2010–2019
Persónulegur styrkur fyrir friðþægingu Jesú Krists
Október 2013


Persónulegur styrkur fyrir friðþægingu Jesú Krists

Með friðþæginu Jesú Krists getum við, hvert og eitt okkar, orðið hrein og fengið byrðinni af uppreisn okkar lyft.

Nýlega naut ég þeirrar blessunar að hitta afar tilkomumikinn hóp ungmenna frá Idaho-fylki. Ein dyggðug ung stúlka spurði mig hvað mér fyndist vera það mikilvægasta sem þau ættu að gera í lífi sínu á þessari stundu. Ég lagði til að þau lærðu að þekkja kraft friðþægingar Jesú Krists í lífi sínu. Í dag langar mig til að tala út frá einum þætti þessa kraftar, þeim persónulega styrk sem við getum hlotið fyrir friðþægingu Jesú Krists.

Í Mormónsbók lesum við um Ammon og bræður hans er þeir kenndu „villtri þjóð…sem var full af hörku og grimmd,“1 fagnaðarerindi Jesú Krist. Margir þessara manna snerust til trúar og völdu að skilja við sitt synduga líferni. Trúskipti þeirra voru svo algjör að þeir grófu vopn sín og gerðu sáttmála við Drottin um að þeir myndu aldrei nota þau aftur.2

Seinna komu margir af trúlausum bræðrum þeirra og tóku að drepa þá. Þetta trúfasta fólk ákvað að falla fyrir sverðinu frekar en að leggja andlegt líf sitt í hættu með því að taka upp vopn. Þetta réttláta fordæmi þeirra varð til þess að enn fleiri tóku trú og lögðu niður uppreisnarvopn sín.3

Með hjálp Ammons leiddi Drottinn þau í skjól á meðal Nefíta og þau þekktust sem fólk Ammons.4 Nefítarnir vernduðu þau í mörg ár, en lokst kom að því að her Nefítanna fór að þreytast og vantaði sárlega aukinn liðsafla.5

Þetta var ögurstund í andlegu lífi fólks Ammons. Þau höfðu verið trú sáttmálum sínum um að taka aldrei upp vopn aftur. Þau skildu hins vegar að feður bera ábyrgð á því að sjá fjölskyldum sínum fyrir vernd.6 Sú þörf virtist nægilega brýn til að íhuga hvort þau ættu að brjóta sáttmála sína.7

Þeirra vitri prestdæmisleiðtogi, Helaman, vissi að aldrei var réttlætanlegt að brjóta sáttmála sína við Drottin. Hann bauð þeim annan valmöguleika. Hann minnti þau á, að synir þeirra hefðu aldrei gerst sekir um sömu syndir og þau og hefðu þar af leiðandi ekki þurft að gera þessa sömu sáttmála.8 Þó að synir þeirra væru ungir, þá væru þeir líkamlega sterkir og það sem mikilvægara var, þeir væru dyggðugir og flekklausir. Synir þeirra voru styrktir af trú mæðra sinna.9 Undir leiðsögn spámanns-leiðtoga þeirra tóku þessir ungu menn við hlutverki feðra sinna til varnar fjölskyldu þeirra og heimili.10

Þau atvik sem gerðust í kringum þessa afgerandi ákvörðun sýna hvernig friðþæging Jesú Krists veitir persónulegan styrk inn í líf barna Guðs. Hugleiðið blíðar tilfinningar þessara feðra. Hvernig þeim hefur liðið að vita, að vegna þeirra eigin mótþróarfullu verka í fortíðinni var þeim fyrirmunað að vernda konur sínar og börn á neyðarstundu. Með eigin vitneskju um þær hörmungar sem synir þeirra stóðu frammi fyrir hljóta þeir að hafa grátið í einrúmi. Feður, ekki börn, eiga að vernda fjölskyldur sínar!11 Sorg þeirra hlýtur að hafa verið gífurleg.

Hvers vegna skyldi innblásinn prestdæmisleiðtogi þeirra óttast hugsun þeirra um að taka aftur upp vopn, því þá „mundu þeir glata sálum sínum.“?12 Drottinn hefur sagt, „Sjá, þeim sem hefur iðrast synda sinna er fyrirgefið, og ég Drottinn, minnist þeirra ekki lengur.“13 Þessir trúföstu feður höfðu iðrast synda sinna löngu áður og orðið hreinir fyrir friðþægingu Jesú Krists, svo hvers vegna var þeim ráðlagt að verja ekki fjölskyldur sínar?

Það er grunnsannleikur að með friðþægingu Jesú Krists getum við hreinsast. Við getum orðið dyggðug og flekklaus. Hins vegar skilja slæmar ákvarðanir okkur stundum eftir með langvarandi afleiðingar. Eitt af mikilvægu skrefum fullkominnar iðrunar er að umbera skammtíma og langtíma afleiðingar synda okkar. Ákvarðanir þessarar Ammonítafeðra hafði gert þá berskjaldaða fyrir holdlegum löngunum sem gætu aftur orðið að veikleikum sem Satan gæti reynt að nýta sér.

Satan mun reyna að nota minningar okkar um fyrri syndir til að lokka okkur aftur undir áhrif hans. Við verðum alltaf að vera varkár og forðast freistingar hans. Það var málið með þessa trúföstu Ammonítafeður. Jafnvel eftir að hafa lifað trúföstu lífi í áraraðir, þá var mikilvægt fyrir þá að vernda sig sjálfa andlega frá aðdráttarafli minninganna um fornar syndir.

Á milli hinna mörgu bardaga lét Móróni yfirhershöfðingi styrkja veikustu borgirnar. „Hann lét þá reisa brjóstvirki út timbri á innri bakka skurðarins, og þeir hlóðu mold úr skurðinum upp að timburvirkinu…þar til þeir höfðu lokið við að girða borgina…sterkum og afar háum vegg úr viði og mold.“14 Moróni hershöfðingi skildi mikilvægi þess að styrkja veikustu svæðin til að skapa styrk.15

Hvað þetta varðar voru þessir Ammonítafeður í svipaðri stöðu. Þeir þurftu hærri og víðari varnarveggi á milli síns trúfasta lífs og óréttlátrar hegðunar þeirra áður. Synir þeirra, sem voru blessaðir með réttlátum hefðum, voru ekki eins viðkvæmir fyrir sömu freistingum. Þeir gátu verndað fjölskyldur sínar trúfastlega án þess að hætta á að stofna andlegri velferð sinni í hættu.

Það eru gleðifréttir fyrir hvern þann sem vill losna við afleiðingar slæmra ákvarðana áður fyrr, að Drottinn sér veikleika í öðru ljósi en hann sér uppreisn. Þó að Drottinn vari við því að uppreisn, sem ekki er iðrast af, muni leiða af sér refsingu,16 talar han samt alltaf um veikleika af miskunn.17

Það er án efa hægt að telja það Ammonítafeðrunum til málsbóta, að þeim voru kenndar þessar röngu hefðir feðra sinna, en öll börn himnesks föður koma í heiminn með ljós Krists. Án tillits til orsaka syndugra verka þeirra, þá voru afleiðingarnar andlegur veikleiki sem Satan myndi reyna að nýta sér.

Sem betur fer var þeim kennt fagnaðarerindið, þeir iðruðust og urðu andlega sterkari en freistingar Satans, fyrir friðþægingu Jesú Krists. Það er líklegt að þeir hefðu aldrei freistast til að snúa aftur til grimmilegrar fortíðar sinnar, en með því að fylgja spámanns-leiðtoga sínum gáfu þeir Satan ekki það tækifæri, að „[svíkjast] að sálum þeirra og [leiða] þá lævíslega niður til heljar.“18 Friðþæging frelsarans hreinsaði þá ekki aðeins af synd heldur gat frelsarinn verndað þá frá veikleikum sínum og styrkt þá vegna hlýðni þeirra við ráðgjöf prestdæmisleiðtoga þeirra. Auðmjúk, ævilöng skuldbinding þeirra um að láta af syndum sínum gerði meira til verndar fjölskyldum þeirra en nokkuð sem þeir hefðu getað gert á vígvellinum. Undirgefni þeirra svipti þá ekki blessunum. Hún styrkti og blessaði þá og blessaði margar komandi kynslóðir.

Endir sögunnar upplýsir hvernig miskunn Drottins gerði „hið veika að styrk þeirra“19 Þessir trúföstu feður sendu syni sína burt í umsjá Helamans. Þó að synirnir berðust í grimmilegum orrustum, þar sem þeir særðust allir eitthvað, þá lét enginn þeirra lífið.20 Þessir ungu menn voru mikilvægur styrkur fyrir þreyttan her Nefíta. Þeir voru trúfastir og andlega sterkari þegar þeir sneru aftur heim. Fjölskyldur þeirra voru blessaðar, verndaðar og styrktar.21 Á okkar tímum hafa óteljandi nemendur Mormónsbókar styrkst vegna fordæmis þessara flekklausu og réttlátu sona.

Öll höfum við orðið fyrir því í lífi okkar að taka slæmar ákvarðanir. Við höfum öll þörf fyrir frelsandi mátt friðþægingar Jesú Krists. Við verðum öll að iðrast hverrar uppreisnar. „Því að ég, Drottinn, get ekki litið á synd með minnsta votti af undanlátsemi.“22 Hann getur það ekki því að hann veit hvað þarf til að verða eins og hann.

Mörg höfum við leyft veikleikum að þróast í persónuleika okkar. Fyrir friðþægingu Jesú Krists getum við, eins og Ammonítar, byggt upp andlegan varnarvegg á milli okkar og gamalla mistaka sem Satan reynir að nýta sér. Sú andlega vörn sem byggð var í kringum Ammonítafeðurna blessaði og styrkti þá, fjölskyldur þeirra, land og framtíðar kynslóðir. Það sama getur átt við okkur.

Hvernig byggjum við þá upp þessa varnarveggi eilífðarinnar? Fyrsta skrefið verður að vera einlæg, ítarleg og fullkomin iðrun. Fyrir friðþægingu Jesú Krists getum við öll orðið hrein og byrði uppreisnar okkar orðið léttari. Munið að iðrun er ekki hegning. Hún er vonarfylltur stígur í átt að dýrðlegri framtíð.

Himneskur faðir hefur séð okkur fyrir verkfærum sem hjálpa okkur að byggja þennan varnarvegg á milli veikleika okkar og trúfesti. Hugleiðið eftirtaldar tillögur:

  • Gerið sáttmála og takið á móti helgiathöfnum fyrir ykkur sjálf. Vinnið því næst jafnt og þétt og stöðugt að því að sjá forfeðrum ykkar fyrir helgiathöfnum í musterinu.

  • Deilið fagnaðarerindinu með fjölskyldu ykkar, ættingjum eða vinum, sem eru utan kirkjunnar eða lítt virkir. Að deila þessum sannleika getur veitt ykkur endurnýjaðan áhuga og þrótt.

  • Þjónið samviskusamlega í öllum kirkjuköllunum, sérstaklega heimilis- og heimsóknarkennslu. Ekki vera bara heimilis- eða heimsóknarkennarar í 15 mínútur á mánuði. Reynið frekar að ná tengingu við hvern og einn fjölskyldumeðlim. Kynnist þeim persónulega. Verið sannir vinir. Sýnið þeim með kærleiksverki hve mikið ykkur þykir vænt um þá.

  • Mikilvægast af öllu, þjónið ykkar eigin fjölskyldu. Gerið andlegan þroska maka ykkar og barna að algjöru forgangsatriði. Verið vakandi fyrir því sem þið getið gert til að hjálpa hvert öðru. Verið örlát með tíma ykkar.

Í öllum þessum tillögum er sameiginlegt þema: Fyllið líf ykkar af þjónustu við aðra. Er þið týnið lífi ykkar í þjónustu við börn himnesks föður,23 þá glata freistingar Satans mætti sínum í lífi ykkar.

Vegna þess að himneskur faðir elskar ykkur innilega þá gerir friðþæging Jesú Krists þennan styrk mögulegan. Er það ekki dásamlegt? Mörg hafið þið fundið byrði slæmra ákvarðana og öll getið þið fundið upplyftandi kraft fyrirgefningar Drottins, miskunn og styrk. Ég hef fundið þetta og ég ber vitni um að þetta er í boði fyrir ykkur öll, í nafni Jesú Krists, amen.