Sleppa aðallóðsun
Október 2013 | Kenningar og reglur Trúaratriðanna

Kenningar og reglur Trúaratriðanna

Október 2013 Aðalráðstefna

Sérhvert Trúaratriði eykur einstæðu gildi sínu við skilning okkar á fagnaðarerindi Jesú Krists.

Mér varð strax hugsað til dásamlega Barnafélagskennara míns þegar mér var falið að tala á prestdæmisfundi aðalráðstefnunnar. Hún þráði heitt að búa okkur undir að meðtaka prestdæmið verðugir. Hún stóð fast við kröfurnar sem gerðar voru fyrir útskrift úr Barnafélaginu — læra utanbókar nöfnin á meðlimum Tólfpostulasveitarinnar og Trúaratriðin. Hún gaf okkur líka loforð — ef við gætum öll lært Trúaratriðin þrettán, þá mættum við velja einhvern stað úti í náttúrunni fyrir lokakennslustundina okkar í félaginu.

Við völdum sérstakan stað sem okkur þótti gaman að ganga á í klettahlíðunum, rétt fyrir ofan fyrstu stífluna við mynni Logan-gilsins í norðurhluta Utah. Það var lítill sléttur staður í þessum klettum, með náttúrlegt eldstæði, þar sem hægt var að elda pylsur og steikja sykurpúða. Þegar við völdum staðinn, tókum við ekki með í reikninginn kennara okkar, sem var roskin kona og alls ekki íþróttamannsleg. Ef við hefðum íhugað málið betur, hefðum við ef til vill áttað okkur á því að hún gæti átt erfitt með gönguna. Loforðið var samt hennar skuldbinding og hún fylgdi okkur vígreif.

Fyrst klifruðum við upp litlu hæðina. Á þeim tíma voru engar rafmagnslínur til hindrunar. Kennari okkar komst upp hæðina með smá hjálp. Þegar við vorum komin yfir hæðina lá leiðin niður klettahrygg á stað sem við kölluðum „Skjaldbökubakið.“

Það tók kennara okkar dálítla stund að ná andanum þegar við komum á leiðarenda. Þegar við settumst niður til að borða, hafði hún þó náð sér nægilega mikið til að geta kennt síðustu lexíuna okkar. Hún sagðist hafa notið þess innilega að kenna okkur í Barnafélaginu síðustu tvö árin. Hún hrósaði okkur fyrir að hafa lært Trúaratriðin utanbókar. Hún gat nefnt hvaða trúaratriði sem var með númeri og við gátum þulið það upp fyrir hana. Hún sagði utanbókarlærdóm Trúaratriðanna verða okkur lítið meira en orðin tóm, ef við skildum ekki þær kenningar og reglur sem þau innihéldu. Hún hvatti okkur til að læra þær kenningar fagnaðarerindisins sem væru í hverju Trúaratriði. Hún útskýrði að kenningunum í Trúaratriðunum væri skipt í hluta.

I. Guðdómurinn og frumreglur um Krist

Við lærum af fyrsta Trúaratriðinu að Guðdómurinn samanstendur af þremur verum: Guði föðurnum, Jesú Kristi og heilögum anda.

Annað Trúaratriðið kennir að á jörðunni séum við ábyrg fyrir eigin gjörðum.

Þriðja veitir okkur innsýn í ætlunarverk frelsarans til sáluhjálpar börnum himnesks föður.

Fjórða kennir okkur mikilvægi frumreglna og helgiathafna.

Áhrifamáttur orða kennara míns hefur verið mér innblástur, vegna áherslunnar sem hún lagði á trúarnámið. Ritningarnar kenna okkur reglur sannleikans, sem við getum notað til að meta þá vitneskju sem við hljótum, hvort hún er sönn eða fölsk. Sannar kenningar koma frá Guði, sem er uppspretta og undirstaða alls sannleika. Kenningar og hugtök sannra kenninga er að finna í fagnaðarerindi Drottins okkar og frelsara. Falskenningar koma frá Satan, föður allra lyga. Þrá hans er að rangsnúa og umbreyta sannleikanum. Hann vill blekkja okkur svo að sum okkar villist á leið okkar aftur til okkar himneska heimilis.

Ritningarnar kenna okkur hvernig forðast megi falskenningar. Í bréfi Páls til Tímóteusar lesum við til að mynda:

„Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti,

til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks“ (2 Tím 3:16–17).

Kenning þessi er kirkjunni sem rafhlaða í farsíma. Þegar þið takið rafhlöðuna úr farsíma ykkar, þá verður hann gangslaus. Kirkja er á sama hátt gagnslaus, séu sannar kenningar ekki lengur kenndar í henni. Hún mun ekki geta leiðbeint okkur til baka til himnesks föður og eilífs heimilis okkar.

II. Skipulag og regla prestdæmisins

Þegar við förum að skilja frumreglur Krists, þá kennir fimmta og sjötta Trúaratriðið okkur um skipulag og reglu prestdæmisins. Joseph Smith skipulagði kirkju frelsarans, undir leiðsögn Drottins, með valdsumboði prestdæmisins — krafti Guðs. Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er sama kirkjan og Jesús stofnaði og stjórnaði þegar hann lifði á jörðinni.

Hvílíkur dýrðardagur það var fyrir Joseph Smith og Oliver Cowdery í maí 1829, þegar þeir fóru inn í skóginn til að biðja varðandi kenninguna um skírn til fyrirgefningar synda, sem þeir höfðu lesið um er þeir voru að þýða Mormónsbók. Það voru margar kenningar um skírn kenndar af mismunandi kirkjum snemma á nítjándu öldinni og Joseph og Oliver vissu að ekki gætu þær allar verið sannar. Þeir vildu vita hver réttur háttur skírnar væri og einnig hver hefði valdsumboðið til að skíra.

Þeir voru bænheyrðir af Drottni, er sendiboði frá himni, Jóhannes skírari, birtist þeim. Hann lagði hendur á höfuð þeirra, og veitti þeim vald til að skíra með þessum orðum: „Yður, samþjónum mínum, veiti ég í nafni Messíasar Aronsprestdæmið“ (K&S 13:1).

Hvílíkur dásemdar dagur í sögu heimsins! Prestdæmið var endurreist á jörðu.

Þegar við meðtökum prestdæmið, hljótum við valdsumboð til að starfa í nafni Guðs og leiða á vegi sannleika og réttlætis. Þetta vald er nauðsynleg uppspretta réttláts kraftar og áhrifa til handa börnum Guðs á jörðunni og mun vara út yfir gröf og dauða. Nauðsynlegt var að endurreisa prestdæmið áður en hin sanna kirkja Jesú Krists væri skipulögð. Þetta er grundvallarlexían sem við lærum í fimmta og sjötta Trúaratriðinu.

III. Eilífar auðlindir á jarðnesku ferðalagi

Næstu þrjú Trúaratriðin — sjöunda, áttunda og níunda— útskýra auðlindirnar sem við höfum okkur til leiðbeiningar á okkar jarðneska ferðalagi. Okkur eru gefnar andlegar gjafir sem leiðbeina okkur, er við fylgjum kenningum Drottins, og vernda okkur frá illu. Ritningarnar eru aðrar leiðbeiningar – ef við lesum vandlega orð Guðs, þá mun hann opinbera okkur veginn til eilífs lífs.

Níunda Trúaratriðið kennir okkur að Guð hefur opinberað, opinberar nú og mun opinbera á komandi tíð mikið af stórfenglegum og mikilvægum sannleika til spámanna sinna, sjáenda og opinberara. Við lærum, að til viðbótar því að hlusta á hina lágu, hljóðlátu rödd andans og að lesa í ritningunum, þá eru kirkjuleiðtogar okkar, sem eru valdir, kallaðir og settir í embætti til að blessa líf okkar með kennslu sinni, enn aðrar auðlindir.

IV. Meðlimatrúboðar

Tíunda, ellefta og tólfta Trúaratriðið leiðbeina okkur hvernig standa skal að trúboðsstarfinu og boðun fagnaðarerindisins í heimi margra þjóða og mismunandi laga. Við lærum um samansöfnun Ísraels til að búa okkur undir síðari komu frelsarans. Okkur er kennt að karlar og konur hafi sjálfræði og að þau geti hvort heldur tekið á móti eða hafnað orði Guðs, samkvæmt eigin samvisku. Loks lærum við, að þegar við miðlum fagnaðarerindi Jesú Krists til alls heimsins, þá verðum við að virða stjórnvöld allra þeirra landa sem við komum til. Við trúum sannlega að við eigum að hlýða, virða og styðja lög hvers lands.

V. Eftirsóknarverðir eiginleikar

Þrettánda Trúaratriðið veitir sérstaka innsýn í hvernig við ættum að stjórna lífi okkar og breytni. Það hljóðar svo: „Vér trúum, að vér eigum að vera heiðvirð, sönn, skírlíf, góðgjörn, dyggðug og gjöra öllum mönnum gott. Vér getum í sannleika sagt, að vér förum eftir áminningu Páls: Vér trúum öllu, vér vonum allt, vér höfum staðist margt og vér vonumst til þess að geta staðist allt. Sé eitthvað dyggðugt, fagurt, háleitt eða lofsvert, þá sækjumst vér eftir því.“

Við ættum öll að leitast við að tileinka okkur þessa eiginleika og lifa lífi sem er dæmigert um þá. Sannleiksatriðin sem kennd eru í Trúaratriðunum byggja hvert á öðru, eins og hlutir í farsíma sem gangkvæmt styðja hvor annan. Líkt og vönduð framleiðslulína bætir einingahlutum við farsíma, svo veita Trúaratriðin okkur lykilkenningar endurreisnarinnar Sérhvert Trúaratriði eykur einstæðu gildi sínu við skilning okkar á fagnaðarerindi Jesú Krists.

Barnafélagskennari minn kenndi mér að læra kenningar ríkisins af staðfestu. Hún kenndi mér að leita að þeim dýpri skilningi sem er að finna í þessum einföldu Trúaratriðum. Hún lofaði mér, að ef ég gæfi mér tíma til að læra þennan helga sannleika, myndi sú þekking sem ég öðlaðist breyta lífi mínu til hins betra og ég ber vitni um að það hefur einmitt gerst.

Eftir að kennarinn minn hafði kennt hina dásamlegu lexíu á fjallinu í Logan-gilinu, tókum við eftir að við höfðum verið þar lengur en ráðgert hafði verið. Það var farið að kvölda og það rann upp fyrir okkur að okkur var vandi á höndum.

Kennarinn minn hafði átt erfitt með að komast á þennan sérstaka stað okkar og heimferðin var önnur stór áskorun. Þetta undirstrikaði í raun lélegt val okkar á staðsetningu. Fjallgangan til baka var erfið fyrir okkur, en jafnvel enn erfiðari fyrir manneskju á hennar aldri.

Tveir lögreglumenn birtust er við strituðum við að koma henni aftur upp hæðina. Barnafélagsforsetinn, sem óttaðist að við hefðum týnst, hafði beðið þá að fara að leita að okkur. Tilþrif ferðarinnar og lexían sem var kennd gerðu þetta að ógleymanlegri upplifun í lífi mínu.

Þið piltar — ég hvet ykkur til að nota skarpa hugi ykkar til að nema og læra Trúaratriðin og kenningarnar sem þau geyma. Þau eru ein af mikilvægustu og vissulega hnitmiðuðustu yfirlýsingum á kenningum kirkjunnar. Ef þið notið þau sem leiðarvísi í námi ykkar á fagnaðarerindi Jesú Krists, þá verðið þið undir það búnir að bera heiminum vitni um hinn endurreista sannleika. Þið munuð geta lýst yfir á einfaldan, auðskiljanlegan og djúpstæðan hátt kjarna trúar ykkar, sem er okkur, þegnum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, svo kær.

Ég bæti mínum vitnisburði við sannleiksgildi Trúaratriðanna þrettán, í nafni Drottins okkar og frelsara, já, Jesú Krists, amen.