2010–2019
Horfið upp
Október 2013


Horfið upp

Í dag er tími til að horfa upp til uppsprettu sannleikans og tryggja það að vitnisburðir okkar séu sterkir.

Þegar ég var átta ára gamall, voru ég og frændur mínir tveir sendir til næsta bæjar til að ná í matvæli sem áttu að duga í 15 daga. Þegar ég hugsa til baka, undrast ég það traust sem amma mín, frænka og frændi höfðu á okkur. Morgunhimininn var bjartur og skínandi þegar við stigum á bak þessara þriggja hesta og lögðum af stað.

Á miðri sléttunni fengum við þá frábæru hugmynd að stíga af baki og fara í kúluspil. Og það gerðum við ‒ í langan tíma. Við vorum svo niðursokknir í leikinn að við sáum ekki „tímanna tákn“ yfir höfðum okkar, að dökk skýin fylltu himininn. Þegar við gerðum okkur grein fyrir því sem var að gerast, gafst okkur ekki tíma til að koma okkur á bak hestunum. Hörð rigningin og haglið skullu svo fast á okkur að það eina sem okkur datt í hug var að taka af hestunum og leita skjóls undir litlum hnakkábreiðum.

Hestalausir, blautir og kaldir héldum við ferðinni áfranu og reyndum nú að ferðast eins hratt og við mögulega gátum. Er við nálguðumst áfangastaðinn sáum við að flætt hafði yfir breiða aðalgötuna sem lá inn í bæinn og hún var eins og á sem flæddi á móti okkur. Það eina sem við gátum nú gert var að sleppa ábreiðunum og klifra yfir gaddavírsgirðinguna sem umkringdi bæinn. Það var síðla kvölds sem við leituðum skjóls í fyrsta húsinu sem við sáum er við komum inn í bæinn, þreyttir, aumir og gegndrepa. Unga, indæla fjölskyldan sem bjó þar þurrkaði okkur, gaf okkur að borða baunavefjur og setti okkur í rúm í herbergi út af fyrir okkur. Fljótlega uppgötvuðum við að moldargólf var í herberginu og við fengum aðra stórkostlega hugmynd. Við gerðum hring á gólfið og héldum áfram með kúluspilið okkar þar til við sofnuðum örmagna á gólfinu.

Sem börn hugsuðum við ekki um neitt annað en okkur sjálfa. Það hvarflaði aldrei að okkur að við ættum ástvini sem væru í örvæntingu að leita að okkur heima — ef við hefðum gert það þá hefðum við aldrei tafið ferð okkar við svona tilgangslausa iðju. Ef við hefðum verið vitrari hefðum við horft til himins, séð skýin mótast og flýtt okkar til að vera á undan storminum. Nú, þegar ég hef aðeins meiri reynslu, minni ég mig alltaf á: „Gleymdu ekki að líta upp.‟

Reynsla mín með frændum mínum kenndi mér að fylgjast með táknum tímanna. Við lifum á stormasömum, hættulegum tímum sem Páll lýsti svona: „Því mennirnir munu verða sérgóðir, …foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir,…rógberandi, bindindislausir, …elskandi munaðarlífið meira en Guð‟ (2 Tím 3:2–4).

Talandi um þessa tíma sagði öldungur Dallin H. Oaks: „Við þurfum að búa okkur bæði stundlega og andlega. … Og sá undirbúningur sem líklegast er að verði vanræktur er sá sem minnst ber á og erfiðastur er ‒ hinn andlegi“ („Preparation for the Second Coming,” Ensign eða Líahóna, maí 2004, 9). Með öðrum orðum, ekki vanrækja að horfa upp.

Þörfin er mjög brýn fyrir andlegan undirbúning á svo válegum tímum og því langar mig að veita viðvörunarorð um eitt sterkt tákn tímanna. Í starfi stóð ég framarlega á sviði tækninnar og þekki því hversu mikils virði hún er, sérstaklega samskiptalega. Við höfum aðgang að mjög miklum upplýsingum í dag. Hinsvegar er Alnetið einnig uppfullt af ýmsu sem er óhreint og afvegaleiðandi. Tæknin hefur aukið tjáningarfrelsið, en veitir einnig réttindalausum bloggurum falskan trúverðugleika, eftir því hve margir lesa skrif þeirra. Þetta er ástæðan fyrir því að nú, meira en oft áður, verðum við að muna eftir því eilífa lögmáli: „Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá“ (Matt 7:20).

Ég vara ykkur sérstaklega við því að horfa á sóðalegar myndir eða veita fölskum ákærendum Jesú Krist eða spámannsins Josephs Smith athygli. Hvort tveggja hefur sömu áhrifin: Að missa áhrif heilags anda og verndandi, styrkjandi kraft hans. Lastafullt líferni og óhamingja fylgir ætíð í kjölfarið.

Kæru bræður og systur, ef þið munuð einhverntíma rekast á eitthvað sem fær ykkur til að efast um vitnisburð ykkar um fagnaðarerindið, þá hvet ég ykkur til að horfa upp. Horfið til uppsprettu allrar visku og sannleika. Nærið trú ykkar og vitnisburð með orði Guðs. Í heiminum eru þeir einstaklingar sem myndu gera allt til að grafa undan trú ykkar með því að blanda lýgi saman við hálfsannleika Þess vegna er það mjög áríðandi að þið séuð alltaf verðug samvistar andans. Samfélag heilags anda er ekki bara ánægjuleg þægindi — það er nauðsynlegt andlegri tilvist ykkar. Ef þið munuð varðveita orð Krists og hlusta vandlega eftir hvatningu andans, þá munuð þið ekki láta blekkjast (sjá Joseph Smith—Matt 1:37). Við verðum að gera það.

Jesús Kristur, sem var fullkominn, og Joseph Smith, sem viðurkenndi að hann væri það ekki, voru báðir myrtir af fölskum ákærendum sem meðtóku ekki vitnisburði þeirra. Hvernig getum við vitað að vitnisburðir þeirra voru sannir — að Jesús Kristur er sonur Guðs og að Joseph Smith sannur spámaður?

„Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.“ Getur góður ávöxtur vaxið á slæmu tré? Ég veit sjálfur að lausnari minn hefur fyrirgefið mér syndir mínar og frelsað mig frá mínu persónulega oki, og leitt mig til þeirrar hamingju sem ég vissi ekki að væri til. Ég veit einnig, fyrir mig sjálfan, að Joseph Smith var spámaður, því að ég hef látið reyna á þetta einfalda loforð sem má finna í Mormónsbók: „[Spyrjið] Guð, hinn eilífa föður, í nafni Krists‟ (Moró 10:4). Einfaldlega orðað, lítið upp.

Til eru þeir sem gætu bent á að þið þurfið áþreifanlegar sannanir til að trúa á upprisu Krists eða sannleiksgildi hans endurreista fagnaðarerindis. Fyrir þá vitna ég i orð Alma er hann talaði við Kóríhor, sem var að reyna að fá aðra til að trúa ekki. „Þú hefur fengið næg tákn. Vilt þú freista Guðs þíns? Vilt þú segja, sýn mér tákn, þegar þú hefur vitnisburð allra þessara bræðra þinna og einnig vitnisburð allra hinna heilögu spámanna? Ritningarnar liggja frammi fyrir þér“(Alma 30:44).

Við erum lifandi sönnun á endurlausnarkrafti frelsarans. Við erum lifandi sönnun á kennslu spámannsins Josephs og trúfesti hinna heilögu hér á árum áður, sem voru sterkir í vitnisburði sínum. Kirkja Jesú Krists nær nú um allan heim og vex sem aldrei fyrr — umföðmuð af auðmjúku fólki eins og á tímum Krists, fólki sem þarf ekki að sjá eða snerta til að trúa.

Enginn veit hvenær Jesús kemur að nýju. Hinsvegar erum við nú á hættulegum tímum. Í dag er tími til að horfa upp til uppsprettu sannleikans og tryggja að vitnisburðir okkar séu sterkir.

Nú sný ég mér aftur að sögu minni, frændur mínir og ég vöknuðum morguninn eftir og sólin skein og himinninn var fagur. Maður bankaði á dyrnar í leit að þremur týndum drengjum. Hann setti okkur á hesta og við héldum af stað heim yfir sömu sléttuna. Ég mun aldrei gleyma því sem við okkur blasti á leið okkar heim — hópur fólks hafði verið að leita að okkur alla nóttina, traktórar þeirra og pallbílar fastir í leðjunni. Þau höfðu fundið hnakk hér og hest þar og þegar þau sáu okkur koma heim fann ég létti þeirra og kærleika. Við komuna í bæinn komu margir hlaupandi á móti okkur og fremst í flokki þeirra allra voru ástkær amma mín, frænka og frændi. Þau föðmuðu okkur að sér og grétu, yfir sig glöð yfir að hafa fundið týndu börnin sín. Þetta er mér mikil áminning um að himneskur faðir er minnugur okkar. Hann bíður áhyggjufullur eftir því að við snúum heim.

Allt í kringum okkur eru tákn um að stormar séu í vændum. Horfum upp og undirbúum okkur. Það er öryggi í sterkum vitnisburði. Varðveitum og styrkjum vitnisburði okkar á hverjum degi.

Ég veit að við getum lifað saman sem fjölskyldur að eilífu og að ástríkur himneskur faðir bíður eftir okkur, börnum sinum, með faðminn útbreiddan. Ég veit að Jesús Kristur, bjargvættur okkar, lifir. Eins og með Pétur, þá hefur hvorki hold né blóð opinberað mér það heldur faðir minn á himnum (sjá Matt 16:15–19). Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.