2010–2019
Siðferðisþrek kvenna
Október 2013


Siðferðisþrek kvenna

Eðli ykkar er að gera gott, að vera góðar, og þegar þið fylgið heilögum anda, munu siðferðisþrek ykkar og áhrif vaxa.

Frá alda öðli hafa samfélög reitt sig á siðferðisþrek kvenna. Þótt þær séu vissulega ekki þær einu sem hafa jákvæð áhrif á samfélagið, hefur siðferðisþrek kvenna haft óviðjafnaleg áhrif almenningi til góðs. Kannski, vegna þess að það er svo almennt, er þetta framlag kvenna oft vanmetið. Ég tjái þakklæti mitt fyrir áhrif góðra kvenna, bendi á hugmyndafræði og tískusveiflur sem geta dregið úr styrk og stöðu kvenna og hvet konur til að leggja rækt við hið innra meðfædda siðferðisþrek sitt.

Konur koma með ákveðna dyggð með sér í heiminn, guðlega gjöf sem gerir þeim auðvelt að innræta eiginleika líkt og trú, hugrekki, samúð og siðfágun í samböndum og menningu. Þegar Páll lofaði „hina hræsnislausu trú,“ sem hann sá í Tímóteusi, benti hann á að trú hans hefði „fyrst [búið] í ... Lóis ömmu [hans] og í ... Evnike móður [hans].“1

Fyrir mörgum árum, er ég átti heima í Mexíkó, upplifði ég sjálfur hvað Páll átti við. Ég man eftir nokkuð ungri móður, einni af mörgum konum kirkjunnar í Mexíkó sem átti þá trú á Guð, er geislaði frá henni svo eðlislægum yndisþokka, að sjálf virtist hún ekki taka eftir honum. Af þessari yndislegu konu geislaði siðferðisþrek, ávöxtur gæskunnar, sem hafði varanleg áhrif á allt hennar umhverfi. Hún fórnaði, ásamt eiginmanni sínum, fjölda ánægjuefna og eigum, fyrir æðri forgang, að því að virtist án umhugsunar. Hæfni hennar til að drýgja dáð á börnum sínum, örva þau, móta og stilla, var næstum ofurmannleg. Skylduverk hennar voru mörg og verkefnin oft einsleit og hversdagsleg, en á bak við þau öll var fögur heiðríkja, sem vakti tilfinningu um verk Guðs. Hún hafði, líkt og frelsarinn, göfgast af því að blessa aðra með þjónustu og fórnum. Hún var persónugervingur kærleikans.

Ég hef notið mikilla blessana frá siðferðisáhrifum kvenna, einkum móður minnar og eiginkonu. Meðal annarra kvenna sem ég hugsa til í þakklæti er Anna Daines. Anna og eiginmaður hennar, Henry, og fjögur börn þeirra, voru meðal frumbyggja kirkjunnar í New Jersey í Bandaríkjunum. Í upphafi þriðja áratugs nítjándu aldar, þegar Henry var læknanemi við Rutgers-háskólann, störfuðu hann og Anna sleitulaust með skóla- og borgasamtökum í Metuchen, þar sem þau bjuggu, til að berjast á móti miklum fordómum gegn mormónum og gera samfélag sitt að betri uppeldisstað fyrir alla foreldra.

Anna vann til að mynda sjálfboðavinnu hjá hinum kristilegu piltasamtökum, KFUM, og gerði sig ómissandi. Innan árs var hún tilnefnd sem forseti Mæðrafélagsins og síðan „beðin um að bjóða sig fram í eitt af þremur kvenstörfunum í stjórn KFUM. Hún sigraði mótstöðulaust og varð þannig hluti af einmitt því ráði sem fáeinum árum áður hafði neitað hinum heilögu um leyfi til að koma saman í byggingu sinni!“2

Fjölskylda mín flutti í New Brunswick deildina þegar ég var táningur. Systir Daines veitti mér athygli og oft sagðist hún vera sannfærð um getu mína og hæfni og það hvatti mig til að leggja enn harðar að mér ‒ að ná lengra en ég hefði án hvatningar hennar. Hugulsamar og tímanlegar aðvaranir hennar forðuðu mér eitt sinn frá aðstæðum sem vissulega hefðu valdið eftirsjá. Þótt Anna Daines sé ekki lengur á meðal okkar, eru áhrif hennar varanleg og endurspeglast í lífi afkomenda hennar og ótal annarra, sem og í mínu eigin lífi.

Amma mín, Adena Warnick Swenson, kenndi mér að rækja prestdæmisþjónustu mína af samviskusemi. Hún hvatti mig til að læra sakramentisbænir brauðs og vatns utan bókar, og útskýrði að þannig gæti ég flutt þær af dýpri skilningi og hjartnæmi. Þegar ég fylgdist með því hvernig hún studdi afa minn, stikupatríarkann, fylltist ég lotningu fyrir helgum hlutum. Swenson amma lærði aldrei að aka bíl, en hún vissi hvernig hjálpa mætti piltum að vera menn prestdæmisins.

Siðferðisáhrif konu finnast hvergi betur, eða koma betur fram í góðum verkum, en á heimili hennar. Engin umgjörð er betri til uppeldis hinnar upprennandi kynslóðar en hin hefðbundna fjölskylda, þar sem faðir og móðir vinna samhuga að því að ala önn fyrir börnum sínum, kenna þeim og fóstra. Þar sem slík fyrirmynd er ekki fyrir hendi, reynir fólk að ná fram áxöxtum hennar eftir bestu getu og við sínar sérstöku aðstæður.

Móðir getur í öllu verið jafn áhrifamikil og hver annar, hvert sem tilefnið eða sambandið er. Með fordæmisáhrifum sínum og kennslu læra synir hennar að virða konuna og tileinka sér sjálfsaga og háan siðgæðisstaðal í eigin lífi. Dætrum hennar lærist að rækta sínar eigin dyggðir og standa með hinu rétta, aftur og aftur, hversu óvinsælt sem það er. Ást og miklar væntingar móður fær börn hennar til að breyta af ábyrgð, án afsökunar, til að taka menntun og eigin framþróun alvarlega og til að leggja sitt af mörkum til velferðar allra umhverfis þau. Öldungur Neal A. Maxwell spurði eitt sinn: „Þegar hin raunverulega saga mannkyns verður að fullu ljós, hvort mun þá bergmál vopnaskaksins eða mótandi hljómur vögguvísunnar vera í aðalhlutverki? Verða það mikilvæg vopnahlé samin af herkænskumönnum eða friðarstarf kvenna á heimilum og í byggðarlögum? Mun það sem gerist í vöggunni og í eldhúsinu reynast áhrifameira en það sem gerist á þjóðþingum?“3

Helgast er hlutverk kvenna í sköpun lífsins. Okkur er ljóst að efnislíkamar okkar eru af guðlegum uppruna4 og að við verðum að upplifa bæði líkamlega fæðingu og andlega endurfæðingu, til að ná æðstu hýbýlum Guðs í himneska ríkinu.5 Þannig gegna konur ómissandi hlutverki (hætta stundum sínu eigin lífi), í því verki Guðs og dýrð „að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.“6 Konur hafa, sem ömmur, mæður og fyrirmyndir, staðið vörð um uppsprettu lífsins, kennt hverri kynslóð mikilvægi kynferðislegs hreinleika ‒ skírlífi fyrir hjónaband og tryggð í hjónabandi. Á þann hátt hafa þær haft siðmenntandi áhrif á samfélag manna; þær hafa laðað fram það besta í körlum; þær hafa varðveitt heilnæmt umhverfi til uppeldis barna og til að tryggja heilbrigði þeirra.

Systur, ég vil ekki oflofa ykkur, líkt og við gerum stundum í mæðradagsræðum, og ykkur finnIst of mikið af því góða. Þið þurfið ekki að vera fullkomnar;7 ég vænti þess ekki að þið séuð það (með einni hugsanlegri undantekningu þó, en hún situr ekki all fjarri þessa stundina). Það sem ég hyggst segja er, að hvort sem þið eruð einhleypar eða giftar, hvort sem þið hafið fætt börn eða ekki, hvort sem þið eruð ungar eða aldnar eða þar á milli, þá er siðferðisþrek ykkar mikilvægt og kannski höfum við ekki metið það og ykkur sjálfar nægilega mikils. Vissulega eru sveiflur og öfl sem vinna að því að draga úr áhrifum ykkar og jafnvel uppræta þau, einstaklingum og fjölskyldum til mikils skaða og samfélaginu öllu. Ég bendi á þrennt til viðvörunar og áminningar.

Sú hugmyndafræði að draga úr mikilvægi hjónabands, mæðrahlutverks og húshalds sem lífsstarfi, er skaðleg og dregur úr siðferðisáhrifum kvenna. Sumir femínistar líta með algjörri fyrirlitningu á heimilishaldið, segja það vansæmandi fyrir konur og að þær linnulausu kröfur sem fylgja barnauppeldi séu ein mynd þrælkunar.8 Slíkir draga dár að því sem þeir kalla „mömmubrautina.“ Þetta er hvorki sanngjarnt, né rétt. Við drögum ekki úr gildi þess sem konur eða karlar áorka á einhverju verðugu sviði eða lífsstarfi ‒ við njótum góðs af þeim afrekum ‒ en gerum okkur samt grein fyrir því að ekkert er betra eða verðugra en mæðra‒ eða feðrahlutverkið í hjónabandi. Ekkert ævistarf og engin fjárupphæð, valdastaða eða frægð getur endanlega orðið meira virði en fjölskyldustarfið. Hverju svo sem konan fær afrekað, þá verða siðferðisáhrif hennar hvergi meiri né betri en í fjölskyldunni.

Viðhorf til kynferðis manna ógnar siðferðisþreki kvenna á nokkrum sviðum. Valfrjálsar fóstureyðingar, að persónulegum eða félagslegum hentugleika, höggva í rætur helgasta kraftar kvenna og draga úr siðferðisþreki þeirra. Hið sama á við um kynferðislega ósiðsemi og afhjúpandi klæðnað, sem ekki er aðeins konum til vansæmdar, heldur stuðlar að þeirri villu að kynferðið skilgreini virði þeirra.

Um langt skeið hefur verið ríkjandi menningarlegur tvíræðnistaðall, sem kveður á um kynferðislega forsjálni kvenna, en afsakar ósiðsemi karla. Ósanngirni slíks tvíræðnisstaðals er augljós, og hún hefur verið réttileg gagnrýnd og henni hafnað. Maður hefði vonað, eftir þá höfnun, að menn hefðu þess í stað tileinkað sér æðri siðferðisstaðal, en þveröfugt hefur gerst ‒ konur og stúlkur eru nú hvattar til að vera jafn lauslátar og tvíræðnisstaðallinn leyfði körlum að vera. Æðri staðlar kvenna gerðu áður kröfu um skuldbindingu og ábyrgð af hendi karla, en nú sitjum við uppi með frjáls kynferðissambönd, föðurlausar fjölskyldur og vaxandi fátækt. Jafnræði í lauslæti rænir konur einfaldlega siðferðisáhrifum sínum og er vansæmandi fyrir allt samfélagið.9 Við þessi slæmu umskipti eru það karlarnir sem „losna úr prísundinni“ og konurnar og börnin sem þjást mest.

Þriðja áhyggjuefnið má rekja til þeirra sem, í nafni jafnréttis, vilja að allur munur á karlkyni og kvenkyni hverfi. Oft leiðir þetta til þess að konum er ýtt út í að sækjast meira eftir eiginleikum karla ‒ að vera ágengari, harðskeyttari og óvægari. Nú er algengt í kvikmyndum og tölvuleikjum að sjá konur í miklum ofbeldishlutverkum, þar sem þær skilja eftir sig slóð limlestra og dauðra líkama. Það er sálardrepandi að sjá karla í slíkum hlutverkum og enn verra að sjá konur vera valdar að eða verða fyrir slíku ódæði.

Margaret D. Nadauld, fyrrverandi aðalforseti Stúlknafélagsins, kenndi: „Í heiminum er nóg af harðskeyttum konum; við þörfnumst ljúfra kvenna. Nógu margar konur eru hrjúfar í tali; við þörfnumst blíðmæltra kvenna. Nógu margar konur eru grófar; við þörfnumst fágaðra kvenna. Nógu margar konur eru frægar og fjáðar; við þörfnumst trúaðra kvenna. Nóg er af græðgi; við þörfnumst meiri gæsku. Nóg er af hégóma; við þörfnum meiri dyggðar. Nóg er af lýðhylli; við þörfnumst meiri hreinleika.“10 Í hinum óskýra kynjamun karla og kvenna, glötum við þeim séreinkennum, sem gefin eru körlum og konum og saman mynda heildræna mynd.

Í dag hvet ég konur og stúlkur til að varðveita og leggja rækt við siðferðisþrekið sem í þeim býr. Varðveitið hina ásköpuðu dyggð og þær sérstöku gjafir, sem þið komið með í heiminn. Eðli ykkar er að gera gott og að vera góðar, og þegar þið fylgið heilögum anda, mun siðferðisþrek ykkar og áhrif vaxa. Ungu konunum býð ég að glata ekki siðferðisþreki sínu áður en það vaknar til fulls. Gætið þess vandlega að málfar ykkar sé fágað, ekki gróft; að klæðnaður ykkar sé hógvær, ekki hégómlegur; og að hegðun ykkar sé siðsöm, ekki lauslát. Þið getið ekki annars vegar lyft öðrum til dyggðar, og hins vegar ástundað ódyggð.

Systur, af öllum ykkar samskiptum er það samfélagið við Guð sem er uppspretta siðferðisþreks ykkar, og verður ætíð að vera fremst í lífi ykkar. Hafið í huga að siðferðisþrek Jesú átti rætur í einbeittri hollustu hans við vilja föðurins. Hann gerði aðeins það sem faðirinn hafði velþóknun á.11 Kappkostið að vera slíkir lærisveinar föðurins og sonarins, og þá munu áhrif ykkar aldrei dvína.

Sækist eftir slíkum áhrifum, óttalaus og án undanbragða. „Verið ætíð [reiðubúin] að svara hverjum manni [, konu og barni]sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er.“12 „[Prédikið] orðið, gef [ykkur] að því í tíma og ótíma. Vanda um, ávíta, áminn með öllu langlyndi og fræðslu.“13 „[Alið] börn yðar upp í ljósi og sannleika.“14 [Kennið] börnum [ykkar] að biðja og ganga grandvör frammi fyrir Drottni.“15

Þessi aðvörunarorð til kvenna ætti enginn að misskilja af ásettu ráði. Er ég lofa siðferðisþrek kvenna og hvet til þess, er ég ekki að segja að karlar og piltar séu á einhvern hátt undanþegnir þeirri skyldu sinni að standa fyrir sannleika og réttlæti, að ábyrgð þeirra á að þjóna og fórna sé á einhvern hátt minni en kvenna, eða að sú ábyrgð sé bara þeirra. Bræður, við skulum standa með konunum, bera með þeim byrðarnar og rækta okkar eigið siðferðisþrek.

Kæru systur, við reiðum okkur á siðferðisþrekið sem þið komið með í heiminn, í hjónabandið, fjölskylduna og kirkjuna. Við reiðum okkur á blessanirnar sem þið kallið niður af himni með bænum ykkar og trú. Við biðjum fyrir öryggi ykkar, velferð og hamingju og að áhrif ykkar verði metin að verðleikum. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. 2 Tím 1:5.

  2. Orson Scott Card, „Neighborliness: Daines Style,” Ensign, apríl 1977, 19.

  3. Neal A. Maxwell, „The Women of God,” Ensign, maí 1978, 10–11.

  4. Sjá HDP Móse 2:27.

  5. Sjá HDP Móse 6:57–60.

  6. HDP Móse 1:39.

  7. „Fyrir einni öld komst fræðimaðurinn, John Bowlby, að því að böndin sem myndast milli móður og barns, með ótal kærleikssamskiptum, væru nauðsynlegur grunnur að félagslegum og tilfinningalegum þroska. ... Og femínistinn og fræðikonan, Sara Ruddick, skilgreindi ‚umhyggjusama elsku‘ móður sem kjarna góðs uppeldis. Fyrir ‚þolinmæði og elsku‘ þróa mæður sérstaka þekkingu á börnum sínum ‒ þekkingu sem veitir þeim sérstakoa insýn í það hvað hverju barni er sannlega fyrir bestu“ (Jenet Jacob Erickson, „Love, Not Perfection, Root of Good Mothering,” Deseret News, 12. maí 2013, G3).

  8. Satt er að margar konur hafa í áranna rás verið misnotaðar og hlaðnar ósanngjörnum byrðum, bæði í fjölskyldunni og starfi utan hennar, en óeigingirni og fórn ætti ekki að misnota eða notfæra sér. Öldungur Bruce C. Hafen sagði: „Ef ‚óeigingirni‘ merkir að kona þurfi að gefa frá sér eigin auðkenni og eigin framþróun, er sú skilgreining á óeigingirni röng. ... En frjálslyndi okkar tíma gengur allt of langt í hina áttina, staðlar konur sem algerlega óháðar fjölskyldu sinni. Mun betri skilningur er að eiginmaður og eiginkona séu háð hvort öðru. ... Þeir gagnrýnendur sem skilgreindu mæður sem annars vegar ósjálfstæðar eða hins vegar sjálfstæðar, slepptu meðalvegi gagnkvæms sjáfstæðis. Þeir sem endurskilgreindu mæður úr óeigingjörnum í eigingjarnar, slepptu meðalvegi sjálfvaldrar þjónustu, sem einmitt stuðlar að eigin framþróun kvenna. Vegna þessarar ýktu umræðu um gildi mæðrahlutverksins, hefur hún kaldhæðnislega ekki aðeins valdið almennri umræðu í samfélaginu um mæður, heldur líka almennt um konur“ („Motherhood and the Moral Influence of Women” [remarks to the World Congress of Families II, Geneva, Plenary Session IV, 16. nóv. 1999], http://worldcongress.org/wcf2_spkrs/wcf2_hafen.htm).

  9. Móðir ein sagði í grein í Wall Street Journal: „Með undantekningu sumra mormóna, mótmælenda og rétttrúaðra gyðinga, þá veit stór hluti okkar ekki hvernig á að kenna sonum okkar og dætrum að gefa ekki líkama sinn öðrum svo fúslega. ... En samt er það svo í mínum vinkvennahring, að löngunin til að gera það ekki, er sterk. Ég veit um enga þeirra sem ekki hefur undir niðri óþægilegar tilfinningar varðandi fyrri kynlífsreynslu sína. Engin kona sem ég hef spurt út í efnið, hefur sagst hafa viljað gera fleiri ‚tilraunir‘“ (Jennifer Moses, „Why Do We Let Them Dress Like That?” Wall Street Journal, 19. mars 2011, C3).

  10. Margaret D. Nadauld, „The Joy of Womanhood,” Ensign, nóv. 2000, 15; eða Líahóna, jan. 2001, 18.

  11. Sjá Jóh 8:29.

  12. 1 Pét 3:15.

  13. 2 Tím 4:2.

  14. Kenning og sáttmálar 93:40.

  15. Kenning og sáttmálar 68:28.