Sleppa aðallóðsun
Október 2013 | Flýta leikáætlun Drottins!

Flýta leikáætlun Drottins!

Október 2013 Aðalráðstefna

Öll þurfum við að þróa og framfylgja eigin leikáætlun, og þjóna af áhuga með fastatrúboðunum.

Fyrir nokkrum árum þurfti ég að ræða við eiginkonu eins biskupsins, svo ég hringdi á heimili þeirra. Ungur sonur þeirra svaraði í símann. „Halló,“ sagði ég. Er mamma þín heima?“

Hann svaraði: „Já, hún er hér. Ég skal ná í hana. Hver er þetta?“

Ég svaraði: „Segðu henni að þetta sé Nielsen forseti.“

Það varð stutt hlé og síðan heyrði ég sagt afar kátri röddu: „Mamma, Hinckley forseti er í símanum!“

Ég fæ ekki ímyndað mér hvað fram fór í huga hennar. Það hljóta að hafa verið löng skrefin að símanum. Upp í huga minn kom: „Ætti ég?“ Ég gerði það ekki, en við hlógum innilega. Þegar ég hugsa um það núna, þá hlýtur hún að hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum að heyra bara í mér.

Hvað mynduð þið gera, ef spámaður Drottins kallaði ykkur? Það hefur hann jú gert! Thomas S. Monson forseti hefur kallað sérhvert okkar til afar mikilvægs verks, sem hann undirstrikaði aftur nú í morgun. Hann sagði: „Nú er tíminn fyrir meðlimi og trúboða að koma saman, að starfa saman, að vinna í víngarði Drottins, til að leiða sálir til hans“ („Faith in the Work of Salvation,” [heimsþjálfunarfundur leiðtoga, sérstök útsendingu, 2013. júní ]; lds.org/broadcasts).

Höfum við verið að hlusta?

Stikur, umdæmi og trúboð um allan heim finna nú aukinn trúboðaáhuga, er orð frelsarans árið 1832 til Josephs Smith eru nú að uppfyllast: „Sjá, ég mun hraða verki mínu þegar að því kemur“ (K&S 88:73).

Bræður og systur, sá tími er nú kominn! Ég skynja það og ég er viss um að þið gerið það líka.

Ég vildi koma áhuga mínum og trú á Jesú Krist í verk. Þegar ég var í fótboltanum, hugsaði ég í leikáætlunum. Þegar við fórum í keppnisleik og liðið okkar var undirbúið með réttri leikaðferð, var góður árangur aldrei spurningin. Ég ræddi hins vegar við hinn rómaða BYU þjálfara LaVell Edwards um leikáætlun okkar og hann sagði: „Mér er sama um leikaðferðina svo framarlega sem við skorum mark!“ Mér fannst, sem einum leikstjórnenda hans, málið mun flóknara en það, en kannski var hans einfalda hugmyndafræði ástæða þess að leikvangur ber nafn hans.

Við erum öll í liði Drottins, en höfum við okkar eigin siguráætlun? Erum við tilbúin í leikinn? Ef við, sem meðlimir, elskum í raun fjölskyldu okkar, vini og samferðafólk, myndum við þá ekki vilja miðla þeim vitnisburði okkar um hið endurreista fagnaðarerindi?

Á námskeiði í júní fyrir nýja trúboðsforseta, var bókað að 173 nýir forsetar og eiginkonur þeirra hafi hlotið tilsögn áður en haldið var til þjónustu. Allir 15 meðlimir Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar ávörpuðu þennan sérstaka hóp.

Öldungur L. Tom Perry mælti þessi lokaorð: „Þetta er merkilegasta tímaskeið í sögu kirkjunnar. Þetta er nokkuð sem jafnast á við merkilega atburði sem gerst hafa í sögunni, líkt og Fyrstu sýnina, líkt og gjöf Mormónsbókar, líkt og endurreisn fagnaðarerindisins, líkt og allt það sem lagt hefur grunninn fyrir okkur, til að sækja fram og kenna í ríki föður okkar á himnum“ („Concluding Remarks“ [ræða haldin á námskeiði fyrir nýja trúboðsforseta, 26. júní 2013], 1, Church History Library, Salt Lake City).

Við þurfum að helga okkur, sem aldrei fyrr, til að vera í takt við áhugasemi leiðtoga okkar og skuldbindingu fastatrúboða okkar. Þetta verk mun ekki skila þeim árangri sem Drottinn ætlar því án okkar! Líkt og Henry B. Eyring forseti sagði: „Hver sem aldur ykkar er, hæfni, kirkjuköllun eða staðsetning, þá erum við öll sem eitt kölluð til þess verks að hjálpa honum að uppskera sálir“ („We Are One,” Ensign eða Líahóna, maí 2013, 62).

Ég ætla að miðla ykkur leikáætlun, sem ég fann mig knúinn til að fara eftir, eftir að hafa ígrundað fyrri reynslu, beðist fyrir og lesið 13. kafla í Boða fagnaðarerindi mitt. Ég hvet ykkur til að íhuga þessar þrjár ábendingar þegar þið ígrundið ykkar leikáætlun.

Í fyrsta lagi, biðjið sérstaklega fyrir því að geta dag hvern leitt einhvern nær frelsaranum og fagnaðarerindi hans. Það getum við gert með því að líta á alla sem syni og dætur Guðs, hjálpað hvert öðru á veginum heim. Hugsið ykkur þá nýju vini sem þið munuð eignast.

Í öðru lagi, biðjið dag hvern fyrir trúboðunum sem á ykkar svæði þjóna og trúarnemum þeirra, með því að nota nöfn þeirra. Það getið þið aðeins gert með því að heilsa þeim, líta á nafnspjaldið þeirra, ávarpa þá með nafni og spyrja hverjum þeir kenna. Öldungur Russell M. Nelson sagði nýverið: „Drottinn getur ekki hjálpað ykkur að þekkja hjarta einhvers, fyrr en þið þekkið nafn hans og andlit.“

Ég sótti skírn dásamlegrar systur sem miðlaði vitnisburði sínum. Ég mun ætíð minnast þessara orða hennar: „Það hafa aldrei svo margir beðið fyrir mér og aldrei hef ég upplifað slíkan kærleika! Ég veit að þetta verk er sannleikur!“

Í þriðja lagi, bjóðið vini á atburði innan eða utan heimilis ykkar. Hvert sem þið farið eða hvað sem þið gerið, íhugið þá hver gæti notið þessa viðburðar og hlustið síðan á andann leiðbeina ykkur.

Frelsarinn hefur kennt mér góða lexíu í eigin trúarnámi, sem ég trúi að eigi dásamlega við um „að flýta verkinu.“ Þegar ég læt tilfinningarnar ráða ferðinni um eitthvað málefni, sést það á ritmáli mínu og leiðir til upphrópana sem er lýsandi fyrir „sterkar tilfinningar eða er vísbending um gríðarlegt mikilvægi“ (Merriam-Webster’s Collegiate Dictionary, bindi 11 [2003], „exclamation point”).

Það vakti áhuga minn að sjá ritningarvers um „samansöfnunina“ með fullt af upphrópunarmerkjum, líkt og í ákalli Alma: „Ó, að ég væri engill og sú ósk hjarta míns mætti uppfyllast, að mér leyfðist að stíga fram og tala með gjallarhorni Guðs, með röddu, sem kæmi jörðinni til að nötra og vekti alla menn til iðrunar!“ (Alma 29:1).

Skoðun leiddi í ljós að 65 ritningarvers tjá innilegar trúboðstengdar tilfinningar, þar á meðal þessar:

„Hversu mikil er gleði hans yfir þeirri sál sem iðrast! ...

Og fari svo, að þér erfiðið alla yðar daga við að boða þessu fólki iðrun og leiðið, þó ekki sé nema eina sál til mín, hversu mikil skal þá gleði yðar verða með henni í ríki föður míns!

Og verði nú gleði yðar mikil með einni sál, sem þér hafið leitt til mín inn í ríki föður míns, hversu mikil yrði þá gleði yðar, ef þér leidduð margar sálir til mín!“ (K&S 18:13, 15–16).

Vakning mín til þessara sérstöku ritningarversa, gegndi mikilvægu hlutverki í fyrsta verkefni mínu sem svæðishafi Sjötíu. Ég var nokkuð taugaóstyrkur yfir að vera í félagsskap postula, öldungs Quentins L. Cook, á stikuráðstefnu. Þegar ég gekk inn í skrifstofu stikuforsetans á fyrsta fund þessarar helgar, tók ég eftir slitnu, bronslituðu skópari á borði á bak við skrifborðið hans, með áfestu ritningarversi með upphrópunarmerki. Þegar ég las það, fannst mér sem Drottinn vissi af hugleiðingum mínum, hefði svarað bænum mínum og vissi nákvæmlega hvað þyrfti til að stilla óróleika minn.

Ég bað stikuforsetann að segja mér söguna af skónum.

Hann sagði:

„Þetta voru skór ungs trúskiptings í kirkjunni, en fjölskylda hans bjó við erfiðar aðstæður. Hann var þó ákveðinn í að þjóna dyggilega í trúboði og það gerði hann í Guatemala. Þegar hann kom heim hitti ég hann til að leysa hann af með sæmd og tók þá eftir gatslitnum skónum hans. Þessi ungi maður hafði gefið Drottni allt sitt, án mikils eða nokkurs stuðnings fjölskyldu sinnar.

„Hann tók eftir því að ég starði á skóna hans og spurði: ‚Er eitthvað athugavert, forseti?‘

Ég svaraði: ‚Nei, öldungur, allt er í fínu lagi! Viltu gefa mér skóna þína?’“

Stikuforsetinn hélt áfram: „Virðing mín fyrir honum og elska til hans var yfirþyrmandi! Ég vildi festa þessa upplifun í huga mér, svo ég lét bronslita skóna. Þegar ég kem inn í skrifstofuna, minna þeir mig á erfiðið sem við öll verðum að leggja á okkur, hverjar sem aðstæður okkar eru. Ritningarversið var úr Jesaja: ‚Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur, hjálpræðið boðar og segir við Síon: Guð þinn er setstur að völdum!‘ (Jes 52:7).”

Kæru bræður mínir og systur, biskupsins góða eiginkona kann að hafa hugsað með sér hvers vegna spámaðurinn væri að hringja í sig. Ég ber vitni um að hvorki hún, né við þurfum að velta því fyrir okkur ‒ UPPHRÓPUNARMERKI!

Ég veit að sérhvert okkar þarf að þróa og framfylgja eigin leikáætlun, til að þjóna af áhuga með fastatrúboðunum ‒ UPPHRÓPUNARMERKI!

Ég bæti mínum vitnisburði við vitnisburð spámannsins Josephs Smith: „Og nú, eftir þá mörgu vitnisburði, sem gefnir hafa verið um hann, er þetta vitnisburðurinn, síðastur allra, sem við gefum um hann: Að hann lifir!“ (K&S 76:22). Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.