Sleppa aðallóðsun
Október 2013 | Verið hógvær og af hjarta lítillát

Verið hógvær og af hjarta lítillát

Október 2013 Aðalráðstefna

Að vera hógvær er ekki veikleikamerki, en það þýðir að sýna góðvild og gæsku.

Mormón kenndi að maðurinn „[geti] ekki átt trú og von án þess að hann sé hógvær og af hjarta lítillátur.“1 Mormón bætir því við að án slíkra eiginleika „[sé] trú hans og von til einskis, því að enginn er Guði velþóknanlegur, nema hinn hógværi og af hjarta lítilláti.“2

Hógværð er eiginleiki þess sem er: „Guðhræddur, réttlátur, auðmjúkur, námfús og þolinmóður í þjáningum.“3 Þeir sem hafa þessa eiginleika til að bera eru fúsir til að fylgja Jesú Kristi og eru rólegir, bljúgir, umburðarlyndir og undirgefnir að lunderni.

Páll postuli kenndi að auðmýkt væri ávöxtur andans.4 Þar af leiðandi er auðveldast að öðlast hana, ef við „lifum í andanum.“5 Til að lifa í andanum verður lífsmáti okkar að endurspegla réttlæti frammi fyrir Drottni.

Er við tökum á okkur nafn Krists er ætlast til þess að við kappkostum að líkja eftir eiginleikum hans og breytum eðli okkar daglega til að líkjast honum. Frelsarinn áminnti lærisveina sína og sagði: „Verið þér því fullkomin, eins og yðar himneski faðir er fullkominn.“6 Ef við „[komum] til Krists,…[höfnum] öllu óguðlegu; …og [elskum] Guð,“ þá mun sá dagur koma að við getum, fyrir náð Krists, verið fullkomin í honum.7

„Kristlegir eiginleikar eru gjöf frá Guði. Þá [eiginleika] hlýtur þú við réttláta beitingu sjálfræðis. …[Ef við þráum] að þóknast Guði, [verðum við að vera meðvituð] um veikleika [okkar] og fús til að bæta [okkur].“8

Hógværð er nauðsynleg til að við getum orðið líkari Kristi. Án hennar munum við ekki geta þroskað með okkur aðrar mikilvægar dyggðir. Að vera hógvær er ekki veikleikamerki, en það þýðir að sýna góðvild og gæsku, styrk, hugarró, heilbrigt sjálfsöryggi og sjálfsstjórn.

Hógværð var einn af þeim eiginileikum sem líf frelsarans var auðugt af. Hann kenndi sjálfur lærisveinum sínum: „Lærið af mér, ég er hógvær og af hjarta lítillátur.“9

Við njótum þeirrar blessunar að fæðast með fræ hógværðar í hjörtum okkar. Við þurfum að skilja, að ekki er hægt að rækta og þroska það fræ á einu augnabliki, heldur gerist það með tímanum. Kristur bað okkur að „[taka] upp kross [okkar] daglega,“10 og þá átti hann við að þetta yrði að vera viðgengin venja og þrá.

Lorenzo Snow forseti, fimmti spámaður ráðstöfunartíma okkar, kenndi: „Það er skylda okkar að reyna að vera fullkomin, …að bæta okkur hvern dag og horfa til síðustu viku og gera betur þessa viku; gera betur í dag en í gær.“11 Fyrsta skrefið til að verða hógvær er því að vinna að því að bæta okkur dag frá degi. Á hverjum degi verðum við að reyna að verða betri en daginn áður, ef okkur á að miða áfram í þessu ferli.

Snow forseti bætti við:

„Við eigum öll okkar kjánaskap og veikleika; við ættum að reyna að sigrast á þeim af fremsta megni, og …ættum að gróðursetja þá tilfinningu í hjörtu barna okkar…svo að þau geti lært að hegða sér á viðeigandi hátt frammi fyrir honum við allar kringumstæður.

„Ef eiginmaðurinn getur í einn dag lifað með konu sinni án þess að sinnast við hana eða án þess að koma óvingjarnlega fram við nokkurn, eða án þess að hryggja andann…þá hefur hann náð þeirri fullkomnun. Látið hann reyna þetta aftur næsta dag. Ef honum hins vegar mistekst í þessari viðleitni sinni næsta dag, þá þýðir það ekki að hann geti ekki staðist þriðja daginn.“12

Þegar Drottinn sér trúmennsku okkar og þrautsegju, þá mun hann veita okkur það sem við getum ekki gert sjálf vegna ófullkomleika okkar og mannlegra veikleika.

Annað mikilvægt skref í því að verða hógvær er að læra að stjórna skapi okkar. Þar sem hinn náttúrlegi maður býr innra með okkur öllum, og vegna þess að við búum í heimi sem er fullur af þrýstingi, þá gæti stjórn á skapi okkar verið ein af stærstu áskorunum lífsins. Hugleiðum smástund hver viðbrögð okkar eru, þegar einhver verður ekki við ósk okkar þegar við viljum að það sé gert. Hvað með þegar fólk er ósammála hugmyndum ykkar, jafnvel þótt þið séuð algerlega viss um að þær séu rétta lausnin á vandanum? Hver eru viðbrögð ykkar þegar einhver móðgar ykkur, gagnrýnir framlag ykkar eða er ónærgætinn bara af því að þau eru í vondu skapi? Á slíkum stundum, og á öðrum erfiðum stundum, verðum við að læra að stjórna skapi okkar og tjá tilfinningar okkar með þolinmæði og mildum fortölum. Þetta er einna mikilvægast innan heimila okkar og í samskiptum við eilífan félaga okkar. Í þau 31 ár sem ég hef verið giftur elskunni minni, hefur hún oft áminnt mig mildilega um þetta, er við höfum tekist á við vanda og áskoranir lífsins.

Meðal leiðbeininga sem finna má í öðru bréfi Páls postula til Tímóteusar, sagði hann:

„Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði, heldur á hann að vera ljúfur við alla, góður fræðari, þolinn í þrautum,

hógvær er hann agar þá er skipast í móti. Guð kynni að gefa þeim sinnaskipti, sem leiddi þá til þekkingar á sannleikanum,

Þá gætu þeir endurvitkast.“13

Með því að stjórna viðbrögðum okkar, með því að halda ró okkar og stillingu og forðast ósætti, þá munum við byrja þann feril að verða hæf fyrir gjöf hógværðar. Henry B. Eyring forseti sagði eitt sinn: „Þegar við í trú höfum stjórn á skapi okkar og bælum niður hroka okkar, sýnir heilagur andi velþóknun sína, og helg loforð og sáttmálar verða tryggir.“14

Annað skref í því að öðlast hógværð er að verða auðmjúkur. Drottinn veitti Thomas B. Marsh leiðsögn í gegnum spámanninn Joseph Smith er hann sagði: „Ver auðmjúkur og Drottinn Guð þinn mun leiða þig sér við hönd og svara bænum þínum.“15

Ég trúi því, bræður og systur, að aðeins þeir sem eru auðmjúkir geti meðtekið og skilið svör Drottins við bænum þeirra. Hinir auðmjúku eru námfúsir og viðurkenna hve háðir þeir eru Guði og þrá það að beygja sig undir vilja hans. Hinir auðmjúku eru bljúgir og hafa getuna til að sannfæra aðra um að vera eins. Loforð Guðs til hinna hógværu er að hann muni leiða þá. Ég trúi því einlæglega að við munum forðast hjáleiðir og sorgir í lífi okkar svo lengi sem við göngum hönd í hönd með Drottni.

Eitt af fallegustu nútímafordæmunum sem ég veit af er sagan af trúskiptum bróður Moses Mahlangu. Saga hans hófst árið 1964, þegar hann fékk eintak af Mormónsbók Hann var heillaður er hann las þessa bók, en það var ekki fyrr en snemma á áttunda áratugnum, er hann var á gangi, að hann sá skilti kirkju Síðari daga heilagra utan á byggingu í Jóhannesarborg í Suður Afríku. Bróðir Mahlangu var forvitinn og gekk inn í bygginguna til að læra meira um kirkjuna. Honum var sagt á vingjarnlegan hátt að hann gæti ekki mætt á samkomur eða látið skírast því að lög landsins leyfðu það ekki á þeim tíma.

Bróðir Mahlangu samþykkti þessa ákvörðun með hógværð, auðmýkt og án gremju, en hann þráði enn heitt að læra meira um kirkjuna. Hann spurði leiðtoga kirkjunnar hvort þeir gætu haft einn af gluggum samkomuhússins opinn á meðan á samkomum stóð á sunnudögum, svo að hann gæti setið fyrir utan og hlustað á guðþjónusturnar. Í mörg ár sótti fjölskylda Mahlangu og vinir þeirra samkomur kirkjunnar reglulega „í gegnum gluggann.“ Dag einn, árið 1980, var þeim sagt að þau gætu sótt kirkju og einnig verið skírð. Þvílíkur dásemdardagur fyrir bróður Mahlangu.

Kirkjan stofnaði síðan grein í Soweto hverfinu, þar sem hann bjó. Þetta var einungis mögulegt vegna ákveðni, hugrekkis og trúfesti fólks eins og bróður Mahlangu, sem var trúr í svo mörg ár í mjög erfiðum aðstæðum.

Einn af vinum bróður Mahlangu, sem hafði gengið í kirkjuna á sama tíma, sagði mér þessa sögu þegar ég heimsótti Sóweto stikuna. Í lok samtalsins faðmaði hann mig að sér. Á því augnabliki, bræður og systur, fannst mér eins og að ég væri í ástríkum faðmi frelsarans. Hógværð geislaði úr augum þessa góða bróður. Með hjartað fullt af góðvild og djúpu þakklæti, spurði hann hvort ég vildi segja Thomas S. Monson forseta hve þakklátur og blessaður hann og margir aðrir væru fyrir það að hafa hið sanna fagnaðarerindi í lífi sínu. Hógvært fordæmi bróður Mahlangu og vinar hans hafði raunveruleg áhrif á líf margra til hins betra ‒ sérstaklega mitt.

Bræður og systur, ég trúi því að frelsarinn Jesús Kristur sé æðsta fordæmi hógværðar. Jafnvel á síðustu stundum lífs síns, er hann var ákærður og dæmdur á óréttmætan hátt, berandi kross sinn upp á Golgata og hæddur og bölvaður af óvinum sínum, yfirgefinn af mörgum sem þekktu hann og höfðu orðið vitni að kraftaverkum hans, var hann negldur á krossinn.

Jafnvel eftir þessar gífurlegu líkamlegu þjáningar sneri Drottinn sér til föður síns og sagði frá dýpstu rótum hógværs og auðmjúks hjarta sína: „Faðir fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra.“16 Kristur upplifði gríðarlegar þjáningar, bæði líkamlegar og andlegar, og gaf okkur þar með tækfæri til að breyta andlegu eðli okkar og verða eins hógvær og hann.

Ég ber vitnisburð minn um að Jesús Kristur er frelsari okkar. Ég vitna fyrir ykkur að, þökk sé kærleika hans, þá er mögulegt að breytast. Það er mögulegt að skilja veikleika okkar eftir. Það er mögulegt að afneita öllum illum áhrifum út lífi okkar, stjórna reiði okkar, verða hógvær og þroska með okkur kristilega eiginleika. Hann sýndi okkur leiðina. Hann veitti okkur hið fullkomna fordæmi og bauð okkur hverju og einu að verða eins og hann er. Boð hans til okkar er að fylgja honum, fylgja fordæmi hans og líkjast honum. Ég gef ykkur vitnisburð um þennan sannleika, í hinu heilaga nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir

  Heimildir

  1. Moró 7:43.

  2. Moró 7:44.

  3. Leiðarvísir að ritningunum, „Hógvær, Hógværð,“ scriptures.lds.org.

  4. Sjá Gal 5:22–23.

  5. Gal 5:25.

  6. Matt 5:48.

  7. Moró 10:32.

  8. Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að trúboðsþjónustu (2004), 115.

  9. Matt 11:29.

  10. Lúk 9:23.

  11. Lorenzo Snow, í Conference Report, apríl 1898, 13.

  12. Teachings of Presidents of the Church: Lorenzo Snow (2012), 100, 101.

  13. 2 Tím 2:24–26.

  14. Henry B. Eyring, „Families under Covenant,” Ensign eða Líahóna, maí 2012, 65.

  15. Kenning og sáttmálar 112:10.

  16. Lúk 23:34.