Sleppa aðallóðsun
Október 2013 | Snúið yður

Snúið yður

Október 2013 Aðalráðstefna

Sönn trúarumbreyting á sér stað er þið haldið áfram að fara eftir þeim kenningum sem þið vitið að eru sannar og haldið boðorðin, dag eftir dag og mánuð eftir mánuð.

Bræður og systur, að standa við þetta púlt, þar sem svo margar af hetjum mínum hafa staðið, gerir mann auðmjúkan. Mig langar að miðla ykkur nokkuð af tilfinningum hjarta míns og beini ég þeim sérstaklega að ungdómnum.

Ein af hinum miklu hetjum Gamla testamentisins var spámaðurinn og hermaðurinn Jósúa. Sem leiðtogi Ísraelslýðs gaf hann þeim þetta boð: „Kjósið þá í dag, hverjum þér viljið þjóna … En ég og mínir ættmenn munum þjóna Drottni.“1 Yfirlýsing Jósúa sýnir sanna trúarumbreytingu á fagnaðarerindið. Hvort sem það er Jósúa eða við öll, þá þurfum við að lifa réttlátlega eftir reglum fagnaðarerindisins og vera sönn sáttmálum okkar við Drottin til að snúast til trúar á reglur fagnaðarerindisins.

Mig langar að deila með ykkur sögu úr ættarsögu minni um aðra hetju. Hún heitir Agnes Hoggan og gekk í kirkjuna ásamt eiginmanni sínum í Skotlandi 1861. Þau fluttust búferlum til Ameríku ásamt börnum sínum eftir að hafa liðið miklar ofsóknar í heimalandi sínu. Nokkrum árum síðar varð Agnes ekkja með átta börn á framfæri og lagði hart að sér við að fæða þau og klæða. Ísabella, 12 ára gömul dóttir hennar, var svo heppin að fá atvinnu sem þjónn á heimili auðugs fólks sem ekki tilheyrði kirkjunni.

Ísabella bjó á stóru heimili þeirra og aðstoðaði við umönnun yngri barna þeirra. Móðir hennar fékk greidd lág laun í hverri viku fyrir þjónustu Ísabellu. Brátt var henni tekið sem einni af fjölskyldunni og tók hún að njóta mikils af þeirra munaði, eins og að fara í danskennslu, fá fallegan fatnað og fara í leikhúsið. Þetta fyrirkomulag varði í fjögur ár þar til fjölskyldan sem Ísabella vann fyrir fluttist í annað fylki. Fjölskyldan unni Ísabellu svo mikið að þau fóru til Agnesar, móður hennar, og spurðu hvort þau mættu fá leyfi til að ættleiða Ísabellu löglega. Þau lofuðu að veita henni góða menntun, sjá til þess að hún myndi giftast vel og þau myndu gera hana að erfingja eigna sinna ásamt þeirra eigin börnum. Þau myndu einnig halda áfram að greiða Agnesi vikulega.

Þetta var erfið ákvörðun fyrir ekkju og móðir sem hafði ekki mikið milli handanna en hún hikaði ekki eitt andartak. Hlustið á orðin sem barnabarn hennar skrifaði mörgum árum síðar: „Ef ást hennar hefði ekki fengið [hana] til að segja nei þá var hún með aðra jafnvel betri ástæðu — hún hafði komið alla leið frá Skotlandi og gengið í gegnum erfiðleika og raunir fyrir fagnaðarerindið og hún ætlaði ekki, væri það mannlega mögulegt, að láta eitt af börnum sínum missa það sem hún hafði ferðast svo langa leið til að öðlast.“2 Auðuga fjölskyldan notaði öll möguleg rök og Ísabella sjálf grét og sárbað um leyfi til að fara, en Agnes stóð fast á sínu. Sextán ára gamalli Ísabellu fannst líf sitt vera eyðilagt, eins og þið getið ímyndað ykkur.

Ísabella Hoggan er langamma mín og ég er mjög þakklát fyrir vitnisburðinn og sannfæringuna sem brann svo skært í hjarta móður hennar, sem leyfði ekki að dóttir hennar skipti á aðild sinni í kirkjunni og loforðum heimsins. Í dag njóta hundruð afkomenda hennar blessana vegna aðildar sinnar í kirkjunni og eru arfþegar djúprar trúfesti Agnesar sem og trúarumbreytingar hennar til fagnaðarerindisins.

Ungu vinir, við lifum á hættilegum tímum og þær ákvarðanir sem þið þurfið að taka daglega, eða jafnvel á hverri klukkustund, hafa áhrif á eilífðina. Þær ákvarðanir sem þið takið í ykkar daglega lífi stjórna því sem gerist síðar meir. Ef þið hafið ekki nú þegar tryggilega rótfastan vitnisburð og sannfæringu um að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu sé ríki Guðs á jörðu, þá er núna tíminn til að gera það sem þarf til að öðlast þá sannfæringu. Það getur verið hættulegt sálu ykkar að seinka því sem þarf til að öðlast þess háttar sannfæringu.

Sönn trúskipti eru mun meira en að búa yfir þekkingu á reglum fagnaðarerindisins og gefur í skyn mun meira en einungis að hafa vitnisburð um þessar reglur. Það er mögulegt að búa yfir vitnisburði um fagnaðarerindið án þess að lifa samkvæmt honum. Sönn trúarumbreyting leiðir til þess að við gerum það sem við trúum og leyfum þeim gjörðum að valda „svo mikilli breytingu á okkur, eða í hjörtum okkar.“3 Í bókinni True to the Faith, lesum við að „trúarumbreyting [sé] ferli en ekki einstakt tilvik. Við snúumst til trúar, sem er afleiða réttláts lífernis til að fylgja frelsaranum.”4 Það krefst tíma, framlags og vinnu. Langalangamma mín bjó yfir sterkri sannfæringu um að fagnaðarerindið væri mikilvægara fyrir börn hennar en allt það ríkidæmi og þægindi sem heimurinn hefði upp á að bjóða, því hún hafði fórnað, þolað og lifað eftir fagnaðarerindinu. Trúarumbreyting hennar stafaði af því að lifa og fórna samkvæmt reglum fagnaðarerindisins.

Við þurfum að fara í gegnum þetta sama ferli, ef við viljum öðlast samskonar skuldbindingu. Frelsarinn kenndi: „Sá sem vill gjöra vilja hans, mun komast að raun um, hvort kenningin er frá Guði eða ég tala af sjálfum mér.“5 Stundum reynum við að gera þetta afturábak. Sem dæmi, þá er okkar nálgun ef til vill þessi: Ég er alveg reiðubúin að lifa samkvæmt Tíundarlögmálinu, en fyrst verð ég að vita um sannleiksgildi þess. Vera má að við biðjum jafnvel um vitnisburð um Tíundarlögmálið og vonum að Drottinn blessi okkur með vitnisburði áður en við höfum nokkru sinni fyllt út tíundarseðla. Það virkar hreinlega ekki á þann hátt. Drottinn væntir þess að við iðkum trú. Við verðum staðfastlega að greiða fulla og heiðarlega tíund til þess að geta öðlast vitnisburð um tíundina. Sama mynstur á við um allar reglur fagnaðarerindisins, hvort sem það er skírlífislögmálið, reglan um siðsaman klæðaburð, Vísdómsorðið eða lögmál föstunnar.

Mig langar til að segja frá dæmi sem sýnir hvernig hlýðni við reglu getur hjálpað okkur að snúast til trúar á þá reglu. Á sjöunda áratugnum var ég eina SDH stúlkan í skólanum mínum. Þetta var byltingartímabil sem auðkenndist af höfnun á hefbundnu siðferði, eiturlyfjanotkun og „þú mátt gera hvað sem er“ viðhorfi. Margir af jafningjum mínum var gott fólk en átti auðvelt með að hrífast af spennu þessa nýja siðferðis, sem í raun var bara gamalt siðferði. Foreldrar mínir og kennarar höfðu kennt mér gildi þess að meðhöndla líkama minn af virðingu, halda huganum skýrum og, mikilvægast af öllu, treysta á boðorð Drottins. Ég tók þá ákvörðun að forðast aðstæður þar sem ég vissi að áfengi yrði til staðar og að halda mig fjarri tóbaki og eiturlyfjum. Þetta þýddi að ég var útundan í veislum og fór sjaldan á stefnumót. Eiturlyfjanotkun varð æ algengari hjá unga fólkinu og hætturnar voru ekki eins vel þekktar á þeim tíma og þær eru í dag. Margir af jafningjum mínum liðu varanlegan skaða vegna eiturlyfjanna eða festust í viðjum ávanans. Ég var þakklát fyrir að hafa lært Vísdómsorðið á heimili mínu og að ég öðlaðist dýpri vitnisburð um þessa reglu fagnaðarerindisins, er ég iðkaði trú og lifði eftir henni. Góða tilfinningin sem ég upplifði af því ég lifði samkvæmt sannri reglu fagnaðarerindisins var heilagur andi að staðfesta að reglan væri sönn. Á þeim tímapunkti hefst ferli sannrar trúarumbreytingar.

Spámaðurinn Moróní í Mormónsbók kenndi: „ Ég vil sýna heiminum, að trú er von um það, sem ekki er unnt að sjá. Deilið því ekki, sakir þess að þér sjáið ekki, því að þér fáið engan vitnisburð fyrr en eftir að reynt hefur á trú yðar.“6 Við erum oft sek um að búast við verðlaunum án þess að hafa unnið fyrir þeim í þessum heimi okkar, þar sem væntingin er tafarlaus fullnægja. Ég tel að Moróní sé að segja okkur að við verðum fyrst að leggja það á okkur að sýna trú með því að lifa samkvæmt fagnaðarerindinu, þá munum við hljóta vitni um að það sé satt. Sönn trúarumbreyting á sér stað er þið haldið áfram að fara eftir þeim kenningum sem þið vitið að eru sannar og haldið boðorðin, dag eftir dag og mánuð eftir mánuð.

Þetta er dásamlegur tími til að vera unglingur í kirkjunni. Þið eruð þau fyrstu sem fáið að taka þátt í kennsluefninu Come, Follow Me fyrir unglinga, sem hefur það aðalmarkmið að snúa ykkur til trúar á fagnaðarerindi Jesú Krists. Gott er að muna að ekki skiptir máli hversu innblásnir foreldrar ykkar og leiðtogar í ungmennafélaginu eru, því þið berið „ábyrgð á eigin trúarumbreytingu. Enginn getur snúist til trúar fyrir okkur eða neytt okkur til aukinnar trúar.“7 Trúarumbreyting á sér stað er við kappkostum að fara með bænir okkar, læra í ritningunum, sækja kirkjusamkomur og vera verðug þess að taka þátt í helgiathöfnum musterisins. Trúarumbreyting verður er við fylgjum þeim réttlátu reglum sem við lærum á heimili okkar og í kennslustofunni. Trúarumbreyting verður er við lifum hreinu og dyggðugu lífi og njótum samfélags heilags anda. Trúarumbreyting verður er við skiljum friðþægingarfórn Jesú Krists, meðtökum hann sem frelsara okkar og lausnara og leyfum friðþægingunni að hafa áhrif á líf okkar.

Persónuleg trúarumbreyting ykkar mun hjálpa ykkur er þið búið ykkur undir að gera sáttmála í musterinu, þjóna í trúboði og stofna framtíðarheimili ykkar. Þið munuð þrá að miðla öðrum því sem þið hafið lært, þegar trúarumbreyting á sér stað í lífi ykkar og sjálfstraust ykkar og geta til að vitna fyrir öðrum með sannfæringu og krafti mun aukast. Þessi þrá, að miðla fagnaðarerindinu með öðrum og sjálfstraust við að vitna með djörfung, er eðlileg afleiðing sannrar trúarumbreytingar. Frelsarinn kenndi Pétri; „Styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við.“8

Munið eftir Jósúa, spámanninum og hermanninum? Það var ekki bara hann sem naut trúarumbreytingar, heldur vann hann ötull allt til æviloka við að hjálpa Ísraelslýð að koma til Guðs. „Ísrael þjónaði Drottni meðan Jósúa var á lífi.“9 Manneskja sem hefur upplifað sanna trúarumbreytingu hagnýtir sér kraft friðþægingarinnar og hlýtur hjálpræði fyrir sína eigin sál, og nær síðan með kröftugum áhrifum til allra sem hún þekkir.

Það er ekki alltaf þægilegt að lifa eftir fagnaðarerindinu og vera á helgum stöðum, en ég ber vitni um að það er þess virði! Drottinn ráðlagði Emmu Smith að „leggja til hliðar það, sem þessa heims er, og leita þess, sem betra er.“10 Mig grunar að við getum ekki einu sinni byrjað að ímynda okkur hvað það „sem betra er“ í raun sé!

Ég vitna um að við eigum kærleiksríkan föður á himnum, hvers æðsta ósk er að hjálpa og blessa okkur er við leggjum okkur fram við að lifa eftir fagnaðarerindinu og snúast til trúar. Hann hefur tekið skýrt fram að aðalviðfangsefni hans og starf er „[ódauðleiki] og eilíft líf.“11 Hann þráir að leiða okkur heim í návist sína. Ég vitna um að er við lifum eftir kenningum fagnaðarerindisins á degi hverjum, þá mun trúarumbreyting eiga sér stað í lífi okkar og við munum verða verkfæri til að gera margt gott í fjölskyldu okkar og í heiminum. Megum við öll njóta blessana í okkar daglega lífi við að ná þessu markmiði er bæn mín í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir

  Heimildir

  1. Jós 24:15.

  2. Fuschia Stringham, “Sketch of the Life of Isabelle Hunter Hoggan Stringham” (óbirt persónuleg saga, 1934), 4.

  3. Mósía 5:2.

  4. Sannir í trúnni: Leiðarvisir að fagnaðarerindinu (2004), 41.

  5. Jóh 7:17.

  6. Eter 12:6.

  7. Sannir í trúnni, 43.

  8. Lúk 22:32.

  9. Jós 24:31.

  10. Kenning og sáttmálar 25:10.

  11. HDP Móse 1:39.