Sleppa aðallóðsun
Apríl 2013 | Þín helga þjónustuábyrgð

Þín helga þjónustuábyrgð

Apríl 2013 Aðalráðstefna

Þið hlutuð kraftinn, valdið og þá heilögu skyldu að þjóna, um leið og þið voru vígðir til prestdæmisins.

Gleði þjónustu

Piltar Aronsprestdæmisins, þið eruð elskaðir synir Guðs og hann ætlar ykkur mikið verk að vinna. Til að framkvæma það verk þurfið þið að uppfylla þá helgu ábyrgð ykkar að þjóna öðrum.1

Vitið þið hvað það þýðir að þjóna? Íhugið þessa spurningu á meðan ég segi ykkur sögu um stúlku sem heitir Chy Johnson.

Chy varð fórnarlamb mikils miskunnarlauss og hugsunalauss eineltis, þegar hún hóf nám í menntaskóla á síðasta ári. Það var komið illa fram við hana, henni hrint og dregið dár að henni, er hún gekk um í skólanum — sumir nemendur hentu meira að segja rusli í hana. Þið hafið líklega einnig séð illa komið fram við fólk í ykkar skóla.

Fyrir allt of marga eru unglingsárin tími einmanaleika og ótta. Svo þarf samt ekki að vera. Chy til mikillar blessunar voru nokkrir piltar í skólanum hennar sem skildu hvað það þýðir að þjóna.

Móðir Chy hafði beðið kennarana í skólanum að koma til hjálpar varðandi eineltið, en ekkert gekk. Síðan hafði hún samband við Carson Jones, Aronsprestdæmishafa og liðsstjórnanda í fóttboltaliði skólans. Hún bað hann að komast að því fyrir sig hverjir stæðu að þessu einelti.0}

Carson samþykkti að hjálpa, en í hjarta sér fannst honum hann geta gert miklu meira en bara að nefna gerendurna. Andinn hvíslaði að honum, að hann yrði að hjálpa Chy að upplifa kærleikann.

Carson bað nokkra liðsfélaga sína að vinna með sér við að þjóna Chy. Þeir buðu henni að sitja hjá sér við hádegisverðinn. Þeir gengu með henni í bekkina hennar til að tryggja að hún væri örugg. Það kom engum á óvart að enginn lagði Chy í einelti eftir að hún eignaðist góða vini úr fótboltaliðinu.

Þetta var spennandi tímabil fyrir fótboltaliðið. Þrátt fyrir spenninginn og gleðina sem fylgdi því að hafa ekki tapað einum einasta leik allt tímabilið, gleymdu þessir piltar ekki Chy. Þeir buðu henni að koma inn á völlinn og vera með liðinu að leikjum loknum. Chy fann kærleikann í sinn garð og að hún var metin að verðleikum. Hún fann til öryggis. Hún var glöð.

Fótboltaliðið vann fylkistitilinn. Hins vegar gerðist nokkuð í skólanum þeirra sem var miklu mikilvægara en að vinna titilinn. Fordæmi þessara pilta varð hvatning fyrir aðra nemendur til að vera opnari og vinalegri. Þeir koma nú fram við hver aðra af góðvild og virðingu.

Fréttastofa stórs fjölmiðlafyrirtækis komst að því hvað þessir piltar höfðu gert og sögðu frá því á landsvísu. Það sem hófst sem þjónustuframtak einnar manneskju, hefur nú blásið þúsundum í brjóst að gera hið sama.

Móðir Chy kallar þessa pilta „engla í dulargerfi.“ Carson og vinir hans segja strax að Chy hafi blessað líf þeirra miklu meira en þeir hafi blessað líf hennar. Þetta er það sem gerist þegar þið týnið lífi ykkar í þjónustu við aðra — þið finnið ykkur sjálfa.2 Þið breytist og vaxið á þann hátt sem ella væri ekki hægt. Þessir piltar hafa upplifað gleðina af að þjóna og halda áfram að leita tækifæri til að blessa aðra. Þeir bíða óþreyjufullir eftir að halda þjónustu sinni áfram á komandi mánuðum, þegar þeir munu þjóna sem fastatrúboðar.3

Þörf og skylda

Það eru þúsundir Chy Johnson hvarvetna í heiminum — fólk sem þarf að finna elsku himnesks föður. Það er í skólum ykkar, sveitum ykkar og jafnvel í fjölskyldu ykkar. Sumir koma fljótt upp í hugann. Aðrir hafa þarfir sem ekki eru eins sýnilegar. Nánast allir sem þið þekkið gætu notið blessunar af þjónustu ykkar. Drottinn reiðir sig á að þið náið til þeirra.

Þið þurfið ekki að vera íþróttastjörnur til að þjóna öðrum. Þið hlutið kraftinn, valdið og þá heilögu skyldu, að þjóna um leið og þið voru vígðir til prestdæmisins. James E. Faust forseti kenndi: „Prestdæmið er vald úthlutað manninum til að þjóna í nafni Guðs.“4 Aronsprestdæmið hefur lykla að þjónustu engla.5

Himneskur faðir mun leiðbeina ykkur og englar munu aðstoða ykkur, er þið elskið börn hans.6 Þið munuð hljóta kraft til að blessa og bjarga sálum.

Jesús Kristur er fyrirmynd ykkar. Hann kom ekki „ til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna.“7 Að þjóna þýðir að elska og annast aðra. Það þýðir að huga að líkamlegum og andlegum þörfum þeirra. Það þýðir einfaldlega að gera það sem frelsarinn myndi gera, ef hann væri hér.

Fjölskylda ykkar

Hefjist handa á ykkar eigin heimili. Hér getið þið veitt ykkar mikilvægustu þjónustu.8

Viljið þið gera áhugaverða tilraun? Næst þegar móðir ykkar biður ykkur um hjálp heima fyrir, segið þá eitthvað þessu líkt: „Takk fyrir að biðja mig um þetta, mamma. Ég vil endilega hjálpa til.“ Horfið síðan á viðbrögð hennar. Sumir ykkar gætu viljað dusta rykið af þekkingu ykkar á skyndihjálp áður en þið reynið þetta. Hún gæti fengið lost. Eftir lífgunaraðgerðina munuð þið finna samband ykkar við hana batna til muna, og einnig finna aukinn anda á heimili ykkar.

Þetta er einungis ein af mörgum leiðum til að þjóna fjölskyldu ykkar. Það eru ótal fleiri leiðir. Þið þjónið er þið talið blíðlega til fjölskyldu ykkar. Þið þjónið er þið komið fram við systkini ykkar eins og bestu vini ykkar.

Kannski er mikilvægasta þjónusta ykkar sú, að aðstoða föður ykkar í þeirri ábyrgð hans að vera andlegur leiðtogi á heimilinu. Veitið allan ykkar stuðning og hvatningu á fjölskyldukvöldum, í fjölskyldubænum og í ritningarnámi fjölskyldunnar. Gerið ykkar hlut til að tryggja að andinn sé til staðar á heimili ykkar. Þetta mun hjálpa föður ykkar í hlutverki hans og búa ykkur undir að verða sjálfir einhvern tíma feður. Ef enginn faðir er á heimili ykkar, þá er sú skylda ykkar, að þjóna fjölskyldunni, jafnvel enn mikilvægari.

Sveit ykkar

Þið hafið einnig þá skyldu að þjóna í sveit ykkar.

Prestdæmið breiðist út um allan heim. Margir fylgið þið kalli Monsons forseta um að koma öðrum til bjargar. Það eru fleiri virkir Aronsprestdæmishafar í dag en nokkru sinni áður í sögu kirkjunnar. Samt eru einhverjir sem ekki eru virkir og þarfnast ykkar.

Í júní síðastliðnum var ný grein stofnuð í Bangalore á Indlandi. Eini pilturinn á prestdæmisfundinum var nývígður djákni sem heitir Gladwin.

Gladwin hóf, ásamt forseta Piltafélagsins og greinarforsetanum, að hringja í og heimsækja lítt virka pilta á heimili þeirra. Brátt fór annar piltur, Samuel, að mæta í kirkju aftur.

Í hverri viku hringdu Gladwin og Samuel í þá sem ekki höfðu sótt sveitarfundinn og miðluðu því sem þeir höfðu lært. Þeir tóku einnig að hringja í eða heimsækja þá á afmælisdögum þeirra. Einn af öðrum fóru lítt virku piltarnir að verða vinir þeirra og tóku jákvætt í að koma á sveitarathafnir, sækja sveitarfundi og að lokum að þjóna sjálfir. Í dag eru allir piltarnir í greininni virkir í kirkjunni.

Ritningarnar kenna, að Aronsprestdæmissveitir eigi að sitja í ráðum og uppbyggja ‒ eða byggja upp og styrkja – hver aðra.9 Þið uppbyggið er þið kennið sannleika fagnaðarerindisins, miðlið andlegri reynslu og berið vitnisburði. Námsefni unglinga hvetur til þessara samskipta á sveitarfundum, en þetta getur einungis átt sér stað þegar sérhverjum meðlimi sveitarinnar er sýndur kærleiki og virðing. Hæðni og stríðni á ekki heima á sveitarfundum — sérstaklega ekki þegar tilfinningum er deilt opinskátt. Forsætisráð sveita verða að taka forystuna og tryggja að sveitarfundir séu öruggur staður, þar sem allir geta tekið þátt.

Páll postuli sagði: „Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.“10

Prestdæmishafar nota aldrei dónaleg orð eða ljótt málfar. Þeir lítillækka ekki aðra eða meiða. Þeir eru ætíð uppbyggjandi og styrkja aðra. Þetta er einföld en kraftmikil leið til að þjóna.

Öllum stundum

Þjónustuverkið er ekki takmarkað við helgiathafnir, heimiliskennslu eða þjónustuverkefni sem framkvæmt er öðru hverju. Við erum ætíð menn prestdæmisins — ekki einungis á sunnudögum og ekki einungis þegar við erum í hvítri skyrtu og með bindi. Okkur ber sú skylda, að þjóna hvar sem við erum. Þjónusta er ekki eitthvaðsem við gerum — hún skilgreinir hverjir við erum.

Þjóna dag hvern. Tækifærin eru allt í kringum ykkur. Leitið þeirra. Biðjið Drottin að hjálpa ykkur að þekkja þau. Þið munuð komast að því að flest samanstendur af litlum og einlægum gjörðum sem hjálpa öðrum að verða fylgjendur Jesú Krists.11

Er þið kappkostið að vera verðugir andans munuð þið greina þær hugsanir og tilfinningar sem hvetja ykkur til að þjóna. Þegar þið farið eftir þeirri hvatningu munuð þið hljóta aukinn innblástur, og tækifæri til að þjóna munu aukast og útvíkka.

Kæru ungu bræður, ég vitna að þið hafið hlotið vald og kraft hins dásamlega Aronsprestdæmis til að þjóna í nafni Guðs.

Ég vitna að er þið gerið svo, munuð þið verða verkfæri í höndum Guðs til að hjálpa öðrum. Líf ykkar verður auðugra og þýðingarmeira. Þið munuð finna aukinn kraft til að standast hið illa. Þið munuð finna sanna hamingju — hamingju sem einungis sannir fylgjendur Jesú Krists þekkja.

Ég bið þess að þið megið finna gleðina sem fylgir því að uppfylla ykkar helgu skyldu, að þjóna, í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir

  Heimildir

  1. Sjá Kenning og sáttmálar 84:111.

  2. Sjá Mark 8:35.

  3. Sjá Trent Toone, „Kindness of Arizona High School QB Carson Jones and Teammates Has Gone Viral,” Deseret News, 9. nóv. 2012, deseretnews.com/article/865566351/Kindness-of-Arizona-high-school-QB-Carson-Jones-and-teammates-has-gone-viral.html.

  4. James E. Faust, „Message to My Grandsons,” Ensign eða Líahóna, maí 2007, 54; skáletrað hér.

  5. Sjá Kenning og sáttmálar 13:1.

  6. Sjá Kenning og sáttmálar 84:88.

  7. Sjá Matt 20:27–28.

  8. Sjá Handbook 2: Administering the Church (2010), 2.4.5.

  9. Sjá Kenning og sáttmálar 107:85.

  10. Efe 4:29.

  11. Sjá Handbook 2, 3.2.3.