Sleppa aðallóðsun
Apríl 2013 | Vér trúum, að vér eigum að vera skírlíf

Vér trúum, að vér eigum að vera skírlíf

Apríl 2013 Aðalráðstefna

Hlýðni við skírlífislögmálið mun auka hamingju okkar á jörðu og gera framþróun okkar mögulega í eilífðinni.

Boðskapur minn fjallar um grundvallarspurningu, alvarlegs og andlegs eðlis: Hvers vegna er skírlífislögmálið svo mikilvægt? Ég bið þess að heilagur andi staðfesti sannleiksgildi þeirra reglna sem ég kenni.

Sæluáætlun föðurins

Eilíft mikilvægi skírlífis verður aðeins skilið í heildarsamhengi við sæluáætlun föðurins fyrir börn hans. „Allar mannlegar verur ‒ karlar og konur ‒ eru skapaðar í mynd Guðs. Hvert þeirra er ástkær andasonur eða dóttir himneskra foreldra, og … á … sér guðlegt eðli og örlög“ („Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ Ensign eða Líahóna, nóv. 2010, 129). Allir karlar og konur dvöldu hjá Guði sem andabörn hans, áður en þau komu til jarðar sem dauðlegar verur. Áætlun föðurins gerir andasonum og dætrum hans kleift að hljóta efnislíkama, dauðlega reynslu og þroskast til upphafningar.

Mikilvægi efnislíkamans

Efnislíkaminn gerir okkur mögulegt að upplifa víðari, fjölbreyttari og dýpri reynslu en við fengjum upplifað í fortilverunni. Sambönd okkar við aðra, eigin hæfni til að þekkja og breyta samkvæmt sannleikanum og hlíta reglum og helgiathöfnum fagnaðarerindis Jesú Krists, verður sterkara og meira vegna efnislíkama okkar. Í skóla jarðlífsins upplifum við blíðu, góðvild, kærleika, hamingju, sorg, vonbrigði, sársauka og jafnvel erfiðleika líkamlegra annmarka, og það býr okkur undir eilífðina. Það eru einfaldlega lexíur og reynslur sem okkur er nauðsynlegt að læra af, „að hætti holdsins,“ líkt og ritningarnar orða það (1 Ne 19:6; Alma 7:12–13).

Sköpunarkrafturinn

Eftir sköpun jarðar var Adam settur í aldingarðinn Eden. Mikilvægt er þó að Guð sagði: „Eigi er gott, að maðurinn sé einsamall“ (HDP Móse 3:18; sjá einnig 1 Mós 2:18), og Eva varð eiginkona og meðhjálp Adams. Hin sérstæða og aðgreinda samsetning karla og kvenna, andlega, líkamlega, huglega og tilfinningalega, var nauðsynleg til að útfæra sæluáætlunina. „Þó er hvorki konan óháð manninum né maðurinn konunni í samfélaginu við Drottin“ (1 Kor 11:11). Karli og konu er ætlað að læra af hvort öðru, efla, blessa og fullkomna hvort annað.

Sá háttur sem hafður er á við sköpun dauðlegra manna er guðlega tilnefndur. „Fyrsta boðorðið sem Guð gaf Adam og Evu varðaði mögulegt foreldrahlutverk þeirra sem eiginmanns og eiginkonu“ (Ensign eða Líahóna, nóv. 2010, 129). Boðorðið um að margfaldast og uppfylla jörðina er enn í gildi í dag. Og þannig er hjónaband karls og konu hin réttmæta leið fyrir anda að koma úr fortilverunni til jarðlífsins. Algjört bindindi á kynlíf fyrir hjónaband og fyllsta tryggð í hjónabandi varðveitir helgi þessarar guðlega tilnefndu leiðar.

Sköpunarkrafturinn er andlega mikilvægur. Misnotkun þess krafts grefur undan tilgangi áætlunar föðurins og jarðneskrar tilveru okkar. Himneskur faðir og ástkær sonur hans eru skaparar og hafa treyst hverju einstöku okkar fyrir hluta af sköpunarkrafti sínum. Sérstakar leiðbeiningar varðandi rétta notkun þeirrar getu, að skapa líf, eru mikilvægir þættir í áætlun föðurins. Viðhorf okkar til þessa guðlega krafts og hvernig við notum hann, mun að miklu leyti ákvarða hamingju okkar í jarðlífinu og eilíf örlög okkar.

Öldungur Dallin H. Oaks sagði:

„Kraftur til þess að skapa dauðlegt líf er upphafinn kraftur, sem Guð hefur gefið börnum sínum. Hann var tilgreindur í fyrsta boðorðinu, en annað mikilvægt boðorð var gefið til að afstýra misnotkun á honum. Sú áhersla sem við leggjum á skirlífislögmálið útskýrist af skilningi okkar á tilgangi sköpunarkraftsins við framkvæmd á áætlun Guðs. ...

Öll notkun sköpunarkraftsins utan hjónabands er að meira eða minna leyti syndsamleg niðurlæging og spilling á mikilvægasta guðlega eiginleika karla og kvenna“ („The Great Plan of Happiness,“ Ensign, nóv. 1993, 74).

Regla kynferðislegs siðferðis

Í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er ein ófrávíkjanleg regla kynferðislegs siðferðis: Náið samband er aðeins viðeigandi milli karls og konu innan þeirra marka hjónabandsins sem getið er um í áætlun Guðs. Slík náin sambönd byggjast ekki aðeins á forvitni, fullnæginarþrá eða eigingjarnri ánægju eða skemmtun. Þau eru ekki sigur sem þarf að vinna eða aðeins athöfn sem þarf að framkvæma. Þau eru öllu heldur æðsta tjáning á guðlegu eðli okkar og möguleikum, og leið til að styrkja tilfinningalegt og andlegt samband eiginmanns og eiginkonu. Við erum blessuð með siðferðislegu sjálfræði og skilgreind samkvæmt guðlegri arfleifð okkar, sem börn Guðs ‒ en ekki samkvæmt kynhegðun eða samtíma skoðunum og veraldlegri heimspeki.

Hinn náttúrlegi maður

Að sögn Benjamíns konungs á hinn náttúrlegi maður sér góða tilveru í hverju okkar, að einhverju marki (sjá Mósía 3:19). Hinn náttúrlegi maður, karl eða kona, er iðrunarlaus, holdlegur og munúðarfullur (sjá Mósía 16:5; Alma 42:10; HDP Móse 5:13), hann er lauslátur og gegndarlaus og hrokafullur og sjálfselskur. Spencer W. Kimball forseti kenndi: „Hinn ‚náttúrlegi maður‘ er hinn ‚jarðneski maður‘ sem lætur stjórnast af dýrslegum hvötum í stað andlegra tilhneiginga“ („Ocean Currents and Family Influences,“ Ensign, nóv. 1974, 112).

Aftur á móti er „maður [eða kona] Krists“ (Helaman 3:29) andlegur og hefur taumhald á eigin ástríðum (sjá Alma 38:12), hann er hófsamur, agaður, góðviljaður og óeigingjarn. Karlar og konur Krists hlíta orðum Guðs, afneita sjálfum sér og taka kross sinn (sjá Matt 16:24; Mark 8:34; Lúk 9:23; K&S 56:2), og sækja fram á hinum krappa og þrönga vegi trúfestu, hlýðni og hollustu við Drottin og fagnaðarerindi hans.

Við höfum sem synir og dætur Guðs erft frá honum guðlega hæfni. En við lifum nú í föllnum heimi. Efnin sem líkamar okkar eru skapaðir úr eru í eðlislægu föllnu ástandi og alltaf háð áhrifum syndar, spillingar og dauða. Þar af leiðandi hefur fall Adams, og andlegar og stundlegar afleiðingar þess, bein áhrif á okkur í gegnum efnislíkama okkar. Og við erum tvíþættar verur, því andinn, sem er okkar eilífi þáttur, á sér bústað í efnislíkama, sem er háður fallinu. Líkt og Jesús undirstrikaði við Pétur postula: „Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt“ (Matt 26:41).

Eftirfarandi spurning ætti því að varpa skýru ljósi á eðli prófraunar jarðlífsins: Mun ég láta undan hvötum hins náttúrlega manns eða mun ég láta undan umtölum hins heilaga anda og losa mig úr viðjum hins náttúrlega manns og verði heilagur fyrir friðþægingu Krists, Drottins (sjá Mósía 3:19)? Sú er prófraunin. Sigrast má á sérhverri löngun, hneigð og hvöt hins náttúrlega manns, fyrir tilverknað friðþægingar Jesú Krists. Við erum hér á jörðinni til að þroska guðlega eiginleika og beisla allar ástríður holdsins.

Ásetningur andstæðingsins

Áætlun föðurins er hönnuð til að veita börnum hans leiðsögn, til að stuðla að hamingju þeirra og leiða þau örugglega heim til hans að nýju, með upprisna og upphafna líkama. Himneskur faðir þráir að við séum saman í ljósinu og full vonar. Aftur á móti reynir Lúsífer að gera syni og dætur Guðs ráðvillt og óhamingjusöm og koma í veg fyrir eilífa framþróun þeirra. Hin altæki ásetningur föður lyginnar er að gera okkur öll „jafn [vansæl] og hann er sjálfur“ (2 Ne 2:27). Lúsífer óskar þess að við verðum að lokum ein í myrkrinu, án vonar.

Satan reynir stöðugt að rangfæra mikilvægustu þættina í áætlun föðurins. Hann hefur ekki efnislíkama og eilíf framþróun hans er stöðnuð. Á sama hátt og vatn í árfarvegi er stöðvað með stíflu, er eilíf framþróun andstæðingsins stöðnuð, því hann hefur ekki efnislíkama. Lúsífer hefur afsalað sér öllum jarðneskum blessunum, vegna uppreisnar sinnar, og allri mögulegulegri reynslu og upplifun með líkama af holdi og beinum. Hann fær ekki lært þær lexíur sem aðeins andar gæddir efnislíkama fá lært. Hann hefur andúð á raunveruleika bókstaflegrar og alheimslegrar upprisu alls mannkyns. Ein áhrifarík ritningarleg merking hugtaksins fordæmdur er sögð vera vangeta hans til að halda áfram að þróast og verða líkur himneskum föður.

Þar sem efnislíkaminn er slík þungamiðja í sæluáætlun föðurins og andlegri framþróun okkar, reynir Lúsífer að hindra framþróun okkar með því að freista okkar til að nota líkama okkar ranglega. Ein mesta kaldhæðni eilífðarinnar er sú, að andstæðingurinn, sem er vansæll einmitt vegna þess að hann hefur ekki efnislíkama, tælir okkur til þátttöku í vansæld sinni með rangri notkun líkama okkar. Þannig er einmitt líkaminn, sem hann hefur ekki, megin takmark tilrauna hans til að freista okkar til andlegrar tortímingar.

Alvarleg synd er að brjóta skírlífislögmálið og misnota efnislíkama okkar. Þau ykkar sem þekkja og skilja sáluhjálparáætlunina vita að saurgun líkamans er bein andstaða við Guð (sjá Mósía 2:36–37; K&S 64:34–35) og afneitun hins sanna auðkennis okkar sem sona og dætra Guðs. Þegar við lítum handan dauðleikans og inn í eilífðina, verður auðvelt að sjá að blekkingar andstæðingsins og samneytis hans eru tímabundnar og innihaldslausar.

Blessanir skírlífis

Alma hvatti son sinn til að „hafa taumhald á ástríðum [sínum], svo að [hann fylltist] elsku“ (Alma 38:12). Þegar við ögum hinn náttúrlega mann í sérhverju okkar, gerir það okkur kleift að njóta betur og varanlegar elsku Guðs og að elska börn hans. Elskan eykst með réttlátri hófsemi og minnkar með hvatvísi og eftirlátsemi.

Marion G. Romney forseti sagði:

„Ég fæ ekki ímyndað mér nokkrar heitþráðari blessanir en þær sem hinum hreinu og dyggðugu er heitið. Jesús talaði um ákveðnar blessanir í tengslum við hinar ýmsu dyggðir, og geymdi hin mestu þeirra, að því að mér virðist, til handa hinum hjartahreinu, ‚því að þeir,‘ sagði hann, ‚munu Guð sjá‘ (Matt 5:8). Og þeir munu ekki aðeins sjá Drottin, heldur finna sig heima í návist hans.

„Þetta er ... loforð frelsarans: ‚Lát dyggðir prýða hugsanir þínar linnulaust, og þá mun traust þitt vaxa og styrkjast í návist Guðs‘ (K&S 121:45)” („Trust in the Lord,” Ensign, maí 1979, 42).

Okkur er líka lofað, þegar við göngum veg dyggðar, að „heilagur andi [verði okkur] stöðugur förunautur“ (K&S 121:46). Að lifa eftir skírlífislögmálinu veitir einhverjar mestu blessanir sem karlar og konur fá notið í jarðlífinu: Gott andlegt sjálfstraust í návist fjölskyldu, vina og samstarfsfólks í kirkjunni og að lokum í návist frelsarans. Sú meðfædda löngun okkar, að tilheyra, uppfyllist í réttlæti þegar við göngum í ljósi og von.

Regla iðrunar

Sum ykkar sem hlýða á þennan boðskap þurfið að iðrast kynferðissynda eða annarra synda. Frelsarinn er oft sagður vera hinn mikli græðari, og þau orð hafa bæði táknræna og bókstaflega merkingu. Öll höfum við upplifað sársaukann sem fylgir líkamlegum áverkum eða meinum. Þegar við þjáumst leitum við yfirleitt líknar og erum þakklát fyrir lyfjagjöf og meðferð sem lina sársaukann. Hugsið ykkur syndina sem andlegan áverka er veldur sektarkennd eða, líkt og Alma sagði við son sinn Koríanton: „Samviskubiti“ (Alma 42:18). Sektarkenndin er anda okkar líkt og sársaukinn er líkama okkar ‒ hættuviðvörun og vernd gegn aukinni skaðsemi. Frá friðþægingu frelsarans streymir græðandi smyrsl, sem læknað getur okkar andlegu sár og fjarlægt sektarkenndina. En þetta smyrsl er aðeins hægt að nota fyrir tilverknað trúarreglna Drottins Jesú Krists, iðrunar og viðvarandi hlýðni. Ávöxtur einlægrar iðrunar eru samviskufriður, huggun og andleg lækning og endurnýjun.

Biskup ykkar eða greinarforseti er andlegur aðstoðarlæknir, sem er viðurkenndur til að hjálpa ykkur að iðrast og læknast. Hafið þó í huga að umfang og styrkleiki iðrunar ykkar verður að vera í samræmi við eðli og alvarleika synda ykkar ‒ einkum Síðari daga heilagra, sem eru undir helgum sáttmála. Alvarleg andleg sár krefjast mikillar meðferðar og tíma til að græðast að fullu og öllu.

Loforð og vitnisburður

Kenningin sem ég hef lýst kann að virðast úrelt og gamaldags mörgum þeim sem lifa í heimi þar sem sífellt meira er hæðst að helgi sköpunarkraftsins og gert lítið úr virði mannssálarinnar. En sannleikur Drottins breytist ekki eftir tísku, vinsældum eða almennum skoðunum. Ég lofa að hlýðni við skírlífislögmálið muni auka hamingju ykkar í jarðlífinu og gera framþróun ykkar mögulega í eilífðinni. Skírlífi og dyggð eru nú, hafa ætíð verið og munu ætíð verða „kærast og dýrmætast alls“ (Moró 9:9). Um það vitna ég í heilögu nafni Drottins Jesú Krists, amen.