum séu sjaldgæfar, þá er það markverð staðreynd að Fyrsta sýnin er í miklu samræmi við aðra slíka ritaða atburði í ritningunum.

Við lesum til dæmis í lokavitnisburði Stefáns í Nýja testamentinu er hann leið píslarvættisdauða: Hann sagði: „Ég sé himnana opna og Mannssoninn standa til hægri handar Guði.“5

Jóhannes postuli sá „[heilagan] Drottin Guð“6 í mikilli sýn er hann var á eyjunni Patmos. Einnig sá hann lambið sem „[keypti] menn Guði…með blóði [sínu].“7

Kenningar um föðurinn og soninn eru að finna í tignarlegum vitnisburði í Mormónsbók sem og hinni heilögu Biblíu. Í Mormónsbók er skráð heimsókn frelsara okkar til Nefítanna, þar sem rödd föðurins, í návist um 2.500 Nefíta, kynnir hinn upprisna Krist: „Sjá minn elskaða son, sem ég hef velþóknun á. Í honum hef ég gjört nafn mitt dýrðlegt ‒ hlýðið á hann.“8

Í Guðspjöllunum fjórum vísar Kristur sjálfur 160 sinnum til síns himneska föður og í þriggja daga þjónustu sinni meðal Nefítanna, sem skráð er í Mormónsbók, vísar hann 122 sinnum til föður síns.

Í Matteus segir Jesús til dæmis: „Ekki mun hver sá, sem við mig segir:, Herra, herra,‘ ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum.“9

Í Jóhannesarguðspjalli vitnar hann: „Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra.“10

Og í Lúkasarguðspjalli hrópar hann: „Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn.“11

Í hvert skipti sem Drottinn okkar talar um sinn himneska föður, gerir hann það af mikilli virðingu og undirgefni.

Ég vona að það felist enginn misskilningur í orðum mínum. Jesú Kristur er hinn mikli Jehóva, Guð Ísraels, hinn fyrirheitni Messías, og hann er frelsari og lausnari heimsins vegna sinnar takmarkarlausu friðþægingar. Páll postuli lýsti yfir eftirfarandi um hann: „Síðan kemur endirinn, er [Kristur] selur ríkið guði föður í hendur, er [Kristur] hefur að engu gjört sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft.“12

Kvöldið fyrir friðþægingarfórn frelsarans bað hann sína miklu fyrirbæn til föður síns. Hann bað:

„Ég bið ekki einungis fyrir þessum [með öðrum orðum postulum sínum], heldur og fyrir þeim, sem á mig trúa fyrir orð þeirra,

að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi, að þú hefur sent mig.

Og ég hef gefið þeim þá dýrð, sem þú gafst mér, svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt.“13

Faðirinn og sonurinn eru aðskildar og aðgreindar verur, en þeir eru fullkomlega sameinaðir og eitt í krafti og tilgangi. Eining þeirra er ekki bara ætluð þeim einum, heldur þrá þeir þá sömu einingu fyrir alla þá sem af trúrækni fylgja og hlýða boðorðum þeirra.

Hvernig getur einlægur leitandi Guðs lært að þekkja föðurinn og soninn? Frelsari okkar lofaði: „En hjálparinn, andinn heilagi, … mun kenna yður allt.“14

Er Nefí fjallar um kenningar Krists í Mormónsbók, lýsir hann yfir að heilagur andi „[vitni] um föðurinn og soninn.“15

Rétt er, að hægt er að finna kraft eða áhrif heilags anda af og til, samkvæmt vilja Drottins, sama hver trúarleg skoðun viðkomandi er. Hins vegar hlýtur maðurinn ekki fullan kraft eða gjöf heilags anda fyrr en hann hefur með „[sundurkrömdu] hjarta og sáriðrandi anda“16 meðtekið helgiathafnir skírnar og gjafar heilags anda með handayfirlagningu.17 Þessar og aðrar helgiathafnir er eingöngu hægt að framkvæma undir stjórn og með krafti hins heilaga prestdæmis Guðs: Í tengslum við þetta er okkur kennt:

„Og þetta æðra prestdæmi framkvæmir fagnaðarerindið og heldur lyklinum að leyndardómum ríkisins, já, lyklinum að þekkingu Guðs.

Í helgiathöfnum þess opinberast því kraftur guðleikans.“18

Í þessu ljósi sjáum við að kenningin um föðurinn og soninn er kenningin um hina eilífu fjölskyldu. Sérhver mannvera hefur verið til áður sem andabarn himneskra foreldra,19 þar sem Kristur var frumburður föðurins í þessari himnesku fjölskyldu.20

Þannig er það með okkur öll. Við erum börn okkar himneska föður.

Ezra Taft Benson forseti sagði með spámannlegri innsýn: „Ekkert mun koma okkur meira á óvart þegar við förum í gegnum huluna og komum hinu megin, en að verða það ljóst hve vel við þekkjum föður okkar [á himnum] og hversu kunnuglegt andlit hans er okkur.“21

Mér hefur lærst, að ekki er hægt að tjá á mannamáli þá hluti sem einungis eru opinberaðir með heilögum anda og krafti Guðs. Í þeim anda ber ég ykkur hátíðlegan vitnisburð minn um raunveruleika, nálægð og gæsku okkar himneska föður og hans heilaga sonar, Jesú Krists. Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir

  Heimildir

  1. Sjá Kenneth Scott Latourette, A History of Christianity, Volume 1: Beginnings to 1500, endursk. útgáfu (1975) og A History of Christianity, Volume 2: Reformation to the Present, endursk. útgáfu (1975); sjá einnig Diarmaid MacCulloch, The Reformation (2003).

  2. Jóh 17:3.

  3. Sjá Lectures on Faith (1985), 38–44.

  4. Joseph Smith‒Saga 1:17.

  5. Post 7:56.

  6. Op 4:8.

  7. Op 5:9.

  8. 3 Ne 11:7.

  9. Matt 7:21; skáletrað hér.

  10. Jóh 5:19; skáletrað hér.

  11. Lúk 23:46; skáletrað hér.

  12. 1 Kor 15:24. Til frekari skilnings á frelsaranum og þjónustu hans sjá „Hinn lifandi Kristur: Vitnisburður postulanna tólf,” Ensign eða Líahóna, apríl 2000, 2–3.

  13. Jóh 17:20–22; skáletrað hér.

  14. Jóh 14:26.

  15. 2 Ne 31:18.

  16. 3 Ne 9:20; Moró 6:2.

  17. Sjá Jóh 3:5; 3 Ne 11:31–38.

  18. Kenning og sáttmálar 84:19–20.

  19. Sjá „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,” Ensign eða Líahóna, nóv. 2010, 129.

  20. Sjá Kol 1:15; Kenning og sáttmálar 93:21.

  21. Ezra Taft Benson, „Jesus Christ‒Gifts and Expectations,” í Speeches of the Year, 1974 (1975), 313; sjá einnig „Jesus Christ‒Gifts and Expectations,” Ensign, des. 1988, 6; Tambuli, maí 1977, 24.