2010–2019
Það veit ég
Apríl 2013


Það veit ég

Eftir allt það sem ég hef lesið, kennt og lært, er vitnisburður minn sem sérstakt vitni frelsarans Jesú Krists sá dýrmætasti og helgasti sannleikur sem ég get gefið.

Árið 1992, þegar ég hafði þjónað í níu ár sem aðstoðarmaður hinna Tólf og í 22 ár sem einn hinna Tólf, var ég orðinn sextíu og átta ára. Mér fannst ég knúinn til að byrja á því sem ég nefni „Ólokin ritsmíð.“ Fyrsti hluti hennar er svohljóðandi:

Að kvöldi barst mér hugsun ein,

afar djúp og víð.

Hún læddist að er lúinn var

og svefni frá mér stal.

Ég hafði átt mjög strangan dag,

og líf mitt í hnotskurn sá.

En hugsunin varð þessi:

Áður var ég yngri en sextíu og átta!

Ég haltraði hvorki né hökti,

né herðar sárar bar.

Þá þuldi ég texta langan,

og las með augum skýrum.

Þá vann ég daga langa,

án hvíldar eða hlés.

Það sem mér ofraun reynist nú,

mér auðvelt reyndist þá.

Ef til baka gæti farið,

ef sá væri kostur nú,

ég kysi heldur elli en æsku,

því árin mér visku veitti.

Ég áfram eldist glaður,

og æskuna góðu í fjarlægð sé.

Ef færi til baka, ég missti svo margt

já, vitneskju mína alla.

Tíu árum síðar ákvað ég að bæta fáeinum línum við ritsmíðina:

Liðin eru tíu ár, sem dagur væri,

og með þeim þraut og þjáning.

Í mjaðmastað er málmur,

svo enn get ég gengið beinn.

Þynna heldur hálsliðunum föstum ‒

Dásamleg uppfinning það!

Hún sneri á mænuveiki skæða,

og kynslóðinni stífu tilheyri ég nú.

Aldursmörkin skýrt má sjá,

og eftirleiðis ekkert betra verður.

Það eina sem vex og dafnar vel,

er gleymskan og ellimörkin.

Þið spyrjið: „Manstu eftir okkur?“

Auðvitað, þið eruð alltaf næstum eins.

En verið alveg róleg,

þótt nafnið sé úr minni horfið.

Jú, víst hef ég lært sumt af því,

sem ég ei hefði viljað læra,

en aldurinn sýndi mér sannleik þann,

sem andann stöðugt styrkir.

Af öllum blessunum sem berast mér,

besta af öllu reynist mér,

sú vinátta og stoð,

sem eiginkona mín veitir.

Öll börnin hafa gift sig vel,

og eiga börn nú sjálf,

og barnabörnin hrannast upp,

Hve hratt þau öll hafa vaxið.

Ennþá held ég fast við mitt,

um endurheimt æskunnar.

Okkur er ætlað að eldast, því þannig

öðlumst við þekkingu og sannleik.

Þið spyrjið: „Hvað færir framtíðin?

Já, hver verða mín örlög?“

Ég áfram held og kvarta ei.

Spyrjið þegar ég verð áttatíu og átta!

Og á síðasta ári bætti ég þessum línum við:

Og nú ég er áttatíu og átta.

Árin hafa liðið hratt.

Ég gekk, ég haltraði, ég hélt á staf,

og nú ég ek um gólf.

Ég fæ mér blund öðru hverju,

en kraftur prestdæmisins í mér býr,

þótt líkamann skorti margt,

á ég mikinn andlegan auð.

Um heiminn hef farið vítt og breitt,

svo langt að ei verður séð.

Nú gervihnettir hjálpa mér,

svo ei hef ég lokið ferð.

Ég fæ nú sagt með fullvissu,

að Drottin ég elska og þekki.

Með hinum fornu ég vitnað get,

er ég boða hans helga orð.

Ég veit að hans þjáning í Getsemane,

er of mikil til að skilja til fulls.

Ég veit hann gerði það allt fyrir okkur;

Hann er okkar besti vinur.

Ég veit hann kemur aftur á jörð,

í krafti og mikilli dýrð.

Ég veit ég mun sjá hann aftur brátt,

þá lokið er lífs míns ferð.

Ég krýp við særðar fætur hans,

og skynja hans andans glóð.

Lágri og skjálfandi röddu ég segi:

„Drottinn minn, Guð minn, ég veit.“1

Og ég veit vissulega!

Úr bakglugga heimilis okkar er útsýni yfir lítinn blómagarð og skógarlund sem um rennur lækur. Einn húsveggurinn í garðinum er þakinn enskri bergfléttu. Flest árin hefur bergfléttan verið hreiðurstaður fyrir smáfugla. Hreiðrin eru í skjóli, örugg fyrir refum, þvottabjörnum og köttum, sem á ferli eru.

Dag einn var mikið uppistand í bergfléttunni. Átta eða tíu smáfuglar hópuðust saman frá nálægum trjám og skríktu af mikilli örvæntingu. Brátt sá ég ástæðuna fyrir uppnáminu. Snákur hafði að hluta skriðið út úr bergfléttunni og hékk fyrir framan gluggann, svo ég gat teygt mig í hann og togað hann út. Miðhluti snáksins gúlpaði út á tveimur stöðum ‒ sem bar þess glögglega vitni að hann hafði gleypt tvo unga í hreiðrunum. Við höfðum ekki séð neitt þessu líkt í þau 50 ár sem við áttum heima þarna. Þetta var einstæð lífsreynsla ‒ eða svo héldum við.

Að nokkrum dögum liðnum varð annað uppistand og í þetta sinn í vínviðnum nærri hundahúsinu. Við heyrðum sömu örvæntingarskrækina og sáum smáfugla hverfisins hópa sig saman. Við vissum hvert rándýrið var. Barnasonur minn klifraði upp í runnann og dró fram annan snák en sá hélt móðurfugli föstum, er hann hafði fangað í hreiðrinu og drepið.

Ég sagði við sjálfan mig: „Hvað er um að vera? Er enn verið að gera innrás í aldingarðinn Eden?“

Í huga minn komu aðvörunarorð sem spámenn höfðu mælt. Við verðum ekki alltaf örugg fyrir áhrifum andstæðingsins, jafnvel á heimilum okkar. Við þurfum að verja hreiðrin okkar.

Við dveljum í afar háskalegum heimi, þar sem því er ógnað sem hvað andlegast er. Fjölskyldan, grunnstofnunin um tíma og eilífð, sætir árásum frá séðum og óséðum öflum, Óvinurinn er á ferð. Hann ætlar sér að valda skaða. Ef hann megnar að veikja og eyðileggja fjölskylduna, hefur hann sigrað.

Síðari daga heilagir þekkja gríðarlegt mikilvægi fjölskyldunnar og reyna að lifa þannig, að óvinurinn fái ekki læðst inn á heimili þeirra. Við finnum öryggi og skjól fyrir okkur sjálf og börn okkar með því að heiðra sáttmálana sem við höfum gert og breyta og hlýða í samræmi við það sem krafist er af fylgjendum Krists.

Jesaja sagði: „Ávöxtur réttlætisins skal vera friður, og árangur réttlætisins rósemi og öryggi að eilífu.“2

Slíkum friði er einnig heitið í opinberun, þar sem Drottinn segir: „Séuð þér viðbúnir þurfið þér ekki að óttast.“3

Hinn fullkomni kraftur prestdæmisins hefur verið veittur til að vernda heimilið og íbúa þess. Faðirinn hefur umboð og ábyrgð til að kenna börnum sínum og blessa þau og sjá þeim fyrir helgiathöfnum fagnaðarerindisins og allri annarri nauðsynlegri prestdæmisvernd. Honum ber að vera móðurinni trúfastur og elska hana og heiðra, svo að börn þeirra fái séð þá elsku.

Ég hef komist að því að trúin er raunverulegt afl, ekki aðeins trúarjátning. Það er fátt máttugra en trúfastar bænir réttlátrar móður.

Lærið sjálf og fræðið fjölskyldu ykkar um gjöf heilags anda og friðþægingu Jesú Krists. Þið fáið ekki áorkað stórkostlegra eilífu verki en innan veggja heimilis ykkar.

Við vitum að við erum andabörn himneskra foreldra og erum hér á jörðinni til að hljóta dauðlegan líkama og verða reynd. Við sem höfum dauðlegan líkama, höfum meiri kraft en þeir sem ekki hafa hann.4 Okkur er frjálst að velja og breyta að eigin vilja, en okkur er ekki frjálst að velja afleiðingarnar. Þær verða eins og þær verða.

Sjálfræði er skilgreint í ritningunum sem „siðferðislegt sjálfræði,“ sem þýðir að við getum valið á milli góðs og ills. Óvinurinn reynir að fá okkur til að misnota sjálfræði okkar.

Ritningarnar kenna okkur „að sérhver maður [geti] með tilliti til kenninga og reglna starfað framvegis í samræmi við það siðferðislega sjálfræði, sem ég hef gefið honum, svo að sérhver maður verði ábyrgur fyrir sínar eigin syndir á degi dómsins.“5

Alma kenndi að „Drottinn [geti] ekki litið á synd með minnsta votti af undanlátssemi.“6 Til að skilja þetta, verðum við að aðskilja syndina frá syndaranum.

Þegar menn komu til dæmis með konu til frelsarans, sem staðin hafði verið að saurlifnaði og var augljóslega sek um það, vísaði hann málinu frá með þessum orðum: „Far þú. Syndga ekki framar.“7 Þetta er andi þjónustu hans.

Umburðarlyndi er dyggð, en líkt og á við um allar dyggðir, þá verða þær að lesti, sé farið yfir strikið. Við þurfum að fara varlega vegna „umburðarlyndisgildrunnar,“ svo við lendum ekki í henni. Undanlátssemin, sem heimiluð er með veikingu laga landsins, til að löggilda ósiðsama breytni, dregur ekki úr alvarleika andlegra afleiðinga, sem rekja má til brota á skírlífislögmáli Guðs.

Allir fæðast með ljós Krists, leiðandi áhrif sem gera hverri manneskju kleift að þekkja rétt frá röngu. Hvað við gerum við það ljós og hvernig við bregðumst við áminningum þess til að lifa réttlátlega, er hluti af prófraun jarðlífsins.

„Því að sjá. Andi Krists er gefinn hverjum manni, svo að hann megi þekkja gott frá illu. Þess vegna sýni ég yður leiðina til að dæma. Því að allt, sem hvetur til góðra verka og leiðir til trúar á Krist, er sent fyrir kraft og gjöf Krists. Þannig getið þér vitað með fullkominni vissu, að það er frá Guði.“8

Sérhvert okkar þarf að vera í stakk búið til að geta brugðist við innblæstri og áminningum heilags anda. Drottinn býr yfir leið til að senda hreina vitsmuni í huga okkar til að áminna okkur, leiðbeina okkur, kenna okkur og vara okkur við. Hver sonur og dóttir Guðs getur samstundis fengið að vita það sem þeim er nauðsynlegt að vita. Lærið að taka á móti innblæstri og opinberun og bregðast við þeim.

Af öllu því sem ég hef lesið, kennt og lært, er vitnisburður minn sem sérstakt vitni frelsarans Jesú Krists sá dýrmætasti og helgasti sannleikur sem ég get gefið. Hann lifir. Ég veit að hann lifir. Ég er vitni hans. Um hann get ég vitnað. Hann er frelsari okkar, lausnari okkar. Um þetta er ég fullviss. Ég ber þessu vitni í nafni Jesú Krists, amen.