2010–2019
Kölluð af honum til að kunngjöra orð hans
Október 2013


Kölluð af honum til að kunngjöra orð hans

Ef þið eruð auðmjúkir, hlýðnir og hlustið á rödd andans, munuð þið finna mikla gleði í þjónustu ykkar sem trúboðar.

Þegar ég var studdur sem aðalvaldhafi í apríl s.l., þjónaði ég sem trúboðsforseti á Indlandi. Ég upplifði sjálfur það sem annar fyrrverandi trúboðsforseti hafði sagt mér: „Trúboðarnir eru hreint út sagt frábærir.“1

Einn af mörgum framúrskarandi trúboðum, sem ég og systir Funk þjónuðum, var öldungur Pokhrel frá Nepal. Eftir að hafa verið meðlimur kirkjunnar í aðeins tvö ár, var hann kallaður til þjónustu í Bangalore-trúboðinu á Indlandi, enskumælandi trúboði. Hann hefði sagt ykkur að hann væri ekki vel undirbúinn. Það var skiljanlegt. Hann hafði aldrei séð trúboða fyrr en hann var orðinn einn þeirra, því engir ungir trúboðar eru þjónandi í Nepal. Hann las ensku ekki nægilega vel til að fá skilið leiðbeiningarnar sem snertu köllun hans. Þegar hann kom í trúboðsskólann sagðist hann ekki vera með neinar fínni síðbuxur, enga hvíta skyrtu og ekkert bindi í farangrinum, heldur „fimm gallabuxur, nokkra stuttermaboli og fullt af hárgeli.“2

Meira að segja eftir að hann fékk viðeigandi fatnað, sagðist hann hafa verið með minnimáttarkennd alla daga fyrstu vikurnar. Hann lýsti þessum tíma trúboðs síns: „Enskan var ekki bara erfið, heldur var starfið ekki síður krefjandi. … Ofan á allt þetta var ég svangur, þreyttur og með heimþrá. … En þó aðstæðurnar væru erfiðar, var ég ákveðinn. Ég var vanbúinn og ónógur sjálfum mér . Ég bað á þessum tíma himneskan föður að hjálpa mér. Í hvert sinn, án undantekningar, lét ég hughreystast þegar ég baðst fyrir.“3

Þótt trúboðsstarfið væri nýtt og ögrandi fyrir öldung Pokhrel, þjónaði hann af mikilli trú og staðfestu, og kappkostaði að skilja og tileinka sér það sem hann lærði í ritningunum, ritinu Boða fagnaðarerindi mitt og af trúboðsleiðtogum sínum. Hann varð máttugur kennari fagnaðarerindisins ‒ á ensku ‒ og frábær leiðtogi. Að trúboði sínu loknu, og eftir nokkurn tíma í Nepal, fór hann aftur til Indlands til að halda áfram menntun sinni. Frá því í janúar hefur hann þjónað sem greinarforseti í Nýju-Delí. Hann heldur áfram að leggja sitt af mörkum til raunverulegs vaxtar kirkjunnar á Indlandi, vegna raunverulegs vaxtar hans sem trúboða.

Hvernig gat ungur maður sem aldrei hafði séð trúboða hlotið slíkan andlegan kraft? Hvernig hljótið þið sem trúboðar andlegan kraft til að ljúka upp dyrum, netpósti og hjörtum fólks í trúboði þar sem þið þjónið? Svörin finnast, líkt og ætíð, í ritningunum og orðum lifandi spámanna og postula.

Þegar fagnaðarerindið var fyrst boðað í Englandi í júlí árið 1837, opinberaði Drottinn: „Hver sá, sem þú sendir í mínu nafni, með samþykki bræðra þinna, hinna tólf, með réttum meðmælum þínum og valdi, skal hafa kraft til að opna dyr ríkis míns fyrir hverja þá þjóð, sem þú sendir þá til.“4

Hvert sem þið eruð sendir, hvar sem trúboð ykkar verður, vitið þá að meðlimur hinna Tólf mælir réttilega með því verkefni og að þið eruð kallaðir af spámanni Drottins. Þið eruð kallaðir með „spádómi, og með handayfirlagningu.“5

Drottinn gaf síðan skilyrðin fyrir að þetta loforð uppfylltist. Hann sagði: „Svo sem [sem merkir ef] þeir [trúboðar sem sendir eru] [1] auðmýkja sig fyrir mér og [2] fara eftir orðum mínum og [3] hlýða á rödd anda míns.“6

Loforð Drottins eru skýr. Svo að andlegur kraftur sé fyrir hendi til að ljúka upp gáttum ríkis Guðs meðal þeirrar þjóðar sem þið eruð sendir til, verðið þið að vera auðmjúkir, hlýðnir og búa yfir þeim eiginleika að heyra rödd andans og fylgja henni.

Þessir þrír eiginleikar eru náskyldir. Ef þið eruð auðmjúkir, viljið þið sýna hlýðni. Ef þið eruð hlýðnir, munuð þið skynja andann. Andinn er nauðsynlegur, því líkt og Ezra Taft Benson forseti sagði: „Án andans náið þið aldrei árangri, hvað sem líður getu ykkar og hæfileikum.“7

Stundum átti ég, sem trúboðsforseti, viðtal við trúboða sem áttu í basli, því þeir voru ekki fyllilega hreinir. Þeir lifðu neðan við andlega möguleika sína. Hversu mikið sem þeir erfiðuðu eða gerðu gott, gátu þeir ekki fundið samviskufrið og notið fyllilega samfélags heilags anda, fyrr en þeir höfðu auðmýkt sig, iðrast algjörlega og meðtekið af miskunn og náð frelsarans.

Drottinn býður þjónum sínum að vera auðmjúkum, því hið andlega lækningarferli hefst með sundurkrömdu hjarta. Hugsið ykkur hið góða sem af hinu sundurkramda leiðir: Jarðvegurinn er brotinn í sundur eða rofinn til að sá hveitinu. Hveitið er kramið eða mulið til að baka brauðið. Brauðið er tekið í sundur eða brotið og verður að tákni sakramentis. Þegar hinn iðrandi meðtekur sakramentið með sundurkrömdu hjarta og sáriðrandi anda, verður hann heill.8 Þegar við iðrumst og verðum heil fyrir friðþægingu Jesú Krists, höfum við miklu meira að leggja fram fyrir frelsarann þegar við þjónum honum. „Já, komið til hans og leggið fram sálir yðar óskiptar sem fórn til hans.“9

Ef syndin íþyngir ykkur og þörfin á iðrun, bregðist þá þegar við. Þegar frelsarinn læknaði hina hrjáðu, bauð hann þeim oft að rísa á fætur. Í ritningunum er skráð, að það hafi þeir gert þegar í stað.10 Takið vinsamlega á móti boði hans um að rísa á fætur, til að læknast af ykkar andlegu meinum. Ræðið án tafar við biskup ykkar, greinarforseta eða trúboðsforseta og hefjið iðrun ykkar nú þegar.

Lækningarmáttur friðþægingarinnar mun færa sálum ykkar frið og gera ykkur kleift að skynja heilagan anda. Friðþæging frelsarans á sér engin takmörk, og þótt syndir okkar geti verið margar og alvarlegar, er hægt að játa þær og láta af þeim og hljóta fyrirgefningu. „Og hversu mikil er gleði hans yfir þeirri sál sem iðrast!”11

Þetta loforð í Kenningum og sáttmálum er máttugt: „Lát dyggðir prýða hugsanir þínar linnulaust, og þá mun traust þitt vaxa og styrkjast í návist Guðs.“12 Þegar þið lifið dyggðugu lífi, munuð þið finna samviskufrið og styrkjast í návist Guðs og hafa kraft andans með ykkur.13

Sumir nýir meðlimir kirkjunnar, eða þeir sem hafa nýverið snúið aftur til fullra starfa í kirkjunni, gætu sagt: „Ég er verðugur núna og þrái að þjóna, en veit ekki hvort vitneskja mín er nægileg.“ Í apríl kenndi Thomas S. Monson forseti okkur: „Þekking á sannleikanum og svörin við mikilvægustu spurningum okkar munu veitast, ef við höldum boðorð Guðs.“14 Hve hughreystandi er að vita að við hljótum þekkingu fyrir eigin hlýðni.

Öðrum gæti fundist þeir hafa takmarkaða hæfileika, getu eða reynslu fram að bjóða. Ef þið hafið slíkar áhyggjur, minnist þá reynslu öldungs Pokhrel. Undirbúið ykkur eins vel og þið getið og vitið að himneskur faðir mun efla ykkar auðmjúku og trúföstu verk. Öldungur Richard G. Scott veitti þessa hughreystandi leiðsögn: „Þegar við hlýðum boðorðum Drottins og þjónum börnum hans af óeigingirni, verður eðlileg afleiðing þess kraftur frá Guði ‒ kraftur til að áorka meiru en við sjálfir fáum áorkað. Innsæi okkar, hæfileikar okkar, geta okkar, allt eykst það vegna þess að við hljótum styrk og kraft frá Drottni.“15

Ef þið reiðið ykkur á Drottin og gæsku hans, mun almáttugur Guð blessa börn sín með ykkar starfi.16 Öldungi Hollings frá Nevada lærði þetta snemma í trúboði sínu. Daginn sem hann kom til Indlands fór hann, ásamt mér og systur Funk, til Rajahmundry, sem var fyrsta svæðið hans. Síðdegis sama dag fóru öldungur Hollings og öldungur Ganaparam í fyrstu heimsókn sína til kirkjumeðlims og móður hennar. Móðirin vildi læra um kirkjuna, því hún hafði séð hvernig fagnaðarerindið hafði blessað líf dóttur sinnar. Systir Funk fór með þeim til að veita þeim félagsskap. Þar sem lexían yrði á ensku og móðirin skildi aðeins Telugu, var bróðir í greininni þar viðstaddur til túlka kennsluna.

Verkefni öldungs Hollings í þessari fyrstu kennslu hans, var að kenna um Fyrstu sýnina, og nota til þess orð spámannsins Josephs. Þegar að því kom í lexíunni, sneri hann sér að systur Funk og spurði: „Ætti ég að segja þau orð fyrir orð?“ þar sem hann vissi að þau yrðu túlkuð.

Hún svaraði: „Segðu þau orð fyrir orð, svo að andinn geti vitnað um það sem þú segir.“

Þegar þessi nýi trúboði kenndi af einlægni um Fyrstu sýnina, og notaði til þess orð spámannsins, breytist ásjóna þessarar kæru systur. Tár komu í augu. Þegar öldungur Hollings lauk hinum dýrðlega boðskap, og áður en það sem hann sagði varð túlkað, spurði hún í gegnum tárin á sínu eigin tungumáli: „Má ég láta skírast? Og viljið þið kenna syni mínum?“

Mínir kæru samþjónar, dyr og hjörtu munu dag hvern ljúkast upp fyrir boðskap fagnaðarerindisins ‒ sem færir börnum Guðs hvarvetna von, frið og gleði. Ef þið eruð auðmjúkir, hlýðnir og hlustið á rödd andans, munuð þið finna mikla gleði í þjónustu ykkar sem trúboðar.17 Hve dásamlegur tími til að vera trúboði ‒ nú þegar Drottinn er að hraða verki sínu!

Ég ber vitni um frelsara okkar og um hið „guðlega boð“18 um að „[fara] ... og [gjöra] allar þjóðir að lærisveinum.“19 Þetta er hans kirkja. Hann leiðir hana með lifandi spámönnum og postulum. Á næstu klukkustund mun Æðsta forsætisráðið sjá okkur fyrir kennslu. Við skulum vera „árvakir,“20 líkt og Mormón, þannig að þegar kallið kemur, erum við verðugir og getum sagt með krafti andans: „Sjá, ég er lærisveinn Jesú Krists, sonar Guðs. Hann hefur kallað mig til að boða orð sitt meðal fólks síns, svo að það geti öðlast ævarandi líf.“21 Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Persónulegt samtal við Dennis C. Brimhall, forseta Louisville-trúboðsins í Kentucky, 2005–8.

  2. Ashish Pokhrel, „My Name Is Ashish Pokhrel and This Is My Story” (óbirt persónuleg saga, sept. 2011).

  3. Pokhrel, „My Name Is Ashish Pokhrel.”

  4. Kenning og sáttmálar 112:21.

  5. Trúaratriðin 1:5.

  6. Kenning og sáttmálar 112:22.

  7. Ezra Taft Benson, í Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að trúboðsþjónustu (2004), 176.

  8. Hugmyndir teknar úr ræðu öldungs Jeffreys R. Holland á stikuráðstefnu í Bountiful North Stiku, Utah, 8.–9. júní 2013.

  9. Omní 1:26.

  10. Sjá Mark 5:41–42; Jóh 5:8–9.

  11. Kenning og sáttmálar 18:13.

  12. Kenning og sáttmálar 121:45.

  13. Sjá Kenning og sáttmálar 121:46.

  14. Thomas S. Monson, „Obedience Brings Blessings,” Ensign eða Líahóna, maí 2013, 89.

  15. Richard G. Scott, “For Peace at Home,” Ensign eða Líahóna, maí 2013, 30.

  16. Öldungur Russell M. Nelson lýsti hvað hinir mörgu nýju trúboðar gerðu og sagði: „Þeir gera það sem trúboðar hafa ávallt gert. Þeir boða fagnaðarerindið! Þeir munu blessa börn almáttugs Guðs!“ („Catch the Wave,” Ensign eða Líahóna, maí 2013, 45).

  17. Sjá Boða fagnaðarerindi mitt, v.

  18. Thomas S. Monson, „Come, All Ye Sons of God,” Ensign eða Líahóna, maí 2013, 66.

  19. Matt 28:19.

  20. Morm 1:2.

  21. 3 Ne 5:13.