Sleppa aðallóðsun
Apríl 2013 | Allir sem einn

Allir sem einn

Apríl 2013 Aðalráðstefna

Ég bið þess, að hvar sem við erum og hverjar sem skyldur okkar eru í prestdæmi Guðs, verðum við sameinaðir í þeim tilgangi að færa öllum heiminum fagnaðarerindið.

Drottinn gerði ljóst í upphafi þessarar síðustu ráðstöfunar, að okkur bæri að færa heiminum fagnaðarerindið. Það sem hann sagði við hina fáu prestdæmishafa árið 1831, segir hann einnig nú við hina mörgu. Hver sem aldur okkar er, hæfni, kirkjuköllun eða staðsetning, erum við allir sem einn kallaðir til þess verks að hjálpa honum við uppskeru sálna, fram að endurkomu hans. Við fyrstu verkamennina í víngarðinum sagði hann:

„Og enn segi ég yður: Ég gef yður boð um að sérhver maður, bæði öldungur, prestur og kennari, og einnig meðlimur, vinni að því af öllum mætti sínum, með erfiði handa sinna, að undirbúa og ljúka því sem ég hef boðið.

Og látið prédikun yðar hljóma sem aðvörunarrödd. Sérhver maður aðvari náunga sinn, af mildi og hógværð.

„Og farið frá hinum ranglátu. Bjargið sjálfum yður. Verið þér hreinir, sem berið ker Drottins.“1

Þið, meðlimir Aronsprestdæmisins, sjáið nú að boð Drottins á líka við um ykkur. Þar sem þið vitið að Drottinn sér okkur ætíð fyrir leið til að halda boðorð sín, getum við vænst þess að hann geri það fyrir sérhvern okkar.

Ég ætla að segja ykkur hvernig hann gerði það fyrir pilt nokkurn, sem nú hefur embætti prests í Aronsprestdæminu. Hann er 16 ára gamall. Hann býr í landi þar sem trúboðar komu í fyrsta sinn fyrir aðeins tveimur árum. Þeim voru úthlutaðar tvær borgir, en ekki heimaborg piltsins.

Þegar hann var mjög ungur, komu foreldrar hans með hann til Utah af öryggisástæðum. Trúboðar kenndu fjölskyldunni og skírðu þau. Hann var ekki skírður í kirkjuna, því hann hafði enn ekki náð átta ára aldri.

Foreldrar hans létust af slysförum. Amma hans fékk hann aftur til heimalandsins, yfir hafið og til fæðingarborgar hans.

Í mars, fyrir um ári, var hann á gangi á götu, þegar hann fann sig knúinn til að ávarpa konu sem hann þekkti ekki. Hann talaði við hana á þeirri ensku sem hann enn mundi eftir. Hún var hjúkrunarkona sem hafði verið send af trúboðsforseta til borgarinnar hans, til að huga að húsnæði og heilsugæslu fyrir trúboðana, sem brátt yrðu úthlutað svæðinu. Vinátta myndaðist á milli þeirra er þau ræddust við. Þegar hún kom aftur í trúboðsstöðina, sagði hún trúboðunum frá honum.

Fyrstu tveir öldungarnir komu á svæðið í september 2012. Sá fyrsti sem þeir skírðu inn í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu var foreldralausi pilturinn. Í mars á þessu ári hafði hann verið meðlimur í fjóra mánuði. Hann hafði verið vígður sem prestur í Aronsprestdæminu og gat því skírt aðra inn í kirkjuna. Hann var sá fyrsti, brautryðjandi prestdæmisins til að safna saman fleiri börnum himnesks föður og stofna kirkjuna í borg með um 130.000 íbúa.

Á páskasunnudegi, 31. mars 2013, hafði kirkjumeðlimum í borginni þar fjölgað svo mjög að þeir voru orðnir sex talsins. Hann var eini meðlimur svæðisins sem sótti samkomu þann sunnudag. Daginn áður hafði hann meitt sig í hné, en var ákveðinn í að fara þangað. Hann hafði beðist fyrir um að geta gengið í kirkju. Og því var hann þar. Hann deildi sakramentinu með fjórum ungum öldungum og trúboðshjónum ‒ og þau voru allur söfnuðurinn.

Saga þessi virðist ekki merkileg, nema því aðeins að þið sjáið hönd Guðs í uppbyggingu ríkis hans. Ég hef marg oft séð það.

Ég sá það í Nýju Mexíkó sem ungur maður. Kynslóð eftir kynslóð höfðu spámenn sagt að við þyrftum að hjálpa trúboðunum að finna hina ráðvöndnu í hjarta, kenna þeim og síðan að elska þá sem í ríkið koma.

Ég hef sjálfur séð hvað trúfastir prestdæmisleiðtogar og meðlimir geta gert. Árið 1955 varð ég liðsforingi í flugher Bandaríkjanna. Biskupinn á heimasvæði mínu gaf mér blessun rétt áður en ég fór í mína fyrstu bækistöð í Albuquerque, Nýju Mexíkó.

Í blessuninni sagði hann að tími minn í flughernum yrði trúboðsþjónusta. Ég fór í kirkju á fyrsta sunnudeginum í Fyrstu grein í Albuquerque. Maður nokkur kom til mín, kynnti sig sem umdæmisforseta, og sagðist ætla að kalla mig til að þjóna sem umdæmistrúboði.

Ég sagði honum að ég yrði þarna aðeins í fáeinar vikur í þjálfun og eftir það yrði mér falið að fara á einhvern annan stað í heiminum. Hann sagði: „Ég veit ekkert um það, en okkur ber að kalla þig til þjónustu.“ Mitt í herþjálfuninni, og að því er virtist af hendingu, var ég valinn af hundruð liðsforingjum sem voru í þjálfun, til að taka stöðu liðsforingja í höfuðstöðvunum sem hafði látist skyndilega.

Í þau tvö ár sem ég var þarna var skrifstofan starfsvettvangur minn. Flest kvöld og allar helgar kenndi ég fagnaðarerindi Jesú Krists því fólki sem meðlimirnir færðu okkur.

Ég og félagar mínir vörðum að jafnaði 40 klukkustundum á mánuði í trúboðsþjónustu, án þess að þurfa nokkru sinni að banka á dyr til að finna einhvern til að kenna. Meðlimirnir kúffylltu diska okkar svo, að oft kenndum við tveimur fjölskyldum á einu kvöldi. Sjálfur sá ég máttinn og blessunina í hinum endurteknu boðum spámanna um að hver meðlimur verði trúboði.

Síðasta sunnudaginn áður en ég fór frá Albuquerque var fyrsta stikan stofnuð í borginni. Nú er þar heilagt musteri, hús Drottins, í borg þar sem við eitt sinn komum saman í einni kapellu með hinum heilögu, sem komu með vini sína til okkar, til að taka á móti kennslu og upplifa vitni andans. Þetta fólk fann sig kærkomið í hinni sönnu kirkju Drottins.

Ég sá þetta aftur í Nýja Englandi, er ég sótti skóla. Ég var kallaður sem ráðgjafi undursamlegs umdæmisforseta, sem hafði áður verið áhugalaus gagnvart kirkjunni, en bjó nú yfir miklum andlegum styrk. Heimiliskennurum hans þótti nægilega vænt um hann til að horfa fram hjá vindlunum hans og sjá hvað Guð sæi í honum. Ég og umdæmisforsetinn ókum um hæðir og strendur til að vitja fámennra greina víða um Massachusetts og Rhode Island, til að byggja upp og blessa ríki Guðs.

Á þeim árum sem ég þjónaði með þessum mikla leiðtoga, sáum við fólk laða vini að kirkjunni með eigin fordæmi og boði um að hlusta á trúboðana. Mér virtist vöxtur þessara greina hægur og óstöðugur. En fimm árum síðar, á sunnudeginum sem ég fór í burtu, komu postular í Longfellow Park kapelluna í Cambridge, til að breyta umdæminu í stiku.

Árum síðar sneri ég aftur til að stjórna þar stikuráðstefnu. Stikuforsetinn fór með mig til að sýna mér grýtta hæð í Belmont. Hann sagði mér að staður þessi væri tilvalinn fyrir musteri Guðs. Nú er þar musteri. Þegar ég virði það fyrir mér, minnist ég auðmjúkra meðlima sem ég sat með í fámennum greinum, fólksins sem þeir buðu með sér og trúboðunum sem kenndu því.

Það er nýr djákni á þessari samkomu í kvöld. Ég var með honum sama páskasunnudag og presturinn, sem ég talaði áður um, fór á sína eins meðlima samkomu. Djákninn ljómaði þegar faðir hans tjáði honum að hann yrði með honum á þessum prestdæmisfundi í kvöld. Sá faðir hafði verið mikill trúboði í sama trúboði og faðir hans sjálfs hafði verið forseti í. Ég hef séð Trúboðshandbók langafa hans frá árinu 1937. Sú arfleifð hans að leiða fólk inn í kirkjuna á sér djúpar rætur.

Ég ræddi því við biskup þessa djákna, til að komast að því hvers pilturinn gæti vænst, ef hann framfylgdi því prestdæmisboði, að safna saman sálum fyrir Drottin. Biskupinn var áhugasamur er hann lýsti því hvernig deildartrúboðsleiðtoginn fylgdist með framþróun trúarnemanna. Þær upplýsingar fær hann með reglubundnum samskiptum við trúboðana.

Biskupinn og deildarráðið hans ræða um framþróun hvers trúarnema. Þau ákveða hvað hægt er að gera fyrir hvern einstakling og fjölskyldur þeirra, til að efla vináttu við þá fyrir skírn þeirra, fá þá til að vera með í athöfnum og næra þá sem þegar eru skírðir. Hann sagði trúboðana stundum hafa svo marga til að kenna, að þeir taki með sér Aronsprestdæmishafa sem félaga.

Trúboðsáætlun deildarinnar fól meðal annars í sér, að sveitirnar byðu fólki sem þeir þekktu til að hitta trúboðana. Forsætisráði djáknasveitarinnar var jafnvel boðið að setja markmið og gera áætlun fyrir meðlimi sveitar sinnar, sem miðaði að því að laða þá sem þeir þekktu inn í ríki Guðs.

Djákninn í öflugu deildinni og nýi presturinn ‒ trúskiptingurinn ‒ í hinum fámenna meðlimahópi, virðast ekki eiga mikið sameiginlegt, og ekki heldur með ykkur. Og vera kann að þið sjáið ekki margt sameiginlegt með ykkar reynslu í uppbyggingu kirkjunar og því sem ég upplifði sem kraftaverk í Nýju Mexíkó og á Nýja Englandi.

En við getum verið eitt í því að framfylgja ábyrgð okkar í prestdæminu. Við helgum okkur sjálfa og uppfyllum okkar eigin skyldu við að færa öllum börnum himnesks föður fagnaðarerindið.

Við eigum sameiginlega reynslu sem tengist því hvernig Drottinn byggir upp ríki sitt á jörðu. Í kirkju hans, og með öll þau dásamlegu verkfæri og samtök sem okkur hafa verið gefin, kenna spámenn enn þann grundvallarsannleik, að okkur ber að uppfylla prestdæmisábyrgð trúboðsstarfsins.

Á aðalráðstefnu í apríl árið 1959 kenndi David O. McKay forseti þessa reglu, sem og aðrir spámenn allt til þessa dags, þar með talinn Thomas S. Monson forseti. McKay sagði við lok máls síns, að í Breska trúboðinu hefði almennt boð verið sent út árið 1923 til meðlima kirkjunnar. Þeim var boðið að eyða ekki peningum í auglýsingar til að draga úr slæmum tilfinningum fólks til kirkjunnar. McKay forseti sagði að ákvörðunin væri að: „Varpa þeirri ábyrgð á sérhvern meðlim kirkjunnar, að á hinu komandi ári 1923, verði sérhver meðlimur trúboði. Sérhver meðlimur trúboði! Þið gætuð komið með móður ykkar í kirkju, eða föður ykkar; kannski samstarfsfélaga ykkar á verkstæðinu. Einhver mun heyra hinn góða boðskap um sannleikann frá þér.“

Og McKay forseti hélt áfram: „Og það er boðskapur þessa dags. Sérhver meðlimur ‒ ein og hálf milljón að tölu ‒ trúboði!2

Þegar tilkynnt var árið 2002 að trúboðsstarfið yrði á ábyrgð biskupa, varð ég undrandi: Ég hafði verið einn þeirra. Mér virtist þeir þegar bera afar þungar byrðar, tengdum þjónustu við meðlimi og stjórnun hinna ýmsu félaga í deildinni.

Einn biskup sem ég hitti sá þetta ekki sem viðbótarskyldu, heldur sem tækifæri til að þjappa fólki saman í deildinni um mikilvægan málstað, þar sem hver meðlimur yrði trúboði. Hann kallaði deildartrúboðsleiðtoga. Hann átti sjálfur fund hvern laugardag með trúboðunum, til að kynna sér starf þeirra, hvetja þá og læra um framvindu trúarnema þeirra. Deildarráðið uppgötvaði leiðir fyrir félög og sveitir til að nýta sér þjónustustarfið sem undirbúning að trúboði. Og sem dómari í Ísrael hjálpaði hann æskufólkinu að finna þá blessun friðþægingarinnar, að halda sér hreinu.

Nýverið spurði ég hvernig stæði á skírnarbylgjunni í deildinni hans og auknum fjölda ungs fólks, sem vildi óðfúst færa heiminum fagnaðarerindi Jesú Krists. Hann sagði að sér virtist enginn sinna þessu af skyldu lengur, heldur væri það sameiginlegur áhugi um að koma með fólk inn í samfélag heilagra sem færði þeim slíka gleði.

Þetta og meira átti við um suma aðra. Líkt og synir Mósía höfðu þeir fundið afleiðingar syndarinnar í eigin lífi og undraverða lækningu friðþægingarinnar í kirkju Guðs. Sökum elsku og þakklætis fyrir gjafir frelsarans til þeirra, vildu þeir hjálpa öllum sem þeir gætu til að forðast sorg syndarinnar, en upplifa heldur gleði fyrirgefningar, og sameinast í öryggi Guðs ríkis.

Það var elska Guðs og elska gagnvart vinum þeirra og samferðafólki, sem sameinaði þá í því að þjóna fólkinu. Þeir þráðu að færa öllum fagnaðarerindið í sínum heimshluta. Og þeir bjuggu börn sín undir að verða verðug þess að vera kölluð af Drottni til að kenna, vitna og þjóna í öðrum hluta víngarðs hans.

Hvort heldur það er í hinni fjölmennu deild, þar sem nýi djákninn framfylgir þeirri skyldu sinni að miðla fagnaðarerindinu og byggja upp ríkið, eða í hinum fjarlæga fámenna hópi, þar sem nýi presturinn þjónar, þá eru þeir eitt í tilgangi. Djákninn mun innblásinn af elsku Guðs til að ná til vinar sem enn er ekki meðlimur. Hann mun fá vin sinn til að taka þátt í einhverri þjónustu eða athöfn í kirkjunni og síðan bjóða honum og fjölskyldu hans að taka á móti kennslu trúboðanna. Hann mun verða góður vinur þeirra sem þegar hafa skírst.

Presturinn mun bjóða öðrum í hinn fámenna hóp heilagra, þar sem hann hefur fundið elsku Guðs og hinn sæla frið fagnaðarerindisins.

Ef hann heldur áfram að rækja prestdæmisskyldur sínar af trúmennsku, mun hann sjá hópinn verða að grein og síðan að stiku Síonar í borg hans. Þar mun verða deild með ástríkum biskupi. Einn sona hans eða barnabarn gæti dag einn farið með þjón Guðs upp á hæð eina og sagt: „Þetta er tilvalinn staður fyrir musteri.“

Ég bið þess, að hvar sem við erum og hverjar sem skyldur okkar eru í prestdæmi Guðs, munum við verða sameinaðir í þeim tilgangi að færa öllum heiminum fagnaðarerindið, og hvetja þá sem við elskum til að hreinsa sig af synd og njóta hamingju með okkur í ríki Guðs. Í nafni Jesú Krist, hvers kirkja þetta er, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir