Sleppa aðallóðsun
Október 2013 | Kenna með krafti og valdi Guðs

Kenna með krafti og valdi Guðs

Október 2013 Aðalráðstefna

Drottinn hefur séð öllum verðugum Síðari daga heilögum fyrir leið til að kenna á sama hátt og frelsarinn.

Við erum ólýsanlega þakklátir fyrir kennara í kirkjunni allstaðar. Okkur þykir vænt um ykkur og við höfum fullt traust á ykkur. Þið eruð eitt af stórkostlegustu kraftaverkum hins endurreista fagnaðarerindis.

Það er sannarlega leyndardómur á bak við það að verða farsæll kennari fagnaðarerindisins, að kenna með krafti og valdi Guðs. Ég nota orðið leyndardómur, því að lögmálin sem góður árangur kennarans byggir á er einungis skiljanlegur þeim sem eiga vitnisburð um það sem gerðist að morgni fallegs, heiðskírs dags, snemma vors árið 1820.

Himnarnir lukust upp sem svar við auðmjúkri bæn 14 ára drengs. Guð hinn himneski faðir og sonur hans Jesús Kristur, birtust og töluðu við spámanninn Joseph Smith. Hin langþráða endurreisn allra hluta var hafin og lögmál opinberunar var endanlega stofnsett á okkar ráðstöfunartíma. Hægt er að draga skilaboð Josephs og skilaboð okkar til heimsins saman í tvö orð: „Guð talar.“ Hann talaði til forna, hann talaði við Joseph og hann mun tala við ykkur. Það er þetta sem greinir ykkur frá öllum öðrum kennurum í heiminum. Þetta er ástæðan fyrir því að ykkur getur ekki mistekist.

Þið hafið verið kölluð með anda spádóms og opinberunar og verið sett í embætti með prestdæmisvaldi. Hvað merkir þetta?“

Í fyrsta lagi þýðir það að þið eruð að vinna verk Drottins. Þið eruð umboðsmenn hans og þið hafið valdsumboðið og ykkur hefur verið veitt heimild til að vera fulltrúar hans og starfa í hans þágu. Sem umboðsmenn hans eigið þið rétt á aðstoð hans. Þið verðið að spyrja ykkur sjálf: „Hvað myndi frelsarinn segja ef hann væri að kenna bekknum mínum í dag og hvernig myndi hann segja það?“ Þið verðið að gera eins.

Þessi ábyrgð veldur því kannski að sumum finnst þeir vera ófullnægjandi og jafnvel óttaslegnir. Vegurinn er ekki erfiður. Drottinn hefur séð öllum verðugum Síðari daga heilögum fyrir leið til að kenna á sama hátt og frelsarinn.

Í öðru lagi, þið eruð kallaðir til að kenna fagnaðarerindi Jesú Krists. Þið megið ekki kenna ykkar eigin hugmyndir eða heimspeki, jafnvel blandað ritningum. Fagnaðarerindið er „kraftur Guðs til hjálpræðis, “1 og við frelsumst einungis fyrir fagnaðarerindið.

Í þriðja lagi er ykkur boðið að kenna kenningar fagnaðarerindisins eins og þær koma fram í höfuðritum kirkjunnar, að kenna orð nútíma postula og spámanna og kenna það sem heilagur andi kennir ykkur.

Hvar hefjum við þá starfið?

Aðalábyrgð okkar er að lifa á þann hátt að við getum haft heilagan anda sem leiðbeinanda og félaga. Þegar Hyrum sóttist eftir þvi að starfa í þessu síðari daga verki sagði Drottinn: „Sjá, þetta er verk þitt, að halda boðorð mín, já, af öllum mætti þínum, huga og styrk“2 Hér hefst starfið. Drottinn veitti Hyrum sama ráð og hann hefur veitt hinum heilögu á öllum tímum.

Þegar Æðsta forsætisráðið talaði til kennara í dag sögðu þeir: „Mikilvægasti þáttur þjónustu ykkar verður daglegur, andlegur undirbúningur ykkar, þar með talin bæn, ritningarlestur og hlýðni við boðorðin. Við hvetjum ykkur til að helga ykkur því að lifa eftir fagnaðarerindinu af sterkari hugsjón en áður.“3

Það er mjög þýðingarmikið að Æðsta forsætisráðið talaði ekki um að mikilvægasti hlutur þjónustu ykkar væri að undirbúa lexíu ykkar vel eða að fullkomna fjölbreyttar kennsluaðferðir. Að sjálfsögðu verðið þið að undirbúa ykkur vel fyrir hverja kennslustund og að kynna ykkur hvernig þið getið best kennt, svo að þið getið hjálpað nemendum ykkar að nýta valfrelsi sitt og leyfa fagnaðarerindinu að snerta hjörtu sín, en mikilvægasti þáttur þjónustu ykkar er persónulegur, andlegur undirbúningur. Er þið fylgið þessu ráði hefur Æðsta forsætisráðið gefið þessi loforð: Heilagur andi mun hjálpa ykkur að vita hvað er best að gera. Ykkar eigin vitnisburður mun vaxa, trúarsannfæring ykkar verður dýpri og þið fáið styrk til að takast á við áskoranir lífsins.“4

Getur kennari óskað sér meiri blessana?

Því næst hefur Drottinn boðið okkur að öðlast fyrst orð hans áður en við reynum að boða þau.5 Þið verðið að verða menn og konur með traustan skilning, með því að leita gaumgæfilega í ritningunum og varðveita þær í hjörtum ykkar. Þegar þið biðjið um aðstoð Drottins, þá mun hann blessa ykkur með anda sínum og orði. Þið munuð hafa kraft Guðs til að sannfæra menn.

Páll segir okkur að fagnaðarerindið berist til manna á tvennan hátt, í orði og í krafti.6 Orð fagnaðarerindisins er skráð í ritningunum og við getum hlotið það með því að leita gaumgæfilega. Kraftur fagnaðarerindisins kemur inn í líf þeirra sem lifa á þann hátt að heilagur andi sé félagi þeirra og sem fylgja hvatningu þeirri sem þeir fá. Sumir beina athygli sinni einungis að því að öðlast orðið og þau verða sérfræðingar í að miðla upplýsingum. Aðrir vanrækja undirbúning sinn og vona að Drottinn, í gæsku sinni, muni hjálpa þeim að bögglast einhvern veginn í gegnum kennslustundina. Þið getið ekki ætlast til þess að andinn hjálpi ykkur að rifja upp ritningargreinar og lögmál, sem þið hafa ekki lært eða íhugað. Til þess að geta kennt fagnaðarerindið farsællega verðið þið að hafa bæði orð og kraft fagnaðarerindisins.

Alma skildi þetta lögmál þegar hann fagnaði yfir sonum Mósía og því hvernig þeir kenndu með krafti og valdi Guðs. Við lesum:

„Þeir voru menn gæddir heilbrigðum skilningi og höfðu kynnt sér ritningarnar af kostgæfni til þess að öðlast þekkingu á orði Guðs.

En þetta var ekki allt, þeir höfðu beðið mikið og fastað, og höfðu þar af leiðandi anda … opinberunar.“7

Næst er að þið verðið að læra að hlusta. Öldungur Jeffrey R. Holland kenndi trúboðunum þessa meginreglu. Ég mun vitna í orð öldungs Holland, en hef tekið mér það bessaleyfi að skipta endurtekið út orðunum trúboðar og trúarnemar fyrir orðin kennarar og nemendur: „Næst því að hlusta á andann er mikilvægasta ábyrgð [kennarans] að hlusta á [nemandann]. …ef við hlustum með andlegum eyrum… þá munu [nemendur okkar] segja okkur hvaða lexíur þeir þurfa að læra.“

Öldungur Holland hélt áfram: „Staðreyndin er sú, að [kennarar] eru enn of uppteknir við það að flytja þægilega, endurtekna lexíu, í stað þess að einbeita sér að [nemendum] sínum hverjum fyrir sig.“8

Eftir að þið hafið af bestu getu undirbúið ykkur sjálf og lexíuna, verðið þið að vera tilbúin að sleppa taumnum. Þegar hljóðlát hvatning heilags anda kemur yfir ykkur, þá verðið þið að hafa hugrekki til að leggja kennsluáætlun ykkar og athugasemdir til hliðar og fylgja þeirri hvatningu þangað sem hún ber ykkur. Þegar þið gerið þetta, verður kennslustundin ekki lengur ykkar heldur kennslustund frelsarans.

Þegar þið helgið líf ykkar því að lifa eftir fagnaðarerindinu af sterkari hugsjón en áður og kannið ritningarnar og varðveitið þær í hjarta ykkar, þá mun heilagur andi, sá hinn sami og opinberaði postulum og spámönnum þessi orð til forna, vitna yfir ykkur um sannleiksgildi þeirra. Kjarni málsins er að heilagur andi mun opinbera ykkur þau aftur. Þegar það gerist, eru þessi orð sem þið lesið ekki lengur orð Nefís, Páls eða Alma, heldur ykkar eigin orð. Og þegar þið kennið, mun heilagur andi geta kennt ykkur alla hluti og kallað þá fram í minni ykkar. Sannlega „mun [yður] gefið einmitt á þeirri stundu, já á því andartaki, hvað segja skal.“9 Þegar þetta gerist munuð þið segja hluti sem þið ætluðuð ekkert að segja., Ef þið eruð meðvituð um það sem þið eruð að segja þegar þið kennið, þá munuð þið læra eitthvað af því sem þið segið. Marion G. Romney forseti sagði: „Ég veit ætíð þegar ég tala undir áhrifum heilags anda, vegna þess að þá læri ég alltaf eitthvað af því sem ég sagði.“10 Munið að kennari er líka nemandi.

Að lokum verðið þið að standa sem sjálfstætt vitni um það sem þið kennið og bergmála ekki bara orðin í kennsluhandbókinni eða hugsanir annarra. Þegar þið endurnærist af orði Krists og vinnið að því hörðum höndum að lifa eftir fagnaðarerindinu með sterkari ásetningi en áður, þá mun heilagur andi staðfesta fyrir ykkur að það sem þið eruð að kenna, er sannleikur. Þetta er andi opinberunar og þessi sami andi mun flytja boðskap ykkar inn í hjörtu þeirra sem þrá og eru fúsir að meðtaka hann.

Endum nú þar sem byrjuðum ‒ í Lundinum helga. Vegna þess sem þar gerðist á þessum fallega vormorgni, ekki alls fyrir löngu, þá hafið þið rétt á því að kenna með krafti og valdsumboði Guðs. Um það ber ég hátíðlega og sjálfstætt vitni, í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir

  Heimildir

  1. Róm 1:16.

  2. Kenning og sáttmálar 11:20.

  3. Æðsta forsætisráðið, í Teaching the Gospel in the Savior’s Way: A Guide to Come, Follow Me: Learning Resources for Youth (2012), 2.

  4. Æðsta forsætisráðið, í Teaching the Gospel in the Savior’s Way, 2.

  5. Sjá Kenning og sáttmálar 11:21.

  6. Sjá 1 Þess 1:5.

  7. Alma 17:2–3.

  8. Jeffrey R. Holland, „The Divine Commission” (ávarp flutt á ráðstefnu fyrir nýja trúboðsforseta, 26. júní, 2009), 7, 8, Church History Library, Salt Lake City; áherslur í frumskjali.

  9. Kenning og sáttmálar 100:6.

  10. Marion G. Romney, í Boyd K. Packer, Teach Ye Diligently (1975), 304.