Sleppa aðallóðsun
Október 2013 | Nálgast Guð

Nálgast Guð

Október 2013 Aðalráðstefna

Frelsarinn vill að við elskum hann það heitt að við séum fús til að stilla vilja okkar að hans.

Sex ára barnabarn okkar, Oli, sem ástúðlega kallar mig „Poppy,“ þurfti að ná í eitthvað út í bíl. Pabbi hans var inni í húsinu og án þess að Oli vissi af opnaði hann bílhurðina með fjarstýringu, er Oli nálgaðist bílinn, og læsti henni svo aftur þegar hann var búinn. Oli hljóp síðan skælbrosandi inn í húsið!

Fjölskyldan spurði hann, „Hvernig gastu opnað bílhurðina og læst henni aftur?“ Hann brosti bara.

Dóttir okkar, mamma hans, sagði: „Kannski er það eins og þegar Poppy gerir það — kannski ertu með töframátt eins og hann!“

Þegar þetta gerðist aftur, nokkrum mínútum seinna, þá var svar hans við áframhaldandi spurningum um þennan nýuppgötvaða kraft hans: „Þetta er stórkostlegt! Ég held að það sé vegna þess að Poppy elskar mig og er einn af bestu vinum mínum og hann annast mig!“

Ég hef notið þeirrar blessunar að vita af raunverulegum kraftaverkum sem hafa gerst í lífi trúfastra Síðari daga heilagra um alla Afríku, Papúa Nýju Gíneu, Ástralíu, Nýja Sjáland og Kyrrahafseyjarnar. Ég er sammála Ola — ég held að það sé vegna þess að þessu trúfasta fólki líður eins varðandi himneskan föður og frelsarann og Ola líður gagnvart mér. Þau elska Guð sem náin vin og hann annast þau.

Kirkjuþegnar eiga rétt á andlegum vitnisburði, og margir hljóta hann, og gera helga sáttmála um að fylgja Drottni. En þótt sumir færist nær honum gera aðrir það ekki. Í hvorum hópnum ert þú?

Guð ætti að vera miðja alheims okkar — bókstafleg þungamiðja okkar. Er hann það? Eða er hann stundum víðs fjarri hugsunum okkar og ásetningi hjartans? (sjá Mósía 5:13). Takið eftir því að það eru ekki einungis hugsanir hjarta okkar sem eru mikilvægar, heldur einnig „ásetningurinn.“ Hvernig geta hegðun okkar og gjörðir endurspeglað heilindi ásetnings okkar?

Þegar sonur okkar, Ben, var 16 ára flutti hann ræðu á stikuráðstefnu og spurði þessarar spurningar: „Hvernig liði ykkur ef einhver lofaði ykkur einhverju í hverri viku, en efndi aldrei loforðið?“ Hann hélt áfram: „Tökum við það loforð alvarlega, þegar við meðtökum sakramentið og heitum því að halda boðorð hans og hafa hann ávallt í huga?“

Á ýmsan hátt hjálpar Drottinn okkur að muna eftir honum og styrkjandi krafti hans. Ein leiðin er í gegnum það sem við eigum öll sameiginlegt — mótlæti (sjá Alma 32:6). Er ég lít til baka á það mótlæti sem ég hef horfst í augu við, þá er greinilegt að það hefur aukið mér vöxt, skilning og samhyggð. Það hefur fært mig nær himneskum föður mínum og syni hans, með reynslu og fágun greypta í hjarta mér.

Handleiðsla og leiðsögn Drottins eru nauðsynleg. Hann hjálpaði hinum trúfasta bróður Jareds að leysa annan tveggja vanda sinna, þegar hann sagði honum hvernig best væri að fá ferskt loft inn í skipin, sem smíðuð höfðu verið af mikilli trúfestu (sjá Eter 2:20). Af ásettu ráði skildi Drottinn þá hinsvegar eftir tímabundið með óleysta ráðgátu um hvernig þeir gætu fengið ljós, en hann gerði þeim grein fyrir því að hann, Drottinn, myndi leyfa barninginn og erfiðleikana sem voru nauðsynlegir til að leysa vandann. Hann myndi senda þeim vindana, rigningarnar og flóðin (sjá Eter 2:23–24).

Hvers vegna myndi hann gera það? Hvers vegna varar hann okkur við því sem hættunni veldur, þegar hann gæti svo auðveldlega komið í veg fyrir hana? Wilford Woodruff forseti sagði söguna af því, þegar hann fékk andlega viðvörun um að færa vagninn sem hann, kona hans og barn sváfu í, einungis til að uppgötva að stuttu seinna reif hvirfilvindur upp stórt tré og sleppti því nákvæmlega þar sem vagninn hafði staðið. (Sjá Teachings of Presidents of the Church: Wilford Woodruff [2004], 47).

Í báðum þessum tilfellum hefði mátt breyta veðrinu til þess að eyða hættunni. Hér er hins vegar það sem málið snýst um — frekar en að leysa málið sjálfur, vill Drottinn að við þroskum með okkur þá trú sem hjálpar okkur að reiða okkur á hann til lausnar á vandanum og treysta honum. Þá getum við ætíð fundið kærleika hans, kröftugar, skýrar og á persónulegri hátt. Við getum orðið eitt með honum og við getum orðið eins og hann er. Markmið hans er að við verðum eins og hann. Í raun er það dýrð hans jafnt sem verk hans (sjá HDP Móse 1:39).

Ungur drengur var að reyna að jafna út moldarsvæði á bak við hús sitt til að geta leikið sér þar með bílana sína. Þar var stór steinn sem stóð í vegi fyrir hann, Drengurinn ýtti og togaði af öllum kröftum, en sama hvað hann reyndi þá bifaðist steinninn ekki.

Faðir hann horfði á son sinn smástund, kom svo til hans og sagði: „Þú þarft að nota alla krafta þína til að bifa svo stórum steini.“

Drengur svaraði: „Ég hef notað alla krafta mína!“

Faðir hans leiðrétti hann. „Nei það hefur þú ekki gert. Þú hefur ekki fengið mína hjálp ennþá!“

Þeir beygðu sig niður saman og færðu steininn auðveldlega.

Föður vinar míns, Vaiba Rome, fyrsta stikuforseta Papua Nýju Gíneu, var einnig kennt að hann gæti leitað hjálpar himnesks föður síns. Hann og hinir þorpsbúarnir gátu einungis lifað af, ef þeir fengju góða uppskeru. Dag einn kveikti hann eld til að hreinsa sinn hluta af ræktanlegu landi þorpsins svo hann gæti gróðursett. Hins vegar hafði verið langverandi hitatími áður en eldurinn var kveiktur og gróðurinn var mjög þurr. Eldurinn varð því að samskonar báli og Monson forseti talaði um á síðustu aðalráðstefnu (sjá „Obedience Brings Blessings,” Ensign eða Líahóna, maí 2013, 89–90). Fyrst dreifði hann sér yfir grassvæðið og í runnana, og samkvæmt orðum sonar hans, myndaðist „eld skrímsli.“ Hann óttaðist um hina þorpsbúana og möguleikana á að þeir gætu misst uppskeru sína. Ef hún eyðilegðist yrði hann dreginn fyrir þorpsdóm. Þegar honum tókst ekki að slökkva eldinn mundi hann eftir Drottni.

Ég vitna nú í vin minn, son hans: „Hann kraup á hæðinni, inni í runnunum og hóf að biðja himneskan föður að slökkva eldinn. Skyndilega birtist stórt svart ský yfir honum þar sem hann lá á bæn og það hellirigndi — en einungis þar sem eldurinn brann. Þegar hann leit í kringum sig, var himininn heiður alls staðar nema þar sem eldurinn logaði. Hann gat varla trúað því að Drottinn myndi svara jafn einföldum manni og honum, hann kraup því aftur og grét eins og barn. Hann sagði að þetta hefði verið ljúf tilfinning“ (sjá Alma 36:3).

Frelsarinn vill að við elskum hann það heitt að við séum fús til að stilla vilja okkar að hans. Þá getum við skynjað elsku hans og þekkt dýrð hans. Þá getur hann blessað okkur að vild sinni. Það gerðist hjá Nefí, syni Helamans og náði því stigi að Drottinn treysti honum algerlega og gat þess vegna blessað hann með öllu því sem hann bað um (sjá Helaman 10:4–5).

Í skáldsögunni Life of Pi, eftir Yann Martel, tjáir hetjan tilfinningar sínar til Krists: „Ég gat ekki hætt að hugsa um hann. Ég get það ekki enn. Ég eyddi þremur heilum dögum í að hugsa um hann. Því meira sem hann angraði mig, því erfiðara var að gleyma honum. Því meira sem ég lærði um hann, því minna langaði mig að yfirgefa hann“ ([2001], 57).

Það er nákvæmlega þannig sem mér líður gagnvart frelsaranum. Hann er alltaf nærri, sérstaklega á helgum stöðum og þegar þörfin er mest; og stundum þegar ég á síst von á því, finnst mér nærri því eins og hann klappi á öxli mína til að láta mig vita að hann elski mig. Ég get endurgoldið þá elsku á minn ófullkomna máta með því að gefa honum hjarta mitt (sjá K&S 64:22, 34).

Fyrir aðeins nokkrum mánuðum sat ég hjá öldungi Jeffrey R. Holland, er hann vann við að ákveða ákvörðunarstað trúboða fyrir trúboð þeirra. Þegar við fórum hinkraði hann eftir mér og er við gengum saman lagði hann höndina á öxlina á mér. Ég minntist á það við hann, að hann hefði gert slíkt hið sama einu sinni í Ástralíu. Hann svaraði: „Það er vegna þess að mér þykir vænt um þig!“ Ég vissi að það var satt.

Ég trúi því, að ef við gætum öðlast þau forréttindi að fá að ganga raunverulega með frelsaranum, myndum við finna hönd hans á öxl okkar á sama hátt. Eins og lærisveinarnir sem gengu til Emmaus þá myndi hjarta okkar „[brenna]“ (Lúk 24:32). Þetta eru boð hans: Komið og… „sjáið“ (Jóh 1:39). Að ganga með honum með hönd hans á öxl sér er persónulegt, hlýtt og umfaðmandi.

Megum við öll vera eins örugg og Enos, eins og kemur fram í síðasta versinu í hinni stuttu en djúpvitru bók hans: „Ég fagna þeim degi, þegar dauðlegur líkami minn íklæðist ódauðleika og mun standa frammi fyrir honum. Þá mun ég með fögnuði líta ásjónu hans, og hann mun segja við mig: Kom til mín þú hinn blessaði, þér er fyrirbúinn staður í híbýlum föður míns“ (Enos 1:27).

Vegna hinnar fjölbreytnu lífsreynslu minnar og hins sterka vitsnisburðar andans, ber ég þess vitni án nokkurs efa, að Guð lifir. Ég finn elsku hans. Það er afar ljúf tilfinning. Megum við gera það sem nauðsynlegt er til að stilla vilja okkar að hans og elska hann einlæglega. Í nafni Jesú Krists, amen.