2010–2019
Til barnabarna minna
Október 2013


Til barnabarna minna

Það er eitt altækt boðorð sem auðveldar erfiðleika og stuðlar að hamingjuríku fjölskyldulífi.

Á þessu ári munu fyrstu tvö barnabörn mín gifta sig. Innan fárra ára eru 10 systkinabörn þeirra líkleg til að ná þeim áfanga í lífi sínu að upplifa hinn dásamlega heim fjölskyldusköpunar.

Þessi gleðilega tilhugsun hefur knúið mig til vandlegrar íhugunar, er þau hafa spurt mig ráða. Í meginatriðum hafa þau spurt: „Hvaða valkosti ætti ég að velja sem leiða til hamingju?“ Og hins vegar: „Hvaða valkostir eru líklegir til að valda mér óhamingju?“

Himneskur faðir hefur gert sérhvert okkar einstakt. Engir tveir hafa nákvæmlega sömu reynslu. Engar tvær fjölskyldur eru eins. Það er því engin furða að erfitt reynist að veita leiðsögn um hvernig við veljum hamingjuríkt fjölskyldulíf. Þó hefur kærleiksríkur himneskur faðir ætlað öllum börnum sínum að ganga sama hamingjuveginn. Hverjir sem persónueiginleikar okkar eru eða hver sem reynsla okkar verður, er sæluáætlunin aðeins ein. Sú áætlun er að lifa eftir öllum boðorðum Guðs.

Það sem á við okkur öll, líka áformuð hjónabönd barnabarna minna, er eitt altækt boðorð sem auðveldar erfiðleika og stuðlar að hamingjuríku fjölskyldulífi. Það á við um öll sambönd, hverjar sem aðstæðurnar eru. Það er endurtekið hvarvetna í ritningunum og kenningum spámanna okkar tíma. Hér eru orð Biblíunnar og leiðsögn Drottins til allra sem vilja lifa saman að eilífu í ástríki og hamingju:

„Og einn þeirra, sem var lögvitringur, vildi freista hans og spurði:

„Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?

„Hann svaraði honum: Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.

Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.

Annað er þessu líkt: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.

Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“1

Af þessum einföldu orðum er ekki erfitt að draga saman allt sem ég hef lært um valkosti sem leiða til hamingju í fjölskyldulífi. Ég spyr fyrst: „Hvaða valkostir hafa fengið mig til að elska Drottin af öllu hjarta, allri sálu og öllum huga?“ Fyrir mig hefur það verið að velja að vera þar sem ég hef fundið gleði fyrirgefningar fyrir friðþægingu Drottins.

Fyrir mörgum árum skírði ég ungan mann í Albuquerque, Nýju Mexíkó, sem ég og trúboðsfélagi minn höfðum kennt. Ég dýfði unga manninum í vatnið og lyfti honum upp. Hann hlýtur að hafa verið nærri sama hæð og ég, því hann talaði beint í eyra mér. Blautur eftir dýfinguna, með tár á vöngum og gleðirómi, sagði hann: „Ég er hreinn, ég er hreinn.“

Ég hef séð þessi sömu gleðitár í augum þess sem tekið hefur á móti orðum postula Guðs. Eftir ítarlegt og ljúft viðtal, sagði hann við hana: „Ég fyrirgef þér í nafni Drottins. Hann mun veita þér fullvissuna um fyrirgefningu sína á sínum tíma og á sinn hátt.“ Og það gerði hann.

Ég hef séð hvers vegna Drottinn getur sagt þegar syndir eru fyrirgefnar, að hann minnist þeirra ekki lengur. Fyrir kraft friðþægingarinnar hefur fólk sem ég þekki vel og elska endurnýjast, og áhrif syndar hafa horfið. Hjarta mitt hefur fyllst kærleika til frelsarans og ástkærs föður sem sendi hann.

Sú mikla blessun hefur hlotnast með því að hvetja fólk sem ég ann til að fara til frelsarans, til lausnar frá sársauka sem aðeins hann megnar að veita. Þess vegna hvet ég þá sem ég elska til að taka á móti sérhverri köllun sem þeim er færð í kirkjunni og efla hana. Sá valkostur er einn mikilvægur lykill að hamingju fjölskyldunnar.

Þrýstingurinn á öllum lífsins sviðum getur freistað okkar til að hafna eða vanrækja kallanir til að þjóna frelsaranum. Það getur kallað yfir okkur sjálf, maka okkar og fjölskyldu andlegan háska. Sumar þessar kallanir gætu virst léttvægar, en líf mitt, og fjölskyldu minnar, breyttist til hins betra af því að ég tók á móti köllun til að kenna djáknasveit. Ég skynjaði elsku þeirra djákna til frelsarans og elsku hans til þeirra.

Ég hef séð það gerast í lífi fyrrverandi stiku- og trúboðsforseta, í köllun hans sem leiðbeinanda kennarasveitar. Ég veit um annan sem hefur verið biskup og síðan svæðishafi Sjötíu, sem Drottinn notaði til að liðsinna dreng í kennarasveit, sem meiddist í slysi. Kraftaverk þeirrar þjónustu hafði áhrif á marga, líka mig, og jók elsku þeirra til frelsarans.

Þegar við þjónum öðrum erum við líkleg til að njóta samfélags heilags anda. Árangur í þjónustu Drottins stuðlar ætíð að kraftaverkum handan eigin getu. Foreldrar með alvarlega mótþróafullt barn þekkja þann sannleika, og líka heimsóknarkennarar sem liðsinna konu sem leitar huggunar eftir að eiginmaður hennar segist fara frá henni. Báðir þjónar verða þakklátir fyrir að þau báðust fyrir um morgunin, báðu um að Drottinn sendi heilagan anda þeim til samfélags.

Aðeins með samfélagi heilags anda fáum við vonað að við berum byrðarnar saman og forðumst missætti. Ég hef séð hvernig það samfélag hefur skipt sköpum fyrir hamingjuríkt hjónaband. Kraftaverk þess að verða eitt krefst hjálpar himins og það tekur tíma. Markmið okkar er að lifa saman að eilífu í návist himnesks föður og frelsara okkar.

Faðir minn og móðir voru afar ólík hvort öðru. Móðir mín var söngkona og listamaður. Faðir minn hafði unun af efnafræði. Eitt sinn varð móðir mín undrandi á sinfóníutónleikum þegar faðir minn stóð upp og hugðist fara áður en lófatakið hófst. Móðir mín spurði hvert hann væri að fara. Hann svaraði af mesta sakleysi: „Er þetta ekki búið?‟ Aðeins ljúf áhrif heilags anda fengu hann til að fara með henni og leiddu hann þangað aftur og aftur.

Móðir mín bjó í New Jersey í 16 ár, svo faðir minn gæti framfleytt fjölskyldunni með rannsókastarfi og efnafræðikennslu. Henni fannst það fórn að vera aðskilin frá ekkjunni, móður sinni og ógiftri systur sinni, sem hafði annast hana á gamla fjölskyldubýlinu. Báðar dóu þær þegar móðir mín var langt fjarri í New Jersey. Aðeins þá sá ég móður mína gráta.

Árum síðar var föður mínum boðið starf í Utah. Hann spurði móður mína, enn af mesta sakleysi: „Mildred, hvað finnst þér að ég eigi að gera?“

Hún sagði: „Henry, gerðu bara það sem þú telur fyrir bestu.“

Hann hafnaði boðinu. Næsta morgun skrifaði hún honum bréf sem ég vildi að ég ætti enn. Ég minnist þess að hún sagði við hann: „Ekki opna það hér. Farðu á skrifstofuna og opnaðu það þar.‟ Það hófst með ávítum. Hann hafði lofaði henni fyrir mörgum árum, að ef hann gæti myndi hann sjá til þess að hún yrði nærri fjölskyldu sinni. Hann var undrandi yfir geðbrigðum hennar. Hann hafði gleymt þeirri hjartans þrá hennar. Hann sendi þegar í stað skilaboð um að hann þæði starfið.

Hann sagði: „Mildred, því sagðirðu mér þetta ekki?“

Hún svaraði: „Þú áttir að muna eftir því.“

Hann ræddi ætíð um þann valkost að flytja til Utah sem sinn eigin, aldrei sem fórn á atvinnuferli. Þau höfðu öðlast það kraftaverk að verða eitt. Betra hefði verið ef faðir minn hefði verið áminntur af heilögum anda um loforðið sem hann hafði gefið árum áður. En hann leyfði heilögum anda að milda hjarta sitt, svo að valkostur hennar varð hans.

Himneskur faðir hefur fullkomna framsýni, þekkir hvert okkar og framtíðina. Hann veit hvaða erfiðleikar verða á vegi okkar. Hann sendi son sinn til að þjást, svo hann gæti vitað hvernig liðsinna mætti okkur í öllum okkar raunum.

Við vitum að himneskur faðir á andabörn í þessum heimi sem stundum velja synd og mikla óhamingju. Þess vegna sendi hann sinn frumgetna til að verða lausnari okkar, æðsta kærleiksverk allrar sköpunar. Þess vegna verðum við að gera ráð fyrir að það þurfi hjálp Guðs og tíma til að fínpússa okkur fyrir eilíft líf, að lifa með föður okkar.

Fjölskyldulífið mun verða okkur prófraun. Einn tilgangur Guðs með gjöf jarðlífsins er ‒ að styrkja okkur með því að láta okkur takast á við prófraunir. Það á einkum við um fjölskyldulífið, þar sem við upplifum mikla gleði og mikla sorg og áskoranir, sem stundum virðast okkur um megn að sigrast á.

George Q. Cannon forseti sagði þetta um hvernig Guð hefur búið okkur og börn okkar undir prófraunirnar sem við munum takast á við: „Ekkert okkar hefur farið varhluta af kærleika Guðs til okkar. Ekkert okkar hefur farið varhluta af gæsku hans og umhyggju. Hann þráir að frelsa hvert einasta okkar og hefur einsett sér að gera það. Hann hefur falið englum sínum að sýna sérhverju okkar umhyggjusemi. Í eigin augum og annarra kunnum við að vera ómerkileg og auvirðileg, en sannleikurinn er sá að við erum börn Guðs og hann hefur í raun boðið englum sínum ‒ hinum ósýnilegu verum máttar og ljóss ‒ að sýna okkur umhyggjusemi og þeir vaka yfir og varðveita okkur.“2

Það sem Cannon forseti kenndi er sannleikur. Þið þarfnist þessarar fullvissu, líkt og ég hef þurft hana og reitt mig á hana.

Ég hef beðið í trú um að einhver sem ég elska leiti máttar friðþægingarinnar og skynji hann. Ég hef beðið í trú að mannlegir englar komi þeim til hjálpar og það hafa þeir gert.

Guð hefur ráðgert að frelsa sérhvert barn sitt. Fyrir marga er það að vera hjá bróður eða systur eða afa og ömmu, sem elska þau, hvað sem þau hafa gert.

Fyrir mörgum árum ræddi vinur minn um ömmu sína. Hún hafði lifað innihaldsríku lífi, ætíð verið trúföst Drottni og kirkju hans. Samt kaus eitt barnabarn hennar glæpabrautina. Að því kom að hann var dæmdur í fangelsi. Vinur minn minntist þess, er amma hans ók eftir hraðbraut til að heimsækja barnabarn sitt í fangelsinu, að með tárvot augu, bað hún af angist: „Ég hef reynt að lifa góðu lífi. Af hverju þarf ég að takast á við hörmungar barnabarns sem virðist hafa eyðilagt líf sitt?“

Svarið barst í huga hennar með þessum orðum: „Ég gaf þér hann, því ég vissi að þú gætir og myndir elska hann, þrátt fyrir það sem hann gerði.“

Þetta er okkur öllum dásamleg lexía. Að vera ástkærir foreldrar, afi og amma og þjónar Guðs, er ekki auðvelt í hnignandi heimi. Við getum ekki neytt börn Guðs til að velja veg hamingjunnar. Guð getur ekki gert það, sökum sjálfræðisins sem hann hefur gefið okkur.

Himneskur faðir og ástkær sonur hans elska öll börn Guðs, hvað sem þau velja að gera og hvað sem þau verða. Frelsarinn greiddi gjaldið fyrir allar syndir, hversu svívirðilegar sem þær eru. Þótt réttvísin verði að vera, stendur miskunnin til boða og hún rænir réttvísina í engu.

Alma sagði syni sínum Koríanton frá þeirri von með þessum orðum: „Samkvæmt réttvísinni gat endurlausnaráætlunin ekki orðið að veruleika nema með því skilyrði, að menn gjörðu iðrun á þessum reynslutíma, já, í þessu undirbúningsástandi. Því að án þessara skilmála gat miskunnin engin áhrif haft án þess að tortíma jafnframt verki réttvísinnar. En verki réttvísinnar mátti ekki tortíma. Ef það yrði gjört, mundi Guð hætta að vera Guð.“3

Boðskapur minn til barnabarna minna, og okkar allra sem keppa að eilífri fjölskyldu, er sá að gleði er þeim tryggð sem eru trúfastir. Áður en heimurinn var, elskuðu kærleiksríkur himneskur faðir og hans áskæri sonur þá sem þeir vissu að myndu villast frá og unnu með þá. Guð mun eilíflega elska þá.

Þið búið að því forskoti að vita að þau lærðu um sáluhjálparáætlunina af þeirri kennslu sem þau hlutu í andaheimum. Þau og þið voruð nægilega trúföst til að fá að koma í þennan heim, en mörgum öðrum stóð það ekki til boða.

Með hjálp heilags anda mun allur sannleikur verða ljós í huga okkar. Við getum ekki neytt hann upp á aðra, en við getum sýnt þeim hann í lífi okkar. Ætíð hljótum við uppörvun af þeirri fullvissu, að sem meðlimir í ástkærri fjölskyldu okkar himneska föður fundum við öll gleði af því að vera saman. Með hjálp Guðs getum við öll aftur fundið þá von og gleði. Ég bið þess að svo megi verða hjá okkur öllum, í nafni Drottins Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Matt 22:35–40.

  2. George Q. Cannon, „Our Pre-existence and Present Probation,” Contributor, okt. 1890, 476.

  3. Alma 42:13.