2010–2019
Við erum dætur himnesks föður.
Apríl 2013


Við erum dætur himnesks föður.

Sem dætur Guðs erum við, hver og ein, einstakar og frábrugðnar hvað aðstæður okkar og reynslu varðar . Samt skiptir okkar hlutur máli, því að við skiptum máli.

Í hverri viku endurtaka ungar stúlkur um allan heim þema Stúlknafélagsins. Það er sama á hvaða tungumáli það er, í hvert skipti sem ég heyri orðin: „Við erum dætur himnesks föður, sem elskar okkur og við elskum hann,“1 þá staðfestir andinn fyrir anda mínum að þau eru sönn. Það er ekki einungis staðfesting á auðkenni okkar — hver við erum – heldur einnig staðfesting á því hvers við erum. Við erum dætur upphafinnar veru!

Í hverju landi og í hverri heimsálfu hef ég hitt sjálfsöruggar og vel máli farnar ungar stúlkur, uppfullar af ljósi, fágaðar af mikilli vinnu og erfiðleikum, með hreina og einfalda trú. Þær eru dyggðugar. Þær halda sáttmála og „standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og allstaðar.“2 Þær vita hverjar þær eru og að þær skipa mikilvægt hlutverk í uppbyggingu ríkis Guðs.

Þegar ég var í háskóla var ég meðlimur í alþjóðlegum þjóðdansaflokki BYU. Eitt sumar naut hópurinn okkar þeirra einstöku forréttinda að ferðast um trúboðssvæði Evrópu. Það var erfitt sumar fyrir mig því að nokkrum mánuðum áður hafði faðir minn orðið bráðkvaddur. Á meðan við vorum í Skotlandi fannst mér ég sérstaklega ein og fylltist vonleysi. Við dönsuðum í kapellu það kvöld og eftir sýninguna fórum við í trúboðsheimilið sem var þar við hliðina. Er ég gekk af stað, sá ég stein við hliðið á vel hirtum garðinum. Á honum las ég orðin, „Hvað sem þú ert, sinntu hlutverki þínu vel.“ Á þeirri stundu ristu þessi orð djúpt í hjarta mér og ég fann krafta himins teygja sig til mín og senda mér skilaboð. Ég vissi að ástríkur himneskur faðir þekkti mig. Ég fann að ég var ekki ein. Ég stóð þarna í garðinum, með tárin í augunum. „Hvað sem þú ert, sinntu hlutverki þínu vel.“ Þessi einfalda setning endurnýjaði sýn mína á því að himneskur faðir þekkti mig og hafði áætlun um líf mitt, og andinn sem ég skynjaði hjálpaði mér að skilja að hlutverk mitt skipti máli.

Seinna heyrði ég að þessi setning hefði eitt sinn hvatt spámanninn David O. McKay áfram, þegar hann þjónaði sem ungur trúboði í Skotlandi. Hann hafði séð hana á steini á byggingu á erfiðum tíma í lífi sínu og trúboði og orðin uppörvuðu hann. Mörgum árum seinna, er byggingin var rifin niður, gerði hann ráðstafanir til þess að fá þennan stein og lét setja hann í garðinn hjá trúboðsheimilinu.3

Sem dætur Guðs, erum við, hver og ein, einstakar og frábrugðnar hvað aðstæður okkar og reynslu varðar. Samt skiptir okkar hlutur máli ‒ því að við skiptum máli. Dagleg framlög okkar til umönnunar, kennslu og aðhlynningar annarra virðast kannski hversdagsleg, ómerkileg, erfið og stundum jafnvel niðurlægjandi, en það breytir öllu í viðbrögðum okkar og samskiptum að rifja upp fyrstu orðin í þema Stúlknafélagsins — „Við eru dætur himnesks föður sem elskar okkur.“

Nýlega lést hin stórkostlega 92. ára gamla móðir mín. Hún yfirgaf þessa jarðvist á sama hátt og hún hafði lifað ‒ kyrrlátlega. Líf hennar var ekki eins og hún hafði ætlað það. Eiginmaður hennar, faðir minn, dó þegar hann var 45 ára gamall og skildi hana eftir með þrjú börn, mig og bræður mína tvo. Hún lifði sem ekkja í 47 ár. Hún sá fyrir fjölskyldu sinni sem skólakennari á daginn og kenndi á píanó á kvöldin. Hún sá um aldraðan föður sinn, afa minn, sem bjó í næsta húsi. Hún sá til þess að við systkinin fengjum öll háskólamenntun. Hún krafðist þess í raun, svo að við yrðum „gefendur.“ Hún kvartaði aldrei. Hún hélt sáttmála sína og því kallaði hún niður krafta himins til að blessa heimili okkar og til að senda okkur kraftaverk. Hún treysti á kraft bænarinnar, prestdæmisins og loforð sáttmálanna. Hún var trúföst í þjónustu sinni við Drottin. Stöðug hollusta hennar hélt okkur, börnum hennar, staðföstum. Hún endurtók oft þessa ritningargrein: „Ég, Drottinn, er bundinn þegar þér gjörið það sem ég segi, en þegar þér gjörið ekki það sem ég segi, hafið þér engin loforð.“4 Þetta voru einkunnarorð hennar og hún vissi að þau voru sönn. Hún skildi hvað í því fólst að halda sáttmála sína. Hún var aldrei þekkt í heiminum. Hún vildi það ekki. Hún skildi hver hún var og hvers hún var — dóttir Guðs. Það er sannlega hægt að segja um móður okkar að hún sinnti hlutverki sínu vel.

Gordon B. Hinckley forseti sagði eitt sinn um konur og mæður:

„Við megum aldrei missa sjónar á styrk kvenna. ... Það er móðirin sem hefur mestu áhrifin á börn sín. ... Það er móðirin sem annast börn sín og elur þau upp að hætti Drottins. Áhrif hennar skipta mestu. …

...Þær eru skaparar lífsins. Þær eru uppalendur barna. Þær eru kennarar stúlkna. Þær eru okkar ómissandi félagar. Þær eru samstarfsmenn okkar við að byggja upp Guðs ríki. Hve stórt hlutverk þeirra er, hve dásamlegt framlag þeirra er.“5

Hvernig getur móðir eða faðir kennt dóttur sinni þann upphafna og eilífa sannleika, að við erum dætur Guðs? Hvernig getum við hjálpað þeim að stíga út úr heiminum og inn í ríki Guðs?

Í siðferðilega ónæmum heimi þurfa stúlkur á því að halda, að konur og karlar „[standi] sem vitni Guðs alltaf, í öllu og allstaðar.“ Þetta hefur aldrei verið eins brýnt og nú. Ungar stúlkur þurfa mæður og ráðgjafa sem fordæmi dyggðugra kvenna. Mæður, sambönd ykkar við dætur ykkar vegur þyngst og einnig fordæmi ykkar. Hvernig þið elskið og virðið föður hennar, prestdæmi hans og guðdómlegt hlutverk hans, mun endurspeglast og jafnvel magnast í viðhorfi og hegðun dóttur ykkar.

Hvaða hlutverki verðum við öll að „sinna vel“? Fjölskylduyfirlýsingin er skýr:

„Samkvæmt guðlegri áætlun eiga feður að sitja í forsæti fjölskyldu sinnar í kærleika og réttlæti og bera þá ábyrgð að sjá henni fyrir nauðsynjum lífsins og vernda hana. Meginábyrgð mæðra er að annast börnin. Við þessa helgu ábyrgð ber feðrum og mæðrum skylda til að hjálpa hvort öðru sem jafningjar. ...

Við vörum við því, að þeir sem rjúfa sáttmála skírlífis, sem misþyrma maka eða barni, eða sinna ekki ábyrgð sinni gagnvart fjölskyldunni, munu síðar meir verða að standa ábyrgir gerða sinna frammi fyrir Guði.“6

Í því spillta þjóðfélagi sem Mormón bjó í harmaði hann að konur væru rændar því sem væri þeim dýrmætast og kærast af öllu ‒ dyggð þeirra og hreinleika.7

Ég endurnýja það kall, að snúa aftur til dyggðar. Dyggðin er styrkur og kraftur dætra Guðs. Hvernig ætli heimurinn væri, ef dyggðin, hugsunarháttur og hegðun, byggt á háum siðferðisstöðlum8‒ yrði aftur ríkjandi í samfélaginu, og hún metin sem dýrmætasta gildið. Ef siðleysi, klám og ofbeldi minnkaði, væru þá færri skilnaðir, niðurbrotin líf og brostin hjörtu? Myndu fjölmiðlar þá upphefja og stykja dýrmætar dætur Guðs, frekar en að hlutgera þær og niðurlægja. Ef mannkyn allt gæti raunverulega skilið mikilvægi þessara fullyrðingar: „Við erum dætur himnesks föður,“ hvernig yrðu konur þá metnar og komið fram við þær?

Fyrir mörgum árum, þegar verið var að byggja Ráðstefnuhöllina, kom ég inn á svalir þessarar helgu byggingar, með hjálm og öryggisgleraugu, tilbúin að ryksuga teppið sem maðurinn minn hafði hjálpað til við að leggja. Á sama stað og ræðupallurinn stendur núna, var grafa að færa til jarðveg og rykið í byggingunni var þykkt. Þegar það settist, þá settist það á nýja teppið. Hlutverk mitt var að ryksuga. Svo ég ryksugaði og ryksugaði og ryksugaði. Eftir þrjá daga bræddi litla ryksugan mín úr sér!

Daginn fyrir fyrstu aðalráðstefnuna sem haldin var í þessari fallegu byggingu hringdi maðurinn minn í mig. Hann var að fara að leggja síðasta hluta teppisins — undir þennan sögufræga ræðustól.

Hann spurði mig: „Hvaða ritningargrein ætti ég að skrifa undir teppið?“

Ég svaraði: „Mósía 18:9:, standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og allsstaðar.‘ “

Í mjög svo erfiðum heimi er það einmitt þetta sem ég sé stúlkur og konur kirkjunnar gera. Þær hafa bætandi áhrif. Þær eru dyggðugar og gott fordæmi, vel gefnar og duglegar. Þær gera það sem skiptir máli, því þær eru frábrugðnar. Þær sinna hlutverki sínu vel.

Fyrir þetta mörgum árum, þegar ég var að ryksuga teppið ‒ að reyna að sinna mínu litla verki ‒ gerði ég mér ekki grein fyrir því, að sá dagur kæmi að ég stæði með fætur mínar á teppinu við þennan ræðustól.

Ég stend í dag, sem dóttir Guðs og vitna um að hann lifir. Jesús er Kristur. Hann er lausnari okkar. Það er fyrir hina óendanlegu, friðþægjandi fórn hans, að ég mun einhvern tíma snúa aftur og lifa hjá honum — fullreynd, hreinsuð og innsigluð eilífri fjölskyldu. Ég mun ætíð lofa hann fyrir þau forréttindi að vera kona, eiginkona og móðir. Ég ber ykkur vitni um að við erum leidd af spámanni Guðs, Thomas S. Monson forseta, og ég er þakklát fyrir réttláta menn sem hafa prestæmisvald sem blessar líf mitt. Ég mun alltaf vera þakklát fyrir þann styrk sem ég hlýt frá virkjandi krafti friðþægingarfórnar frelsarans, er ég held áfram að vinna að því að „sinna hlutverki mínu vel.“ Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Eigin framþróun stúlkna (bæklingur, 2009), 3.

  2. Mósía 18:9.

  3. Sjá Matthew O. Richardson, „ ‚What E‘er Thou Art, Act Well Thy Part‘: John Allan’s Albany Crescent Stone,“ Journal of Mormon History, bindi 33 (Fall 2007), 31–61; Francis M. Gibbons, David O. McKay: Apostle to the World, Prophet of God (1986), 45.

  4. Kenning og sáttmálar 82:10.

  5. Gordon B. Hinckley, „Standing Strong and Immovable,“ Worldwide Leadership Training Meeting, 10. jan. 2004, 21.

  6. „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,” Ensign or Líahóna, nóv. 2010, 129.

  7. Sjá Moró 9:9.

  8. Sjá Eigin framþróun stúlkna, 70.