Sleppa aðallóðsun
Apríl 2013 | Vonarljós Guðs

Vonarljós Guðs

Apríl 2013 Aðalráðstefna

Þegar við leitumst við að auka ást okkar á Guði og elska náunga okkar, mun ljós fagnaðarerindisins umlykja okkur og lyfta okkur.

Dyr uppljómunar

Ég er með kært málverk í skrifstofunni minni sem er kallað Dyr uppljómunar. Það var málað af vini mínum, danska listamanninum Johan Benthin, sem var fyrsti stikuforseti Kaupmannahafnarstikunnar í Danmörku.

Málverkið sýnir dimmt herbergi með opnar dyr sem ljós skín inn um. Mér finnst áhugavert, að ljósið sem kemur út um dyrnar lýsir ekki upp allt herbergið — aðeins svæðið beint fyrir framan dyrnar.

Fyrir mér er myrkrið og ljósið á þessu málverki táknrænt fyrir lífið. Það er hluti af aðstæðum okkar sem dauðlegum verum að finnast við stundum umlukin myrkri. Við kynnum að hafa misst ástvin, barn gæti hafa villst af leið, við gætum hafa greinst með alvarlegan sjúkdóm, við gætum átt í erfiðleikum með atvinnu og verið þjökuð af efasemdum og ótta, eða okkur fundist við vera ein og ástvinalaus.

En jafnvel þótt okkur finnist við vera týnd við núverandi aðstæður, lofar Guð okkur vonarljósi sínu — hann lofar að lýsa upp veginn framundan og sýna okkur leiðina út úr myrkrinu.

Herbergi fullt af myrkri

Ég vil segja ykkur frá konu sem óx upp í herbergi fullu af myrkri — ég mun kalla hana Jane.

Allt frá þriggja ára aldri var Jane endurtekið barin, lítillækkuð og misnotuð. Henni var hótað og hún hædd. Hún vaknaði hvern morgun í óvissu um hvort hún myndi lifa daginn af. Fólkið sem hefði átt að vernda hana voru þau sem pyntuðu hana eða leyfðu misnotkun hennar að viðgangast.

Sjálfri sér til verndar lærði Jane að hætta að finna til. Hún átti enga von um björgun, og því herti hún sjálfa sig upp gegn hryllingi raunveruleika síns. Í hennar heimi var ekkert ljós, því tók hún að sætta sig við myrkrið. Með deyfð, sem aðeins getur stafað af samfelldri og stöðugri snertingu við hið illa, samþykkti hún þá staðreynd að hver stund gæti verið hennar síðasta.

Þá gerðist það að Jane, þá 18 ára gömul, kynntist Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Gleði og von hins endurreista fagnaðarerindis altók hjarta hennar og hún tók á móti skírnarboðinu. Í fyrsta sinn kom ljós inn í líf hennar, og hún sá bjarta braut framundan. Hún yfirgaf myrkrið umhverfis og ákvað að sækja skóla víðs fjarri kvalara sínum. Loksins fann hún sig lausa úr umhverfi myrkurs og illsku — frjálsa til að njóta ljúfs friðar frelsarans og kraftaverks lækningar.

En mörgum árum síðar, eftir að kvalari hennar var dáinn, ollu hinir hræðilegu atburðir æskunnar henni hugarangri á ný. Djúp depurð og reiði virtist ætla að eyðileggja hið dásamlega ljós sem hún hafði fundið í fagnaðarerindinu. Hún gerði sér grein fyrir, að ef hún leyfði því myrkri að hremma sig, hefði kvalari hennar unnið lokasigur.

Hún leitaði eftir ráðgjöf og lyfjameðferð og tók að gera sér ljóst, að fyrir sig væri besta leiðin til lækningar að skilja að myrkrið væri til og sætta sig við það — en ekki að dvelja í því. Því að eins og hún nú vissi, var ljósið einnig til — og það var í því sem hún valdi að dvelja.

Með sína myrku fortíð hefði Jane auðveldlega getað orðið hefnigjörn, illgjörn eða ofbeldisfull. En það varð hún ekki. Hún stóðst þá freistingu að auka myrkrið með reiði, sársauka eða tortryggni. Þess í stað hélt hún fast í þá von, að með Guðs hjálp gæti hún hlotið lækningu. Hún kaus að geisla frá sér birtu og helga líf sitt því að hjálpa öðrum. Sú ákvörðun gerði henni kleift að leggja fortíðina að baki og stíga inn í dýrðlega og bjarta framtíð.

Hún varð skólakennari, og nú, áratugum síðar, hefur kærleikur hennar haft áhrif á líf hundruð barna, hjálpað þeim að vita að þau eru verðmæt, að þau eru mikilvæg. Hún hefur gerst óbugandi verjandi hinna veiku, þeirra sem eru fórnarlömb, og hinna vonlausu. Hún byggir upp, styrkir alla umhverfis sig og veitir þeim innblástur.

Jane lærði, að lækning fæst þegar við færumst fjær myrkrinu og göngum á vit vonarljóssins. Það gerðist þegar hún tileinkaði sér trú, von og kærleika, umbreytti ekki aðeins sínu eigin lífi, heldur blessaði eilíflega líf margra, margra annarra.

Ljós laðast að ljósi

Það kunna að vera einhverjir ykkar á meðal sem finnst myrkrið fara að umlykja sig. Ykkur kann að finnast þið burðast með áhyggjur, ótta og efasemdir. Við ykkur öll endurtek ég dásamlegan og ákveðinn sannleika – ljós Guðs er raunverulegt. Það stendur öllum til boða! Það lífgar alla hluti.1 Það hefur kraft til að milda sársauka hinna dýpstu sára. Það getur orðið græðandi smyrsl við einmanaleika og veikindum sálar okkar. Í plógfar örvæntingar megnar það að sá fræi bjartari vonar. Það getur lýst upp hinn dýpsta sorgardal. Það getur lýst upp leiðina framundan og leitt okkur gegnum hina dimmustu nótt inn í fyrirheit nýrrar dögunar.

Þetta er „andi Jesú Krists,“ sem gefur „sérhverjum manni ljós, sem í heiminn kemur.“2

Engu að síður berst andlegt ljós sjaldnast inn til þeirra sem aðeins sitja í myrkrinu og bíða eftir að einhver kveiki á rofanum. Það þarf trú til að opna augu okkar fyrir ljósi Krists. Andlegt ljós verður ekki skynjað með veraldlegum augum. Jesús Kristur kenndi sjálfur: „Ég er ljósið, sem skín í myrkrinu, en myrkrið skynjar það ekki.“3 Því „maðurinn án anda veitir ekki viðtöku því, sem Guðs anda er, því að það er honum heimska og hann getur ekki skilið það, af því að það dæmist andlega.“4

Hvernig ljúkum við þá upp augum okkar fyrir vonarljósi Guðs?

Í fyrsta lagi, byrjið þar sem þið eruð stödd.

Er það ekki dásamlegt að vita, að við þurfum ekki að vera fullkomin til þess að njóta blessana og gjafa himnesks föður? Við þurfum ekki að bíða þess að komast yfir marklínuna til þess að taka á móti blessunum Guðs. Staðreyndin er sú, að himnarnir taka að ljúkast upp og blessanir himins að streyma til okkar strax við fyrstu skrefin sem við stígum í átt að ljósinu.

Nákvæmlega rétti staðurinn til að byrja er einmitt þar sem þið nú eruð stödd. Það skiptir ekki máli hversu óhæf þið teljið ykkur vera eða hversu langt á eftir öðrum ykkur finnst þið vera. Á nákvæmlega sama augnabliki og þið byrjið að leita himnesks föður, á því sama augnabliki tekur vonarljós hans að vekja, lífga, og göfga sál ykkar.5 Myrkrið hverfur ef til vill ekki allt í einu, en eins örugglega og nótt víkur ætíð fyrir degi, mun ljósið koma.

Í öðru lagi, snúið hjarta ykkar að Drottni.

Lyftið upp hjarta ykkar í bæn, og útskýrið fyrir himneskum föður hvernig ykkur líður. Viðurkennið ágalla ykkar. Úthellið hjarta ykkar og látið í ljós þakklæti ykkar. Látið hann vita um þá erfiðleika sem þið standið frammi fyrir. Ákallið hann í nafni Jesú Krists um styrk og stuðning. Biðjið um að eyru ykkar opnist, að þið getið heyrt rödd hans. Biðjið um að augu ykkar opnist, að þið fáið séð ljós hans.

Í þriðja lagi, gangið í ljósinu.

Himneskur faðir veit að þið munuð gera mistök. Hann veit að þið munuð hrasa — ef til vill mörgum sinnum. Það hryggir hann, en hann elskar ykkur. Hann óskar ekki að brjóta niður anda ykkar. Þvert á móti. Hann þráir að þið rísið upp og verðið sú persóna sem ykkur var ætlað að vera.

Í þeim tilgangi sendi hann son sinn til þessarar jarðar, til að lýsa upp leiðina og sýna okkur hvernig yfirstíga megi af öryggi þá ásteytingarsteina sem á vegi okkar verða. Hann hefur gefið okkur fagnaðarerindið, sem kennir leið lærisveinsins. Það kennir okkur það sem við verðum að vita, gera og vera, til að ganga í hans ljósi, fylgja í fótspor hans ástkæra sonar.

Ljós sigrast á myrkri

Já, okkur verða á mistök.

Já, við missum móðinn.

En þegar við leitumst við að auka ást okkar á Guði og elska náunga okkar, mun ljós fagnaðarerindisins umlykja okkur og lyfta okkur. Myrkrið mun örugglega hopa, því það fær ekki staðist í ljósinu. Þegar við nálgumst Guð, mun hann nálgast okkur.6 Og dag frá degi mun vonarljós Guðs styrkjast innra með okkur og verða „skærara og skærara þar til hinn fullkomna dag.“7

Öllum þeim sem finnst þeir ganga í myrkri, býð ég að treysta á þetta ákveðna loforð gefið af frelsara mannkyns: „Ég er ljós og líf heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“8

Ljós í Afríku

Fyrir nokkrum árum hlutum við, ég og eiginkona mín Harriet, eftirminnilega reynslu þar sem við sáum þetta loforð uppfyllast. Við vorum í Vestur-Afríku, fögrum heimshluta þar sem kirkjan er að vaxa og hinir Síðari daga heilögu eru hrífandi. Á hinn bóginn hefur Vestur-Afríka einnig sínar áskoranir við að glíma. Einkum hryggði mig hin mikla fátækt sem ég sá. Í borgunum er mikið atvinnuleysi og fjölskyldurnar berjast oft í bökkum með að sjá fyrir daglegum þörfum sínum og tryggja öryggi sitt. Það rann mér til rifja hversu margir af hinum dýrmætu meðlimum kirkjunnar búa við slíka örbirgð. En ég komst líka að því, að þessir góðu meðlimir hjálpa hver öðrum að létta þungar byrðar sínar.

Við komum að lokum að einu samkomuhúsi okkar í nánd við eina stórborgina. En í stað þess að finna fólk byrðum hlaðið og þrúgað af myrkri, fundum við glaðsinna fólk sem geislaði frá sér ljósi! Hamingjan sem það finnur í fagnaðarerindinu var smitandi og lyfti anda okkar. Kærleikurinn sem þau sýndu okkur vakti okkur auðmýkt. Bros þeirra voru einlæg og smitandi.

Ég minnist þess að hafa hugsað á þeim tíma, hvort mögulega gæti verið hamingjusamara fólk að finna á gjörvallri jörðinni. Þótt þessir kæru heilögu væru umkringdir erfiðleikum og vandamálum, voru þeir fullir af ljósi.

Samkoman hófst og ég tók til máls. En fljótlega varð spennufall í byggingunni og við vorum í svartamyrkri.

Fyrst í stað gat ég varla séð neinn í söfnuðinum, en ég gat séð og skynjað geislandi og fögur bros hinna heilögu okkar. Ó, hve kært mér var að vera með þessu dásamlega fólki!

Áfram réð dimman ríkjum í kapellunni, svo að ég settist hjá konu minni og beið eftir að rafmagnið kæmist á aftur. Á meðan við biðum, gerðist dálítið eftirminnilegt.

Nokkrar raddir hófu að syngja einn af sálmum endurreisnarinnar. Og síðan bættust fleiri í hópinn. Og enn fleiri. Fyrr en varði fyllti ljúfur og ómótstæðilegur kór radda kapelluna.

Þessir meðlimir kirkjunnar þurftu ekki sálmabækur, þeir kunnu utan að hvert orð allra sálmanna sem þeir sungu. Og þeir sungu hvern sönginn á fætur öðrum af krafti og anda sem snart sál mína.

Að lokum leiftruðu ljósin á ný og albjart varð í salnum. Við Harriet litum hvort á annað, kinnar okkar voru tárvotar.

Mitt í þessu mikla myrkri höfðu þessir fögru, dásamlegu heilögu fyllt kirkjubygginguna og sálir okkar skæru ljósi.

Þessi stund hafði djúp áhrif á okkur — nokkuð sem við Harriet munum aldrei gleyma.

Komið til ljóssins

Já, öðru hverju kann líf okkar að komast í snertingu við, eða jafnvel vera umvafið myrkri. Stundum getur nóttin sem umlykur okkur virst yfirþyrmandi, lamandi og skelfileg.

Hjarta mitt hryggist vegna þeirra mörgu sorga sem sum ykkar standa frammi fyrir, sársauka einsemdar og þjakandi ótta sem kann að ásækja ykkur.

Engu að síður ber ég því vitni, að hin lifandi von okkar er í Kristi Jesú! Hann er hinar sönnu, hreinu og máttuga dyr að guðlegri uppljómun.

Ég ber því vitni, að með Kristi fær myrkrið engu áorkað. Myrkrið nær ekki að sigra ljós Krists.

Ég ber því vitni, að myrkrið fær ekki staðist hið skæra ljós sonar hins lifandi Guðs!

Ég býð ykkur öllum að opna hjarta ykkar fyrir honum. Leitið hans með námi og í bæn. Komið til kirkju hans, já, Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Lærið af honum og af fagnaðarerindi hans, verið virkir þátttakendur, hjálpið hvert öðru, og þjónið Guði af glöðum huga.

Bræður og systur, jafnvel eftir hina dimmustu nótt mun frelsari heimsins leiða ykkur inn í vaxandi, ljúfa og bjarta dögun sem vissulega mun rísa hið innra með ykkur.

Þegar þið gangið í áttina að vonarljósi Guðs, munuð þið uppgötva samúð, ást, og góðleika ástríks himnesks föður, „og myrkur er alls ekki í honum.“9 Um það ber ég vitni, í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir