Sleppa aðallóðsun
Október 2013 | Binda um sár þeirra

Binda um sár þeirra

Október 2013 Aðalráðstefna

Ég bið þess að við megum búa okkur sjálfa undir að veita hverja þá prestdæmisþjónustu sem Drottinn ætlar okkur í jarðneskri ferð okkar.

Allir erum við blessaðir með því að bera ábyrgð á öðrum. Að hafa prestdæmi Guðs, er ábyrgð frá Guði á eilífu lífi barna hans. Það er raunverulegt, það er dásamlegt, og stundum getur það verið yfirþyrmandi.

Það eru öldungasveitarforsetar meðal áheyrenda í kvöld sem vita hvað ég á við. Hér er nokkuð sem gerðist hjá einum ykkar. Þetta hefur líklega gerst hjá mörgum ykkar ‒ og oftar en einu sinni. Smáatriði geta verið önnur, en aðstæður þær sömu.

Öldungur sem þið þekkið ekki vel biður um aðstoð. Hann hafði nýlega komist að því að hann yrði að flytja, ásamt eiginkonu sinni og ungum dreng þeirra, úr íbúðinni sem þau höfðu til umráða í aðra ekki all fjarri.

Hann og eiginkona hans höfðu þegar beðið vin um að lána sér flutningabíl yfir daginn til að flytja búslóð þeirra og eigur. Vinurinn hafði lánað þeim bílinn. Hinn ungi faðir hafði byrjað á því að hlaða eigum þeirra í bílinn, en á fyrstu mínútunum hafði hann meiðst í baki. Vinurinn sem hafði lánað þeim bílinn var of önnum kafinn til að hjálpa. Ungi faðirinn varð ráðlaus. Honum varð hugsað til þín, forseta öldungasveitar sinnar.

Það var árla síðdegis sem hann bað um aðstoðina. Það var daginn sem kirkjufundir áttu að vera um kvöldið. Þið höfðuð þegar lofað að hjálpa eiginkonu ykkar við heimilishaldið þennan dag. Börnin ykkar höfðu beðið ykkur að gera eitthvað með þeim, en þið höfðuð enn ekki gert það.

Þið vissuð líka að meðlimir sveitar ykkar, einkum hinir allra trúföstustu sem þið biðjið yfirleitt um að hjálpa, væru líklega jafn tímabundnir og þið sjálfir.

Drottinn vissi að þið myndið upplifa slíka daga þegar hann kallaði ykkur í þessa stöðu, og gaf ykkur því dæmisögu til hvatningar. Það er dæmisaga fyrir ofhlaðna prestdæmishafa. Stundum nefnum við hana dæmisöguna um miskunnsama Samverjann. En hún er í raun saga fyrir góða prestdæmishafa á þessum erilsömu efstu dögum.

Sagan passar fullkomlega ofhlöðnum prestdæmisþjónum. Hafið bara í huga, að þið eruð Samverjinn, en ekki presturinn eða levítinn, sem fóru framhjá hinum særða manni.

Þið hafið kannski ekki hugsað um þá sögu í slíkum vanda. En ég hvet ykkur til þess á slíkum dögum, því þeir koma örugglega aftur.

Okkur er ekki sagt í ritningunum af hverju Samverjinn ferðaðist á veginum frá Jerúsalem til Jeríkó. Ekki er líklegt að hann hafi verið einn á skemmtigöngu, því hann hlýtur að hafa vitað að ræningjar biðu hinna óvarkárnu. Hann var í alvarlegum erindagjörðum og líkt og venjan var, hafði hann með sér burðardýr og olíu og vín.

Orð Drottins segir Samverjann hafa stansað er hann sá hinn særða mann, því „hann [kenndi] í brjósti um hann.“

Hann fann ekki aðeins til samúðar, heldur kom honum til bjargar. Hafið ætíð í huga einkenni sögunnar:

„[Hann] gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann.

Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: ‚Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.‘“1

Þið prestdæmishafarnir eru kallaðir til að leiða og getið verið vissir um minnst þrennt. Í fyrsta lagi, að Drottinn mun veita ykkur, ef þið biðjið þess, þá samúð sem hann hefur með hinum þurfandi. Í öðru lagi mun hann finna aðra, líkt og kráareigandann, ykkur til hjálpar við þjónustuna. Í þriðja lagi mun Drottinn, líkt og miskunnsami Samverjinn, gjalda öllum þeim ríkulega sem hjálpa við þjónustuna.

Þið, öldungasveitarforsetar, hafið líklega oftar en einu sinni látið reyna á slíkt. Þið báðuð aðra prestdæmishafa Drottins um hjálp, í þeirri vissu að þeir brygðist við af samúð. Þið óttuðust ekki að biðja þá sem áður hafa oftast brugðist við, því þið vitið að þeir finna auðveldlega til samúðar. Þið biðjið þá í þeirri vitneskju, að þeir hafa upplifað örlæti Drottins áður, þegar þeir hafa ákveðið að hjálpa. Þið biðjið suma ofhlaðna í þeirri vitneskju, að laun Drottins verði meiri því stærri sem fórn þeirra verður. Þeir sem áður hafa hjálpað, hafa upplifað mikið þakklæti frá frelsaranum.

Verið getur að þið hafið fengið innblástur um að biðja ekki einhvern um að hlaða og afhlaða bílinn. Sem leiðtogar þekkið þið meðlimi sveitar ykkar, og fjölskyldur þeirra líka. Drottinn þekkir þá fullkomlega.

Hann veit hvaða eiginkona var við það að bugast, því eiginmaður hennar hafði ekki tíma til að gera það sem hún þurfi að fá gert. Hann veit hvaða börn myndu njóta blessunar af því að sjá föður sinn fara enn enn einu sinni til að hjálpa öðrum, eða hvort börnin þyrftu að finna að þau skipta föður sinn nægilega miklu máli til að hann verji tíma með þeim þann dag. En hann veit líka hver þarfnast boðsins um að þjóna, sem ekki væri líklegur eða fús til að gera það.

Þið getið ekki þekkt alla meðlimi sveitar ykkar fullkomlega, en það gerir Guð. En eins og svo oft áður báðust þið fyrir til að vita hvern ætti að biðja um að veita þjónustu. Drottinn veit hver mun blessun hljóta af því að vera beðinn um að hjálpa og fjölskylda hvers hlýtur blessun, ef hann yrði ekki beðinn. Þið getið vænst þess að hljóta slíka opinberun, er þið leiðið í prestdæminu.

Ég sá það gerast sem ungur maður. Ég var fyrsti aðstoðarmaður í prestasveit. Biskupinn hringdi dag einn í mig á heimili mínu. Hann sagðist vilja að ég færi með sér til að liðsinna ekkju í mikilli neyð. Hann sagðist þurfa á mér að halda.

Þegar ég beið þess að hann kæmi heim til að sækja mig varð ég kvíðinn. Ég vissi að biskupinn hafði öfluga og vitra ráðgjafa. Annar þeirra var frægur dómari. Hinn stýrði stóru fyrirtæki og varð síðar aðalvaldhafi. Biskupinn átti síðar eftir að þjóna sem aðalvaldhafi. Af hverju sagði biskupinn við óreyndan prest: „Ég þarf hjálp þína?“

Ég veit nú hvert svar hans gæti hafa orðið: „Drottinn þarf að blessa þig.“ Á heimili ekkjunnar heyrði ég hann segja við konuna mér til undrunar, að hún fengi ekki hjálp frá kirkjunni fyrr en hún hefði fyllt út fjárhagseyðublaðið sem hann hafði áður skilið eftir hjá henni. Á leiðinni heim, er hann sá hve hneykslaður ég var, hló hann lágt yfir undrun minni og sagði: „Hal, þegar hún nær tökum á eyðslu sinni, mun hún geta hjálpað öðrum.“

Í öðru tilviki tók biskupinn mig með sér heim til áfengissjúkra foreldra, sem sendu tvö óttaslegin lítil stúlkubörn til að ljúka upp dyrunum fyrir okkur. Eftir að hann hafði heimsótt þessi tvö litlu stúlkubörn, fórum við út og hann sagði við mig: „Við fáum ekki breytt hörmungunum í lífi þeirra, en þau geta fundið að Drottinn elskar þau.“

Við annað tækifæri tók hann mig með sér á heimili manns sem hafði ekki komið árum saman í kirkju. Biskupinn tjáði honum elsku sína og hversu mikið deildin þarfnaðist hans. Þetta virtist ekki hafa mikil áhrif á manninn. En þetta, og ætíð þegar ég fór heim til hans með biskupnum, hafði mikil áhrif á mig.

Engin leið er fyrir mig að komast að því hvort biskupinn hafi beðist fyrir til að fá að vita hvaða prestur hlyti blessun af því að fara með honum í þessar heimsóknir. Hann hefði ótal sinnum vel getað tekið aðra presta með sér. En Drottinn vissi að ég yrði dag einn biskup og myndi bjóða þeim sem höfðu kólnað í trúnni að koma aftur í hlýju fagnaðarerindisins. Drottinn vissi að á mér myndi dag einn hvíla prestdæmisábyrgð hundruða og jafnvel þúsunda barna himnesks föður, sem yrðu í mikilli stundlegri neyð.

Þið, ungu menn, fáið ekki vitað hvers kyns prestdæmisþjónustu Drottinn er að búa ykkur undir að veita. Hin stærri áskorun allra prestdæmishafa er að veita andlega hjálp. Við höfum allir þá ábyrgð. Hún fylgir því að vera meðlimur prestdæmissveitar. Hún fylgir því að vera fjölskyldumeðlimur. Ef trú einhvers í sveit ykkar eða fjölskyldu sætir árásum Satans, finnið þið til samúðar. Að miklu leyti, eins Samverjinn þjónaði og sýndi samúð, munuð þið þjóna þeim með græðandi smyrsli á neyðarstundum þeirra.

Í þjónustu ykkar sem fastatrúboðar munuð þið fara til þúsunda í mikilli andlegri nauð. Margir munu jafnvel ekki vita, fyrr en þið takið að kenna þeim, að þeir hafi andleg sár sem leiði til ævarandi eymdar, ef þau verða ekki læknuð. Þið munuð fara í erindagjörðum Drottins þeim til bjargar. Aðeins Drottinn megnar að binda um sár þeirra, er þeir taka á móti helgiathöfnunum sem leiða til eilífs lífs.

Sem meðlimir prestdæmissveitar, heimiliskennarar og trúboðar, getið þið ekki hjálpað fólki að lækna andlegan skaða, nema ykkar eigin trú sé þróttmikil. Í því felst miklu meira en að lesa ritningarnar reglubundið og biðja varðandi þær. Stutt bænargjörð og yfirborðskenndur ritningarlestur eru ekki fullnægjandi undirbúningur. Fullvissuna um það sem þið þurfið að gera má finna í þessari leiðsögn í 84. kafla Kenningar og sáttmála: „Ekki skuluð þér heldur fyrirfram hafa áhyggjur af því hvað þér eigið að segja, heldur varðveitið lífsins orð stöðugt í huga yðar, og einmitt á þeirri stundu munu yður gefin þau þeirra, sem mæld verða hverjum manni.“2

Þetta loforð er aðeins hægt að hljóta með því að „varðveita“ lífsins orð og lifa stöðugt eftir þeim. Varðveisluna sem nefnd er í þessu ritningarversi hef ég upplifað sem tilfinningu er frá orðunum streyma. Þegar ég hef til að mynda reynt að hjálpa einhverjum, sem efast í trú sinni um guðlega köllun spámannsins Joseph Smith, koma tilfinningarnar yfir mig aftur.

Það eru ekki bara orðin í Mormónsbók. Þetta er tilfinning fullvissu um sannleikann, sem ég upplifi í hvert sinn er ég les, jafnvel aðeins fáeinar línur í Mormónsbók. Ég get ekki lofað að sérhver hljóti slíkt, sem hefur efasemdir um spámanninn Joseph Smith eða Mormónsbók. En ég veit að Joseph Smith er spámaður endurreisnarinnar. Ég veit að Mormónsbók er orð Guðs, því ég hef varðveitt það.

Ég veit af reynslu að þið getið hlotið fullvissu um sannleikann frá andanum, því ég hef hlotið hana. Við verðum að hafa slíka fullvissu áður en Drottinn leiðir okkur til ferðalangs sem við elskum og hefur verið særður af óvini sannleikans.

Við þurfum líka að búa okkur undir á annan hátt. Mannlegt eðli er að vera ónæmur fyrir sársauka annarra. Það er ein ástæða þess að frelsarinn lagði svo mikið á sig við að segja frá friðþægingu sinni, að hann tæki á sig sársauka og sorgir allra barna himnesks föður, svo hann vissi hvernig ætti að liðsinna þeim.

Jafnvel bestu jarðnesku prestdæmishafar himnesks föður eiga erfitt með að sýna slíka fullkomna samúð. Eðli okkar er að sýna óþolinmæði gagnvart þeim sem ekki fá séð þann sannleika sem okkur er svo augljós. Við verðum að gæta þess að óþolinmæði okkar verði ekki túlkuð sem fordæming eða höfnun.

Þegar við prestdæmisþjónar búum okkur undir að liðsinna fyrir frelsarann, getur ritningarvers leiðbeint okkur. Það nefnir gjöf sem við þurfum á ferð okkar, hvert sem Drottinn sendir okkur. Miskunnsami Samverjinn átti þá gjöf. Við þörfnumst hennar og Drottinn hefur sagt hvernig við finnum hana:

„Skorti yður þess vegna kærleika, ástkæru bræður mínir, eruð þér ekki neitt, því að kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. Haldið þess vegna fast við kærleikann, sem er öllu æðri, því að allt annað hlýtur að falla úr gildi‒

En kærleikurinn er hin hreina ást Krists og varir að eilífu. Og hverjum þeim, sem reynist eiga hann á efsta degi, honum mun vel farnast.

Biðjið þess vegna til föðurins, ástkærir bræður mínir, af öllum hjartans mætti, að þér megið fyllast þessari elsku, sem hann hefur gefið öllum sönnum fylgjendum sonar síns, Jesú Krists; að þér megið verða synir Guðs; að þegar hann birtist, þá verðum vér honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er; að vér megum eiga þessa von; að vér megum verða hreinir eins og hann er hreinn.“3

Ég bið þess að við megum búa okkur sjálfa undir að veita hverja þá prestdæmisþjónustu sem Drottinn ætlar okkur í jarðneskri ferð okkar. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir