Sleppa aðallóðsun
Október 2013 | Uns við hittumst á ný

Uns við hittumst á ný

Október 2013 Aðalráðstefna

Megum við sýna hvert öðru aukna gæsku og megum við ætíð helga okkur verki Drottins.

Kæru bræður og systur, ég er fullur þakklætis er ég lýk þessari dásamlegu aðalráðstefnu kirkjunnar. Við höfum hlotið andlega næringu við að hlusta á leiðsögn og vitnisburði allra þeirra sem hér hafa tekið til máls.

Hve mikil blessun það er að hafa átt þess kost að koma saman hér í þessari stórkostlegu Ráðstefnuhöll, í friði og öryggi. Umfang ráðstefnunnar er fordæmislaust, spannar yfir höf og meginlönd og nær til fólks hvarvetna. Við finnum fyrir anda ykkar þótt við séum langt í burtu frá mörgum ykkar.

Ykkur, bræðrunum sem hafið verið leystir frá störfum á ráðstefnunni, færi ég innilegar þakkir frá allri kirkjunni fyrir þau mörgu ár sem þið hafið þjónað dyggilega. Þeir eru óteljandi sem hlotið hafa blessun af framlagi ykkar til verks Drottins.

Ég þakka Laufskálakórnum og hinum kórunum sem sungu fyrir okkur á þessari ráðstefnu. Tónlistin hefur verið falleg og hefur aukið stórlega andann sem við höfum fundið á sérhverjum ráðstefnuhluta.

Þakka ykkur fyrir bænir ykkar í mína þágu og í þágu allra aðalvaldhafa kirkjunnar og yfirmanna kirkjunnar. Þær styrkja okkur.

Megi blessanir himins vera með ykkur. Megi heimili ykkar fyllast elsku og háttprýði og anda Drottins. Megið þið stöðugt næra vitnisburð ykkar um fagnaðarerindið, svo hann veiti ykkur vernd gegn andstæðingnum.

Ráðstefnunni lýkur nú. Megi öryggið vera í fyrirrúmi er við höldum til heimila okkar. Megi sá andi sem við höfum fundið hér vera með okkur er við tökumst á við okkar daglega líf. Megum við sýna hvert öðru aukna gæsku og megum við ætíð helga okkur verki Drottins.

Megi Guð blessa ykkur, bræður mínir og systur. Megi hans lofaði friður vera með ykkur í dag og ævinlega. Ég kveð ykkur þar til við hittumst aftur eftir sex mánuði. Í nafni frelsara okkar, já, Drottins Jesú Krists, amen.