Sleppa aðallóðsun
Apríl 2013 | „Þetta er verk mitt og dýrð mín“

„Þetta er verk mitt og dýrð mín“

Apríl 2013 Aðalráðstefna

Guð hefur fúslega veitt vald sitt þeim sem meðtaka og virða prestdæmi hans, sem leiðir til þeirra blessana ódauðleika og eilífs lífs er okkur hefur verið lofað.

Packer forseti, við hlökkum til að heyra 98 ára útgáfuna af þessari dásamlegu ritsmíð. Hve dásamleg kennsla hans var.

Fyrir nokkrum vikum síðan, á köldu og dimmu vetrarkvöldi stóðum við Barbara konan mín og ég og störðum upp í himininn í lotningu. Miljónir stjarna virtust einstaklega skærar og fagrar. Ég fletti þá upp í Hinni dýrmætu perlu og las aftur í undrun það sem Drottinn Guð hafði sagt við Móse: „Ótal heima hef ég skapað og ég skapaði þá einnig í eigin tilgangi, og ég skapaði þá með syninum, sem er minn eingetni“(HDP Móse 1:33).

Á okkar tímum hefur geimsjónaukinn Hubble staðfest mikilleik þess sem Móse sá. Að sögn vísindamanna Hubble reiknast þeim til að vetrarbrautin, sem jörðin okkar og sólin eru aðeins lítill hluti af, sé aðeins ein af 200 milljarðra svipaðra vetrarbrauta. Hvað mig varðar þá er mjög erfitt að skilja þetta, ómögulegt að átta sig á því að sköpunarverk Guðs séu svo stór og víðáttumikil.

Bræður og systur, krafturinn sem varð til þess að skapa himna og jörðu er kraftur prestdæmisins. Þau okkar sem eru þegnar kirkjunnar vitum að uppspretta þessa krafts prestdæmisins er Guð almáttugur og sonur hans, Jesús Kristur. Ekki aðeins er prestdæmið krafturinn sem skapaði himna og jörðu, heldur er það einnig sá kraftur sem frelsarinn notaði í jarðnesku starfi sínu við að vinna kraftaverk, blessa og lækna þá veiku, reisa fólk upp frá dauðum, og sem eingetinn sonur föðurins, að þola hina óbærilegu kvöl Getsemane og Golgata — og þar með uppfylla lögmál réttlætis með miskunn, og sjá okkur fyrir takmarkalausri friðþægingu, ásamt því að sigrast á líkamlegum dauða með upprisunni.

Það eru lyklarnir að þessu prestdæmisvaldi og kraftinum sem því fylgir, sem hann veitti Pétri, Jakobi og Jóhannesi ásamt hinum postulum sínum, til þess að blessa aðra og binda á himnum það sem bundið er á jörðu.

Kraftur prestdæmisins er heilög og ómissandi gjöf frá Guði. Það er munur á þeim krafti og valdsumboði prestdæmisins, sem veitir leyfi til að starfa í nafni Guðs. Það umboð eða sú vígsla er veitt með handayfirlagningu. Kraftur prestdæmisins kemur einungis þegar þeir sem beita honum eru verðugir og starfa í samræmi við vilja Guðs. Eins og Spencer W. Kimball lýsti yfir: „Drottinn hefur gefið okkur öllum, sem prestdæmishöfum, fullvissu um vald hans, en við getum einungis hlotið kraft himins með persónulegu réttlæti okkar.“ („Boys Need Heroes Close By,“ Ensign,, 3. maí 1976, 45).

Á dýrðlegum tímum endurreisnarinnar og endurbyggingu Kirkju Jesú Krists í heiminum, komu Jóhannes skírari; Pétur, Jakob og Jóhannes; Móse; Elías; og Elía til jarðar og endurreistu valdsumboð og alla lykla prestdæmisins að verki Guðs á síðari dögum, í gegnum spámanninn Joseph Smith.

Það er með þessum lyklum, valdsumboði og krafti sem Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er skipulögð í dag, með Krist sem höfuð kirkjunnar er leiðbeinir spámanni sínum, Thomas S. Monson, og réttilega kölluðum og vígðum postulum sem hann aðstoða.

Í hinni stórkostlegu prestdæmis-styrktu áætlun himnesks föður, hafa karlmenn þá einstöku ábyrgð að þjóna í prestdæminu, en þeir eru ekki prestdæmið. Karlar og konur hafa mismunandi en jafndýrmæt hlutverk. Á sama hátt og konan getur ekki getið barn án karlmanns, getur karlmaðurinn ekki notað prestdæmisvaldið fyllilega til stofnunar eilífrar fjölskyldu, án konunnar. Með öðrum orðum, þá eru bæði sköpunarkrafturinn og prestdæmiskrafturinn sameiginleg eiginmanni og eiginkonu út frá eilífu sjónarhorni. Sem eiginmaður og eiginkona ættu karlar og konur að vinna að því að fylgja himneskum föður. Þau ættu að einbeita sér að kristilegum eiginleikum, eins og kærleika, auðmýkt og þolinmæði, er þau leita eftir blessunum prestdæmisins í lífi sínu og í þágu fjölskyldunnar.

Það er mjög áríðandi fyrir okkur að skilja, að himneskur faðir hefur séð sonum hans og dætrum fyrir leið til þess að geta notið blessana og styrks frá krafti prestdæmisins. Yfirlýsing hans sjálfs er miðpunktur áætlunar Guðs fyrir andabörn hans: „Þetta er verk mitt og dýrð mín — að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika“ (HDP Móse 1:39).

Í opinberun sem var gefin spámanninum Joseph Smith, í kafla 81 í Kenningu og sáttmálum, útskýrir Drottinn að kraft prestdæmisins beri að nota til að „[styðja] þá óstyrku, [lyfta] máttvana örmum og [styrkja] veikbyggð kné“(vers 5).

„Með því að gjöra svo munt þú þjóna meðbræðrum þínum á bestan veg og auka dýrð hans, sem er Drottinn þinn“ (K&S 81:4).

Þegar ég hugsa um þetta myndmál, að styðja þá óstyrku, lyfta máttvana örmum og styrkja veikbyggð kné, þá verður mér hugsað um ljúfa sjö ára telpu sem sýndi afa sínum litla tómatplöntu sem hún hafði gróðursett sem fræ og var hluti af skólaverkefni hennar í 2. bekk.

Hún útskýrði að af einu litlu fræi kæmi planta. Ef annast væri vel um plöntuna, þá myndu margir tómatar vaxa á henni og hver þeirra myndi vera með mörg fræ.

Hún sagði: „Ef öll þessi fræ væru svo gróðursett, þá yxu fleiri tómatar, og svo myndir þú gróðursetja þau fræ líka, og eftir nokkurn tíma ættirðu milljónir tómata.“

Allt út frá einu litlu fræi,“ sagði hún undrandi.

Því næst sagði hún, „Ég drap plöntuna mína næstum því. Ég skildi hana eftir inni í myrku herbergi og gleymdi að vökva hana. Þegar ég svo mundi eftir plöntunni, var hún öll visin og leit út fyrir að vera dauð. Ég grét vegna þess að ég hélt að allar þessar milljónir tómata myndu aldrei fá að vaxa.“

Hún var spennt að segja afa sínum frá „kraftaverkinu“ sem síðan hafði gerst.

Hún sagði: „Mamma sagði að kannski væri plantan ekki dauð. Kannski þyrfti hún bara smá vatn og birtu til að lifna við aftur.

Hún hafði rétt fyrir sér“ Ég vökvaði plöntuna og setti hana í gluggann svo hún fengi birtu. Og hvað heldurðu?“ sagði hún. „Hún lifnaði aftur við og nú mun hún gefa af sér miljónir tómata!“

Litla tómatplantan hennar, svo uppfull af möguleikum, en vanrækt óviljandi, var styrkt og endurlífguð einfaldlega með vatni og birtu frá kærleiksríkum og umhyggjusömum höndum lítillar telpu.

Bræður og systur, sem bókstafleg andabörn ástkærs föður á himnum, höfum við ótakmarkaða, guðlega möguleika. Ef við erum ekki varkár þá getum við orðið eins og visnaða tómatplantan. Við getum reikað frá hinni réttu kenningu og fagnaðarerindi Jesús Krists og orðið andlega vannærð og visin, hafandi fjarlægt okkur frá hinu guðlega ljósi og lifandi vatni eilífs kærleika frelsarans og prestdæmiskrafti.

Þeir sem hafa prestdæmið en kappkosta ekki stöðugt að heiðra það með þjónustu við fjölskyldur okkar og aðra, verða eins og þeir sem hljóta ekki þær blessanir sem fylgja krafti prestdæmisins og munu sannlega visna andlega, hafandi neitað sér um nauðsynlega andlega næringu og kraft Guðs í lífi sínu ‒ eins og tómataplantan, uppfull af möguleikum en vanhirt og visin.

Þessi sami prestdæmiskraftur sem skapaði heima, stjörnukerfi og alheiminn, getur og ætti að vera hluti af lífi okkar til að aðstoða, styrkja og blessa fjölskyldur okkar, vini og nágranna — með öðrum orðum, að gera það sem frelsarinn myndi gera, ef hann væri að þjóna á meðal okkar í dag.

Aðaltilgangur prestdæmisvaldsins er að blessa, helga og hreinsa okkur, svo að við getum lifað með fjölskyldum okkar í návist himneskra foreldra, bundin af prestdæmisinnsiglun, og taka þátt í hinu stórkostlega verki Guðs og Jesú Krists, að útvíkka ljós þeirra og dýrð.

Með þetta að markmiði fékk ég tækifæri til þess, fyrir nokkrum mánuðum, að taka þátt í gerð myndbandsupptöku af heimsþjálfunarfundi leiðtoga sem nefnist Að efla fjölskylduna og kirkjuna með prestdæminu.

Þessi nýstárlegi og fræðandi mynddiskur er þýddur á 66 tungumál. Hann sýnir okkur hvernig kraftur prestdæmisins getur blessað og lífgað okkur, fjölskyldu okkar og alla þegna kirkjunnar.

Hann sýnir okkur öllum, körlum, konum, börnum; giftum, ekkjum eða ekklum; hverjar sem aðstæðurnar eru — hvernig við getum verið þátttakendur í blessunum prestdæmisins. Þarna eru nokkrir 8–12 mínútna þættir sem útskýra lykla, valdsumboð og kraft prestdæmisins og hvernig það getur styrkt einstaklinga, fjölskyldur og kirkjuna.

Einn sérstakur þáttur var tekinn upp í litlu landnemahúsi langömmu móður minnar, Mary Fielding Smith. Hún var ekkja Hyrums, eldri bróður spámannsins Josephs. Sem einstætt foreldri og í sterkri trú sinni á prestdæmið, ákallaði hún og treysti á þann kraft, til að blessa og ala upp börn sín í kærleika og ljósi fagnaðarerindisins. Í dag þakka afkomendur trú hennar, hugrekki og fordæmi, þúsundir trúfastra leiðtoga og þegna kirkjunnar.

Þessi nýja leiðtogaþjálfun er nú tiltæk á alnetinu á LDS.org fyrir alla að skoða og upplifa. Þið getið séð það beint frá LDS.org eða hlaðið því niður í tölvurnar ykkar, snjallsíma eða á rafrænar töflur.

Æðsta forsætisráðið hefur beðið „stikuforsætisráð og biskupsráð að helga einn eða fleiri stiku- eða deildarráðsfundi því að horfa á mynddiskinn í heild. Stiku og deildarráð ættu að ræða hvernig best er að heimfæra þá kennslu sem þar fer fram.“ (Bréf Æðsta forsætisráðsins, 1. febrúar, 2013).

Efnið mun hvetja og örva meðlimi prestdæmissveita, Líknarfélags, sunnudagaskóla, Piltafélags og Stúlknafélags ‒ (einkum þau sem eru að búa sig undir trúboð) ‒ og á Barnafélagsfundum eða sameiginlegum fundum á fimmta sunnudegi mánaðarins. Meðlimir ráða munu því næst geta hvatt einstaklinga og foreldra til að nota þessa kynningu með fjölskyldum sínum. Bræður og systur, þessi leiðtogaþjálfun er fyrir alla þegna kirkjunnar. Foreldrar, skoðið, miðlið og ræðið við börn ykkar um það sem þið lærið og skynjið, leyfið þeim þar næst að horfa á efnið og gera hið sama með ykkur, svo að fjölskyldur ykkar geti styrkst í gegnum prestdæmið.

Jesús sagði:

„Ef nokkurn þyrstir, þá komi hann til mín og drekki“ (Jóh 7:37).

„Hvern sem drekkur af vatninu, er ég gef honum, mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind, sem streymir fram til eilífs lífs“(Jóh 4:14).

„Ég er ljós og líf heimsins: Sá sem fylgir mér, mun ... hafa ljós lífsins“ (Jóh 8:12).

Ef einhverjum ykkar finnst sem trú ykkar eða vitnisburður um áætlun himnesks föður sé veikari en þið vitið að það ætti að vera, snúið ykkur þá alfarið til frelsarans. Leyfið ljósi hans og lifandi vatni að gera það sama fyrir ykkur og fjölskyldu ykkar og smá vatn og birta gerði til að endurlífga máttvana tómatplöntuna.

Ég hóf ræðu mína á undri og lotningu yfir sköpunarverki Guðs fyrir kraft prestdæmisins. Eins og mörg ykkar, geri ég ráð fyrir, stend ég hér og velti því fyrir mér hvort við getum nokkurn tíma fyllilega skilið kraft Guðs til að leiðbeina okkur og blessa. Hann er svo stórkostlegur, svo tignarlegur, svo máttugur.

Joseph Smith sagði, „Prestdæmið er ævarandi regla sem verið hefur til hjá Guði frá eilífð og verður um eilífð, án upphafs daganna eða loka áranna“ (Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith [2007], 103).

Guð hefur fúslega veitt vald sitt þeim sem meðtaka og virða prestdæmi hans, sem leiðir til þeirra blessana ódauðleika og eilífs lífs er okkur hefur verið lofað.

Ég ber vitni um að verk Jesú Krists er unnið í gegnum prestdæmið. Það er krafturinn sem himneskur faðir okkar og ástkær sonur hans notuðu til að skapa þessa jörð og setja hina miklu sæluáætlun í gang, fyrir okkar hag. Megum við vera skynsöm og leitast við að styrkja líf okkar og fjölskyldu okkar, og Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, í gegnum kraft prestdæmis Guðs. Það er auðmjúk bæn mín í nafni Jesús Krists, amen.