2010–2019
Styrkur til að standast
Október 2013


Styrkur til að standast

Geta okkar til að vera réttlát allt til enda verður í beinu hlutfalli við styrk vitnisburðar okkar og dýpt trúarumbreytingar okkar.

Þegar við vöknum á hverjum morgni, tökum við á móti nýjum degi uppfullum af alls kyns áskorunum lífsins. Þær áskoranir eru mismunandi í eðli sínu: Líkamlegar áskoranir, fjárhagsleg bakslög, erfiðleikar í samböndum, tilfinningalegar raunir og jafnvel barátta við eigin trú.

Margan vandann sem við horfumst í augu við er hægt að leysa eða yfirstíga, hins vegar er annars konar vandi sem erfitt getur reynst að skilja og ómögulegt að yfirstíga og mun vera með okkur alla ævi. Það er mikilvægt að muna, að sá andlegi styrkur sem við þroskum með okkur, er við stöndumst áskoranir sem við getum leyst og höldum áfram að umbera þær áskoranir sem við getum ekki leyst, mun hjálpa okkur að takast á við allar áskoranir lífsins á árangursríkan hátt.

Bræður og systur, við eigum elskuríkan himneskan föður sem hefur mótað jarðlífið á þann máta að við getum sem einstaklingar lært lexíurnar sem við þurfum að læra til að verða hæf fyrir eilíft líf í návist hans.

Atvik úr lífi spámannsins Josephs Smith undirstrikar þessa reglu. Spámaðurinn og nokkrir félagar hans höfðu verið fangar í Liberty, Missouri, í marga mánuði. Spámaðurinn Joseph sárbað Drottin í auðmjúkri bæn, er hann þjáðist í fangelsinu, um að hinir heilögu fengju lausn frá þjáningum sínum. Drottinn svaraði með því að kenna spámanninum Joseph, og okkur öllum, að áskoranirnar sem við tökumst á við munu að lokum verða okkur til góðs, ef við stöndumst þær á árangursríkan hátt. Þetta er svar Drottins við bæn Josephs:

„Sonur minn, friður sé með sál þinni. Mótlæti þitt og þrengingar munu aðeins vara örskamma stund‒

Og ef þú stenst það vel, þá mun Guð upphefja þig í upphæðum.‟1

Himneskur faðir ætlar lífsferðlagi okkar að verða prófraun á persónuleika okkar. Við verðum bæði fyrir góðum og illum áhrifum og okkur er veitt siðferðislegt sjálfræði til að velja sjálf hvaða lífsstefnu við tökum. Eins og Samúel hinn forni spámaður Mormónsbókar kenndi: „Þér eruð frjálsir, yður leyfist að breyta sjálfstætt. Því að sjá, Guð hefur gefið yður þekkingu, og hann hefur gjört yður frjálsa.“2

Himneskur faðir skilur einnig, að vegna dauðleika okkar munum við ekki alltaf taka réttar eða réttlátar ákvarðanir. Við þurfum á hjálp að halda til að snúa aftur í návist hans, vegna þess að við erum ekki fullkomin og vegna þess að við gerum mistök. Nauðsynleg hjálp er veitt með kennslu, fordæmi og friðþægjandi fórn Jesú Krists. Friðþægjandi fórn frelsarans gerir framtíðar sáluhjálp okkar og upphafningu mögulega með reglunni um iðrun. Friðþægingin getur hjálpað okkur að verða hrein, breyta eðli okkar og standast áskoranir giftusamlega, ef við heiðarlega og einlæglega gjörum iðrun.

Að standa stöðug til enda er mikilvæg regla sem finna má í kenningum Jesú Krists. Hún er mikilvæg því gæði okkar eilífu framtíðar er í hlutfalli við getu okkar til að standast stöðug á réttlátan hátt.

Spámaðurinn Nefí kennir okkur, í 2. Nefí 31, að eftir að við höfum meðtekið endurleysandi helgiathöfn skírnarinnar, eins og Jesús Kristur gerði, og síðan meðtekið gjöf heilags anda, þá þurfum við „að sækja fram, [endurnærð] af orði Krists og [standa stöðug] allt til enda, sjá, þannig fórust föðurnum orð: [Við munum] öðlast eilíft líf.“3

Til þess að hljóta æðstu blessun himnesks föður, sem er eilíft líf, þurfum við þar af leiðandi að taka á móti viðeigandi helgiathöfnum og halda síðan þá sáttmála sem þeim fylgja. Við verðum, með öðrum orðum, að standast giftusamlega allt til enda.

Geta okkar til að vera réttlát allt til enda verður í beinu hlutfalli við styrk vitnisburðar okkar og dýpt trúarumbreytingar okkar. Þegar vitnisburðir okkar eru sterkir og við höfum sannlega snúist til trúar á fagnaðarerindi Jesú Krists, mun val okkar verða innblásið af heilögum anda, Kristur verður miðpunkturinn, og það mun styðja þrá okkar til að standast í réttlæti. Ef vitnisburðir okkar eru veikir og trúarumbreyting okkar yfirborðskennd, þá er miklu meiri hætta á því að við verðum lokkuð af fölskum hefðum heimsins til að taka afleitar ákvarðanir.

Mig langar til að deila með ykkur reynslu sem undirstrikar áreynsluna sem þarf til að standast líkamlega, og síðan að bera það saman við áreynsluna sem þarf til að standast andlega. Þegar ég kom heim af trúboði mínu fékk ég tækifæri til að spila körfubolta fyrir virtan þjálfara og rithöfund í háskóla í Kaliforníu. Þjálfara þessum var full alvara með að leikmenn hans ættu að vera í góðu líkamlegu formi áður en körfuboltatímabilið hæfist. Ein af forsendum þess að við fengjum að snerta körfuboltann á æfingarvelli, var að hlaupa víðavangshlaup á braut, sem lögð var í hæðunum nærri skólanum, á tilskildum og mjög stuttum tíma. Ég man eftir fyrstu tilraun minni til að hlaupa þetta víðavangshlaup, rétt eftir að ég kom af trúboðsakrinum: Ég hélt að ég mundi deyja.

Það þurfti margar vikur af stífri þjálfun til að geta að lokum náð tímanum sem þjálfarinn setti. Það var frábær tilfinning að geta ekki eingöngu hlaupið brautina, heldur einnig aukið hraðann niður lokakaflann að markinu.

Maður þarf að komast í gott form til að geta spilað körfubolta vel. Það þarf að greiða gjald til að komast í gott líkamlegt form og gjaldið er hollusta, þrautseigja og sjálfsagi. Gjald þarf einnig að greiða fyrir andlegt úthald. Gjaldið er hið sama: Hollusta, þrautseigja og sjálfsagi.

Vitnisburður, rétt eins og líkami ykkar, þarf að vera sterkur, ef þið ætlið að standast. Hvernig höldum við vitnisburði okkar sterkum? Við getum ekki komið líkama okkar í gott körfuboltaform með því einfaldlega að horfa á körfubolta í sjónvarpinu. Á sama hátt getum við ekki komið vitnisburði okkar í form með því einfaldlega að horfa á aðalráðstefnu í sjónvarpinu. Við þurfum að nema og læra grunnreglur fagnaðarerindis Jesú Krists og síðan verðum við að gera okkar besta til að lifa eftir þeim. Þannig verðum við lærisveinar Jesú Krists og þannig byggjum við upp vitnisburð sem stenst.

Það er frumskilyrði að vera andlega undirbúin þegar við horfumst í augu við áskoranir lífsins og þrá okkar er að líkja eftir eiginleikum Jesú Krists. Að vera andlega undirbúin þýðir að hafa þroskað með sér andlegt úthald eða styrk — við erum í góðu andlegu formi. Við munum verða í svo góðu andlegu formi að við munum stöðugt velja rétt. Við munu verða óbifanleg í þrá okkar og getu til að lifa eftir fagnaðarerindinu. Eins og nafnlaus höfundur hefur sagt: „Þú verður að verða sá steinn sem áin nær ekki að skola í burtu.“

Það er mikilvægt að við leggjum okkur fram daglega við að byggja upp andlegan styrk, vegna þess að við stöndum frammi fyrir áskorunum á hverjum degi. Þegar við þróum með okkur andlegt úthald munu falskar hefðir heimsins, sem og persónulegar áskoranir okkar, lítil neikvæð áhrif hafa á getu okkar til að standast í réttlæti.

Gott dæmi um andlegt úthald er að finna í okkar eigin ættarsögu. Meðal sagna forfeðra okkar munum við finna dæmi sem sýna jákvæðar hliðar þess að standa stöðug.

Saga úr minni eigin ættarsögu sýnir þessa reglu. Langafi minn, Joseph Watson Maynes, fæddist árið 1856 í Hull, Yorkshire á Englandi. Fjölskylda hans gekk í kirkjuna á Englandi og ferðaðist svo til Saltvatnsborgar. Hann giftist Emily Keep árið 1883 og eignuðust þau átta börn. Joseph var kallaður sem fastatrúboði í júní 1910 þegar hann var 53 ára gamall. Með stuðningi eiginkonu sinnar og barna sneri hann til ættjarðar sinnar, Englands, til að þjóna í trúboði.

Eftir að hafa þjónað trúfastlega í tæp tvö ár var hann eitt sinn að hjóla með félaga sínum á leið í sunnudagskólann í Gloucester, þegar dekkið sprakk á reiðhjóli hans. Hann fór af hjólinu til að skoða skaðann. Þegar hann sá að skaðinn var þó nokkur og tíma tæki að laga hann, bauð hann félaga sínum að halda áfram og hefja sunnudagaskólann, og hann kæmi síðar. Þegar hann var í þann mund að ljúka viðgerðinni féll hann til jarðar. Hann hafði látist skyndilega af hjartaslagi.

Joseph Watson Maynes sá aldrei eiginkonu sína og átta börn aftur í þessu lífi. Þau gátu látið flytja líkamsleifar hans aftur til Saltvatnsborgar og jarðaför hans fór fram í gamla Waterloo-samkomuhúsinu. Öldungur Anthony W. Ivins í Tólfpostulasveitinni, sagði eftirfarandi orð við útförina, og þau kenna okkur mikilvæga lexíu um lífið, dauðann og að standast: „Það er þetta sem fagnaðarerindið gefur okkur ‒ ekki friðhelgi frá dauða, heldur sigur yfir dauðanum með þeirri von sem við höfum um dýrðlega upprisu. … Þetta á við um [Joseph Maynes]. … Það er ánægja, velþóknun og gleði að vita, að menn leggja líf sitt í sölurnar, í réttlæti, í trú og sannir í trúnni.“4

Þessi ættarsögufrásögn er mér hvatning til að reyna mitt allra besta, að fylgja þessu fordæmi úthalds og andlegs styrks sem langafi minn sýndi. Ég er jafn hrifinn af þeirri trú sem eiginkona hans, Emily, sýndi eftir andlát Josephs, því byrðar hennar voru sannlega þungar. Vitnisburður hennar var sterkur og trúarumbreyting hennar algjör, er hún sönn í trúnni varði restinni af lífi sínu við að framfleyta átta börnum sínum.

Páll postuli sagði: „Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan.“5 Skeiðið sem framundan er á þessari jörðu er úthaldskeppni, full af hindrunum. Hindranirnar í þessari keppni eru áskoranirnar sem við vöknum upp við á hverjum morgni. Við erum hér á jörðunni til að taka þátt í keppninni, til að iðka siðferðilegt sjálfræði okkar og velja milli þess sem rétt er og rangt. Við þurfum að greiða gjald hollustu, þrautseigju og sjálfsaga til að geta lokið keppninni á virðingarverðan og giftusamlegan hátt og snúa aftur til himnesks föður okkar. Við þurfum að komast í andlegt form. Við þurfum að þroska með okkur andlegt úthald. Við þurfum sterka vitnisburði sem leiða til sannrar trúarumbreytingar og árangurinn verður sá innri friður og styrkur sem við þurfum á að halda til að standast hvaða áskorun sem á vegi okkar verður.

Munið því, sama hvaða áskoranir þið vaknið upp við á hverjum morgni ‒ að með þeim andlega styrk sem ykkur áskotnast og með Drottins hjálp, munuð þið í lok kapphlaupsins geta notið sjálfstraustsins sem Páll postuli fjallaði um er hann sagði:

„Nú er svo komið, að mér verður fórnfært, og tíminn er kominn, að ég taki mig upp.

Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.

Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins, sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi.“6

Ég gef ykkur minn vitnisburð og mitt vitni um raunveruleika ástríks himnesks föður og hans miklu eilífu sæluáætlunar, sem hefur fært okkur til þessarar jarðar á þessum tíma. Megi andi Drottins veita okkur öllum nægan innblástur til að þróa með okkur sjálfum styrk til að standast. Í nafni Jesú Krists, amen.