Sleppa aðallóðsun
Október 2013 | Kraftur prestdæmisins

Kraftur prestdæmisins

Október 2013 Aðalráðstefna

Maðurinn getur kannski dregið gluggatjöldin frá til að hleypa hlýju sólarljósinu inn í herbergið, en hann á ekki sólina, birtuna eða þann varma sem hún færir.

Blessanir prestdæmisins eru fyrir alla

Er börnin sungu glaðlega Barnarfélagssálminn „Kærleikur talar hér“ á sakramentissamkomunni, þá brostu allir með velþóknun. Hugrökk fimm barna móðir hlustaði vandlega á vers tvö: „Heimili mitt er hverja stund, helgað af prestsins vígðri mund“1 Sorgmædd hugsaði hún, „börnin mín hafa aldrei þekkt slíkt heimili.“2

Skilaboð mín til trúfastra kvenna og til allra eru þau, að við getum lifað hverja stund „helguð af prestsins vígðri mund,“ sama hverjar aðstæður okkar eru.

Við tengjum oft kraft prestdæmisins of mikið við mennina í kirkjunni. Prestdæmið er kraftur og valdsumboð Guðs, veitt til sáluhjálpar og blessunar öllum ‒ körlum, konum og börnum.

Maðurinn getur kannski dregið gluggatjöldin frá til að hleypa hlýju sólarljósinu inn í herbergið, en hann á ekki sólina, birtuna eða þann varma sem hún færir. Blessanir prestdæmisins eru óendanlega meiri en sá sem beðinn er um að veita gjöfina.

Að meðtaka blessanirnar, kraftinn og loforð prestdæmisins í þessu lífi og hinu næsta, er eitt af stórkostlegustu tækifærum og ábyrgðum jarðnesks lífs. Ef við erum verðug þá munu helgiathafnir prestdæmisins auðga líf okkar á jörðinni og undirbúa okkur fyrir stórkostleg loforð heimsins að handan. Drottinn sagði „Í helgiathöfnum þess opinberast því kraftur guðleikans.“3

Það eru sérstakar blessanir frá Guði til hverrar verðugrar persónu sem lætur skírast, meðtekur heilagan anda og sakramentið reglulega. Musterið veitir aukið ljós og styrk ásamt loforði um eilíft líf.4

Allar helgiathafnirnar bjóða okkur að auka trú okkar á Jesú Krist og að gera og halda sáttmála við Guð. Á sama tíma og við höldum þessa heilögu sáttmála meðtökum við kraft og blessanir prestdæmisins.

Finnum við ekki þennan prestdæmiskraft í lífi okkar og sjáum hann á meðal kirkjuþegna sem halda sáttmála sína? Við sjáum hann í nýjum trúskiptingum er þeir stíga úr skírnarvatninu og upplifa fyrirgefningu og hreinleika. Við sjáum börn okkar og ungdóminn næmari fyrir hvatningu og leiðsögn heilags anda. Við sjáum helgiathafnir musterisins verða vita styrks og ljóss fyrir réttláta menn og konur um allan heim.

Í þessum síðasta mánuði hef ég horft á ung hjón hljóta gríðalegan styrk frá loforðum innsiglunarinnar í musterinu, þegar dýrmætur sonur þeirra fæddist, en lifði einungis í eina viku. Með helgiathöfnum prestdæmisins meðtóku þessi ungu hjón huggun, styrk, vernd, frið og eilíf loforð, og það getum við öll gert.5

Það sem við vitum um prestdæmið

Sumir spyrja sig kannski einlæglega þessarar spurningar: „Ef kraftur og blessanir prestdæmisins eru öllum tiltækar, af hverju eru þær þá framkvæmdar af karlmönnum?“

Þegar engillinn spurði Nefí; „Þekkir þú lítillæti Guðs?“ Þá svaraði Nefí einlæglega; „Ég veit, að hann elskar börn sín. Samt þekki ég ekki merkingu allra hluta.“6

Þegar við tölum um prestdæmið þá er margt sem við vitum.

Allir eru eins

Við vitum að Guð elskar öll sín börn og að hann fer ekki í manngreinarálit. „Hann neitar engum að koma til sín, …karli né konu …allir eru jafnir fyrir Guði.“7

Eins áreiðanlega og við vitum að kærleikur Guðs er „jafn“ gagnvart sonum hans og dætrum, þá vitum við lika að hann skapaði karla og konur ekki nákvæmlega eins. Kynferði er eðlislægt einstaklingnum, einkenni og tilgangur í jarðneskri tilveru og um eilífð. Hvort kynið ber sína ákveðnu ábyrgð.8

Frá upphafi

Við vitum að Drottinn ákvað frá upphafi hvernig prestdæmi hans skyldi stjórnað. „Prestdæmið var fyrst veitt Adam.“9 Nói, Abraham og Móse veittu allir helgiathafnir prestdæmisins. Jesús Kristur var og er hinn mikli æðstiprestur. Hann kallaði postulana. „Ekki hafi þið útvalið mig, heldur hefi ég útvalið yður“10 sagði hann. Á okkar tímum komu himneskir sendiboðar frá Guði. Jóhannes skírari, Pétur, Jakob og Jóhannes endurreistu prestdæmið til jarðar fyrir tilverknað spámannsins Josephs Smith.11 Á þennan hátt hefur himneskur faðir stjórnað prestdæmi sínu.12

Margar gjafir frá Guði

Við vitum að kraftur hins heilaga prestdæmis virkar ekki ótengt trú, heilögum anda og andlegum gjöfum. Ritningarnar vara okkur: „[Hafnið] ekki gjöfum Guðs, því að þær eru margar.“ ... Gjafir þessar eru gefnar á margan hátt, en það er hinn sami Guð sem er að verki í þeim öllum.“13

Verðugleiki

Við vitum að verðugleiki spilar aðalhlutverkið í því að veita og meðtaka helgiathafnir prestdæmisins. Systir Linda K. Burton, aðalforseti Líknarfélagsins, hefur sagt; „Réttlætið er það sem gerir okkur hæf … til að bjóða krafti prestdæmisins í líf okkar.“14

Íhugið til dæmis þá plágu kláms sem geysist yfir heiminn. Staðall Drottins fyrir verðugleika leyfir ekki klám á meðal þeirra sem starfa við helgiahafnir prestdæmisins. Frelsarinn sagði:

„Iðrist …leyndrar viðurstyggðar.“15

„Augað er lampi líkamans. ... Sé auga þitt sjúkt, þá mun allur líkami þinn vera í myrkri.”16

„Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.”17

Samkvæmt því sem öldungur David A. Bednar hefur sagt, er það að blessa eða bera út sakramentið, blessa hina sjúku eða taka þátt í öðrum helgiathöfnum prestdæmisins óverðuglega, það sama og að leggja nafn Drottins við hégóma.18 Ef maðurinn er óverðugur, ætti hann að draga sig í hlé og taka ekki þátt í helgiathöfnum prestdæmisins, heldur fara til biskupsins með bæn í huga, sem fyrsta skrefið í iðrun og í því að snúa aftur til boðorðanna.

Auðmýkt

Annað sem við vitum, er að blessanir prestdæmisins eru ríkulegar á þeim heimilum þar sem réttlát móðir og faðir leiðbeina börnum sínum einhuga. Við vitum einnig að Guð veitir fólki fúslega við ýmsar aðrar aðstæður þessar sömu blessanir.19

Móðir, sem bar ábyrgð á því að sjá fyrir fjölskyldu sinni bæði andlega og veraldlega, útskýrði fyrir heimiliskennurum sínum, að það krefðist auðmýktar af hennar hálfu að biðja þá um að blessa eitt af börnum sínum. Hún bætti því hinsvegar við af innsæi, að það krefðist ekki meiri auðmýktar af henni en af heimiliskennurum hennar, er þeir byggju sig undir að blessa barnið.20

Lyklar prestdæmisins

Við vitum að lyklar prestdæmisins, sem eru í höndum Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar, ráða verki Drottins hér á jörðunni. Ákveðnir prestdæmislyklar eru veittir stikuforsetum og biskupum til að nota í sinni landfræðilegu ábyrgð. Með opinberun kalla þeir karla og konur, sem eru studd og sett í embætti, til þess að nota veitt valdsumboð til að kenna og stjórna.21

Þó að við vitum mikið um prestdæmið, veita jarðnesk sjóngler okkur ekki alltaf fullkominn skilning á starfsemi Guðs. En mild áminning hans um að: „Mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir, og yðar vegir ekki mínir vegir,“22 fullvissar okkur um að með tímanum og eilífu viðhorfi munum við sjá „hlutina eins og þeir í raun munu verða.“23 og skilja fullkominn kærleika hans betur.

Við þjónum öll fúslega. Stundum finnst okkur við ekki hafa nægilega áskorandi köllun og óskum þess að við værum beðin um að gera meira. Á öðrum stundum erum við þakklát þegar tími aflausnar rennur upp. Við veljum ekki kallanir okkar.24 Ég lærði þá lexíu snemma í hjónabandi mínu. Þegar ég og eiginkona mín, Kathy, vorum ung hjón, bjuggum við í Flórída. Einn sunnudaginn útskýrði ráðgjafi í stikuforsætisráðinu fyrir mér að þeim fyndist þeir knúnir til þess að kalla Kathy sem árdagstrúarskólakennara

„Hvernig gerum við það? “ spurði ég. „Við eigum lítil börn, trúarskólinn hefst kl. 5 að morgni og ég er forseti Piltafélagsins í deildinni.“

Ráðgjafinn brosti og sagði, „bróðir Andersen, það verður allt í lagi“ Við munum kalla hana og leysa þig af“

Það er það sem gerðist.

Framlag kvenna

Að biðja einlæglega um og hlusta eftir hugsunum og áhyggjum kvenna er nauðsynlegt í lífinu, hjónabandinu og í að byggja upp ríki Guðs.

Á aðalráðstefnu fyrir tuttugu árum sagði öldungur M. Russel Ballard frá samtali sem hann átti við aðalforseta Líknarfélagsins. Sú spurning vaknaði, hvernig styrkja mætti verðugleika unga fólksins sem var að búa sig undir trúboð. Systir Elaine Jack sagði brosandi: „Þú veist það, öldungur Ballard, að [konurnar] í kirkjunnar gætu haft góðar hugmyndir…ef þær [væru] spurðar. Við erum ... jú mæður þeirra!25

Thomas S. Monson forseti hefur ævilanga reynslu af því að þekkja áhyggjuefni kvenna og bregðast við þeim. Konan sem hefur haft mest áhrif á hann er systir Frances Monson. Við söknum hennar mjög mikið. Síðastliðinn fimmtudag minnti Monson forseti aðalvaldhafana á hvað hann hefði lært mikið af þeim 84 ekkjum sem voru í deild hans. Þær höfðu mikil áhrif á þjónustu hans og á allt líf hans.

Það skal engan undra, að áður en kom að bænheitri ákvörðun Monsons forseta um að breyta lágmarksaldri fyrir trúboðsþjónustu, voru margar umræður við aðalforsætisráð Líknarfélagsins, Stúlknafélagsins og Barnafélagsins.

Biskupar, er þið fylgið fordæmi Monson forseta, þá munuð þið finna jafnvel enn betur leiðbeinandi hönd Drottins, er hann blessar heilagt starf ykkar.

Í nokkur ár áttum við heima í Brasilíu. Fljótlega eftir að við komum á staðinn hittum við Adelson Parella, en hann þjónaði sem einn hinna Sjötíu, og bróður hans Adilson sem þjónaði í stikuforsætisráði okkar. Seinna hitti ég bróður þeirra Adalton, sem þjónaði sem stikuforseti í Florianopolis, og enn einn bróður Adelmo sem þjónaði sem biskup. Ég var hrifinn af trú þessara bræðra og ég spurðist fyrir um foreldra þeirra.

Fjölskyldan var skírð í Santos, Brasilíu, fyrir 42 árum síðan. Adilson Parella sagði: „Til að byrja með var faðir okkar mjög spenntur yfir því að ganga í kirkjuna. Hins vegar varð hann fljótlega lítt virkur, og bað móður okkar að fara ekki í kirkju.“

Adilson sagði mér að móðir hans hefði farið að sauma föt fyrir nágrannana til að borga strætógjaldið fyrir börn hennar til að komast til kirkju. Þessir fjórir litlu drengir gengu saman rúmlega mílu til næsta bæjar, fóru í 45 mínútna strætóferð og gengu síðan í aðrar 20 mínútur til kapellunnar.

Þó að hún gæti ekki farið til kirkju með börnum sínum, las systir Parrella ritningarnar með sonum sínum og dætrum, kenndi þeim fagnaðarerindið og bað með þeim. Auðmjúkt heimili þeirra var ríkt af blessunum prestæmiskraftsins. Litlu drengirnir uxu úr grasi, þjónuðu í trúboðu, fengu menntun og giftust í musterinu. Blessanir prestdæmisins fylltu heimili þeirra.

Árum síðar fór Vany de Paula Parrella, þá einhleyp systir, í musterið fyrir sína eigin musterisgjöf og enn síðar þjónaði hún í þremur trúboðum í Brasilíu. Enn þann dag í dag, nú 84 ára gömul, heldur trú hennar áfram að blessa ættliðina sem á eftir komu.

Vitnisburður og loforð

Kraft hins heilaga prestdæmis Guðs er að finna í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Er þið takið verðug þátt í helgiathöfnum prestdæmisins, þá mun Drottinn veita ykkur enn meiri styrk, frið og eilíft viðhorf. Hverjar svo sem aðstæður ykkar eru, þá mun heimili ykkar vera „blessað með styrk prestdæmiskraftsins“ og þeir sem eru nánir ykkur munu enn frekar óska sér þeirra blessana fyrir sig sjálfa.

Sem karlar og konur, systur og bræður, synir og dætur Guðs, sækjum við fram í sameiningu. Þetta er tækifærið okkar, ábyrgð okkar og blessanir. Þetta eru örlög okkar ‒ að undirbúa ríki Guðs fyrir endurkomu frelsarans. Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir

  Heimildir

  1. „Kærleikur talar hér,” Barnasöngbókin, 102.

  2. Persónulegur tölvupóstur, 5. ágúst, 2013.

  3. Kenning og sáttmálar 84:20.

  4. Sjá Kenning og sáttmálar 138:37, 51.

  5. Sjá Kenning og sáttmálar 84:35; 109:22.

  6. 1 Ne 11:16–17.

  7. 2 Ne 26:33.

  8. Sjá „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,” Ensign eða Líahóna, nóv. 2010, 129.

  9. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 104; sjá einnig Kenning og sáttmálar 84:16; 107:40–53; 128:18, 21; Russell M. Nelson, „Lessons from Eve,” Ensign, nóv. 1987, 86–89.

  10. Jóh 15:16.

  11. Sjá Joseph Smith‒Saga 1:72; sjá einnig Kenning og sáttmálar 13; 27.

  12. Sjá M. Russell Ballard, „Let Us Think Straight” (BYU Campus Education Week devotional, 20. ágúst 2013); speeches.byu.edu. Öldungur Ballard sagði: „Hvers vegna eru karlar vígðir til prestdæmisembætta en ekki konur? Gordon B. Hinckley forseti útskýrði, að það væri Drottinn, ekki maðurinn, sem, ávarðaði að karlar í kirkju hans ættu að vera prestdæmishafar,‘ og að það væri einnig Drottinn sem gæfi konum ‚getuna til að auka við og efla þessa miklu og stórkostlegu stofnun, sem er kirkjan og ríki Guðs‘ („Women of the Church,“ Ensign, nóv. 1996, 70). Þegar grannt er skoðað, hefur Drottinn ekki opinberað hvers vegna hann hefur skipulagt kirkjuna eins og hann hefur gert.“

  13. Moró 10:8.

  14. Linda K. Burton, „Priesthood: ‚A Sacred Trust to Be Used for the Benefit of Men, Women, and Children’” (Ávarp á kvenna ráðstefnu í Brigham Young University, 3 maí 2013); ce.byu.edu/cw/womensconference/pdf/archive/2013/lindaBurtonTalk.pdf.

  15. 3 Ne 30:2.

  16. Matt 6:22–23.

  17. Matt 5:28; sjá einnig Alma 39:9. Thomas S. Monson forseti sagði: „Klám er einkar hættulegt og ánetjandi. Forvitnileg könnun á klámi getur orðið að venju sem verður óviðráðanleg. Slíkt getur leitt til grófara efnis og kynferðissyndar. Forðist klámið algjörlega‟ („Preparation Brings Blessings,” Ensign eða Líahóna, maí 2010, 65).„Til fyllstu viðvörunar … eru engu að síður frásagnir af fjölda einstaklings sem nýta alnetið í illum og niðurlægjandi tilgangi, og er sýning á klámi það sem er fyrirferðamest í þeim tilgangi“ Bræður mínir og systur, þátttaka í slíku mun bókstaflega eyðileggja andann. Verið sterk. Verið hrein. Forðist slíka niðurlægjandi og eyðileggjandi þætti hvað sem það kostar — hvar svo sem þeir kunna að vera! Ég ætla öllum hvarvetna þessa viðvörun‟ („Until We Meet Again,” Ensign eða Líahóna, , maí 2009, 113).„Forðist klámið í öllum þess myndum. Það mun sljóvga andann og grafa undan samviskunni. Okkur er sagt í Kenningu og sáttmálum:, Það, sem ekki byggir upp, er ekki frá Guði, og er myrkur.‘ [Kenning og sáttmálar 50:23]” („True to the Faith,” Ensign eða Líahóna, maí 2006, 18–19).

  18. Sjá David A. Bednar, Act in Doctrine (2012), 53.

  19. Sjá Dallin H. Oaks, „Priesthood Authority in the Family and the Church,” Ensign eða Líahóna, nóv. 2005, 24–27.

  20. Persónulegur tölvupóstur, 5. ágúst, 2013; sjá Jakbr 5:14.

  21. Sjá Hebr 5:4.

  22. Jes 55:8.

  23. Jakob 4:13.

  24. Sjá Kenning og sáttmálar 81:4–5. Gordon B. Hinckley forseti sagði: „Skyldur ykkar eru jafn alvarlegar innan ykkar ábyrgðarsviðs og mínar skyldur eru innan míns ábyrgðarsviðs. Engin köllun í þessari kirkju er léttvæg eða lítilsmegnug‟ („This Is the Work of the Master,” Ensign, maí 1995, 71).

  25. M. Russell Ballard, „Strength in Counsel,” Ensign, nóv. 1993, 76.