2010–2019
Uns við hittumst á ný
Apríl 2013


Uns við hittumst á ný

Ég bið þess að Drottinn blessi og varðveiti ykkur, kæru bræður og systur. Megi dýrðlegur friður hans vera með ykkur, nú og ævinlega.

Kæru bræður og systur, þetta hefur verið dásamleg ráðstefna. Ég veit að þið eruð mér sammála um að boðskapurinn hafi verið innblásinn. Við höfum fundið anda Drottins, er hjörtu okkar hafa orðið snortin og vitnisburðir okkar um þetta guðlega verk hafa styrkst. Megum við um langa tíð muna eftir því sem við heyrðum þessa síðustu tvo daga. Ég hvet ykkur til að lesa boðskapinn enn frekar, þegar hann verður gefinn út í næstu tímaritaútgáfum Ensign og Líahóna.

Við tjáum öllum þeim þakklæti okkar sem hafa talað til okkar, sem og þeim sem hafa flutt bænir. Tónlistin hefur líka verið innblásin og upplyftandi. Við dáum okkar yndislega Laufskálakór og þökkum öllum öðrum sem sáu um tónlistina.

Öll færum við aðalforsætisráði og aðalnefnd Stúlknafélagsins þakkir, sem leyst voru frá störfum í gær. Þjónusta þeirra hefur verið framúrskarandi og trúmennska þeirra algjör.

Við höfum stutt með upplyftum höndum bræðurna og systurnar sem kölluð voru í embætti á þessari ráðstefnu. Við viljum láta þau vita að við hlökkum öll til að starfa með þeim að málstað meistarans.

Við erum heimskirkja, bræður og systur. Meðlimir okkar finnast um allan heim. Ég hvet ykkur til að vera góðir þegnar þeirra þjóða sem þið tilheyrið og góðir nágrannar í samfélögum ykkar, að þið liðsinnið jafnt þeim sem eru utan og innan kirkjunnar. Megum við vera umburðarlynd, ljúf og ástúðleg við þá sem ekki eru okkar trúar og lifa ekki eftir okkar stöðlum. Frelsarinn kom með boðskap kærleika til þessarar jarðar og góðvildar til allra karla og kvenna. Megum við ætíð fylgja fordæmi hans.

Ég bið þess að við séum meðvituð um þarfir samferðafólks okkar. Sumir, einkum meðal hinna ungu, eru átakanlega bendlaðir við eiturlyf, ósiðsemi, klám o.s.frv. Svo eru það hinir einmana, þar á meðal ekkjur og ekklar, sem þrá félagsskap og umhyggjusemi annarra. Megum við ætíð vera fús til að rétta þeim hjálparhönd og sýna ástúðlegt hjarta.

Við lifum á þeim tíma heimsins þegar áskoranir eru margar og erfiðar, en tækifærin eru líka mörg og ástæðurnar til að gleðjast. Auðvitað upplifum við líka erfiðleika og sorgarstundir og jafnvel harmleiki í lífi okkar. En ef við setjum traust okkar á Drottin, mun hann hjálpa okkur í gegnum erfiðleikana, hverjir sem þeir eru. Sálmaskáldið veitir fullvissuna: „Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.“1

Bræður mínir og systur, ég vil að þið vitið hve þakklátur ég er fyrir fagnðarerindi Jesú Krists, sem hefur verið endurreist á þessum síðari dögum fyrir tilverknað spámannsins Josephs Smith. Það er lykillinn að hamingju okkar. Megum við í auðmýkt og bænaranda hafa trú á að okkar himneski faðir megni að leiða og blessa okkur í þessu lífi.

Ég gef ykkur minn persónulega vitnisburð um að Guð lifir, að hann heyrir bæn hins auðmjúka hjarta. Sonur hans, frelsari okkar og lausnari, talar til okkar allra í dag: „Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans.“2 Megum við trúa þessum orðum og hagnýta okkur loforð hans.

Við lok þessarar ráðstefnu bið ég um blessanir himins fyrir hvert ykkar. Megi heimili ykkar fyllast friði, einingu og ást. Megi þau fyllast anda Drottins. Megið þið næra vitnisburð ykkar um fagnaðarerindið, svo hann verndi ykkur gegn árásum Satans.

Ég bið þess að Drottinn blessi og varðveiti ykkur, uns við hittumst á ný eftir sex mánuði, mínir kæru bræður og systur. Megi dýrðlegur friður hans vera með ykkur, nú og ævinlega. Ég þakka ykkur fyrir bænir ykkar í minn garð og í garð allra aðalvaldhafanna. Við erum mjög þakklátir fyrir ykkur. Í nafni frelsara okkar og lausnara, sem við þjónum, já, Drottins Jesú Krists, amen.