Sleppa aðallóðsun
Október 2013 | Sem ónýtt ker

Sem ónýtt ker

Október 2013 Aðalráðstefna

Hvernig bregðist þið best við, ef huglægir eða tilfinningalegir erfiðleikar hrella ykkur eða ástvini ykkar?

Pétur postuli ritaði, að allir þeir sem fylgdu Jesú Kristi, ættu að vera „samhuga [og] hluttekningarsamir.“1 Í þeim anda óska ég að tala til þeirra sem þjást af hverskyns geðsjúkdómum eða tilfinningaröskun, hvort sem slíkir sjúkdómar eru vægir eða alvarlegir, tímabundnir eða ævilangir. Við skynjum hve flókið málið getur verið, þegar við heyrum fagaðila ræða um hugsýki og geðsýki, um erfðatengingu og litningargalla, um geðhvarfasýki, ofsóknaræði og geðklofa. Þessir og aðrir sjúkdómar eru samt raunveruleiki jarðlífsins, hversu yfirþyrmandi sem þeir kunna að vera, og enginn ætti að fyrirverða sig fyrir að viðurkenna þá, fremur en að viðurkenna þrálátan blóðþrýsting eða skyndilega birtingu illkynja æxlis.

Þegar við keppum að friði og skilningi á þessum erfiðu tímum, er nauðsynlegt að hafa í huga að við lifum ‒ og að við völdum að lifa ‒ í föllnum heimi, þar sem stöðugt er reynt á þrautseigju okkar og trúrækni í guðlegum tilgangi. Mikilvægasta fullvissan í áætlun Guðs er loforðið um frelsara, lausnara, sem lyftir okkur sigrihrósandi, fyrir trú okkar á hann, ofar slíkum prófraunum og erfiðleikum, jafnvel þótt gjaldið fyrir það yrði ómælanlegt fyrir bæði föðurinn sem sendi hann og soninn sem kom. Aðeins með því að vera þakklát fyrir þennan guðlega kærleika, munu okkar eigin vægari þjáningar fyrst verða þolanlegar, síðan skiljanlegar og loks frelsandi.

Ég ætla að hverfa frá þessum óvenjulegu sjúkdómum sem ég hef nefnt og einblína á „þunglyndisröskun,“ ‒ sem almennt er nefnd „þunglyndi.“ Þegar ég ræði um það, á ég ekki við miður góða daga, skattgreiðslueindag eða tímabundinn dapurleika sem við öll upplifum. Allir munu endrum og eins upplifa kvíða eða kjarkleysi. Í Mormónsbók er sagt frá því að Ammon og bræður hans hefðu verið þjakaðir á afar erfiðum tíma2 og það getum við öll verið. En í dag ræði ég um það sem alvarlegra er, um svo alvarlegan sjúkdóm, að hann dregur tilfinnanlega úr getu fólks til að starfa eðlilega; um svo djúpt hugarsár, að enginn getur með réttu gefið í skyn að hægt sé að sigrast á því, ef hinn sjúki aðeins tæki sig saman í andlitinu og færi að hugsa jákvæðar ‒ jafnvel þótt ég sé ötull talsmaður þess að taka sig saman í andlitinu og hugsa jákvætt!

Nei, þessi skuggahlið hugans og andans er meira en aðeins kjarkleysið. Ég hef séð sjúkdóminn leggjast á afar dásamlegan mann, eftir að hann missti sína ástkæru eiginkonu til 50 ára. Ég hef séð hann leggjast á móður, sem á læknamáli er nefnt „fæðingarþunglyndi.“ Ég hef séð hann leggjast á áhyggjufulla nemendur, uppgjafahermenn, ömmur sem hafa áhyggjur af velferð uppkominna barna sinna.

Ég hef séð hann leggjast á unga feður sem reyna að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Með vísun í það, þá upplifði ég slíkt sjálfur mér til hryllings. Á tímapunkti í lífi okkar hjóna, þegar ég upplifði fjárhagskvíða, mikla þreytu og áreynslu, varð ég fyrir sálrænu áfalli sem var jafn óvænt og það var raunverulegt. Með náð Guðs og elsku fjölskyldu minnar, hélt ég áfram að vinna og starfa, en eftir öll þessi ár finn ég enn til mikillar samúðar með öðrum sem jafnvel þjást enn þrálátlegar en ég gerði eða eru hlaðnir enn meiri slíkum ógnarbyrðum. Hvað sem öllu líður, þá hefur okkur öllum eflst kjarkur frá þeim sem hafa „leitað og ígrundað í hinu dimmasta hýldýpi,“3 líkt og spámaðurinn Joseph orðaði það, og náð að sigrast á því ‒ og í því sambandi má nefna menn á borð við Abraham Licoln, Winston Churchill og einn hinna örlátustu og kristilegustu manna okkar ráðstöfunar, öldung George Albert Smith, sem þrálátlega glímdi við þunglyndi í nokkur ár, áður en hann varð síðar hinn elskaði áttundi spámaður og forseti Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Hvernig bregðist þið best við, ef huglægir eða tilfinningalegir erfiðleikar hrjá ykkur eða ástvini ykkar? Framar öllu, glatið aldrei trú ykkar á himneskan föður, sem elskar ykkur meira en þið fáið skilið. Líkt og Monson forseti sagði svo hjartnæmt við Líknarfélagssysturnar síðasta laugardagskvöld: „Sú elska breytist aldrei. ... Hún er þar fyrir ykkur þegar þið eruð sorgmæddar eða hamingjusamar, daprar eða vongóðar. Elska Guðs er þar fyrir ykkur, hvort sem þið verðskuldið hana eða ekki. Hún er einfaldlega alltaf fyrir hendi.“4 Efist aldrei nokkurn tíma um það og herðið aldrei hjarta ykkar. Iðkið staðfastlega þá trúrækni sem sannreynd er af tímans tönn, og færir anda Drottins inn í líf ykkar. Leitið leiðsagnar þeirra sem hafa lykla að andlegri velferð ykkar. Biðjið um prestdæmisblessanir og hafið þær í metum. Takið sakramentið í viku hverri og haldið ykkur fast að loforðum friðþægingar Jesú Krists um fullkomnun. Trúið að kraftaverk gerist. Ég hef séð svo mörg verða að veruleika, þegar allt annað hefur þrotið og engin von er eftir. Vonin glatast aldrei. Ef slík kraftaverk gerast ekki fljótt eða fyllilega eða hreint ekki að því er virðist, munið þá eftir angist sjálfs frelsarans: Fari hinn beiski bikar ekki fram hjá, teygið hann þá og verið sterk, reiðið ykkur á að betri tíð sé framundan.5

Reynið að fyrirbyggja sjúkdóma ef mögulegt er, gætið að streituþáttum í lífi ykkar og annarra, sem þið gætuð kannski hjálpað. Líkt og á við um bílinn ykkar, hugið að auknum hita, hraða eða eldsneytisskorti. Þegar þið finnið „áunnið þunglyndi“ koma, gerið þá nauðsynlegar tilslakanir. Þreytan er sameiginlegur óvinur okkar allra ‒ slakið því á, bremsið ykkur niður og fyllið aftur á tankinn. Læknar hafa staðhæft, að ef við gefum okkur ekki tíma til að huga að eigin heilsu, munun við vissulega síðar verða veik.

Ef veikindin halda áfram að hrjá ykkur, leitið þá ráðgjafar viðurkennds fólks með rétta þjálfun, sérkunnáttu og gott gildismat. Verið hreinskilin við það um reynslu ykkar og baráttu. Íhugið bænheitt og af ábyrgð ráðgjöf þess og lausnirnar sem það mælir með. Ef þið fengjuð botnlangabólgu, myndi Guð vænta þess að þið bæðuð um prestdæmisblessun og leitið eftir bestu fáanlegu læknishjálp. Það á líka við um huglægar raskanir. Faðir okkar á himnum væntir þess að við notum allar gjafirnar sem hann hefur séð okkur fyrir í þessari dýrðlegu ráðstöfun.

Ef þið eruð hin þjökuðu eða annist slíka, reynið þá að láta ekki yfirbugast af umfangi verkefnisins. Gerið ekki ráð fyrir að geta bætt allt. Bætið það sem þið getið. Séu sigrarnir aðeins litlir, verið þá þakklát fyrir þá og sýnið þolinmæði. Drottinn býður oft einhverjum í ritningunum að sýna „stillingu“ eða „biðlund“ ‒ og hinkra við.6 Að ganga þolinmóð í gegnum ýmislegt, er hluti af okkar jarðnesku reynslu.

Umönnuarfólk, gætið að eigin heilsu við að aðstoða þá sem þarfnast aðhlynningar. Sýnið skynsemi í þessu öllu. Hlaupið ekki hraðar en styrkur ykkar leyfir.7 Burtséð frá því sem við getum eða getum ekki gert, þá ættum við að biðja bæna okkar og sýna „fölskvalausa ást.“8 „Kærleikurinn er langlyndur og góðviljaður, ... þolir allt, ... vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.‟9

Munum líka eftir því að í öllum sjúkdómum eða erfiðleikum, er heilmargt í lífinu sem vekur von og þakka má. Við erum óendanlega meira en annmarkar okkar eða erfiðleikar! Stephanie Clark Nielson og fjölskylda hennar hafa verið vinir okkar í yfir 30 ár. Hinn 16. ágúst 2008 lentu Stephanie og eiginmaður hennar, Christian, í flugslysi og eldi sem braust út og brenndi hana svo hræðilega, að einungis málaðar táneglurnar auðkenndu hana, þegar fjölskyldan kom til að bera kennsla á fórnarlömbin. Möguleikarnir voru næstum engir að Stephanie gæti lifað. Eftir að hafa verið haldið sofandi í fimm mánuði, vaknaði hún og sá sjálfa sig. Í kjölfarið fylgdi mikið og hryllilegt þynglyndi. Stephanie átti fjögur börn undir sjö ára aldri og óskaði þess að þau sæju hana aldrei framar. Hún vildi að hún hefði ekki lifað þetta af. „Ég hélt að það væri auðveldar,“ sagði Stephanie eitt sinn við mig á skrifstofunni minni, „ef þau gleymdu mér bara og ég hyrfi hljóðlega burtu úr lífi þeirra.“

En henni til eilífs hróss, og með bænum eiginmanns hennar, fjölskyldu, vina og fjögurra yndislegra barna, og hið fimmta fæddist Nielsons-fjölskyldnni fyrir 18 mánuðum, braust Stephanie til baka úr hyldýpis sjálfstortímingu, varð einn allra vinsælasti „mömmubloggari“ þjóðarinnar, og segir af hreinskilni við þær fjórar milljónir sem lesa blogg hennar, að „guðlegur tilgangur“ hennar í lífinu, sé að vera mamma og gleðjast yfir hverjum degi sem henni verður gefinn á þessari dásamlegu jörð.

Hver sem barátta ykkar er, bræður mínir og systur, ‒ andleg, tilfinningaleg, líkamleg eða önnur ‒ greiðið þá ekki atkvæði gegn dýrmætu lífinu með því að binda endi á það! Treystið Guði. Haldið ykkur að elsku hans. Vitið að dag einn mun bjartur dagur upp renna og skuggaskímur jarðlífsins að engu verða. Þótt okkur kunni að finnast við vera „sem ónýtt ker,“ líkt og Sálmahöfundurinn segir,10 verðum við að hafa í huga að kerið er í höndum hins guðlega leirkerasmiðs. Hægt er að lækna brotinn huga, rétt eins og brotin bein og brostin hjörtu. Meðan Guð vinnur að því að græða slíkt, ættum við hin að létta undir með því að sýna miskunn, umburðarlyndi og gæsku.

Ég ber vitni um hina helgu upprisu, um hina óumræðilegu gjöf sem fylgir friðþægingu Drottins Jesú Krists! Ég ber vitni með Páli postula, um að það sem sáð var í vansæmd, muni upp rísa í vegsemd og að það sem sáð var í veikleika, muni upp rísa í styrkleika.11 Ég ber vitni um þann dag er ástvinir, sem börðust við einhvers konar vanmátt í þessu lífi, munu standa frammi fyrir okkur í dýrð og mikilleika, hrífandi fullkomnir í líkama og anda. Hve unaðsleg stund það verður! Ég veit ekki hvort gleði okkar verður meiri yfir að sjá slíkt kraftaverk eða vegna þess að sjá þau njóta þess að vera orðin fullkomin og „frjáls að lokum.“12 Ég bið þess, að fram að þeim degi er Kristur sýnir öllum slíka samúð, megum við lifa í trú, halda fast í vonina og verða „samhuga [og hluttekningarsöm],“13 í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir

  Heimildir

  1. 1 Pét 3:8.

  2. Sjá Alma 26:27; sjá einnig Alma 56:16.

  3. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 267.

  4. Thomas S. Monson, „We Never Walk Alone,” aðalfundur Líknarfélagsins, 28. sept 2013.

  5. Sjá Matt 26:39.

  6. Sjá tildæmis Sálm 4:4; Kenning og sáttmálar 101:16.

  7. Sjá Mósía 4:27.

  8. Kenning og sáttmálar 121:41.

  9. 1 Kor 13:4, 7–8; skáletrað hér; sjá einnig Moró 7:45–46.

  10. Sálm 31:12.

  11. Sjá 1 Kor 15:42–43.

  12. „Free at Last,” í John W. Work, samant. American Negro Songs: 230 Folk Songs and Spirituals, Religious and Secular (1998), 197.

  13. 1 Pét 3:8.