2010–2019
Heimilið: Skóli lífsins
Apríl 2013


Heimilið: Skóli lífsins

Lexíur ... eru lærðar á heimilinu ‒ þeim stað sem getur orðið brot af himnaríki hér á jörðu

Sumir foreldrar afsaka mistök sem þau hafa gert á heimilinu og segja að ástæðan sé að enginn skóli kenni foreldrahlutverkið.

Slíkur skóli er í raun til og getur verið bestur allra skóla. Sá skóli nefnist heimilið.

Er ég ferðast aftur í tímann á vængjum minninganna, rifjast upp dýmætar stundir sem ég hef átt með eiginkonu minni. Er ég deili þessum minningum með ykkur, kunnið þið að minnast ykkar eigin stunda ‒ bæði gleðilegra og sorglegra; við lærum af þeim öllum.

1. Musterið er staðurinn

Þegar ég kom heim eftir trúboðið mitt, hitti ég gullfallega unga konu, með sítt svart hár sem náði niður að mitti. Hún var með stór og falleg hunangslituð augu og smitandi bros. Hún heillaði mig frá þeirri fyrstu stundu sem ég sá hana.

Eiginkona mín hafði sett sér það markmið að giftast í musterinu – jafnvel þó að næsta musteri á þeim tíma væri í 6.400 km fjarlægð.

Borgaraleg athöfn okkar var bæði ánægjuleg og sorgleg, því að hjónaband okkar hafði takmarkaðan gildistíma. Fulltrúinn sagði orðin „Nú lýsi ég ykkur eiginmann og eiginkonu,“ og strax á eftir sagði hann „þar til dauðinn aðskilur ykkur.“

Við einsettum okkur að kaupa miða aðra leiðina til musterisins í Mesa, Arizona, og það krafðist fórna.

Þegar við krupum við altarið í musterinu, heyrði ég þjón með valdsumboð segja orðin sem ég hafði þráð, sem lýstu okkur eiginmann og eiginkonu um tíma og alla eilífð.

Vinur okkar fór með okkur í sunnudagaskóla. Í tímanum stóð hann upp og kynnti okkur fyrir bekknum. Að kennslustund lokinni kom einn trúbróðir til mín, tók í hönd mína og skildi 20 dollara seðil eftir í henni. Fljótlega teygði annar bróðir sig líka til mín og mér til undrunar skildi hann einnig eftir seðil í hönd minni. Ég leit snöggt á eiginkonu mína, sem stóð hinumegin í herberginu, og kallaði: „Blanquy, taktu í hönd allra!“

Fjótlega vorum við komin með nægilegt fjármagn til að snúa aftur til Gvatemala.

„Í hinni himnesku dýrð eru þrír himnar eða stig,

og til þess að ná því æðsta verður maðurinn að ganga inn í þessa prestdæmisreglu.”1

2. Það þarf tvo til þess að deila

Eitt af kjörorðum konu minnar hefur verið: „Það þarf tvo til þess að deila, og ég mun aldrei verða annar þeirra.“

Drottinn hefur á mjög skýran hátt lýst þeim eiginleikum sem ættu að leiða okkur í samskiptum við annað fólk. Þeir eru fortölur, umburðarlyndi, mildi, hógværð og fölskvalaus ást.2

Líkamlegt ofbeldi á heimilinu gerist æ sjaldnar í vissum samfélögum og við fögnum því. Hins vegar erum við langt frá því að uppræta andlegt ofbeldi. Skaðinn sem slíkt ofbeldi veldur dvelur í minningunni, hann særir persónuleika okkar, hann sáir hatri í hjörtu okkar, lækkar sjálfsmat okkar og fyllir okkur ótta.

Ekki er nægilegt að taka þátt í athöfn himnesks hjúskaparsáttmála. Við verðum einnig að lifa himnesku lífi.

3. Barn sem syngur er hamingjusamt barn

Þetta er annað kjörorð sem eiginkona mín minnist oft á.

Frelsarinn skildi mikilvægi helgrar tónlistar. Ritningarnar greina svo frá, eftir að hann hélt páska með lærisveinum sínum: „Og er þeir höfðu sungið lofsönginn, fóru þeir út til Olíufjallsins.“3

Fyrir munn spámannsins Josephs sagði hann: „Sál mín hefur unun af söng hjartans, já, söngur hinna réttlátu er bæn til mín, og henni mun svarað með blessun yfir höfuð þeirra.”4

Hve hjartnæmt það er að heyra söng lítils barns, sem af foreldrum sínum hefur lært að syngja „Guðs barnið eitt ég er.“5

4. Ég þarf faðmlag frá þér

Orðin „Ég elska þig,“ „þakka þér fyrir“ og „fyrirgefðu,“ eru eins og smyrsl á sálina. Þau umbreyta tárum í hamingju. Þau veita sorgmæddri sál huggun og staðfesta ljúfar tilfinningar hjartans. Á sama hátt og plantan, sem skortir hið nauðsynlega vatn, mun ást okkar fjara út og deyja, ef orð og verk kærleikans hyrfu.

Ég man þá daga þegar við sendum ástarbréf í gegnum venjulegan póst og hvernig við söfnuðum smápeningum til að hringja í ástvini úr símaklefum, eða hvernig við teiknuðum og sömdum ástarljóð á venjulegan pappír.

Í dag hljómar þetta allt eins og safngripir!

Með nútíma tækni getum við gert undraverða hluti. Hve auðvelt er að senda skilaboð ástar og þakklætis! Ungdómurinn gerir það reglulega. Ég velti því fyrir mér hvort þetta og annað yndislegt, muni halda áfram þegar við höfum stofnað heimili. Nýlega bárust mér svohljóðandi textaskilaboð frá konu minni: „Himneskt faðmlag, sólarkoss og tunglskinskvöld, Yndislegur dagur. Ég elska þig.“

Mér finnst ég kominn til himna þegar ég fæ slík skilaboð.

Faðir okkar á himnun er fullkomið dæmi um hvernig á að tjá kærleika. Er hann kynnti son sinn, notaði hann orðin: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“6

5. Ég ann Mormónsbók og frelsara minum, Jesú Kristi

Ég fyllist elsku þegar ég sé eiginkonu mína lesa Mormónsbók daglega. Ég get fundið vitnisburð hennar þegar hún gerir svo, bara með því að fylgjast með gleðisvip hennar er hún les þá kapítula sem vitna um hlutverk frelsarans.

Hve mikil viska er í orðum frelsara okkar: „Rannsakið ritningarnar, því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf: og það eru þær, sem vitna um mig.“7

Innblásinn af þessum orðum, sagði ég við Raquel, barnabarn mitt, sem nýlega hafði lært að lesa, „Hvað segðir þú um að setja þér markmið um að lesa Mormónsbók?“

Svar hennar var, „En, afi, það er svo erfitt. Það er stór bók.“

Þá bað ég hana að lesa fyrir mig eina blaðsíðu. Ég náði í skeiðklukku og tók tímann á henni. Ég sagði við hana: „Þetta tók þig aðeins þrjár mínútur, og spánska útgáfan af Mormónsbók er 642 blaðsíður, svo þú þarft 1.925 mínútur.”

Þetta gæti hafa hrætt hana enn meira svo ég deildi í þá tölu með 60 mínútum og sagði henni að hún þyrfti einungis 32 klukkustundir til að lesa hana ‒ minna en einn og hálfan dag.

Þá sagði hún við mig: „Það er lítið mál, afi.“

Þegar upp var staðið, tók það Raquel og bróðir hennar Esteban, og hin barnabörnin okkar, lengri tíma en það, því að þetta er bók sem þarf að lesa með anda bænar og hugleiðslu.

Er við lærum að njóta ritninganna munum við, með tímanum, segja eins og sálmaskáldið: „Hversu sæt eru fyrirheit þín gómi mínum, hunangi framar munni mínum!“8

6. Það er ekki nóg að þekkja ritningarnar; við verðum að lifa eftir þeim

Ég man að þegar ég var nýkominn heim af trúboði mínu og hafði kynnt mér ritningarnar af kostgæfni, þá hélt ég að ég kynni þetta allt. Í tilhugalífi okkar Blanquy lásum við ritningarnar saman. Ég deildi þekkingu minni á fagnaðarerindinu með henni með því að nota mikið af glósunum mínum og tilvitnunum. Eftir að við giftumst kenndi hún mér stóra lexíu og ég komst að mjög mikilvægri niðurstöðu: Ég reyndi kannski að kenna henni fagnaðarerindið en hún kenndi mér að lifa eftir því.

Þegar frelsarinn lauk fjallræðu sinni gaf hann þetta skynsamlega ráð: „Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, honum má líkja við hygginn mann, er byggði hús sitt á bjargi.“9

Þeir sem lifa eftir þeim himnesku lögmálum sem finna má í ritningunum, veita hinum þjáðu huggun. Þeir færa þeim gleði sem eru langt niðri, þeim leiðsögn sem eru týndir, þeim frið sem eru ráðvilltir og þeim örugga leiðsögn sem leita sannleikans.

Samantekt:

  1. Musterið er staðurinn.

  2. Það þarf tvo til þess að deila og ég mun aldrei verða annar þeirra.

  3. Barn sem syngur er hamingjusamt barn.

  4. Ég þarf faðmlag frá þér.

  5. Ég ann Mormónsbók og frelsara minum, Jesú Kristi.

  6. Það er ekki nóg að þekkja ritningarnar, við verðum að lifa eftir þeim

Þessar lexíur, og margar aðrar, lærast á heimilinu ‒ þeim stað sem getur orðið brot af himnaríki á jörðu.10 Ég ber minn vitnisburð um að fagnaðarerindi Jesú Krists og áætlun himnesks föður, veita okkur örugga leiðsögn í þessu lífi og loforð um eilíft líf, í nafni Jesú Krists, amen.