2010–2019
Setjið traust ykkar á Drottin
Október 2013


Setjið traust ykkar á Drottin

Verið önnum kafin og gerið það sem þið getið við að deila þessum merka boðskap um endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists.

Við systir Ballard komum nýlega heim eftir að hafa heimsótt fimm lönd í Evrópu. Þar nutum við þeirra forréttinda að hitta marga af trúboðum okkar, ef til vill syni ykkar og dætur. Frá því að Thomas S. Monson forseti tilkynnti um lækkaðan trúboðsaldur ungra manna og kvenna, hefur mér hlotnast tækifæri til að hitta yfir 3.000 þeirra. Ljós Krists geislar af andliti þeirra og þau eru óðfús að miða verkinu áfram — að finna, kenna, skíra og virkja, og styrkja og byggja upp ríki Guðs. Þegar maður hittir þau, gerir maður sér hins vegar fljótt grein fyrir því að þau geta ekki gert þetta ein. Í dag langar mig að tala til allra þegna kirkjunnar, því það er áríðandi að við séum öll að vinna að því að deila fagnaðarerindinu.

Líkt og oft hefur verið vitnað í, hefur spámaðurinn Joseph Smith sagt: „Að öllu sögðu er mikilvægasta skylda okkar að boða fagnaðarerindið“ (Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith [2007], 330).

Árið 1974 sagði Spencer W. Kimball forseti þetta: „Mikilvægasta ástæðan fyrir trúboðsstarfi er að gefa heiminum tækifæri til að heyra og meðtaka fagnaðarerindið. Ritningarnar eru uppfullar af fyrirskipunum og loforðum, köllunum og umbunum fyrir það að kenna fagnaðarerindið. Ég nota orðið fyrirskipun af ásettu ráði, því að það hljómar eins og ítrekuð fyrirmæli sem við komumst ekki hjá, hvorki sem einstaklingar né heild“ („When the World Will Be Converted,“ Ensign, okt. 1974, 4).

Í júlí sama ár fórum við hjónin með börn okkar til að vera í forsæti trúboðs í Toronto, Kanada. Orð Kimballs forseta hljómuðu enn í eyrum mér, sérstaklega þessi: „Bræður mínir, ég velti fyrir mér hvort við erum að gera allt sem við getum. Erum við ánægðir með það verk okkar að kenna öllum heiminum? Við höfum nú stundað trúboð í 144 ár. Erum við tilbúnir að greikka sporið? Að útvíkka sýn okkar?“ (Ensign, okt. 1974, 5).

Hann bað okkur um að greikka sporið, að vinna saman að því að byggja upp kirkjuna og ríki Guðs.

Í júní síðastliðnum sagði Thomas S. Monson forseti nákvæmlega þessi sömu orð við alla þegna kirkjunnar. Forsetinn sagði: „Nú er tími fyrir þegna kirkjunnar og trúboðana að koma saman … [og] vinna í víngarði Drottins við að leiða sálir til hans. Hann hefur undirbúið ótal leiðir fyrir okkur til að deila fagnaðarerindinu og hann vill aðstoða okkur við starf okkar, ef við erum tilbúin að starfa í trú við að uppfylla verk hans“ („Faith in the Work of Salvation“ [ávarp flutt í sérstakri útsendingu, 23. júní 2013]; lds.org/broadcasts).

Bræður og systur, gott er að íhuga kenningar spámannanna frá tímum Josephs Smith, fram á þennan dag. Þeir hafa hvatt og kallað leiðtoga og þegna kirkjunnar til að starfa ötullega við að flytja endurreisnarboðskap fagnaðarerindisins til allra barna himnesks föður í heiminum.

Boðskapur minn til ykkar í dag er að Drottinn er að hraða verki sínu. Nú á okkar tímum er þetta einungis hægt, ef allir þegnar kirkjunnar leggja í kærleika sitt af mörkum við að deila sannleikanum um endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krist. Við verðum að vinna með þeim tæplega 80.000 trúboðum sem nú þjóna Upplýsingar um þetta mikla starf eru greinilega útlistaðar á heimasíðunni LDS.org, undir heitinu „Hastening the Work of Salvation“ og þá sérstaklega verkefni fyrir stiku- og deildarleiðtoga.

Af rannsóknum okkar vitum við að flestir starfandi þegnar kirkjunnar vilja að fagnaðarerindið sé hluti af lífi annarra sem þeim er annt um, jafnvel þeirra sem þeir hafa aldrei hitt. Við vitum einnig að tvær megin ástæður eru fyrir því að margir kirkjuþegnar hika við að taka þátt í trúboðsstarfi og deila fagnaðarerindinu.

  • Sú fyrri er ótti. Margir biðja ekki einu sinni fyrir tækifærum til að deila fagnaðarerindinu, af ótta við það að þeir gætu fengið himneska hvatningu um að gera eitthvað sem þeir treysta sér ekki til að gera.

  • Hin ástæðan er misskilningur á því hvað trúboðsstarf er.

Við vitum að þegar einhver stendur upp til að flytja ræðu á sakramentissamkomu og segir: „Í dag ætla ég að ræða um trúboðsstarfið,“ eða kannski þegar öldungur Ballard stendur upp á aðalráðstefnu og segir það sama, þá gætu einhverjir ykkar sem eruð að hlusta hugsað: „Ekki aftur, við höfum heyrt þetta áður.“

Við vitum það að engum líkar vel við sektarkennd. Kannski óttist þið að vera beðin um að gera óraunhæfa hluti í samskiptum ykkar við vini eða nágranna. Leyfið mér, með aðstoð Drottins, að fjarlægja allan ótta sem þið eða fastatrúboðar okkar gætuð haft við það að deila fagnaðarerindinu með öðrum.

Takið ákvörðun um að gera það sem Jesús hefur beðið okkur um að gera. Frelsarinn hefur sagt:

„Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.

Því að sérhver sá öðlast, er biður og sá finnur, er leitar og fyrir þeim mun upp lokið, er á knýr.

Eða hver er sá maður meðal yðar, sem gefur syni sínum stein, er hann biður um brauð?

Eða höggorm, þegar hann biður um fisk?

Fyrst þér, … hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann?“ (Matt 7:7–11).

Bræður og systur, einungis er hægt að skipta ótta út með trú og sjálfsöryggi, þegar kirkjuþegnar og fastatrúboðar krjúpa í bæn og biðja Drottin að blessa þá með tækifærum til trúboðsstarfs. Síðan verðum við að sýna trú okkar og leita tækifæra til að kynna fagnaðarerindi Jesú Krists fyrir börnum okkar himneska föður, þá munu tækifærin örugglega sýna sig. Þessi tækifæri munu aldrei krefjast þvingaðra eða tilgerðalegra viðbragða. Þau munu flæða eðlilega eins og kærleikurinn sem við höfum gagnvart bræðrum okkar og systrum. Verið bara jákvæð, þá munu þau sem þið talið við finna fyrir kærleika ykkar. Þau munu aldrei gleyma þeirri tilfinningu, jafnvel þó að tímasetningin sé kannski ekki rétt fyrir þau að meðtaka fagnaðarerindið. Það getur líka breyst í framtíðinni þegar aðstæður þeirra breytast.

Þegar þið eruð að gera ykkar besta í þjónustu Drottins, þá er útilokað að þið bregðist. Sú ábyrgð að deila fagnaðarerindinu er okkar og árangurinn er bundinn því hvernig aðrir iðka sjálfræði sitt.

Treystið Drottni. Hann er góði hirðirinn. Hann þekkir sauði sína og sauðir hans þekkja rödd hans og í dag er rödd góða hirðisins ykkar rödd og mín. Ef við erum ekki að vinna að þessu, þá munu margir missa af því að heyra boðskap endurreisnarinnar sem annars hefðu fengið að heyra hann. Þetta er einfalt, þetta er spurningin um trú og framkvæmd af okkar hálfu. Meginreglan er nokkuð einföld — biðjið, í einrúmi og með fjölskyldu ykkar, fyrir trúboðstækifærum. Drottinn sagði í Kenningu og sáttmálum, að margir hafi orðið af sannleikanum einungis „vegna þess að þeir vita ekki hvar hann er að finna“ (K&S 123:12).

Þið þurfið ekki að vera mannblendin eða málsnjallir, sannfærandi kennarar. Ef þið hafið stöðugan kærleika og von hið innra, þá hefur Drottinn lofað því, að ef þið „hefjið upp raust yðar til þessa fólks. Mælið fram það sem [hann] blæs ykkur í brjóst, … þurfið [þér] ekki að blygðast yðar fyrir mönnum

… yður mun gefið einmitt á þeirri stundu, já, á því andartaki, hvað segja skal“ (K&S 100:5–6).

Boða fagnaðarerindi mitt minnir okkur á að „ekkert gerist í trúboðsstarfinu fyrr en [við höfum] fundið einhvern til að kenna. Talið við eins margt fólk og þið getið á hverjum degi. Það er eðlilegt að vera dálítið hlédrægur við að tala við fólk, en þið getið beðist fyrir um þá trú og þann styrk sem þarf til að vera djarfari við að ljúka upp munni ykkar og segja frá endurreisn fagnaðarerindisins.“ ([2004], 156–57). Þið fastatrúboðar, ef þið viljið kenna meira, verðið þið að tala við fleira fólk á hverjum degi. Það hefur ávallt verið það verk sem Drottinn hefur sent trúboðana til að vinna.

Drottinn þekkir okkur. Hann veit að við höfum öll okkar áskoranir. Ég geri mér grein fyrir að ykkur gæti fundist þið bera þungar byrðar, en ég bið þess að enginn ykkar upplifi það nokkurn tíma að það sé ykkur byrði að deila fagnaðarerindinu. Það eru frekar forréttindi! Það er engin meiri gleði í lífinu en sú að starfa af kappi í þjónustu Drottins.

Lykillinn er að vera innblásinn af Guði, að geta beðið hann um leiðsögn og farið svo og fylgt hvatningu andans. Þegar kirkjuþegnar sjá sáluhjálparstarfið sem ábyrgð þeirra einna, þá getur það verið yfirþyrmandi. Það er hvetjandi, endurnærandi og upplyftandi þegar þeir sjá það sem boð að fylgja Drottni við að leiða sálir til hans svo að fastatrúboðarnir geti kennt þeim.

Við erum ekki að biðja alla um að gera allt. Við erum einfaldlega að biðja alla kirkjuþegna að biðja, vitandi að ef allir kirkjuþegnar, ungir sem aldnir, myndu bara rétta fram höndina til einhvers „eins“ á tímanum fram að jólum, þá munu milljónir finna elsku Drottins Jesú Krist. Þvílík dásamleg gjöf til frelsarans.

Fyrir tveimur vikum fékk ég bréf frá Munns-fjölskyldunni í Flórída, sem hefur gengið mjög vel í trúboðsstarfinu. Þau skrifuðu:

„Kæri öldungur Ballard, 30 mínútum eftir heimsútsendinguna um að hraða sáluhjálparstarfinu, héldum við fjölskyldan eigin trúboðsráðsfund. Við vorum spennt yfir að komast að því að barnabörn okkar, sem eru unglingar, vildu taka þátt. Við erum glöð að tilkynna, að síðan við héldum trúboðsráðsfundinn höfum við stækkað kennsluhóp fjölskyldunnar um 200 prósent.

Barnabörnin hafa komið með vini sína í kirkju, notið sakramentissamkomu með lítt virkum vinum okkar og fengið nokkra af gestum okkar til að lofa að taka á móti trúboðslexíunum. Ein af systrum okkar, sem var lítt virk í kirkjunni hefur ekki einungis komið aftur í kirkju, heldur líka komið með nýja trúarnema með sér.

Enginn hefur afþakkað boðið um að hlusta á lexíurnar hjá trúboðunum. En spennandi tími að vera þegn kirkjunnar“ (Einkabréf, 15. ágúst 2013).

Hugið að innblæstri andans. Biðjið Drottin einlæglega í bæn. Verið önnum kafin við að gera það sem þið getið, í að deila þessum merka boðskap um endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists.

Ég vitna í annan árangursríkan meðlimatrúboða, Clayton Christensen: „Í hvert sinn sem þú leiðir einhvern, í óeiginlegri merkingu, og kynnir hann eða hana fyrir Jesú Kristi, þá muntu finna hve mikið frelsari okkar elskar þig og elskar þann sem þú leiðir“(The Power of Everyday Missionaries: The What and How of Sharing the Gospel [2013], 1).

Guð blessi ykkur, bræður og systur, svo að þið megið finna þá miklu gleði sem kemur af því að upplifa kraftaverk í gegnum trú ykkar. Eins og okkur er kennt í 7. kapítula Moróní:

„Kristur hefur sagt: Ef þér trúið á mig, skuluð þér hafa kraft til að gjöra allt, sem mér er æskilegt. …

… því að með trú gjörast kraftaverkin, og með trú birtast englar og þjóna mönnum. Og vei sé mannanna börnum ef þessu linnir, því að svo verður aðeins vegna vantrúar, og allt er þá til einskis“ (Moró 7:33, 37).

Af eigin reynslu get ég borið ykkur vitni um að Drottinn mun heyra bænir ykkar og þið munuð fá mörg tækifæri núna og í framtíðinni, til að kynna fagnaðarerindi Jesú Krists fyrir dýrmætum börnum himnesks föður. Monson forseti, við heyrum orð þín. Við munum öll leitast við að finna hinn eina. Ég bið þess að við getum öll upplifað þá miklu gleði sem kemur af trúboðsstarfi, í nafni Jesú Krists, amen.