Krafturinn, gleðin og kærleikurinn sem stafa af því að halda sáttmála

Linda K. Burton

aðalforseti Líknarfélagsins


Linda K. Burton
Ég býð sérhverri okkar að meta hversu mikið við elskum frelsarann, og nota sem mælistiku hversu glaðlega við höldum sáttmála okkar.

Mig langar til að byrja með því að deila með ykkur sögu sem snertir hjarta mitt.

Kvöld eitt kallaði maður nokkur á sauði sína fimm að koma inn í byrgið fyrir nóttina. Fjölskylda hans fylgdist af áhuga með honum er hann einfaldlega kallaði: „Komið nú“ og allir sauðirnir fimm lyftu strax höfði sínu og sneru sér í áttina til hans. Fjórir sauðir hlupu af stað í áttina til hans. Hann klappaði hverjum þessara fjögurra sauða ástúðlega á höfuðið. Sauðirnir þekktu rödd hans og þeim þótti vænt um hann.

En fimmti sauðurinn kom ekki hlaupandi. Þetta var stór ær sem hafði fáeinum vikum fyrr verið gefin burt frá fyrri eiganda, sem sagði hana villta, duttlungafulla og alltaf leiða hina sauðina á villigötur. Nýi eigandinn tók á móti þessari á og festi hana við stiku á sínum eigin akri í nokkra daga, svo hún lærði að hlaupast ekki á brott. Með þolinmæði laðaði hann hana að sér og hinum sauðunum, þar til hún var að lokum einungis með taum um hálsinn en ekki lengur tjóðruð niður.

Þetta kvöld horfði fjölskyldan á manninn nálgast ána, sem stóð út við endimörk akursins, og segja aftur mjúklega: „Komdu nú. Þú ert ekki lengur bundin. Þú ert frjáls.“ Síðan teygði hann sig af kærleik til hennar, lagði hönd sína á höfuð hennar og gekk með hana og hina sauðina í átt að byrginu.1

Í anda þessarar sögu bið ég þess að heilagur andi hjálpi okkur að læra saman í kvöld um að halda sáttmála. Að gjöra og halda sáttmála þýðir að bindast föður okkar á himnum og Jesú Kristi. Það er að skuldbinda sig til að fylgja frelsaranum. Það er að treysta honum og þrá að sýna þakklæti fyrir það gjald sem hann greiddi til að gera okkur frjáls, hina óendanlegu gjöf friðþægingarinnar.

Öldungur Jeffrey R. Holland útskýrði: „Sáttmáli er bindandi andlegur samningur, alvarlegt loforð gefið Guði föður okkar, um að við munum lifa og hugsa og haga okkur á ákveðinn hátt — að hætti sonar hans, Jesú Krists. Í staðinn lofa faðirinn, sonurinn og heilagur andi okkur dýrð eilífs lífs.“2 Drottinn setur skilyrðin í þessum bindandi samningi og við samþykkjum að halda þau. Að gjöra og halda sáttmála er tjáning á skuldbindingu okkar um að verða líkari frelsaranum.3 Hinu fullkomna viðhorfi er best lýst í nokkrum setningum í ástkærum sálmi: „Ég fer hvert sem vilt að ég fari. … Mitt tal það skal vera sem vilt. … Og verk mín þér stjórnast af.“4

Hvers vegna að gjöra og halda sáttmála?

1. Að halda sáttmála veitir styrk, kraft og vernd.

Nefí sá í sýn þær þýðingarmiklu blessanir sem Drottinn veitir þeim sem halda sáttmála: „Og svo bar við að ég, Nefí, sá vald Guðslambsins. Það féll yfir hina heilögu í kirkju lambsins og yfir sáttmálsþjóð Drottins, sem dreifð var um allt yfirborð jarðar. Og þeir voru vopnaðir réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð.“5

Nýlega kynntist ég kærri vinkonu. Hún vitnaði um, að þegar hún hafði hlotið musterisgjöf sína, hefði hún verið styrkt með krafti til að standast freistingar sem hún hafði áður átt erfitt með.

Er við höldum sáttmála okkar, hljótum við einnig hugrekki og styrk til að hjálpa hvert öðru að bera hver annars byrðar. Niðurbrotin systir átti son sem gekk í gegnum erfiða stundlega reynslu. Vegna trúar sinnar á að Líknarfélagssystur haldi sáttmála sína, bað hún þær hugdjörf að fasta og biðja fyrir syni sínum. Önnur systir greindi frá því hvað hún óskaði þess að hafa beðið um álíka bænir fyrir systur sinni. Fyrir mörgum árum átti hennar eigin sonur í basli. Hún óskaði þess að hafa beðið þær að hjálpa fjölskyldu hennar að bera þessa byrði. Frelsarinn sagði: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“6

Ó systur, við höfum allar byrðar að bera og byrðar að deila. Boðið um að bera hver annars byrðar er boð um að halda sáttmála okkar. Ráðlegging Lucy Mack Smith til fyrstu Líknarfélagssystranna á betur við í dag en nokkru sinni fyrr: „Við verðum að umvefja hver aðra, annast hver aðra, hugga hver aðra og hljóta fræðslu, svo við fáum allar sæti saman á himnum.“7 Þetta er besta leiðin til að halda sáttmála og heimsóknarkenna!

Mormónsbók minnir okkur á, að jafnvel spámaðurinn Alma hafði byrðar að bera vegna uppreisnargjarns sonar síns. En Alma varð þeirrar blessunar aðnjótandi að eiga bræður og systur í trúnni sem héldu sáttmála, höfðu í einlægni snúið til Drottins og lært hvað það þýðir að bera hver annars byrðar. Við þekkjum versið í Mósía sem fjallar um hina miklu trú og bæn Alma fyrir hönd sonar síns. Heimildin segir að „Drottinn [hafi] heyrt bænir fólks síns og einnig bænir þjóns síns, Alma.“8

Við vitum að Drottinn gleðst ætíð „yfir þeirri sál sem iðrast,“9 en öll þráum við meira en nokkuð annað að börn okkar fylgi ráðleggingu Henrys B. Eyring forseta um að „byrja snemma og vera stöðug“ að gera og halda sáttmála.10 Fyrir skömmu síðan var ögrandi og einlæg spurning spurð í ráði leiðtoga prestdæmisins og aðildarfélaganna: Gerum við virkilega ráð fyrir því að átta ára gömul börn haldi sáttmála sína? Er við ráðguðumst saman var stungið upp á því að ein leið til að búa börn undir að gera og halda helga skírnarsáttmála, væri að hjálpa þeim að læra að gefa og halda einfalt loforð.

Trúfastir foreldrar eiga rétt á að vita hvernig best sé að kenna, til að mæta þörfum barna sinna. Er foreldrar leitast við að fá persónulega opinberun og fara eftir henni, ráðgast saman, þjóna og kenna hinar einföldu reglur fagnaðarerindisins, þá munu þau hafa kraft til að styrkja og vernda fjölskyldu sína. Aðrir í fjölskyldunni geta einnig hjálpað. Með einföldu sönglagi kenndi kær afi minn okkur mikilvægi þess að halda loforð sín. Það var einhvern veginn svona: „Áður en þú gefur loforð skaltu íhuga mikilvægi þess. Eftir að hafa gefið loforðið, skaltu greypa það í hjarta þitt. Greypa það í hjarta þitt.“ Þetta litla lag var kennt með ást, sannfæringu og krafti, því afi greypti sín eigin loforð í hjarta sitt.

Vitur móðir sem ég þekki hefur af ásettu ráði börn sín með sér í því framtaki sínu, að halda sáttmála sína. Hún ber glaðlega byrðar nágranna sinna, vina og deildarmeðlima — og huggar þá sem huggunar þarfnast. Það kom því ekki á óvart þegar ung dóttir hennar kom nýverið og leitaði ráða um hvernig hún gæti best huggað vin sinn sem hafði misst föður sinn. Þetta var fullkomið tækifæri til að kenna henni að löngun hennar eftir að hugga vin sinn væri einn þátturinn í því að halda skírnarsáttmála sinn. Hvernig getum við vænst þess að börnin geri og haldi musterissáttmála, ef við væntum þess ekki að þau haldi fyrsta sáttmálann sinn — skírnarsáttmálann?

Öldungur Richard G. Scott sagði: „Ein stærsta blessunin sem við getum boðið heiminum er kraftur þess heimilis, þar sem Kristur er miðpunkturinn, fagnaðarerindið er kennt, sáttmálar eru haldnir og kærleikurinn ríkir.“11 Hvernig getum við skapað slíkt heimili og þannig búið börn okkar undir að gera og halda musterissáttmála?

 1. Við getum uppgötað saman hvað felst í því að vera verðug musterismeðmæla.
 2. Við getum uppvötað saman hvernig hlusta eigi á heilagan anda. Okkur er nauðsyn að læra það, því musterisgjöfin er meðtekin með opinberun.
 3. Við getum uppgötað hvernig hægt er að læra með því að nota tákn og byrjað á hinum helgu táknum skírnar og sakramentis.
 4. Við getum uppgötað saman af hverju líkaminn er heilagur, hvers vegna hann er stundum kallaður musteri og hvernig siðsamlegur klæðnaður og útlit tengjast helgu eðli musterisklæðanna.
 5. Við getum uppgötað sæluáætlunina í ritningunum. Því betur sem við þekkjum áætlun himnesks föður og friðþæginguna í ritningunum, því þýðingarmeiri verður musterisþjónusta.
 6. Við getum lært saman sögur forfeðra okkar, unnið að ættfræði, skráð ættarsögu okkar, og framkvæmt eða látið framkvæma helgiathafnir musterisins fyrir látna ástvini.
 7. Við getum uppgötað saman merkingu hugtaka eins og musterisgjöf, helgiathöfn, innsiglun, prestdæmi, lyklar og önnur orð sem tengjast musterisþjónustu.
 8. Við getum kennt að við förum í musterið til að gera sáttmála við himneskan föður — við förum aftur heim til að halda þá!12

Við skulum muna eftir hugtakinu „góður, betri og bestur“ þegar við kennum.13 Gott er að kenna börnum okkar um musterið. Betra er að vænta þess að þau geri og haldi sáttmála, og búa þau undir það. Best er að sýna þeim með fordæmi að við höldum fast og fúslega okkar eigin skírnar- og musterissáttmála! Systur, gerum við okkur grein fyrir ómissandi hlutverki okkar í starfi sáluhjálpar, er við nærum, kennum og búum börnin undir framþróun á vegi sáttmálans? Krafturinn til að gjöra svo kemur er við höldum sáttmálana okkar.

2. Nauðsynlegt er að halda sáttmála sína til að öðlast sanna hamingju.

Monson forseti kenndi: „Við eigum að heiðra helga sáttmála og trúfesta við þá er skilyrði fyrir hamingju.”14 Við lesum í 2. Nefí: „Og svo bar við, að við lifðum eftir leiðum hamingjunnar“15 Fyrr í þessum sama kapítula lærum við að Nefí og fólk hans hafi nýlokið við að byggja musteri. Vissulega héldu þau sáttmála sína með gleði! Og í Alma lesum við: „En sjá. Meðal Nefíþjóðarinnar gat ekki hamingjuríkari tíma síðan á dögum Nefís en á dögum Morónís.“16 Hvers vegna? Aftur lærum við í versinu á undan, að þau „héldu boðorð Drottins [staðföst].“17 Þeir sem halda sáttmála halda boðorðin!

Ég elska ritninguna sem segir: „Og þegar fólkið hafði heyrt þessi orð [það er að segja orð skírnarsáttmálans], klappaði það saman höndum af gleði og hrópaði: Það er þetta, sem við þráum.“18 Ég elska þessa hjartans þrá þeirra. Með gleði þráðu þau að gera og halda sáttmála sína!

Einn sunnudag hrópaði ung systir glaðlega: „Ég fæ að taka sakramentið í dag!“ Hvenær kættumst við síðast yfir þeim forréttindum? Og hvernig sýnum við það? Við gerum það með því að muna ætíð eftir frelsaranum og halda ætíð boðorð hans, þar á meðal að halda hvíldardaginn heilagan. Við gerum það með því að muna ætíð eftir honum þegar við ætíð förum með einkabænir okkar og fjölskyldubænir, í daglegum ritningalestri og á vikulegum fjölskyldukvöldum. Og þegar við afvegaleiðumst, eða gerumst kærulausar varðandi þessa mikilvægu hluti, þá gjörum við iðrun og hefjumst handa á ný.

Að gera og halda sáttmála okkar fúslega staðfestir gildi og mikilvægi þeirra ómissandi og frelsandi helgiathafna sem við þurfum að meðtaka til að hljóta „allt sem [faðirinn] á.“19 Helgiathafnir og sáttmálar eru „andlegir áfangar“ sem Henry B. Eyring forseti benti á þegar hann kenndi: Síðari daga heilagir eru sáttmálsfólk. Frá skírnardegi og áfram í andlegum áföngum lífsins, gefum við Guði loforð og hann gefur okkur loforð. Hann heldur ætíð loforð sín, sem veitt eru með réttmætum þjónum hans, en það er hin raunverulega prófraun okkar, hvort við gerum og höldum sáttmála okkar við hann.“20

3. Við sýnum frelsaranum og föður okkar á himnum ást okkar með því að halda sáttmála okkar.

Ástæðurnar fyrir því að halda sáttmála okkar af kostgæfni eru margar, en þetta er sú sem ætti að knýja okkur mest: Að elska. Það er vers í Gamla testamentinu sem snertir hjarta mitt er við íhugum elskuna. Hver hrífst ekki af ástarsögu Jakobs og Rakelar, er við lesum: „Síðan vann Jakob fyrir Rakel í sjö ár, og þótti honum sem fáir dagar væru, sakir ástar þeirra, er hann bar til hennar“?21 Systur, höldum við sáttmála okkar af svo djúpri og trúrri elsku?

Hvers vegna var frelsarinn tilbúinn að halda sáttmála sinn við föðurinn og uppfylla það guðlega ætlunarverk sitt, að friðþæga fyrir syndir heimsins? Það var elska hans til föður síns á himnum og elska hans til okkar. Hvers vegna var faðirinn fús til að leyfa sínum eingetna og fullkomna syni að þjást, ólýsanlegum þjáningum, til að bera syndir, hugarangur, veikindi og vanlíðan alls heimsins og allt sem er ósanngjarnt í þessu lífi? Við finnum svarið í þessum orðum: „Því að svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn.“22

„Ef við kynnum að meta að fullu þær mörgu blessanir sem við hljótum með endurlausninni, sem gerð var fyrir okkur, þá væri ekkert sem Drottinn gæti beðið okkur um sem við myndum ekki áköf og fúslega gera.“23 Samkvæmt þessari yfirlýsingu Josephs Fielding Smith forseta er ein leið til að tjá elsku okkar fyrir hina óskiljanlegu og algjöru friðþægingu frelsara okkar og lausnara og hina fullkomnu elsku föður okkar á himnum sú, að halda sáttmála okkar.

Öldungur Holland leggur til: „Ég veit ekki fyrir víst hvað við upplifum á dómsdegi, en ég yrði afar undrandi ef Guð spyr okkur ekki á einhverjum tímapunkti spurningarinnar sem hann lagði fyrir Pétur: ,Elskar þú mig?‘“24 Í kvöld býð ég sérhverju okkar að meta hversu mikið við elskum frelsarann og nota sem mælistiku hversu glaðlega við höldum sáttmála okkar. Frelsarinn sagði: „ Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig“25 Við þurfum allar vissulega á því að halda að vera minntar reglulega á frelsarann í okkar daglega lífi!

Við skulum muna, að jafnvel þeir, sem afvegaleiddir hafa verið í áranna rás, eða eiga í dag í baráttu, geta fundið snertingu handar hins góða fjárhirðis á höfði sér og heyrt rödd hans segja: „Komdu nú. Þú ert ekki lengur bundin föst. Þú ert frjáls.“ Frelsarinn sagði: „Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina.“26 Þetta getur hann sagt vegna þess að hann hefur af elsku haldið sáttmála sína. Spurningin er því, munum við einnig gera það? Megum við halda áfram í trú með gleði í hjarta og heita þrá til að halda sáttmála. Á þann hátt sýnum við elsku okkar til föður okkar á himnum og frelsara okkar. Ég vitna um þá báða af miklum kærleika, í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanir

 1.  

  1. Sjá D. Todd Christofferson, „You Are Free,” Ensign, mars 2013, 38, 40; eða Líahóna, mars 2013, 16, 18.

 2.  

  2. Jeffrey R. Holland, „Keeping Covenants: A Message for Those Who Will Serve a Mission,” New Era, jan. 2012, 3; eða Líahóna, jan. 2012, 49.

 3.  

  3. Sjá „Understanding Our Covenants with God,” Ensign, júlí 2012, 25; eða Líahóna, júlí 2012, 23.

 4.  

  4. „Ég fer hvert sem vilt að ég fari,“ Sálmar, nr. 104, leturbr. hér.

 5.  

  5. 1 Ne 14:14.

 6.  

  6. Jóh 13:35.

 7.  

  7. Lucy Mack Smith, í Daughters in My Kingdom: The History and Work of Relief Society (2011), 25.

 8.  

  8. Mósía 27:14; skáletrað hér.

 9.  

  9. Kenning og sáttmálar 18:13.

 10.  

  10. Sjá Henry B. Eyring, „Spiritual Preparedness: Start Early and Be Steady,” Ensign eða Líahóna, nóv. 2005, 37–40.

 11.  

  11. Richard G. Scott, „For Peace at Home,” Ensign eða Líahóna, maí 2013, 30.

 12.  

  12. Sjá D. Todd Christofferson, „The Gospel Answers Life’s Problems and Challenges” (heimsþjálfunarfundur leiðtoga, febr. 2012); lds.org/broadcasts.

 13.  

  13. Sjá Dallin H. Oaks, „Good, Better, Best,” Ensign eða Líahóna, nóv. 2007, 104.

 14.  

  14. Thomas S. Monson, „Happiness—the Universal Quest,” Ensign, okt. 1993, 4; eða Líahóna, mars 1996, 5.

 15.  

  15. 2 Ne 5:27.

 16.  

  16. Alma 50:23.

 17.  

  17. Alma 50:22.

 18.  

  18. Mósía 18:11.

 19.  

  19. Kenning og sáttmálar 84:38.

 20.  

  20. Henry B. Eyring, „Witnesses for God,” Ensign, nóv. 1996, 30; skáletrað hér.

 21.  

  21. 1 Mós 29:20.

 22.  

  22. Jóh 3:16.

 23.  

  23. Joseph Fielding Smith, „Importance of the Sacrament Meeting,” Relief Society Magazine, okt. 1943, 592.

 24.  

  24. Jeffrey R. Holland, „The First Great Commandment,” Ensign eða Líahóna, nóv. 2012, 84.

 25.  

  25. Jóh 14:21.

 26.  

  26. Jóh 10:11.