Sleppa aðallóðsun
Október 2013 | Aðalráðstefna: Styrkja trú og vitnisburð

Aðalráðstefna: Styrkja trú og vitnisburð

Október 2013 Aðalráðstefna

Ó, hve við höfum mikla þörf fyrir aðalráðstefnu! Fyrir tilstilli ráðstefna eflist trú okkar og vitnisburður.

Þakka þér, Monson forseti, fyrir kennslu þína og fordæmi um kristilega þjónustu og fyrir að hvetja okkur öll til að vera trúboðar. Við biðjum fyrir þér.

Á okkar ráðstöfunartíma vísar frelsarinn, Jesús Kristur, til samansöfnunar hinna heilögu sem „aðalráðstefnu [sinnar].“1

Hvar sem við erum í heiminum, hvernig sem við hlýðum á þessa samkomu, þá ber ég þess vitni að við erum saman komin á ráðstefnu hans. Ég ber líka vitni um að við munum heyra orð hans, því hann hefur sagt: „Hvort sem það er sagt með minni eigin rödd eða með rödd þjóna minna, það gildir einu.“2

Ráðstefnur hafa ætíð verið hluti af hinni sönnu kirkju Jesú Krists. Adam kallaði saman niðja sína og spáði því sem ætti eftir að gerast. Móse kallaði saman Ísraelsmenn og kenndi þeim boðorðin, sem hann hafði tekið á móti. Frelsarinn kenndi fjöldanum sem samankominn var bæði í Landinu helga og á meginlandi Ameríku. Pétur kallaði saman hina trúuðu í Jerúsalem. Fyrsta aðalráðstefnan á þessum síðari tímum var haldin aðeins tveimur mánuðum eftir stofnun kirkjunnar og ráðstefnur hafa verið haldnar allt fram á þennan dag.

Þessar ráðstefnur eru ætíð haldnar undir handleiðslu Drottins, leiddar af anda hans.3 Okkur, sem ræðumönnum, er ekki falið ákveðið umræðuefni. Í vikur og mánuði, og oft á andvökunóttum, áköllum við Drottin. Með föstu, bæn, námi og ígrundun, finnum við það efni sem hann ætlar okkur að flytja.

Sumir gætu spurt: „Af hverju fæst innblástur ekki á auðveldari og fljótlegri hátt?“ Drottinn fræddi Oliver Cowdery: „Þú verður að kanna það vel í huga þínum, síðan að spyrja mig hvort það sé rétt.“4 Ræðuefnið á aðalráðstefnu berst okkur með heilögum anda, eftir bænheitan undirbúning.

Þessi regla gildir fyrir alla meðlimi kirkjunnar, er við búum okkur undir að taka þátt í aðalráðstefnum og deildar- eða stikuráðstefnum. Við ígrundum hvers við þörfnumst og hvað við þráum frá himneskum föður og biðjum til að fá skilið og tileinkað okkur þá kennslu sem við hljótum. Þegar líða tekur að ráðstefnu gerum við hlé á öðru starfi, „[leggjum] til hliðar það, sem þessa heims er, og [leitum] þess, sem betra er.“5 Við köllum síðan saman fjölskyldu okkar, til að hlýða á orð Drottins, líkt og fólk Benjamíns konungs gerði.6

Börnin og æskufólkið njóta þess að taka þátt. Það væru alvarleg mistök, ef við héldum að ráðstefnan væri ofar þeirra skilningi og andlegum vitsmunum. Ég heiti ykkur ungum meðlimum kirkjunnar, að þið munuð skynja andann hið innra, ef þið hlustið. Drottinn mun segja ykkur hvað ykkur ber að gera.

Á ráðstefnum getum við skynjað það orð Drottins sem aðeins er ætlað okkur. Meðlimur einn vitnaði: „Þegar ég hlustaði á þig tala varð ég agndofa. ... orð þín voru persónuleg opinberun frá Drottni fyrir mig og fjölskyldu mína. Ég hef aldrei áður upplifað jafn sterka staðfestingu andans og á þessum mínútum sem heilagur andi talaði beint til mín.“

Annar sagði: „Ég hef aldrei áður upplifað svo sterklega að ræða væri ætluð mér.“

Heilagur andi gerir þetta mögulegt með því að staðfesta orð Drottins í hjörtum okkar á þann hátt að við fáum skilið.7 Þegar ég glósa á ráðstefnu, skrái ég ekki alltaf nákvæmlega það sem ræðumaðurinn segir, heldur þá persónulegu leiðsögn sem andinn veitir mér.

Það sem er sagt er ekki jafn mikilvægt og það sem við heyrum og skynjum.8 Af þeirri ástæðu reynum við að upplifa ráðstefnu í umhverfi þar sem greinilega er hægt að heyra, skynja og skilja hina lágu og kyrrlátu rödd andans.

Ó, hve við höfum mikla þörf fyrir aðalráðstefnu! Fyrir þeirra tilstilli eflist trú okkar og vitnisburður. Við styrkjum síðan aðra, þegar við höfum snúist til trúar, til að standa sterk gegn eldtungum þessara efstu daga.9

Á umliðnum áratugum hefur kirkjan að mestu komist hjá þeim hörmulega misskilningi og ofsóknum sem hinir fyrstu heilögu upplifðu. En þannig verður það ekki alltaf. Heimurinn er að fjarlægjast Drottin, hraðar en áður hefur þekkst. Andstæðingurinn hefur lausan taum á jörðunni. Við hlustum á, lesum og lærum orð spámanna og miðlum þeim, til að vera viðbúin og vernduð. „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins“ var til að mynda gefin löngu áður en við upplifðum þær áskoranir sem fjölskyldan stendur nú frammi fyrir. „Hinn lifandi Kristur: Vitnisburður postulanna tólf“ var gefinn áður en við þörfnumst þess mest.

Þótt við þekkjum ekki allar ástæður þess að spámenn og ræðumenn fjalla um ákveðið efni á ráðstefnu, þá gerir Drottin það. Harold  B. Lee forseti sagði: „Eina skjól sem við meðlimir kirkjunnar höfum er að ... gefa gaum að öllum þeim orðum og fyrirmælum Drottins sem hann gefur með spámanni sínum. Sumt kann að reyna á þolinmæði ykkar og trú. Ekki er víst að ykkur líki allt það sem valdhafar kirkjunnar kunna að láta frá sér. Það getur reynst andstætt stjórnmálaskoðunum ykkar. Það getur reynst andstætt samfélagslegum skoðunum ykkar. Það getur gert þá kröfu að þið breytið félagslífi ykkar. En ef þið hlustið, líkt og Drottinn sjálfur væri að tala, í þolinmæði og trú, eigið þið það loforð, að ‚hlið heljar [muni] eigi á yður sigrast ... og Drottinn Guð mun dreifa valdi myrkursins frá yður og láta himnana bifast yður til góðs og nafni sínu til dýrðar.‘ (K&S 21:6).“10

Hvernig vissi Lee forseti hvað við myndum glíma við á okkar tíma? Hann vissi það vegna þess að hann var spámaður, sjáandi og opinberari. Ef við hlustum á orð spámannanna nú og hlítum þeim, þar með talið á þá sem tala á þessari ráðstefnu, munum við eflast og hljóta vernd.

Stærstu blessun aðalráðstefnu hljótum við eftir að ráðstefnan er yfirstaðin. Minnist fyrirmyndarinnar sem skráð er í ritningunum: Við komum saman til að hlýða á orð Drottins og er við förum heim lifum við eftir þeim.

Eftir að Benjamín konungur hafði frætt fólk sitt „sendi hann mannfjöldann burtu, og allir sneru aftur til eigin híbýla, hver og einn með fjölskyldu sinni.“11 Limí konungur gerði þetta líka þegar hann ríkti.12 Eftir að frelsarinn hafði frætt fólkið og þjónað því við musterið í Gnægtarbrunni, bauð hann fólkinu: „Farið ... til heimila yðar og íhugið það, sem ég hef sagt, og biðjið föðurinn í mínu nafni að veita yður skilning og búið hugi yðar undir morgundaginn, en ég kem til yðar aftur.“13

Við tökum á móti boði frelsarans þegar við íhugum og biðjum til að fá skilið kennsluefnið og förum síðan og gerum vilja hans. Minnist þessara orða Spencers Kimball forseta: Þegar ég fer heim frá þessari aðalráðstefnu, hef ég ákveðið ... að bæta mig á mörgum sviðum lífsins. Ég hef skráð það niður og vænti þess að hefjast handa um leið og við ljukum okkur af.“14 Monson forseti sagði nýverið: „Ég hvet ykkur til að lesa ræðurnar ... og ígrunda boðskap þeirra. Sjálfum hefur mér fundist ég læra jafnvel enn meira af þessum innblásnu ræðum, þegar ég ígrunda þær vandlega.“15

Auk þess að bjóða okkur að læra ritningarnar sjálf og með fjölskyldunni, vill himneskur faðir að við lærum reglubundið og tileinkum okkur efni aðalráðstefna. Ég ber vitni um að þeir sem setja traust sitt á Drottin og hlíta leiðsögn hans í trú, muni hljóta mikinn styrk, þeim sjálfum og fjölskyldum þeirra til blessunar, mann fram af manni.

Himneskur faðir hefur séð okkur fyrir leið. Á þessari aðalráðstefnu geta 97 prósent kirkjumeðlima hlýtt á boðskapinn á eigin tungu. Milljónir manna í 197 löndum munu sjá og heyra þessa ráðstefnu á 95 tungumálum. Innan einungis tveggja eða þriggja daga mun efni hennar sjást á LDS.org á ensku og innan einnar viku mun það taka að verða aðgengilegt á 52 tungumálum. Við fáum nú kirkjutímaritin með efni ráðstefnunnar innan þriggja vikna frá aðalráðstefnu. Við þurfum ekki lengur að bíða mánuðum saman eftir því að fá efnið sent í pósti. Við getum miðlað kenningum spámannanna, með tölvu, síma eða öðrum rafbúnaði. Hvar og hvenær sem er getum við aukið þekkingu okkar, styrkt trú og vitnisburð okkar, verndað fjölskyldu okkar og leitt hana örugglega heim.

Efni þessarar ráðstefnu verður líka fléttað inn í námsefni æskufólksins á netinu. Foreldrar, þið getið nálgast námsefni æskufólksins fyrir ykkur sjálf á LDS.org. Kynnið ykkur námsefni barna ykkar og leitist við að læra það sjálf, ræðið það í fjölskyldu ykkar, á fjölskyldukvöldum, á fjölskyldufundum og í einkaviðtölum við börn ykkar, til að kenna þeim það sem þau þurfa að læra sem eintaklingar.

Ég hvet alla meðlimi til að nýta sér efnið á vefsíðu kirkjunnar, sem og símaforritin. Þetta er í stöðugri þróun, til að auðvelda notkun og laga það að lífi okkar. Á LDS.org eru líka hjálpartæki til að læra fagnaðarerindið, styrkja heimili ykkar og fjölskyldu og þjóna í köllun ykkar. Þar eru tæki til að leita að áum ykkar, sem þurfa helgiathafnir musterisins, og úrræði til að styðja ykkur í sáluhjálparstarfinu, þar með talið að miðla fagnaðarerindinu. Foreldrar geta sýnt frumkvæði við að búa börn sín undir skírn, prestdæmið, trúboðsstarfið og musterið. Þeir geta hjálpað okkur að feta hinn krappa og þrönga veg helgiathafna og sáttmála musterisins og gert sig hæf fyrir blessanir eilífs lífs.

Á aðalprestdæmisfundi síðustu aprílráðstefnu sagði ég frá því er faðir minn teiknaði mynd af riddara í fullum herklæðum til að kenna mér um alvæpni Guðs og þá andlegu vernd sem það veitir.

Að þeim fundi loknum, sagði faðir nokkur fjölskyldu sinni frá því sem hann hafði lært. Yngsti sonur hans, Jason, fann sig knúinn til að fara á LDS.org til að hlusta sjálfur á boðskapinn. Fáeinum dögum síðar kenndi hann bræðrum sínum og systrum lexíu á fjölskyldukvöldi. Þetta er hann.

Einfaldur ráðstefnuboðskapur, innblásinn af Drottni, meðtekin af barni, var fluttur fjölskyldu, persónulega og kröftuglega. Ég ann brynju réttlætisins. Ég ann skildi trúar, sem ver mig gegn eldtungum andstæðingsins. Slíkar eru blessanir ráðstefnu.

Bræður mínir og systur, ég ber mitt sérstaka vitni um að Drottinn, Jesús Kristur, lifir og er höfuð þessarar kirkju. Þetta er hans aðalráðstefna. Ég lofa ykkur, í hans nafni, að ef þið biðjið af einlægri þrá til að fá heyrt rödd föður ykkar á himnum í boðskap þessarar ráðstefnu, munuð þið uppgötva að hann hefur talað til ykkar, til að hjálpa ykkur, styrkja og leiða fjölskyldu ykkar í návist hans. Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir